Komdu

Komdu

Sjálfsástin, leitin að eigin fullnægju, er kannski megineinkenni hins ríka hluta mannkyns. Sjálfhverfan er sókn í það, sem hugnast okkur sjálfum, en sinnir síður öðrum. Guðselskan er lífsafstaða, sem leitar fólks í neyð þess og kröm, þó það sé erfitt, fjárhagslega óskynsamlegt og jafnvel hættulegt.

Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: Fylg þú mér! Og hann stóð upp og fylgdi honum.

Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.

Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.

Mark. 2. 14-28

Eyðimerkurreynsla

Glæsileg bókmenntahátíð hefur verið haldin undanfarna daga. Einn höfundanna er hinn franski Eric Emmanuel Schmitt, sem m.a. skrifaði hið ótrúlega og áleitna leikrit Gesturinn sem sýnt var í Borgarleikhúsinu. Hann skrifaði líka Abel Snorkó og flottar skáldsögur, sem fjalla um fólk í mismunandi trúarhefðum, t.d. Óskar og bleikklædda konan. Vendipunktur bæði í lífi og rithöfundarferli Emmanuel Schmitt varð árið 1989 þegar hann týndist út í eyðimörk í Norður-Afríku og hélt að hann myndi deyja. Hann gróf sig niður í sandinn til að verjast næturkuldanum, horfði svo upp í stjörnuhvelfinguna og hugsaði um dauða sinn og tilgang lífsins. Undir risahimni, myrkurbelg og tindrandi stjörnum sannfærðist hann um, að æðri máttur verndaði veröldina. Emmanuel Schmitt sagði um þessa reynslu: “Ég var trúlaus þegar ég fór inn í eyðimörkina, en trúaður þegar ég sneri aftur... í kjölfarið byrjaði ég að skrifa allt öðru vísi en áður. Ég fann einhvern innri samhljóm sem bergmálaði í skrifunum. Og uppfrá því hef ég ekki hætt að skrifa en gefið fræðistörfin upp á bátinn” (Mbl. 13. sept. 2005, bls. 37).

Þarna var maður í öng, sem varð fyrir jákvæðri og djúpri reynslu, sem hefur litað líf hans þaðan í frá. Þetta er það, sem kallað er trúarreynsla, afturhvarf eða endurfæðing. Gerðist fyrirvaralaust, með skyndingu, gerbreytti lífi, gaf því stefnu og tilgang og mátt til starfa og mótaði jafnvel fagurfræðina líka. Sem sé gagnger lífsfylling. Aðstæður voru ávirkar og andsvarið meðvitað og afgerandi.

Fylgdu mér

Jesús var á ferð. Fjöldi fólks var með honum og vildi heyra hvað hann talaði niður við vatnið. En meistarinn hafði ekki hugann við mannmergðina, heldur hafði augastað á einum, Leví Alfeussyni. Sá var alræmdur fyrir að svíða út eigur smælingjanna. Jesús gat sem hægast lagt lag við aðra skárri, en hann hafði fest hug við þennan hataða mann. “Fylg þú mér” - og hið undarlega gerðist. Leví stóð upp, - æviskeiði lauk og nýtt byrjaði.

Fylg þú mér. Það er þetta sem varðar þig, sem ert í kirkju í dag. Má bjóða þér nýtt líf? Tekurðu boðið til þín? Auðvitað er verður líf tollheimtumanns ekki borið saman við þitt. Allir þokkalega Biblíufróðir og kirkjuræknir vita, að tollheimtumaður í Palestínu var samfélagsskömm, fyrirlitinn aurasál, sem gekk erinda erlends setuliðs. Þér verður ekki líkt við slíkan! En er eitthvað, sem heldur þér fastri og föstum? Getur verið að þú sért í einhverri tollstöð, sem heldur í þig og hindrar, að þú lifir vel, sért það sem þú gætir verið? Áttu þér ekki eitthvert uppáhald, sem þú mátt ómögulega sjá af og heldur þér föngnum eða fanginni, málsstað, verustað, stöðu, kæki?

