"Sektir mínar og syndir barst" - á dánardægri síra Hallgríms

"Sektir mínar og syndir barst" - á dánardægri síra Hallgríms

Magnús Jónsson, prófessor, segir á einum stað í sínu mikla ritverki um sr. Hallgríms, að í rauninni hafi hjónaband þeirra Guðríðar verið “ákaflega einfalt og auðskilið” án þess þó endilega að setja fram fullkomlega sannfærandi rök fyrir þeirri skoðun. Ég læt mér aftur á móti til hugar koma að hjónaband þeirra hafi verið flókið, en einmitt vegna þess að það kann að hafa verið snúið þá bjó það líka vel hugsanlega yfir slíkri “dýnamík” að það gat orðið til að virkja sköpunarmátt skáldsins meir en annars hefði orðið.

Ástarsagan umtalaða

Yfirskrift þessarar messu hér í dag í Hallgrímskirkju í Saurbæ er Hallgrímsmessa, því það var á þessum degi þann 27. október árið 1674 eða fyrir 339 árum síðan sem síra Hallgrímur Pétursson, sem oft og iðulega hefur verið kallaður prestur allrar þjóðarinnar, lést á Ferstiklu sextugur að aldri. Voru þá 5 ár liðin frá því hann lét af prestsembætti hér í Saurbæ vegna holdsveikinnar, sem dró hann til dauða. Guðríður Símonardóttir, kona hans, sem löngum hefur verið kölluð Tyrkja-Gudda vegna þess hve óvenjulegur og viðburðaríkur æviferill hennar var, lést svo hér í Saurbæ rúmum 8 árum síðar, eða þann 18. desember árið 1682, þá komin vel á níræðisaldur því hún var 16 árum eldri Hallgrími. Er hjónaband þeirra einhver umtalaðasta ástarsaga 17. aldarinnar sem um getur og ef slúður-pressa nútímans hefði verið komin til sögunnar 400 árum fyrr þá má leiða líkur að því að þau Hallgrímur og Guðríður hefðu skreytt marga forsíðuna sem þá hefðu birst, og á meðan sumar hefðu vakið með þeim samúð hefðu aðrar orðið íslenskum almenningi til ásteytingar og hneykslunar. Hefði það m.a. komið til vegna þess, að Guðríður var gift kona í Vestmannaeyjum þegar hún var þaðan burtnumin í Tyrkjaráninu svokallaða árið 1627 og þegar þau Hallgrímur því koma til Íslands frá Danmörku árið 1637, þar sem hann hafði verið uppfræðari hennar og Íslendinganna 40 sem keyptir höfðu verið úr ánauðinni í Alsír, voru þau fundin sek um frillulífi, eins og það var kallað, og gert að greiða 8 ríkisdali í sekt en það var há fjárhæð sem jafngilti tveimur kýrverðum. Þau Hallgrímur og Guðríður voru nefnilega sökuð um að hafa verið farin að rugla saman reytunum áður en Eyjólfur Sölmundsson, eiginmaður hennar í Vestmannaeyjum, var sannanlega látinn, en hann andaðist veturinn áður en þau komu heim til Íslands.

“Tveir næsta ólíkir einstaklingar”

