Við höfum gengið til fundar við Guð í Garðakirkju Að vonum hafa margir fagnað því um land allt að geta loks komið saman um verslunarmannahelgina fyrir viku síðan. En samkomutakmörkunum var aflétt hér á landi í vor og fólk beðið að gæta að sér því að ekki hefði tekist að kveða faraldurinn alveg í kútinn. Eftir sem áður væri mikilvægt að þvo sér vel um hendurnar og gæta að hreinlæti, ekki síst á hjúkrunarheimilum og sjúkrastofnunum þar sem viðkvæmasta fólkiið væri. Því að smituðum covid sjúklingum tók að fjölga í byrjun sumars á landspítalanum sem er áhyggjuefni.
Gleðigangan fór fram í gær að viðstöddu fjölmenni. Ég held að hún hafi síðast verið haldin í ágúst 2019. Gleðigangan undirstrikar mikilvægi þess að við fögnum fjölbreytninni í mannlífsflórunni og viðurkennum og virðum fólk eins og það vill vera.
Af þessu tilefni koma til mín tvö orð sem eru kjarkur og styrkur. Það þarf kjark og styrk til að fara út fyrir þægindaramma sinn í samtímanum og setja sjálfum sér og öðrum ný mörk. Það þarf líka kjark og styrk til að skipta um skoðun og umfaðma og gleðjast yfir fjölbreytni mannlífsins því að við búum öll saman hér á landi í frelsi og friði. Því getum við að sönnu fagnað.
Maður að nafni Philips Brooks segir :
Það þarf styrk til að vera öruggur. Það þarf kjark til að vera umhyggjusamur. Það þarf styrk til að halda uppi vörnum. Það þarf kjark til að láta vopnin síga. Það þarf styrk til að sigra. Það þarf kjark til að vægja. Það þarf styrk til að vera viss. Það þarf kjark til að vera öðruvísi. Það þarf styrk til að finn sársauka vinar síns. Það þarf kjark til að kannast við eigin sársauka. Það þarf styrk til að dylja tilfinningar sínar. Það þarf kjark til að sýna þær. Það þarf styrk til að þola árásir. Það þarf kjark til að koma í veg fyrir þær. Það þarf styrk til að standa einn. Það þarf kjark til að halla sér að öðrum. Það þarf styrk til að elska. Það þarf kjark til að læra að vera elskaður / elskuð. Það þarf styrk til að lifa af. Það þarf kjark til að lifa.
Í dag sleppum við gleði okkar eins og fuglum upp til himins. Við gleðjumst yfir ljóma þeirrar dýrðar sem við okkur blasir í umhverfinu, fjölærum blómstrandi jurtum sem við höfum e.t.v. hlúð að heima í garði, rósum við vegg, mannlífsflórunni í sínum margbreytileika, glaðværum börnum að leik í húsagörðum, samveru með ættingjum og vinum, samveru í hlöðunni hér á eftir þar sem við ætlum að syngja saman við harmonikkuundirleik. Margt er tilefnið til að gleðjast yfir. Við berum djúpa virðingu fyrir náttúruöflunum hér á landi íss og elda þegar Reykjaneseldar brenna sem aldrei fyrr.
Að sönnu liggur vegferð okkar um breiðan veg oft á tíðum og þar gætir hæða þar sem sólarbirtunnar nýtur við. En stundum liggur leið okkar um dalverpi þar sem skuggsýnt kann að vera. Þar verðum við að gæta varúðar. Þeir sem hafa farið á eldstöðvarnar í rökkrinu þekkja hversu erfitt er að fóta sig án ennisljóss í myrkrinu. Þá er auðvelt að verða fótaskortur og meiða sig.
Þau eru mörg vítin til að varast í lífinu líkt og guðspjall þessa Drottins dags minnir okkur á en þar segir Jesús í upphafi máls sins. ,,Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar.“
Í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) ræðir iðulega um falsspámenn, sem leiddu Ísraels lýð afvega og æstu hann til þess að óhlýðnast boðum Drottins. Jesú var kunnugt um þetta og varaði samtímafólk sitt við þessu.
Í samtímanum reyna margir að hafa af okkur fjármuni með því að þykjast vera fulltrúar fyrirtækja hérlendis sem við höfum hingað til treyst eins og Póstsins. Oft hef ég fengið tölvupósta frá óprúttnum aðilum sem hafa misnotað svokallað logo Póstsins til að fá mig til að gefa upp kredit kortanúmerið mitt. Þá hefur kannski verið lagt upp með að sending frá útlöndum bíði mín á pósthúsinu og til að geta tekið á móti henni þurfi ég að greiða tiltekna upphæð. Ég hef nú séð við svona svikapóstum til þessa og vona að mér takist það í framtíðinni.
En við höfum líka heyrt af dæmum þar sem óprúttnum aðilum hefur tekist að svíkja háar upphæðir út úr íslenskum fyrirtækjum með því að þykjast vera í viðskiptum við þau.
Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum, segir Jesús í guðspjallinu. Við vitum að vínber vaxa ekki á þyrnirunna eða fíkjur á þistli. Vínber vaxa af vínberjarunna og fíkjur af fíkjutré. Við verðum að gæta varúðar og kunna að sjá og skynja hættumerkin sem eru fyrir framan okkur á skánum sem annars staðar.
Við eigum ekki að smella á einhvern hlekk í tölvupósti sem við könnumst ekki við vegna þess að það er unnt að smita tölvurnar okkar með njósnaforritum sem óprúttnir aðilar hafa útbúið, fólk sem hefur næga þekkingu til að bera á þessu sviði til að svíkja fé út úr auðtrúa fólki á heimsvísu.
Varist falsspámenn segir Jesús. Í samtíima hans var til fólk sem bar að varast að dómi hans, fólk sem bar ekki sannleikanum vitni, fólk sem bar ekki hag annarra fyrir brjósti, var siðblint og sagði ekki satt og rétt frá ef slík háttsemi kom því vel í það og það skiptið.
Þegar að Boris Johnson forsætisráðherra Breta hafði sagt af sér í sumar þá hlustaði ég á þátt um hann í útvarpinu. Þar kom m.a. fram sú skoðun að Boris hefði ekki borið sannleikanum vitni á framabraut sinni í breskum stjórnmálum, einnig eftir að hann varð forsætisráðherra. Hann var tilbúin til að hnika sannleikanum til ef það hentaði honum, ef það kæmi honum vel.
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump sveifst einkis í embættti sínu og hagræddi sannleikanum hvað eftir annað og var sakaður um að flytja falsfréttir. Og samtímamiðlar voru líka tilbúnir til að flytja falsfréttir ef það kæmi eigendum miðlanna vel.
Sigurbjörn Einarsson biskup flutti prédikun í Þingvallakirkju sumrarið 1998. Þar fjallaði hann um falsspámenn á 20. öldinni. Þar sagði hann m.a :
,,Hinir guðdómarnir sem öldin hefur dýrkað urðu að sama skapi voldugri sem þeir voru verri. Stórum fasmestir þegar ég var ungur og lengi síðan voru þeir, sem trúðu á Stalín sem frelsara heimsins. Sem frelsara heimsins. Þetta eru engar ýkjur. Ég veit hvað ég segi. Ég lifði þessa tíma, ég mætti þessari trú eins og æðandi báli í brjóstum manna. Og rétt í kjölfarið komu þeir sem trúðu á Hitler af sama glóandi æði. Enn síðar kom Maó með kverið sitt fræga og sitt himneska stjórnarfar. Voldugir guðdómar allir þrír. Engir guðdómar hafa áður heimtað og fengið þvílíkar fórnir, engir skilið eftir annan eins feril. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá ..."
Biskupinn spurði síðan:: ,,Læra menn af beiskri reynslu"? Og svarar: "Mig uggir að því fari fjarri ... Hinn menntaði nútímamaður hefur reynzt fram úr hófi berskjalda fyrir sefjun seiðmanna, fyrir órum um fullkomið mannfélag, fyrir skrumi um andleg ofurmenni, meistara, sjáendur, kraftajötna í andlegum íþróttum." Bætir síðan við: ,,Ef trúarþörfin, þessi grunnþörf mannsins, lífsþörfin, leit hjartans að sjálfu sér, að Guði sínum, er afvegaleidd, þá fer illa. Það er ekkert verra til en vond trú. Aðvörun Jesú um að varast falsspámenn er tímabær."
Í niðurlagsorðum biskups í predikuninni segir: "Þeir ábyrgir menn sem eru að tala um að þjóðkirkjan eigi ekki rétt á sér lengur ættu að hugleiða hvort það sé óeðlilegt með tilliti til almannaheilla, að hið opinbera reyni að stuðla að heilbrigðu trúarlífi, því heilbrigt trúarlíf er sterkasta vörnin gegn sjúklegum fyrirbærum, sóttheitu einsýni, grillum og sjónhverfingum. Það þurfa þeir að athuga sem stjórna menntakerfi þjóðarinnar. Og allir, sem vilja þjóðinni vel ..."
Við þessi orð Sigurbjörns biskups er engu að bæta. Þegar hann talar hlustar þjóðin.
Forseti Rússlands innlimaði Krímskaga Rússlandi árið 2014 ef ég man rétt. Hann réttlætti innrásina í Úkraínu með því að segja að hún væri ekki innrás heldur hernaðaraðgerð til að losa Úkraínu menn við nasista og fasista sem þar væru við völd. Ég veit fyrir víst að forseti Úkraínu er ekki nasisti heldur af gyðingaættum sem nasistar reyndu að útrýma á sínum tíma í seinni heimsstyrjöldinni. Mikið mannfall hefur átt sér stað hjá báðum herjum og saklaust fólk, konur og börn hefur látið lífið. En Pútín hefur haldið sannleikanum frá almenningi í Rússlandi. Þar starfa einungis fjölmiðlar sem eru hliðhollir stjórnvöldum og Pútín sem stjórnar líkt og einræðisherra. Hann notar sefjunarvald sitt líkt og seiðmaður og heldur þegnum sínum í skefjum með ógnarvaldi. Það sem mér þykir öllu verra er að einn af biskupum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar er málsvari Pútins og hefur hrósað honum fyrir innrásina í Úkraínu. Pútín líkir sjálfum sér við frelsara heimsins og margir eru þeir sem trúa á hann í Rússlandi sem annars staðar í rússnesku mælandi löndum, líkt og í austurhluta Úkraínu. En þeir eru hygg ég fleiri sem líta á hann sem falsspámann. Sennilega verður nýtt járntjald til þegar stríðinu lýkur, þegar ný landamæri verða til milli Úkraínu og Rússlands. Ég vona þó að Rússum takist ekki að innlima austustu héruð Úkraínu
En þá þurfa vesturveldin að sjá Úkraínumönnum fyrir nýtísku vopnum og þjálfun hermanna til að beita þeim.