Narcissus og spegilmyndin

Til er merkileg saga um grískt goð, sem nefndist Narcissus. Hann var fagur sveinn, sem dísir og gyðjur hrifust af. En hann þýddist enga og ein þeirra var hefnigjörn og sá til þess, að hann varð bundinn þeim álögum að geta ekki elskað aðra. Eitt sinn er Narcissus átti leið hjá vatnsbakka varð honum litið niður í sléttan vatnsflötinn og sá spegilmynd sína. Hann varð hugfanginn af þeirri mynd er hann sá. Hann felldi ást til sjálfs sín! Æ síðan sat hann við vatnið vegna þess, að hann elskaði sjálfan sig svo heitt, að hann vildi ekki hverfa frá ástinni sinni, elskaði eigin mynd. En þessi sjálfsást varð honum að aldurtila. Hann gat ekki slitið sig frá eigin spegilmynd og sjálfhverf ástin varð banamein hans. Upp af dauðastað hans spratt síðan blómið Narcissus, sem við köllum páskalilju.

Sjálfhverfa og hamingja

Fyrir því má færa veigamikil rök, að það sé sjálfsástin, leitin að eigin fullnægju, hugsun um eigin hag og velferð, sem sé eitt megineinkenni samfélags hins ríka hluta heimsins (narcisissmi). Við sækjumst eftir því, sem hugnast okkur sjálfum. Við óskum betri kjara í hinu ytra til að geta veitt okkur fleira í einkalífinu, viljum rúmgóð og jafnvel alltof stór hýbýli. Við viljum fleiri tæki til að þjóna okkur, betra og meira skraut í kringum okkur. Fleiri og stórkostlegri skemmtunarmöguleika, færri knýjandi og þreytandi verkefni. Færri truflanir, leiðindi og alls ekki kvartandi fólk. En erum við hamingjusamari?

Vissulega veita hin ytri þægindi margt og geta orðið forsenda þess, að okkur líði betur. Okkur ber að þakka öll gæðin. En hið ytra veldur engum hamingju í sjálfu sér, því hamingjan verður til hið innra. Hamingjan er heimafengin. Það er hægt að eiga allt en eiga þó ekkert í sálinni, enga lífsnautn.

Vissulega eru lausnir leiðans boðnar. Neyslumenningin kallar til okkar: “Komdu með mér, kauptu af mér, gerðu þetta, fylgdu mér, þiggðu þjónustu af mér.” Sumt er gott og gagnast. En annað þjónar þeim tilgangi einum að deyfa stinginn í hjartanu, slæva verkinn í sálinni, slá á kvíðann, svala um stund, - þar sem þú situr við lækinn og horfir á sjálfa eða sjálfan þig, ófær um að slíta þig úr viðjum samhengis þíns, vegna þess að þú ert í álögum, hefur ekki gert þér grein fyrir hvers þér er raunverulega vant, hvað lífið er.

Farðu yfir líf þitt, notaðu stundina núna til að hugsa um hvað hindrar þig, hvað heldur aftur af þér. Hvert er helsi þitt, hvað ógnar þér, hver er þín eyðimörk?

Himnesk heimþrá

Ágústínus kirkjufaðir sagði fyrir löngu: “Sálin er óró uns hún hvílir í þér” - og þá átti hann við Guðsfaðminn. Það er vel sagt. Þú ert ástarvera og þarfnast þess að fá að elska og vera elskaður og elskuð. Meðan þú aðeins elskar þitt og þig muntu óhjákvæmilega veslast upp og veiklast - og að lokum deyja, nema þú rísir upp og leyfir ást himinsins að umlykja þig á bak og brjóst. Þá finnur þú frið, þá ertu kominn heim, þá falla af þér ýmsar slitrur sjálfshverfingarinnar.

