Friður

Friður

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Texti: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. … Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóh. 14:27). Bæn: Eilífi, almáttugi Guð og faðir, þú sem leiðir þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna, og af náð þinni gefur oss […]
fullname - andlitsmynd Guðmundur Guðmundsson
31. desember 2017
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Texti:

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. … Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóh. 14:27).

Bæn:

Eilífi, almáttugi Guð og faðir, þú sem leiðir þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna, og af náð þinni gefur oss aðeins eitt andartak í senn. Vér þökkum þér árið sem senn er liðið, fyrir gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók. Fyrirgef oss vorar skuldir, synd, afbrot, vanrækslu alla. Lát engan líða vor vegna, heldur opna fyrir oss leiðir til að bæta fyrir það sem vér höfum gert rangt, eða látið ógert. Leys oss frá gremju yfir því sem að baki er og kvíða fyrir komandi degi. Kenn oss að nota rétt hverja stund sem þú gefur. Í þínar hendur felum vér árið liðna og í trausti til handleiðslu þinnar höldum vér inn um dyr hins nýja. Vísa oss vegu þína, Drottinn, og leið oss gegnum skammdegi lífsins að vér náum því marki sem þú hefur sett jarðlífsgöngu vorri. (O. Knook).

Um áramót erum við hvött til þess að rannsaka og prófa breytni okkar. Hugleiða um stund þegar árið kveður lífsgönguna eins og kristnin hefur gert í tíðargjörð sinni á hverju kvöldi. Þegar myrkrið kemur yfir höf og færist yfir lönd þá er tími til að hugleiða myrkrið innra með sér í kyrrð næturinnar, horfast í augu við það, játa að dauðleg séum við, en afneita myrkrinu í sér til þess að fela sig Guði á vald, hans eilífa ljósi.

Við sem búum við hið nyrsta haf þekkjum vetrarmyrkrið en einnig ljósadýrð himinsins í skammdeginu og norðurljósin og stjörnuhimin veturnæturnar löngu. Þannig hefur veturinn verið fram að þessu. Andstæðurnar í náttúrunni minna okkur á íhugunarefni okkar, ljósið og myrkrið í heimi andans.

Ljóðlínurnar úr Harmljóðunum leiða hugann til hans sem gaf árið sem er að líða, úr hans hendi var það þegið, stundirnar, augnablikin þýðingarmiklu, sem liðu hjá, en lifa þó með okkur:

Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín! (Harm. 3: 22-23)

Að kvöldi minnumst við morgunsins sem í vændum er, á gamlárskvöldi lítum við fram til nýja ársins sem kemur. Við játumst honum sem hefur allt í höndum sér, hið minnsta og stærsta, sæluna mestu og hið mesta fár, allt lítur honum, góðum Drottni. Úr hans hendi þiggjum við komandi ár í von og þökk. Dýrð sé Guði!

Lífið allt, hver dagur, að morgni, um miðjan dag, að kveldi og nótt, er reynslustund, ársins hring, ár eftir ár, sú þraut sem á þig er lögð, mannsbarn, er þessi, að trúa á góðan Guð.

Við mælum tímann eftir klukkustundum, mínútum og sekúndum, en þó getur augabragð eitt verið þýðingarmest. Augnablikið sem þú leist barnið þitt og faðmaðir það að þér. Þegar ástin þín horfðist í augu við þig og játaðist þér í ást og trúfesti. Og ekki tekur það langa stund að særa ástvin sinn með hörðu og köldu beiskjuorði. Titrandi er lífstaug ástarinnar milli manna sem hatrið getur slitið með einu orði, kæft og deytt.

Það óttalegasta í lífi okkar er ekki hið ytra myrkur náttúrunnar heldur hið innra myrkur sálarinnar, það ættum við að skelfast og óttast. Það djúp sem tíminn fellur í, gleymskunnar og algleymisins, tómið ógurlega, tilgangsleysið, sem við verjumst með því að nýta hverja stund, telja, raða saman, vera upptekin, hafa mikið fyrir stafni, allt það kemur einhvern veginn fram um áramót. Vafalaust hlæjum við svona mikið um áramót að öllu saman vegna þess að það er í okkur beygur við tímans taktföstu slög. Undan valdi hans höfum við tímans börn enga von um að losna. Enginn ræður tíma sínum. Hann líður jafn hratt hvar í heimi sem er, hver sem þú ert, tímans barn, þá ræður þú ekki tíma þínum, sem liðinn er, framtíðin er þér hulin, líðandi stund er það eina sem þú átt fyrir víst. Eins og spekingurinn sagði þegar hann var spurður hvaða tími væri mikilvægastur í lífi mannsins: „Mikilvægasti tíminn í lífi hvers manns er ævinlega sú stund, sem yfir stendur“. (SE 1964: 48) Við hlæjum og skemmtum okkur um áramót með þessa ógnarstaðreynd fyrir okkur. Við hlæjum að öllu saman en tómleikin er ekki langt undan.

Ástæðan er sú að við höfum gert tíman að takti í úrverki, tilbiðjum mesta hjáguð allra tíma, úrið, sem flestir menn með mönnum bera um hönd sér af minni kynslóð. Í stað þess að tilbiðja Guð sem stendur tímanum að baki. Þakka honum sem gefur stundirnar þýðingamiklu og dásamlegu, þegar við saman eigum dýrmætar stundir, minningar, sem við dveljum við, vöxum með, endurnýjum, með endurnýjaðri samveru, lífi. Besta vörnin gegn tilgangsleysinu er ekki að telja sekúndur heldur að lifa með þeim sem maður elskar, takast á við lífið, elska óvini sína, eins og Meistarinn sagði, afneita öllu illu, gefa mönnum trú þar sem örvæntingin ræður ríkjum, veita von um framtíð þar sem endalokin blasa við, elska þar sem hatrið og beiskjan hefur dregið mannsbarn í djúpið svarta. Þannig losnar þú undan tímans flaumi, flýtur ekki lengur með honum, heldur lifir með Guði í eilífð hans, verður dauft endurskin af eilífri nýárssól hans, sem rennur upp á hverju ári. Þannig öðlast þú viturt hjarta við að telja daga þína.

Þú, mannsbarn, staldraðu við á tímamótum, stíg þú út fyrir tímans ramma í bæn til Guðs, svo að þú mætir eilífðinni innan hringsins þíns þrönga, á þínu stutta skeiði, sem þér er mælt í sekúndum, vikum og árum. Sá sem ofar þér stendur þekkir stundirnar þínar, gefur þér hjartaslögin, andrúmsloftið, sem þú andar að þér. Hugsaðu um það á tímamótum, þú stendur frammi fyrir Guði þínum í helgidóminum þínum, finnur með honum að lífið er viðkvæmt og brothætt eins og kristall, en undursamlegt er það eins og þegar ljósið brotnar í öllum regnbogans litum í glerinu.

Óttastu ekki þá sem líkamann geta deytt, óttastu Guð, sem hefur allt þitt ráð í hendi sér. Matthías Jochumsson hefur kennt okkur í þjóðsöngnum að titra frammi fyrir Guði, fyrir Guði eru þúsund ár sem einn dagur, smáblóm, sem tilbiður Guð sinn og deyr. Í nýjárssálmi sínum dregur hann þessa staðreynd upp fyrir okkur þar sem við erum frammi fyrir augliti Guðs með líf okkar:

Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.

Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.

Á áramótum horfum við í djúp tímans, rúnirnar, sem enginn maður getur ráðið til fulls. Kynslóðir koma og fara, þúsund ár líða, sem í svip, nöfnin eru gleymd á flestum forfeðrum okkar og mæðrum, verk þeirra flest horfin úr minningu, eins og árið hverfur, fölnar okkar blóm og deyr. Á svip stundu kann það að vera skorið af, við erum minnt á það um áramót, íhugum óróleikann sem það vekur innra með okkur, hið mikla djúp, merkingarleysið, tómið, tómleikinn í hjartanu, spurningin um tilgang og trú.

Jesús kvaddi á tímamótum lærisveina sína með friðarkveðju: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. … Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóh. 14:27). Sú skelfing sem gekk svo yfir hann á krossinum fáum við ekki kannað til fulls, það djúp heljar sem hann steig niður í er og verður okkur ráðgáta, þó að við getum gert okkur nokkra hugmynd þar um. Það er sú samsemd sem að jólin boða þér að hann sem mannsbarn eins og þú gekk á undan þér til þess að þú mættir skilja alla tilveru þína í hans nafni. Árið rennur vissulega sitt skeið en runnin er upp nýjárssól sem aldrei hnígur til viðar, ljósið skín og lífið sigrar. Matthías Jochumsson, sem glímdi við Guð, eins og hvert annars mannsbarn, sá þennan leyndardóm vonarinnar:

Vor sól og dagur, Herra hár,
sé heilög ásján þín í ár…

Það er í augliti Guðs að tíminn fær nýja stefnu. Þess vegna er friðarkveðjan eilíf, ekki eins og friður heimsins, það fær ekkert haggað von kristins manns. Frammi fyrir Guði verður hvert orð og athöfn vegin og metin, en hjá honum er miskunn og fyrirgefning. Þú þarft ekki lengur að óttast Guð, því að hann boðar þér frið, fyrirgefningu syndanna, að þú megir rísa upp, með sólinni til nýrra vonar og endurnýjunar með þínum ástvinum og sigrast á þeirri raun sem lífið leggur á þig, vitandi það að algóður Guð gengur með þér inn í komandi ár. „Friður sé með þér“, er áramótakveðja hans til þín eins og þegar hann var að kveðja lærisveina sína forðum.

Friðurinn sem hér er talað um er ekki einhver ljúf tilfinning, ekki lok ófriðar, heldur er friður Guðs gjöf handa tímans barni, sem óttast ekki lengur vald tímans, heldur felur sig í almáttugar hendur Guðs, þrátt fyrir sársauka, spurningar og tár. Sá friður á sér engin takmörk vegna þess að hann á rætur að rekja til eilífðarinnar. Friðurinn er við Guð, vegna þess að hann er sjálfur á meðal okkar, hann fæddist sem mannsbarn, tímans barn, bundin honum eins og við, en þannig birti hann okkur Guð. Þú sérð í Jesú hver Guð þinn er, út frá honum getur þú skilið líf þitt. Hvað birtist þér í Jesú? Í honum sérðu að Guð er kærleikur, sem nálgast þig, er hjá þér. Tilveran er þá ekki merkingarlaus eilífðarvél sem gengur fyrir tilviljun, heldur er hugur að baki henni sem vakir yfir þér, hjarta sem slær fyrir þig, ást, Guð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.