Margir hafa orðið til að velta vöngum yfir hjónabandi þeirra Hallgríms og Guðríðar, en á sinni tíð varð það víðfrægt í munnmælum og þjóðsögum, og oftar en ekki hefur sú mynd verið dregin upp af því, að það hafi verið bæði hversdagslegt og ástlaust, en um það er þó ekki gott að segja. Það hefur þó verið til þess tekið, að hvergi yrkir Hallgrímur um konu sína eða til hennar og einkennilegast hefur mönnum þótt, að í saknaðarkvæðunum sem hann yrkir um Steinunni dóttur þeirra, sem dó þá þau bjuggu suður á Hvalsnesi, áður en hingað í Saurbæ kom, þá minnist hann hvergi á Guðríði eða hennar trega og söknuð, og samt er Hallgrímur aldrei eins persónulegur eins og einmitt í þessum ljóðum. Þessar staðreyndir verða til þess að guðfræðingurinn og kirkjusagnfræðingurinn, Magnús heitinn Jónsson, prófessor, kveður upp þann dóm, að þau hafi ekki verið samrýmd þessi hjón: “Þau hafa staðið hvort á sínum bakka með óbrúandi djúp á milli.” segir hann í því tveggja binda verki sem hann ritaði um Hallgrím, ævi hans og kveðskap, “Magnús heldur svo áfram og segir um þau: “Hann fer með himinskautum og finnst allt smátt, sem niðri á jörðu er. Hún stendur þar niðri, sem fólk er flest, og finnst fátt um flug hans. Þessu getur farið fram án mikilla árekstra. En þau verða hvort öðru lítill styrkur. Hann verður að reka sitt andlega bú án hennar og hún jarðneska búið án hans hjálpar. Að forminu eru þau hjón, en í reyndinni eru þau tveir næsta ólíkir einstaklingar.” Einhvern veginn með þessum hætti er dómur sögunnar um hjónaband þeirra Hallgríms og Guðríðar en þó verður að taka skýrt fram, að hér er verið að geta í eyður, því ekki er vitað með vissu hversu samrýmd þau kunna að hafa verið.

Reynsluheimar

Samskipti þeirra hljóta þó að hafa verið margslungin um margt þó ekki væri nema vegna þess, að töluverður aldursmunur var á þeim eins og ég áðan nefndi eða 16 ár. Þá hafði Guðríður verið gift áður og eignast börn með öðrum manni, sem öll voru henni horfin, auk þess sem hún átti að baki óvenjulega reynslu sem ambátt og þræll á framandi slóðum í Alsír á norðurströnd Afriku þar sem við lýði var svo framandi trú, menning og lifnaðarhættir, að ómögulegt hefur verið fyrir hinn venjulega Íslending að setja sig inn í þær aðstæður eða gera sér þær í hugarlund. Guðríður bjó m.ö.o. að svo magnaðri reynslu, að það hlýtur að hafa sett sitt mark á hana með áþreifanlegum hætti og mótað öll samskipti hennar og sýn til lífsins upp frá því. Sú þjóðsaga hefur líka orðið býsna lífseig, að Guðríður hafi verið gengin af kristinni trú þegar hún kemur aftur til Íslands eftir 9 ára veru hjá múhameðstrúarmönnum, eins og þeir voru áður nefndir. Hvert hið rétta er í þeim efnum, er þó illmögulegt að skera úr um. Til er bréfkafli frá henni, sem hún sendir Eyjólfi eiginmanni sínum úr Barbaríinu, eins og heimur heiðingjanna er nefndur í bréfinu, og er þar að finna mjög kristileg andvörp og bænir, en rétt er þó að geta þess, að bréfið er að öllum líkindum stílað af íslenskum presti, sem einnig hafði lent í Barbaríinu. Á hinn bóginn eru svo til þjóðsögur sem segja að hún hafi verið blendin í trú sinni, tilbeðið skurðgoð, og að hún hafi jafnvel átt það til að sækja í einveru hér uppi á Prjónastrák og þá hugsanlega gert bæn sín eftir Bústaðaveginum, ef ég má leyfa mér að taka þannig til orða, en eftir því sem ég heyrði nú fyrir skemmstu hjá Sverri Agnarssyni, einum talsmanni múslima á Íslandi, þá beina þeir bæn sinni því sem næst í austur eftir Bústaðaveginum og þannig í átt til Mekka. Um bænalíf Guðríðar verður þó ekkert fullyrt. Það er þó ljóst, að lífsreynsla hennar er afar sérstök og það fer ekki hjá því að sú reynsla hefur markað djúp spor í vitund hennar og af þeirri gerð að henni hefur eflaust þótt huggun í því að geta átt stundir með sjálfri sér í ró og næði.

