Í september síðastliðnum voru fimmtíu ár frá því að ákveðið var að vígja konur til prestþjónustu í sænsku kirkjunni. Að því tilefni voru hátíðarhöld um alla Svíþjóð og ég var svo heppin að fá að taka þátt í hátíðinni í Gautaborgarstifti.
Gautaborgarstifti
Saga stiftanna í Svíþjóð hvað varðar prestvígslu kvenna er nokkuð ólík. Ég þekki best til í Gautaborgarstifti, þar sem ég starfaði sem prestur í rúmlega fjögur ár, en þar hefur þessi leið ekki verið greið. Þegar ákvörðunin um að vígja konur til prests var tekin af kirkjuyfirvöldum þá voru ekki allir biskupar landsins hlynntir því og þeim var í sjálfsvald sett hvort þeir vígðu konur. Í Gautaborgarstifti kom ekki biskup sem vildi vígja konur fyrr en 1991 en þangað til þurftu konur, sem vildu starfa innan stiftisins, að vígjast af biskupum í nágrannastiftunum. Þetta þýðir að stór hluti þeirra prestvígðu kvenna sem ég hef starfað með eða kynnst á Gautaborgarsvæðinu hafa starfað undir stjórn biskups sem neitaði að vígja þær, tók ekki í hönd þeirra þegar hann hitti þær og leit aldrei á þær sem presta. Þetta leiddi einnig til þess að mikið af þeim prestum sem hafa verið á móti því að konur yrðu prestar hafa safnast saman í Gautaborgarstifti.
Nú er staðan þannig innan sænsku kirkjunnar að engin manneskja vígist til prests, hvorki karl né kona, ef hún hefur ekki svarað játandi spurningunni um það hvort hún geti hugsað sér samstarf með prestum af báðum kynjum. Þessi spurning var borin upp við mig með formlegum hætti af lögfræðingi stiftisins áður en endanlega var ákveðið að vígja mig. Ennþá hefur mér vitanlega ekkert prestsefni svarað þessari spurningu formlega neitandi en nokkuð hefur verið um að ungir strákar hafa fengið opinberun frá Guði, um að ekki eigi að vígja konur til prests, eftir að þeir hafa verið vígðir.
Margt gott hefur þó gerst á þessum fimmtíu árum þrátt fyrir að þróunin í Gautaborgarstifti hafi á tímum verið hæg. Nú hafa þrjár konur til að mynda verið vígðar sem biskupar í sænsku kirkjunni, tvær í Lundi og ein í Stokkhólmi. Og í sumum umdæmum er kirkjan mjög framarlega í jafnréttismálum.
Ísland
Það er áhugavert að skoða þessa þróun í ljósi þess hvernig þessi mál þróuðust á Íslandi. Á Íslandi virðist þetta hafi verið ósköp auðvelt. Biskupinn virðist hafa getað tekið þessa ákvörðun án þess að spyrja nokkra manneskju þó hann hafi nú að öllum líkindum ráðfært sig við fólk innan Þjóðkirkjunnar. Ég efast þó um að Auður Eir, fyrsta prestvígða konan á Íslandi, hafi upplifað þessa reynslu sem auðvelda. Það tók hana langan tíma að fá embætti og sumstaðar var kerfisbundið unnið gegn henni með því að sjá til þess að karl myndi örugglega bjóða sig fram á móti henni.
Á Íslandi hefur fólk sem er á móti prestvígðum konum ekki bundist samtökum gegn þeim, neitað að taka í hönd þeirra eða að þiggja altarissakramentið frá þeim eins og nokkuð er um í Gautaborgarstifti. Í íslensku þjóðkirkjunni er aðeins að finna sama misrétti innan prestastéttar og í öllum öðrum stéttum, hvorki meira né minna. Konur eru í miklum minnihluta sem sóknarprestar á höfuðborgarsvæðinu, vígðar konur eru í minnihluta á kirkjuþingi og í mörgum nefndum og ráðum á vegum kirkjunnar (sérstaklega þeim sem eru launuð), enn er verið að ráða tvo til þrjá prestvígða karla við sömu kirkjuna (þar sem engin prestvígð kona er) og virðist ekki þykja tiltöku mál. Og svo mætti lengi telja. Í Svíþjóð hef ég með stolti getað sagt frá því að hér á Íslandi sé ekki opinber andstaða gegn prestvígðum konum en það er mín von að við hættum að grafa höfuðið í sandinn innan íslensku þjóðkirkjunnar og láta sem hér ríki jafnrétti kynjanna.
Ps. Af augljósum ástæðum vil ég hvetja fólk til þess að hætta að kalla prestvígðar konur „kvenpresta“. Við köllum prestvígða karla ekki „karlpresta“. Við segjum ekki kennari annarsvegar og kvenkennari hins vegar. Réttara er að segja prestur (sama af hvaða kyni presturinn er) og ef nauðsynlegt þykir að kyngreina prestinn þá er hægt að segja „prestvígð kona“ og „prestvígður karl“.