„Æskan fyrir Krist“, er kjörorð Kristilegra skólasamtaka (KSS) sem hafa starfað meðal ungs fólks á aldrinum 15– 20 ára í rúm 60 ár. Systurhreyfing KSS er Kristilegt stúdentafélag (KSF) sem er félagsskapur kristinna stúdenta við háskólana. KSF á sér langa sögu en það var stofnað sem nemendafélag við Háskóla Íslands 1936 og hefur starfað þar æ síðan. Saman mynda KSS og KSF Kristilegu skólahreyfinguna (KSH) sem er eins konar regnhlíf yfir félögin. Játningargrundvöllur félaganna eru játningarrit Þjóðkirkjunnar og starfa félögin í anda þeirra.
Það unga fólk sem tilheyrir félögunum stýrir starfi þeirra með aðstoð undirritaðs sem er æskulýðsprestur KSH. Þau hafa hvert sína stjórn sem skipuleggur dagskrá funda og aðra viðburði. Stjórnir félaganna skipa í nefndir sem hafa umsjón með ýmsum föstum liðum. Á vegum félaganna starfar leikhópur, ritnefnd sem gefur út blaðið „Okkar á milli,“ vefnefnd sem heldur úti vefsíðum félaganna www.kss.is og www.ksf.is, samfélagsnefnd, tónlistarnefnd og svo mætti lengi telja. Það sem einkennir allt það unga fólk sem tekur þátt í starfinu er sú ræktarsemi sem þau sýna félagi sínu og því hlutverki sem þeim hefur verið falið á þessum vettvangi. Þau eru trú markmiðum félaganna og köllun sinni sem kristnir einstaklingar.
KSS heldur skólamót að vori og hausti þar sem hátt í 100 þátttakendur á aldrinum 16 – 20 ára koma saman. Í janúar ár hvert heldur KSF stúdentamót fyrir stúdenta og háskólanema. Skólamót og stúdentamót eru vettvangur fyrir ungt fólk til þess að fá kristna fræðslu og uppbyggja hvert annað í trúnni. Starfið sem félögin standa fyrir er öflugt og ótrúlega mikilvægt fyrir kirkjuna.
Í þessu margvíslega starfi félaganna kynnist ungt fólk öðru ungu fólki sem lætur sig fagnaðarerindið varða. Þannig hafa þau orðið til þess að þúsundir ungra Íslendinga í framhaldsskólum og háskólum landsins hafa heyrt og tileinkað sér fagnaðarerindið um Jesú Krist. Starf KSH í framhaldsskólum og háskólum er kristniboðsstarf. Það hefur það að markmið að kalla ungt fólk til trúar á Jesú Krist og veita því sterkan lífsgrundvöll. Lífsgrundvöll sem byggður er á bjargi en ekki sandi. Lífsgrundvöll sem mölur og ryð fá ekki eytt.
Framhaldsskólarnir og háskólarnir eru mikilvægur vettvangur þar sem boðskapur kristinnar trúar verður að fá að heyrast. Það er mikilvægt að byggja áfram á þeim góða grunni sem lagður hefur verið í barna– og unglingastarfi kirkjunnar og veita unglingum sem hafa verið virk í sínu æskulýðsfélagi vettvang til þess að halda áfram í kristilegu starfi. Framhalds- og háskólanemar spyrja margra knýjandi spurninga sem afar brýnt er að veita svör við. Starf KSH er rekið af ungu fólki fyrir ungt fólk - svörin koma því frá þeim sem staddir eru á svipuðum stað á lífsgöngunni. Á þeim óvissutímum sem við lifum er mikilvægt að einmitt þessi svör, boðskapur kristinnar trúar fái að hljóma meðal skólafólks. Kristilega skólahreyfingin heldur úti öflugu starfi en það liggur í hlutarins eðli að öflugt starf þurfi öflugt bakland. Við erum því afar þakklát fyrir þann mikla og góða stuðning sem kirkjan okkar veitir KSH til þess að vinna að markmiði hreyfingarinnar að kalla ungt fólk til trúar á Jesú Krist.