Sektir, syndir og tilvistarspurningar Hvernig hin margbrotna reynsla hennar hefur verið túlkuð og tjáð í samskiptum þeirra Hallgríms er hins vegar ekki gott að segja og það er eftirtektarvert að í kveðskap sínum yrkir hann hvergi um spámanninn Mahómet, eins og spámaðurinn var nefndur á þeirri tíð, né yrkir hann um þá menningu og trú sem við hann er tengd. Það getur þó verið áhugavert að velta fyrir sér hvort og þá að hvaða leyti sr. Hallgrímur hafi mögulega orðið fyrir áhrifum af þessari ótrúlegu reynslu konu sinnar, sem hlýtur að hafa verið með einhverjum hætti allt-um-lykjandi í sambandi þeirra. Getur t.d. verið, að reynsla hennar hafi orðið til að draga enn frekar fram og skerpa línurnar í hans eigin vitund um mikilvægi kristindómsins fyrir sérhvert samfélag og leitt honum fyrir sjónir brýna nauðsyn þess að tefla honum fram með afdráttarlausari hætti en áður? Getur ekki einmitt verið, að reynsluheimur Guðríðar – hvort sem hann nú var góður eða slæmur – hafi orðið þess valdandi að Hallgrímur sá betur en áður þörfina á að draga fram í mergjuðum kveðskap, kjarna kristinnar trúar á hinn krossfesta og uppreista Krist, sem dó fyrir syndir mannanna?

Sektir mínar og syndir barst sjálfur þegar þú píndur varst. Upp á það dóstu, drottinn kær, að kvittuðust þær. Hjartað því nýjan fögnuð fær.

Með þessum hætti yrkir Hallgrímur um Krist í niðurlagi Passíusálmanna, og bætir svo við:

Þú grófst þær niður í gröf með þér, gafst þitt réttlæti aftur mér. Í hafsins djúp, sem fyrirspáð finnst, þeim fleygðir innst. Um eilífð verður ei á þær minnst.

Er hugsanlegt að í þessum orðum sé að finna einhvers konar bænasvar til Guðríðar og þess tilvistarvanda, sem ekki er ólíklegt að hún hafi staðið frammi fyrir? Getur ekki einmitt verið að eftir þá átakamiklu reynslu, sem lífshlaup hennar einkenndist af, að þá hafi hún verið þjökuð af djúpri syndavitund og áleitnum tilvistarspurningum? Af hverju er staða mín í lífinu sú sem hún er? Af hverju hef ég þurft að horfa á bak flestum börnum mínum? Og af hverju þurfti ég að ganga í gegnum Barbaríið og þann hrylling sem honum tilheyrði? Spurningar af þessu tagi leita á fólk, sem orðið hefur fyrir miklum áföllum í lífinu með einhverjum hætti á öllum öldum og hvers vegna þá ekki líka á Guðríði? Var það kannski upplifun Guðríðar að Guð hefði yfirgefið sig - kannski vegna skorts á trú og/eða vegna ótilgreindra synda? Var það kannski trú hennar að “annar” guð stæði henni nær? Það má nefnilega líka velta fyrir sér, hvort reynsla Guðríðar af múslimunum og menningu þeirra hafi á einhvern hátt verið jákvæð og þá kannski þess valdandi að í henni toguðust á margbrotnar tilfinningar og þar á meðal til fjarlægra staða og þeirrar framandi menningar og lifnaðarhátta, sem hún sá á bak eftir 9 ára dvöl? Og kannski hafa líka tekist á í henni ríkar trúartilfinningar? Það er satt að segja ekki ólíklegt, sé horft til þess hvað trú hefur jafnan sterk ítök í brjósti fólks.

“Einfalt og auðskilið” eða…?

