Það situr maður í strætisvagninum, og í hvert sinn sem komið er að nýrri stoppistöð stynur maðurinn hátt og dæsir af mikilli vanlíðan, sem eykst með hverri nýrri stöð. Að lokum emjar hann af svo mikilli örvinglan að fólk víkur sér að honum og spyr: Hvað er að? Hversvegna líður þér svona illa? Maðurinn svarar: Þetta er svo erfitt, því í hvert sinn sem er stansað sé ég betur að ég er að fara í vitlausa átt!
Er þessi saga dæmisaga um okkur? Ég vona ekki!
En um áramót er svo frábært tilefni til íhugunar um það á hvaða leið við erum. Það er að byrja splunkunýtt ártal, margir nota vissulega tækifærið og vinna áramótaheit. Því ekki að vinna svolítið betur í sínum málum og spyrja sjálfan sig: Hvað er það sem má betur fara í lífi mínu? Hvað get ég gert til að breyta því? Af hverju ekki að hætta að bara kvarta og kveina og gera eitthvað í því sem gengur ekki í vel. Hvers vegna stígur maðurinn ekki út úr strætó ef hann er á leið í vitlausa átt. Sýnum það hugrekki að snúa við ef við eigum að fara í aðra átt. Stundum er sagt að sá sem segir A verði að segja B. En sá sem segir A má ekki segja B, ef B er vitlaust svar.
En það þarf hugrekki og það þarf kraft til að stíga slíkt skref. Hvar fær maðurinn kjark til þess að breyta um stefnu, stíga út úr þeim aðstæðum sem hann er kominn í og er óánægður með, sér að eru ekki réttar, sér að henta sér illa, og leiða sig í aðrar og verri aðstæður?
Upphaf fagnaðarerindisins um Krist var að hann kom fram og sagði: Gerið iðrun, Guðs ríki er í nánd!
Hættið að lifa sjálfvirku lífi dag eftir dag, hættið að lifa án tilgangs, hættið að lifa eingöngu fyrir ykkur sjálf!
Jesús segir sögu um fíkjutré, sem er hætt að bera ávöxt. Víngarðseigandinn vill höggva, en þjónn hans, víngarðsmaðurinn segir: Lát það standa þetta ár. Það má reyna nýja aðferð, úrslitatilraun, dekur og nostur, bjartsýni og von, tiltrú og traust.
Alla daga togast þetta tvennt á í lífi okkar. Við þurfum að velja og hafna, forgangsraða og grisja, geyma og henda. Því sem er einskisnýtt því verður að henda. Við komum okkur upp mælikvörðum til að vega og meta, hvað hentar okkur og hvað ekki. Við þurfum traust viðmið sem duga til langs tíma litið, og ekki bara skammtímahagsmuni. Tökum söguna um strætófarþegann inn í okkar aðstæður og þá má segja að Þegar ég ætla með rútunni suður eða norður er ekki nóg að taka bara vagn sem snýr í rétta átt. Í upphafi getur hann jafnvel hreyfst í rétta átt, en fyrr en varir kann hann að beygja og bruna í öfuga átt með mig innanborðs. Við þurfum að kunna að velja og hafna hvaða rúta ber okkur á réttan áfangastað.
Alla daga fer fram í lífi okkar samkeppni um stefnur og leiðir, staði til að vera á, fólk til að hitta, verkefni sem hægt er að sinna. Samkeppnin er hörð, hvort sem er um athygli, bestu sætin, mesta ágóðann, besta árangur. Fyrir þessu finnum við í sveitum og hvar sem er í atvinnulífinu: Í dag er meira framleitt með minna vinnuafli en nokkru sinni fyrr. Sá sem ekki getur haldið í við kröfur um afköst og framleiðslu og staðist álag og stress, verður undir í kapphlaupinu um lífsgæðin. Og þeim fjölgar jafnt og þétt sem finnast þeir utangarðs og afskiptir. Þeir verða alltaf meðal okkar sem komast ekki lönd eða strönd af eigin krafti, og þurfa athygli og uppörvun, tímabundið eða varanlega. Erum við ekki til fyrir þau, eða erum við bara til fyrir okkur sjálf?
Það er spurt um árangur og ávöxtun. Það er spurt hvar get ég fengið besta rentur fyrir peningana. Við íslenska þjóðin höfum lært okkar lexíu þar, að skjótfenginn gróði getur skjótt snúist í hrun og stórt tap. Til lengri tíma litið reynist það flestum jafngilda eftirsókn eftir vindi, því mikið vill meira, og hamingjan fæst ekki keypt fyrir fé. Þegar gerð er krafa um árangur og ávöxt af erfiði okkar eru krónur og aurar ekki góður mælikvarði. Betri mælikvarðar eru heiðarleikinn, kærleikurinn, tryggð og von. Innst inni vitum við áreiðanlega að þetta eru gildi sem er miklu dýrmætara er að ávaxta og efla en efnisleg gæði. Sá sem ber þannig ávöxt, hann gerir það ekki fyrir sjálfan sig, heldur fyrir aðra. Það er munurinn á því að bera ávöxt og bera árangur. Árangur er fyrir okkur sjálf. Ávöxtur er fyrir aðra. Af ávexti trésins fá margir næringu. Og sá einstaklingur sem ber ávöxt er blessun í lífi allra sem í kringum hann eru, því þeir líða ekki skort. Að bera ávöxt er að segja og gera það sem kemur öðrum að notum og eflir lífið. Sá sem ætlar og vill bera ávöxt öðrum til gagns og blessunar, hann getur ekki skorið á lind hinnar hreinu uppsprettu, lífsins lind, hann getur ekki byrgt fyrir lífsins sól, sjálfan Guð. Hans þörfnumst við til að bera ávöxt. Við þurfum að eiga lifandi samband, taug sem tengir okkur við Guð. Sú taug er bænin og orð Guðs og samfélagið.
Ár líður. Það er kvatt, og í okkur togast á söknuður og gleði. Stundum sorg, en alltaf er eitthvað að þakka, ef að er gáð, og þó ekki sé nema það að eiga lífið, lifa enn ein áramót, vera gefið eitt ár enn. Við biðjum Guð að blessa þér það sem þú áttir á síðasta ári og geyma allt það góða sem kvatt hefur verið. Með þeim Guði sem gefur þér nýtt ár getur það gefið kraft og von og borið góðan ávöxt í lífi sem bíður á nýju ári. Með þeim Guði sem gefur ný og ný tækifæri getur nýja árið komið sjálfum þér á óvart með óvæntum ávöxtum, gleði og margvíslegri blessun.
Nýtt ár gengur í garð. Þessi áramót hvetja ráðamenn þjóðarinnar til samstöðu og sátta. Það er vel. Samheldni og samstaða er það besta sem hægt er að gera þegar áföll verða í lífi einstaklinga, fjölskyldna og í lífi þjóðar. Deila sem mestum tíma saman, hafa sem mest samráð, sýna tillitssemi og umhyggju, hugsa út fyrir venjulegan vanabundinn þankagang sem miðar allt við árangur og hagnað. Láta af bábiljum sem ætla öðrum annarlegar hugsanir að órannsökuðu máli. Leita lausna og sátta. Það er vissulega ekki alltaf auðvelt að finna sáttaflöt á máli þegar hart hefur verið deilt. Sátt felst ekki í því að láta undan og leyfa hinum að ráða. Sátt er heldur ekki alltaf að mætast á miðri leið. Sátt er að miðla málum, eins og móðir sem stóð frammi fyrir því að tvær dætur hennar vildu báðar einu appelsínuna sem var til. Hvað var til ráða? Skipta henni í tvennt??? Móðirin greip það til bragðs sem skynsamlegt var: Hún spurði: Til hvers vilt þú fá þessa appelsínu? Önnur dóttir svaraði: Ég er svo þyrst og mig langar svo að gera mér appelsínusafa, hann er svo góður við þorsta. Hin svaraði: Ég á að gera búðing fyrir skólann og þarf að nota appelsínubörk í uppskriftina. Eftir að þessi skynsama móðir hafði spurt var ekki erfitt að miðla sátt í þessari systradeilu. Skyldu ekki vera margar svona deilur í samfélaginu sem hægt er að miðla í sátt, en til þess þarf samstöðu, samræður og skynsemi. Og stundum líka skapandi hugsun að auki, sem er ekki ferköntuð eða hornótt.
Biðjum þess að Guð gefi okkur æðruleysi til að sætta okkur við það sem við ekki fáum breytt, hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, og vit til að greina þar á milli.
Guðspjall áramótanna segir: Höggvum upp tréð. Þetta gengur ekki svona lengur. Hér þarf að verða breyting á, hér þarf að taka erfiða ákvörðun. Það sem ekki ber ávöxt lifir ekki lengur.
En það hefur líka jákvæðan boðskap: Ekki halda að þetta sé hið eina sem þú getur gert! Ekki gefa upp vonina, ekki missa móðinn, heldur gefðu þér tækifæri. Því Jesús stendur með þér! Guð hefur trú á þér! Hann sem er herra víngarðsins og ræður tíma og tíðum, hann hefur gefið þér vísbendingu um að nýtt ár verði ár tækifæris fyrir þig.
Stöndum saman.
Fagnaðarerindið er boðskapur um samfélag. Þar er náunginn og þarfir hans í fyrsta sæti. Jesús kenndi mikið í dæmisögum. Siðaboðskapur hans er stórkostlegur. En hann kenndi ekki bara hugmyndafræði. Hann kallaði líka fólk til samfélags, til að standa saman á veginum, og eiga saman trú, von og kærleika.
Ræktum samkennd.
Ef þú stígur út úr hringekju sjálfselskunnar, sem snýst bara um sjálfan þig og þitt eigið sjálf gefur þú þig samfélaginu á vald. Þú ert ekki bara til fyrir sjálfan þig , þú getur ekki haft allt bara fyrir þig sjálfan. Það eru aðrir, og sumir sem þjást vegna þess að í lífi þeirra er skortur, á vináttu, uppörvun, gleði, von, öllu því sem við metum í raun svo miklu meira en peninga.
Áramótin koma og fara. Tíminn heldur áfram að toga okkur áfram. Reynum að vera ekki í sporum þess sem bara kveina og emja yfir því að vera ekki á réttri leið.
Stígum vonglöð skrefin inn í nýtt ár til þess að gefa því besta í lífi okkar tækifæri. Stígum út úr því sem spillir og sundrar. Gefum sjálfum okkur tækifæri til að bera góðan ávöxt og vera öðrum blessun. Það mun margfalt skila sér. Amen.