Eilífðarlindin undir ásnum

Eilífðarlindin undir ásnum

Í gegnum hjarta hennar nær hann sömuleiðis til fólksins í heimabæ hennar, við þessa tengslamyndun verður til hjálpræði, svona skal kirkjan virka í gegnum tengsl, án fordóma, full af viðurkenningu. Í persónulegri nálgun, samtali, þjónustu, þá lærum við að þekkja sögu hver annars og sýnum þannig hvert öðru frekari skilning.

Laufáskirkja 150 ára

Lexía 1. Kon. 8. 22-⁠30 Pistill 1. Pét. 2. 4-⁠9 Guðspjall Jóh. 4.13-⁠14,23-⁠24

Bæn:

Að lifa lífi mínu sem líkar Drottinn, þér og vera í verki þínu, það veiti náð þín mér. Þá verða blessuð verkin mín og fylgja mér í friði, ó, faðir heim til þín.

Ég vil óska söfnuðum Laufássprestakalls til hamingju með Laufáskirkju sem hefur staðið hér í 150 ár og við minnumst nú og þökkum fyrir. Ég vil reyndar óska landsmönnum öllum til hamingju með þennan helgidóm sem hefur haldið vel utan um mikilvæg tímamót í lífi svo margra, innlendra sem útlendra, og skapað trúarleg og tilfinningaleg tengsl við Guð og menn.

Já, ég vil þakka. Ég vil þakka öllum þeim sem komið hafa að þessari hátíð með einum eða öðrum hætti og þá sérstaklega afmælisnefnd Laufáss-og Grenivíkursóknar sem hefur unnið óeigingjarnt starf við undirbúning þekkrar hátíðar, konum í Grýtubakkahreppi fyrir kaffibakkelsi sem öllum er velkomið að njóta eftir messu og klerkur fær strax vatn í munninn. Þökk sé jafnframt Kjarnafæði, Jónsabúð og Veislubakstri fyrir veitingagjafir. Búið er að reisa veislutjald, á gamla bæjarhlaðinu þangað sem við sækjum okkur veitingar á eftir og getum snætt bæði úti og inni í þjónustuhúsi eða Gestastofu eins og það er nú kallað.

Kirkjan var máluð að hluta til fyrir afmælið og um það sáu Betri fagmenn. Snorri Guðvarðsson málaði innri kirkjuhurð. Þökk sé þeim að færa kirkjuna í sparibúning. Kirkjugarður skartar sínu fegursta og þar hefur umsjá Anna Bára Bergvinsdóttir í Áshóli og Guðbjörg Sveinsdóttir, það er gott og þakkarvert starf. Félögum í Karlfélaginu Hallsteini færi ég þakkir fyrir að snyrta leiði og legsteina sr. Björns Halldórssonar og fjölskyldu. Þakkir flyt ég Grýtubakkahrepp, Sænesi og Biskupi Íslands Agnesi M. Sigurðardóttur, sem stödd er í Vesturheimi, fyrir stuðning við þessa hátíð.

Hólabiskup sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir ávarpaði söfnuðinn. Býð ég hana velkomna ásamt eiginmanni hennar sr. Gylfa Jónssyni sem þjónaði hér Laufásprestakalli við góðan orðstír.

Mig langar til að geta þess að hér á meðal okkar í dag eru þær Hanna Bjarman eiginkona sr. Jóns Bjarman sem var prestur í Laufási 1961-1966 og Ingibjörg Svafa Siglaugsdóttir eiginkona sr. Péturs Þórarinsonar sem var prestur í Laufási 1991-2007. Matthildur Jónsdóttir eiginkona sr. Bolla Gústavssonar sem var prestur í Laufási 1966-1991 er jafnframt lífs en því miður fjarverandi og biður fyrir góðar kveðjur. Það gerir sömuleiðis eiginkona mín sr. Sunna Dóra Möller sem er þessa stundina stödd sunnan heiða á fjölskyldumóti.

Guð blessi þjónustu þessara nefndra prestkvenna sem þær hafa innt af hendi Guði til dýrðar og Laufásstað til blessunar.

Sveinn Dúa Hjörleifsson gaf kirkjunni fagran söng í tilefni dagsins, kærar þakkir fyrir hann og bestu þakkir vil ég færa kirkjukórnum og Petru Björk Pálsdóttur fyrir tónlistarflutning við þessa hátíðarguðsþjónustu.

Þakkir fá þau er þjónuðu við ljómandi menningardagskrá hér í kirkjunni gær. Björn Ingólfsson fyrir gott erindi um kennimenn er setið hafa Laufásstað, Petra Björk Pálsdóttir og kórinn „Í fínu formi” ásamt einsöngvaranum Engilbert Ingvarssyni fyrir afar áheyrilegan söng og Ingibjörg Svafa Siglaugsdóttir fyrir bjartan upplestur á fáeinum kvæðum eftir valda Laufásklerka. Það var góð og notaleg stund í Laufáskirkju.

Þá er mjög gleðilegt að sjá og lesa veglegt afmælisrit sem Laufásprestakall gaf út í tilefni af þessum tímamótum og innifelur ávörp og greinar er opna sýn afmælisgesta ennfrekar á sögu og gildi Laufássstaðar í margþættu samhengi. Ritstjóri er Björn Ingólfsson og hafi hann heila þökk fyrir góða vinnu sem og þau öll sem lögðu til orð í ritið og þá er ég svo sem farinn að þakka sjálfum mér en það er í lagi líka.

Sannarlega er þetta dagur þakklætis. Stundum vill einhver eða eitthvað gleymast þegar upp er talið, en ég fel það þá góðum Guði sem man allt best og hefur ritað hvert nafn í lífsins bók.

Náð sé með okkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég fell í þá freistni í upphafi prédikunar að draga upp örlitla æskumynd. Í fimm sumur sýndi ég ferðafólki gamla torfbæinn í Laufási. Þá var hann í umsjá ábúenda í Laufási og ég rétt 10 ára gamall þegar ég gerðist fyrst leiðsögumaður yfir sumartímann.

Það var nú ekki farið mjög djúpt í söguna en hins vegar fór ég með hvern og einn einasta gest í gegnum bæinn og sagði nöfnin á húsunum á mismiklum hraða, fór kannski heldur hratt yfir undir lok dags. Þegar degi lauk læsti ég bænum.

Þá fór ég í gegnum dyrnar á kontór prestsins á baðstofuhúsinu sem sr. Björn Halldórsson lét útbúa og gárungar vildu meina að hann hafi gert til þess að þurfa ekki að mæta frú Sigríði eiginkonu sinni í bæjargöngunum því hún gat verið stirð í skapi, og þaðan fór ég síðan í gegnum allan bæinn og læsti dyrum er ég var kominn út úr bæjaranddyrinu að framan.

Þetta þótti mér oft kvíðvænlegt einkum síðla sumars þegar farið var að rökkva. Þá var frekar dimmt í bæjargöngunum og ímyndunaraflið fjörugt. Það var því siður hjá stráksa að þegar hann var kominn niður af baðstofuloftinu þá setti hann sig í stellingar í Nýja eldhúsinu svokallaða, dró djúpt andann, og hljóp eins og eldibrandur í gegnum bæjargöngin.

Ávallt var það eins og einhver væri á hælunum á mér, ég lokaði og læsti hurðinni í snarhasti móður og másandi og er ég hljóp heim datt mér síst í hug að líta inn um ljóra á bænum því þar átti ég ævinlega von á andlitum fortíðar.

Hjartað sló hægar eftir að móðir mín var búin að fara í gegnum það, eins og svo oft áður, að hér hafi aðeins búið gott og gegnheilt fólk og ég þyrfti ekki að hræðast það, auk þess sem yfir Laufási væri vakað og staðurinn umlukin góðum og helgum anda.

Eitthvað hélt ég nú samt áfram að hlaupa í gegnum göngin, en síðan fór að draga úr hlaupunum, hugsanir breyttust, og nú fáeinum árum síðar velti ég því fyrir mér hvað bærinn, sagan og fortíð þessa staðar stóð ljóslifandi fyrir mér sem barni og var á margan hátt áþreifanleg.

Gamla prestssetrið í Laufási, þ.e. torbærinn, hefur líka ávallt litið út eins og einhver byggi í því frá þeim tíma er sr. Þorvarður Þormar og frú Ólína Þormar fluttu árið 1936 yfir í nýtt prestssetur er nú stendur sem Gestastofa eða þjónustuhús fyrir gamla bæinn.

Kveikt var t.a.m. lengi upp í hlóðum í eldhúsinu til að fá rétta lykt í bæinn og stemmningin nánast eins og von væri á því að rekast á heimilisfólk í hverri vistarveru við dagleg störf. Þetta var og er sérstaða Laufásbæjar, hann hefur ekki staðið sem hefðbundið byggðarsafn heldur svokallaður sýnibær. Starfsdagurinn góði á hverju sumri ýtir sannarlega undir fyrrnefnda sérstöðu.

Margir bjuggu á gamla prestssetrinu, margir vegfarendur gengu í bæinn og þáðu veitingar og jafnvel gistingu. Prestssetrið var menningarmiðstöð, félög voru stofnuð þar og komið var saman til kaffidrykkju eftir athafnir í kirkjunni. Þjónustan var umfangsmikil, presturinn var meira en prestur, hann var félagsmálafrömuður, dró vagninn í veraldlegum sem andlegum málum sveitarinnar.

Kirkjan var ekki einhver fjarlæg stofnun, hún var fólkinu heimili, hún og fólkið voru samferða í lífsins verkefnum, nálgunin var persónuleg og hugðarefnin voru sameiginleg eins og búskapurinn og allt honum tengt og fólk gat alltaf byrjað spjallið á landsins gagn og nauðsynjum.

Hinir fjölmörgu gestir sem komu inn á prestssetrið þáðu ekki bara vatn heldur miklu fremur vatn í ýmsum öðrum myndum, kaffi, mjólk og þess vegna söngvatn ef því var að skipta. Um var að ræða drykki er svöluðu þó ekki hinum eilífa þorsta.

Það gerði mun frekar samfylgd fólks í Jesú nafni, persónuleg þjónusta, skóli fyrir ungt fólk á heimili prestsins, huggun í eldhúsinu yfir kaffi og kandís á erfiðum stundum í búskaparbasli ellegar við öll þau ótímabæru andlát sem ósjaldan urðu áður við önnur kjör, annan húsakost, í nánu samfélagi. Þar stóð kirkjan sem skjól, sem lind eilífðar, Laufáskirkja sem aðrar kirkjur, og heimili prestsins stóð opið og gerir enn hér á Laufásstað.

Vissulega hefur samfylgd kirkjunnar með fólkinu breyst mikið og það á frekar skömmum tíma, með breyttri þjóðfélagsgerð, þéttun byggðar, bættum kjörum á margan hátt, stofnanavæðingu, við það verður þjónusta og samfylgd að einhverju leyti ekki eins persónuleg og í bændasamfélaginu gamla.

Það er segin saga og þá myndast óhjákvæmileg fjarlægð og spurningar vakna frekar þegar dregur úr náinni samfylgd, af hverju ætti ég að tilheyra þessu frekar en hinu, gera þetta fyrir þennan þar sem hann hefur ekki gert neitt fyrir mig, ber mér að þjóna þessari manneskju í samfélaginu af því að staða hennar er þessi, tilheyrir þessum trúarbrögðum, stétt, kyni, kynþætti, kynhneigð? Hvaða rétt hefur stofnun á því að tengja sig við þennan eða hinn málstaðinn, hefur hún unnið fyrir því að geta haft rödd yfir höfuð í samfélaginu?

Gamli tíminn og nýi tíminn, þetta tvennt í samanburði sækir óhjákvæmilega á þegar prédikað er í 150 ára gömlum helgidómi. Það er margt úr gamla tímanum sem er kannski ekki til eftirbreytni í dag og öfugt, það á við um öll tímaskeið og tíðaranda. Hins vegar snertir hún mig þessi persónulega samfylgd kirkjunnar áður fyrr, sóknarbarnið sem drekkur kaffi í eldhúsi prestsins þar sem farið er yfir málin að ógleymdri heimilisguðrækninni forðum og virðingu fyrir trúnni og Guði.

Með þessu er ég ekki að segja það að kirkjan þjóni ekki fólki í dag með persónulegum hætti á viðkvæmum stundum, það gerir hún oft og iðulega, en samtalið er öðruvísi og með vissum hætti fjarlægara, þar verður t.d. ekki framhjá tölvutækninni litið og internetinu þar sem menn láta ýmislegt fjúka einmitt vegna þess að það er ekki rætt saman augliti til auglitis yfir kaffi og kandís í eldhúsinu.

Og þorsti fólks eykst við fjarlægð og þegar þorstinn er orðinn of mikill skapast gremja og þá fara menn að líta á kirkjuna sem framandi foréttindastofnun sem er að eigna sér hugmyndir og hugsjónir er hún telst ekki eiga neinn rétt á. Þar mætti taka dæmi um svokallaða druslugöngu sem fór fram um daginn norðan sem sunnan heiða.

Þegar til hennar er hugsað er tilvalið að velta fyrir sér samtali samversku konunnar og Jesú Krists, en orðin í guðspjalli þessa kirkjudags koma einmitt þaðan. Gyðingar máttu ekki hafa samneyti við fólk frá Samaríu og það var meira að segja litið svo á að Samverjar stæðu heiðingjum að baki siðferðilega og andlega.

Jesús Kristur hlustaði ekki á það, hann fór gegn þeim hugmyndasögulega veruleika sem ríkti og átti meira að segja frumkvæði að samskiptum þegar hann hittir fyrrnefnda konu við Jakobsbrunn milli borganna Síkem og Síkar í Samaríu. Jesús var þarna á þeirri leið sem gyðingar almennt sniðgengu.

Hann brýtur alla múra þegar hann biður konuna um að gefa sér vatn, hann virðir þar með margskonar fordóma sem uppi voru í garð konunnar og stöðu hennar að vettugi. Jesús býður henni vatn á móti sem svalar þorsta að eilífu. Þorsti konunnar er margvíslegur en þarna þyrstir hana einkum í kærleika.

Hún hafði átt fimm menn og þegar hún hittir Jesú á hún einn sem er ekki einu sinni maðurinn hennar. Miðað við hvernig þessir menn hafa reynst henni lítur út fyrir að hún hafi alltaf leitað kærleikans á röngum stöðum. Þessi samskipti hennar við Jesú, sem voru henni öðruvísi og framandi, vöktu að nýju hjá henni von sem svalaði án nokkurs vafa þorsta hennar ævinlega og eilíflega.

Þarna við brunninn verða til mikilvæg tengsl, konan þjónar Jesú með því að gefa honum vatn úr skjólu, því Jesús var raunverulega þyrstur og í staðinn færir Jesús henni vatn fyrir sálina og þar af leiðandi endurlausn þar sem hann þekkir líka sögu hennar.

Og hún finnur fyrir elsku, fyrir skilningi, Jesús hefur tekið skömmina frá henni með því að koma fram við hana eins og manneskju en ekki eins og einhvern hlut sem skal nota. Í gegnum hjarta hennar nær hann sömuleiðis til fólksins í heimabæ hennar, við þessa tengslamyndun verður til hjálpræði, svona skal kirkjan virka í gegnum tengsl, án fordóma, full af viðurkenningu. Í persónulegri nálgun, samtali, þjónustu, þá lærum við að þekkja sögu hver annars og sýnum þannig hvert öðru frekari skilning.

Það var t.d. í ljósi þessa samtals og samskipta sem kirkjan var tengd við áðurnefnda druslugöngu en það er ganga gegn kynferðiofbeldi og kúgun og er þar verið að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning með því að vísa ábyrgðinni þangað sem hún á heima – skömmin er ekki þolandans og Jesús kom því til skila þarna við brunninn forðum.

Laufáskirkja þetta kraftaverk, byggð á fáeinum mánuðum af Tryggva Gunnarssyni prestssyni í Laufási og fyrrum bankastjóra og Jóhanni Bessasyni fyrrum smið og bónda á Skarði í Dalsmynni í tíð sr. Björns Halldórssonar skáldprests, hefur verið farvegur fyrir boðskap sem þennan, boðskap mannkærleika og mannvirðingar í 150 ár, þar sem lífi hefur verið fagnað og döprum hefur verið gefin von, þar sem fólk hefur komið saman til þess að meðtaka og ræða og til þess að læra að virða sögu hver annars og sýna hvert öðru skilning. Það er mikils vert og þannig öðlast svona staður m.a sál og virðingu þeirra sem hér hafa búið og búa og sem sækja staðinn heim.

Grein á ég í afmælisritinu góða og fyrrnefnda en henni lýkur á þessum orðum:

„Greinarhöfundur man eftir öldruðum prestssyni frá Laufási sækja æskuslóðir sínar heim og það fyrsta sem hann gerði efitr að hafa stigið út úr bifreið sinni var að beygja sig niður og kyssa jörðina. Sú athöfn staðfesti margt, m.a. þá staðreynd að Laufás er ekki bara jörð, menningarsetur, höfuðból, Laufás er umfram allt helgur staður.” Tilvitnun lýkur.

Ólíkt höfðust þeir víst að prestssynir í Laufási, sá hinn aldraði beygði sig og kyssti jörðina, gáskafullur pottormur hljóp í gegnum bæjargöngin, en báðir á sínum aldursskeiðum að tjá upplifun sína á lifandi stað með lifandi sögu og reynslu fortíðarsálna, hinn eldri augljóslega búinn að átta sig betur á því hvað bjó í orðum móður minnar, með auknum aldri og þroska hægist á okkur og hið helga nær jafnvel lengra inn að hjartarótum, við förum að leita til kirkjunnar öðruvísi en áður þegar við vorum börn þegar sú stund nálgast er við þökkum fyrir það að fá að svala þorsta okkar í lind eilífaðarinnar.

Í Jesú nafni. Amen.