En kannski vegna þess að margbrotin togstreyta hefur vafalítið verið til staðar í Guðríði var e.t.v. þeim mun meiri nauðsyn, af hálfu skáldsins hér í Saurbæ, að leggja áherslu á kjarna kristindómsins, til að sporna gegn þeirri hugsun að eftir einhverju væri að slægjast í heimi “Hund-Tyrkjans,” eins og múslimar voru kallaðir hér áður. Það er ekki gott að ætla sér að skera úr um það, hver áhrif Guðríðar og hennar margbrotna reynsluheims og snúna sálarlífs, hafa verið á trúmanninn og sálmaskáldið Hallgrím Pétursson, og það ætla ég mér heldur ekki að reyna. Magnús Jónsson, prófessor, segir á einum stað í sínu mikla ritverki um sr. Hallgríms, að í rauninni hafi hjónaband þeirra Guðríðar verið “ákaflega einfalt og auðskilið” án þess þó endilega að setja fram fullkomlega sannfærandi rök fyrir þeirri skoðun. Ég læt mér aftur á móti til hugar koma að hjónaband þeirra hafi verið flókið, en einmitt vegna þess að það kann að hafa verið snúið þá bjó það líka vel hugsanlega yfir slíkri “dýnamík” að það gat orðið til að virkja sköpunarmátt skáldsins meir en annars hefði orðið. Það liggur a.m.k. ljóst fyrir að sköpunarmáttur Hallgríms sem skálds er mikill og kannski hefur það hjálpað til upp á andagiftina að búa við átök og andstæður í einkalífinu – hver veit – því er það ekki oft einmitt við slíkar aðstæður þar sem átök og óvissa eru til staðar, að kostur gefst á að kafa sem dýpst í mannlegar tilfinningar, von, þrá og þjáningu?

Hallgrímur og kveðskapur hans ratar til sinna

Það er a.m.k. ekki að ófyrirsynju, sem sr. Hallgrímur hefur verið kallaður prestur allrar þjóðarinnar, því svo mjög hafa Passíusálmarnir orðið henni kærir og stöðugt bætast nýir og nýir í þann hóp, sem kunna að meta magnþrunginn kveðskap trúarskáldsins Hallgríms Péturssonar, sem við minnumst hér í dag á dánardægri hans, vegna þeirra áhrifa sem hann hefur haft á íslenska kristni í nær 350 ár. Það verður þó að viðurkennast, að til þess að skilja og njóta Passíusálmanna til fulls, þá þarf hvort tveggja að vera til staðar, haldgóð þekking á kristinni trú og trúarþroski. Ég þekki það t.d. með sjálfan mig – og veit að ég er ekki einn um það - að það hefur að sumu leyti tekið mig langan tíma að læra að meta Hallgrím að verðleikum, en þegar það gerist þá verður hann líka áleitinn sem aldrei fyrr. Í umræðu um kveðskap og ljóðlist á Íslandi hefur stundum verið haft á orði að “ljóðið sé dautt” – a.m.k. er spurning þar að lútandi oft og iðulega borin upp þegar ljóðlistina ber á góma. Einhverjum snillingnum varð hins vegar að orði í þessu sambandi, að segja að ljóðið rataði til sinna, en þá hugsun, sem þar býr að baki, held ég að vel megi viðhafa um sr. Hallgrím Pétursson og kveðskap hans: Hallgrímur Pétursson og kveðskapur hans ratar til sinna, og það held ég að sé sannleikurinn í málinu, sem og bæn okkar allra, sem hér erum í dag, að svo megi verða um ókomnar aldir á Íslandi. Ég lýk orðum mínum hér í dag með versum úr 27. Passíusálmi, en þar yrkir síra Hallgrímur:

Víst ertu, Jesú, kóngur klár, kóngur dýrðar um eilíf ár, kóngur englanna, kóngur vor, kóngur almættis tignarstór.

Ó Jesú, það er játning mín: Ég mun um síðir njóta þín þegar þú, dýrðar drottinn minn, dómstól í skýjum setur þinn.

Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm, fagnaðarsælan heyri ég róm. Í þínu nafni útvaldir útvalinn kalla mig hjá sér.

Kóng minn, Jesú, ég kalla þig, kalla þú þræl þinn aftur mig. Herratign enga að heimsins sið held ég þar mega jafnast við. Amen!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen!