Vorið 2000 flutti ég til Svíþjóðar og hóf að sækja guðsþjónustur í Sænsku kirkjunni. Þremur á hálfu ári síðar var ég vígð til prestsþjónustu inn í þessa sömu kirkju og þar þjónaði ég í tæplega fimm ár eða þar til ég flutti mig til Íslands á ný. Það var ekki fyrr en allra síðustu árin í Svíþjóð sem ég var farin að muna eftir því að taka með mér pening í kirkju. Þá hafði ég alltof oft lent í því að þegar ”háfurinn” kom til mín að ég væri ekki með krónu á mér og fannst það frekar neyðarlegt. Stundum fékk ég lánað hjá sessunauti. En sló þó aldrei ókunnugt fólk um lán svo ég muni. En það var merkilega erfitt að muna eftir því að fara í hraðbanka fyrir messu.
Ég áttaði mig reyndar smám saman á því að ég þurfti ekki að gefa í hvert skipti. Sum málefni langaði mig kannski ekki að styðja. Upphæðirnar þurftu ekki heldur að vera háar í hvert skipti enda safnast þegar saman kemur.
Í Sænsku kirkjunni er löng hefð fyrir því að taka upp ”kollektu” og gefa safnaðarmeðlimum þannig kost á því að gefa til líknarmála.
Tengsl Sænsku kirkjunnar við ríkið eru að svipuðum toga og tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið. Sænska ríkið tekur að sé innheimtu sóknargjalda fyrir kirkjuna sem og önnur skráð trúfélög sem vilja þiggja þá þjónustu. Og er því eins farið hér. Reyndar hefur íslenska ríkið tekið hluta þessara sóknargjalda til eigin afnota eftir ”hrun”, sem er svolítið sérstakt.
Munurinn á tengslum þessara kirkna við viðkomandi ríki er aftur sá að Sænska kirkjan hélt sínum jörðum en afhenti þær aldrei ríkinu gegn samkomulagi um að ríkið greiddi laun presta í hlutfalli við meðlimafjölda kirkjunnar. Líkt og Þjóðkirjan gerði.
Ekki vil ég leggja mat á það hvort þessi samningur hafi komið sér vel eða illa fyrir Þjóðkirkjuna eða íslenska ríkið. Hann er aftur á móti til staðar hvort sem einstaka alþingisfólki líkar það betur eða verr. Því er mun heiðarlegra að endurskoða samninginn og kannski afhenda kirkjunni jarðirnar til baka og hætta að greiða laun prestana um leið, í stað þess að vera alltaf að básúna út vanþekkingu sína eða meðvitaða rangtúlkun á tengslum ríkis og kirkju.
Ekki er sama hefð fyrir því að tekin sé upp „kollekta“ í Þjóðkirkjunni en nokkrir söfnuðir tóku þó upp þann sið fyrir nokkrum árum. En er ekki bara kominn tími til að taka það upp? Að gefa þeim er sækja kirkju möguleika á því að gefa til líknarmála ef þau kjósa það og eru aflögufær? Kannski er söfnunin til Landspítalans upphafið að því.