Við heyrðum ekki fótatak hans, hann var allt í einu kominn upp að hlið okkar og okkur brá við er hann spurði um hvað við værum að tala. Hvaðan kemur þú? Ertu eini maðurinn sem ekki veit hvað gerst hefur?
Gesturinn fer að ræða við okkur. Hann fer að rekja fyrir okkur gömlu sögurnar, þessar alþekktu sögur sem þó verða nýjar í munni hans, eins og allt ljúkist upp og rödd hans vekur upp minningar eins og þegar hálfgleymdur draumur rifjast upp og vaknar til lífs. Orðin eru ekki allt, ekki einu sinni helg orð heilagra texta. Þau þurfa líka rödd, návist, andlit sem varpar ljósi á. Munið þið, segir samferðarmaðurinn ókunnugi, sjáið þið mynstrið í þessum gömlu sögum?
Hvað það snart hjartans dýpstu djúpin! Það var sem hjartað brynni af djúpri gleði, þegar myndin tók að skýrast, koma fram. Óðar en varði vorum við komnir heim að dyrum. Ókunni maðurinn ætlaði lengra. Samt var sólin sest og myrkrið að skella yfir. Vertu hjá oss, því kvölda tekur og degi hallar! Haltu áfram að segja frá. Sestu með okkur til borðs og brjóttu brauð með okkur.
Það var rokkið inni. Hann settist við borðið litla og við, hikandi, í eftirvæntingu og lotningu, eins og börn, settumst á móti honum og horfðum á hann taka brauðið sér í hönd og lyfta augum sínum til himins og þakka Guði. Og svo, og svo braut hann brauðið.
Og þá lukust upp augun okkar. Lukust upp og við sáum HANN.
Og um leið hvarf hann okkur sjónum.
En við höfðum séð. Og það nægir. Sú sjón lifir með okkur sem návist samferðarmanns. Við sáum það sem við þráðum að sjá, vildum þó ekki, voguðum ekki að sjá. Við höfðum nefnilega leitað þess sem mætt gæti þörfum okkar og uppfyllt langanir okkar og látið draumana rætast. En hann braut brauðið og gaf það sem við innst inni þráðum. Og nú fagnar sál og mettast önd og augun líta undrin æðsta og mesta. Við höfum séð lífið, lífið sem rís af dauða. Lífið sem ummyndar ósigur, sorg og sár, einsemd og heljarnauðir allar. Við höfum séð Drottinn. Hann er upprisinn og hann er upprisan og lífið.
Lúk.24.13.-35