Ungur peyi í æskulýðsstarfinu í kirkjunni spurði mig um daginn hvort ég hefði virkilega áhuga á fótbolta, eftir að hafa séð mynd af prestinum í auglýsingu fyrir íslenska landsliðið. Honum fannst það einhvern veginn ekki alveg getað gengið upp að prestur gæti haft áhuga einhverju veraldlegu efni og þá allra síst íþróttum. Í framhaldinu komu því spurningar um hinn og þennan leikmanninn í ensku deildinni, svona til að gulltryggja að presturinn væri nú að fara að með rétt mál og áhugi hans á knattspyrnunni væri sannur - og prestur stóðst prófið og þá hélt stráksi langa ræðu um stjörnurnar í enska boltanum, um framúrskarandi getu þeirra og þann draum að verða eins og þeir. Aðrir piltar tóku þátt í umræðunni og nefndu á nafn fyrirmyndir sínar úr boltanum, Gerrard, Fabrecas og fleiri. Mitt í allri umræðunni tók einn eldri drengur orði og sagði að sín fyrirmynd þyrfti að geta eitthvað meira en að spila fótbolta. Þetta þótti mér mögnuð fullyrðing hjá ungum pilti.
Staðreyndin er nefnilega sú að tilhneigingin hjá mörgum, börnum og fullorðnum, er að eiga sér þann draum að feta í fótspor þeirra sem hafa náð einhverjum frama og eru heimsþekktir fyrir eitthvert ákveðið afrek. Þannig hefur þetta verið um aldir, en í því samhengi er gott að líta sér nær og hugsa um hvað og hverjir hafa raunverulega áhrif á líf okkar og geta verið okkar þær fyrirmyndir og sem við þurfum sannarlega á að halda.
Í Póllandi fyrir tíma rafmagnsins að prédikari var að tala á útisamkomu einmitt út frá þessu guðspjalli, þar sem hann talaði um mátt og vald Jesú. Skyndilega hrópar háðfugl allt í einu að honum ,, Ég er viss um að maðurinn sem fann upp leiðina til að hagnýta gasið hefur gert meira fyrir mannkynið en Kristur.”
Prédikaranum sem var ungur að árum var vafðist nú tunga um tönn svo að fólk hló að honum. En þá gekk einn í áheyrenda hópnum fram og sagði:
Vissulega hefur maðurinn rétt til að hafa sína skoðun. Þegar hann liggur fyrir dauðanum býst ég við að hann sendi eftir forstjóra gasstöðvar til að biðja hann um hjálp. En ég veit hins vegar alveg hvað ég ætla að gera. Ég ætla að kalla eftir kristnum manni og biðja hann um að lesa fyrir mig í Guðs orði.
Þannig skulum við horfa til þess sem hefur allt vald í sinni hendi. Hann hefur gefið okkur leiðbeiningar um hvaða leið við eigum að velja og hvert við skulum stefna í lífinu. Hann gaf líf sitt vegna elsku sinnar til okkar og sýndi þar með að er ekki aðeins hin fullkomna fyrirmynd, heldur sá Drottinn sem við öll þurfum á að halda.