Að trúa er meðal annars fólgið í að þú viðurkennir vanmátt þinn og biðjir um að Guð elski. Þá flæðir elskan yfir þig og um þig og skapar þig á ný. Þá ert þú eitt með þessum Leví, skattkóngi guðspjallsins, eitt með Emmanuel Smitt, eitt með milljónum sögunnar fyrr og síðar. Þá rís upp heil manneskja, elskuð og endurnýjuð af þessum, sem hefur skapað þig og getur gefið þér mátt til að lifa og starfa á nýjan hátt.

Jesú kemur til þín

Jesús kemur eftir veginum, sér þig í tollbúðinni þinni eða hvað fjötrar þínir heita eða nefnast, sér þig sem manneskju óháð verkum, orðspori, áföllum eða sigrum, sér þrá þína og segir einfaldlega og öruggt: “Komdu með mér.”

En í hverju er fólgið að fylgja Jesú? Það gera sér væntanlega allir grein fyrir, að fylgja Jesú er að treysta honum fullkomlega. Sambúðin með Guði er eins og hvert annað ástarsamband, þarf að endurnýja daglega.

En það er aðeins önnur hlið málsins. Guðsástin, og trúin á sér alltaf afleiðingar, sem er hvað við gerum í lífinu, hvernig við bregðumst við og störfum. Trú, sem er aðeins himinsamband, getur verið ein útgáfa hins sjálfhverfa lífs, það að sitja við lækinn og horfa á dýrlega mynd sína á skjá vatnsins en hreyfa sig ekki úr stað. Guð elskar alla, og við, sem viljum lifa í trú, lifum þar með óhjákvæmilega í samræmi við þá ást. Að trúa er bæði að elska Guð, en einnig að elska menn og raunar alla sköpun Guðs.

Móðir Theresa

Móðir Theresa var smá og fínleg, en þó eflaust eitt mesta stórmenni liðinnar aldar. Hún er okkur rismikið dæmi um hvað trú felur í sér. Vissulega er ekki gerð sú krafa til okkar allra að fara í kuflinn hennar og halda út í skuggasund erlendrar borgar. En Theresa er fyrirmynd um hvað trú felur einnig í sér, þjónustu við fólk. Eitt sinn var hún í heimsókn meðal holdsveikra og Ameríkani nokkur fékk að fylgjast með. Theresa þvoði sár sjúklings og það var ekki beinlínis geðslegt né heilsusamlegt. Ameríkananum varð ómótt og sagði þegar hann sá þetta: “Þó mér hefðu verið gefnir milljón dollarar hefði ég ekki þvegið þessi sár.” Theresa leit upp og sagði góðlátlega: “Það hefði ég ekki gert heldur.” Í þessu glettna svari kemur fram hin djúpa alvara.

Kallið

Guðselskan er lífsafstaða, sem leitar fólks í neyð þess og kröm, þó það sé erfitt, fjárhagslega óskynsamlegt og jafnvel hættulegt. Að fylgja Jesú er að standa upp og fara á nýjar slóðir, losna úr viðjum hins lokaða veruleika okkar og sjálfhverfa lífs og þjóna, vegna þess að Guð elskar og við verðum speglar þess Guðs.

Þú ert ekki Leví Alfeusson. Þú ert ekki tollheimtumaður. En þú átt það sameiginlegt með honum, að Guð kemur til þín, ekki einu sinni, heldur daglega og í öllum aðstæðum og kallar: “Komdu með mér.” Lærðu að heyra þessa rödd í hversdagsleikanum, temdu þér að rísa upp og skilja helsið eftir. Lærðu að sjá Jesú álengdar í lífinu, í verðandi dagsins, í fólki og í umhverfi. Þá kemur þú út úr eyðimörkinni og átt nýtt líf.

17. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. B-röð Mark. 2:14-28 Prédikun í Neskirkju, Reykjavík, 18. september 2005