Þeir eru margir falspámennirnir erlendis sem hérlendis. Umræða hefur skapast um Vísindakirkjuna í Bandaríkjunum sem hefur sundrað fjölskyldum með boðskap sínum. Svo hefur einnig verið um Votta Jehóva en fyrrverandi meðlimir Votta Jehóva tjáðu sig um reynslu sína af söfnuðinum í sjónvarpi allra landsmanna í vor.
En hvernig greinir fólk falsspámenn frá hinum sem taldir eru fara með rétt mál?
Þegar rit nýja testamentisins voru valin á Nikeuþinginu 325 e Krist þá var ákveðið að velja þau sem talið var að postularnir sjálfir hefðu ritað, t.d. Páll postuli, en hann var ötulasti boðberi kristinnar trúar á fyrstu öld kirkjunar. Og guðspjöllin voru valin ef samhljómur var milli þeirra, ef talið var að orð Jesú væru þar að finna, og ef talið var að guðspjallamennirnar hefðu stuðst við eins upprunalega heimild og til var sem hafði að geyma orð Jesú. Sú heimild er glötuð en fræðimenn telja að þrír guðspjallamenn af fjórum hafi notast við þessa heimild. Með því að raða guðspjöllunum og öðrum bréfum postulanna saman þá varð til heimild sem hefur að geyma fréttatengt efni frá frumkirkjunni sem er eins nálægt sannleikanum og til er.
Annað efni sem ekki komst inn í nýja testamentið er kallað Apokryft efni. Þar eru orð Jesú ekki að finna eða efni sem frá postulunum sem stóðu Jesú næst. Þetta er sem sagt yngra efni. Ákveðið var að koma þessu apokryfa efni fyrir í nýjustu útgáfu Biblíunnar okkar íslendinga sem gefin var út 2007.
Er ég falsspámaður? Það er gott fyrir mig sem prest að líta í eigin barm og hugleiða þessa spurningu. Enginn er dómari í eigin sök. Það er líka ósköp auðvelt að vera hrokafullur með því að segjast hafa höndlað hinn æðsta sannleika og fara síðan með hann að eigin vild
Það er alltaf snúið að leggja út af guðs orði þannig að það tali til samtímans hverju sinni. Ég valdi frá upphafi að vera Krists miðlægur í mínum prédikunum, hafa hann fyrir sjónum og hugsa sem svo: Hvað hefði hann gert í þessum kringumstæðum? Hvað hefði hann sagt?
Ég veit fyrir víst að hann stóð aldrei hjá þegar neyð heimsins var annars vegar. Það eigum viðheldur ekki að gera. Við eigum að vera hendur Jesú og fætur í þessum víðsjárverða heimi þar sem falspámenn er að finna. Það eru margir sem rétta Úkraínumönnum hjálparhönd um þessar mundir. Þeir búa margir við skjól og öryggi hér á landi og mannúðarsamtök erlendis koma hjálpargögnum til stríðsþjáðra í Úkraínu í von um að þau gagnist þjáðu fólki.
Stalin og Hitler voru óguðlegir menn þó að margir hafi hyllt þá sem nánast guðlegar verur. Forseti Norður Kóreu krefst þess að hann sé hylltur sem guðleg vera. Pútín gengur ekki svo langt, eða hvað. Eitt vitum við. Pútin er ekki guðlegur maður, því fer fjarri. Hann ber ábyrgð á dauða þúsunda óbreyttra borgara í Úkraínu. Hann er haldinn sjálfshyggju sem heldur því fram að öll gildi eigi uppsprettu hjá honum sjálfum.
Í ljósi þessara niðurlagsorða minna þá dettur mér í hug að lesa fyrir ykkur Davíðssálm nr 1 sem segir allt sem segja þarf um muninn á þeim sem halda sig við sannleikann og falsspámenn.
Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
2heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.
4Óguðlegum farnast á annan veg,
þeir hrekjast sem hismi í stormi.
5Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi
né syndarar í söfnuði réttlátra.
6Drottinn vakir yfir vegi réttlátra
en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
Matt 7.15-23
Jesús segir : ,,Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir
gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber
af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en
slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré
góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því
í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.Ekki mun hver sá sem
segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er
gerir vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi:
Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa
anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður.
Farið frá mér, illgjörðamenn."