Matt. 6, 24-34
Þú, Guð, sem veist og gefur allt, mitt geð er hvikult, blint og valt og hugur snauður, hjartað kalt, þó vil ég vera þinn. Og þú ert ríkur, þitt er allt, og þú ert faðir minn. (Sbj. Ein.)
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Þetta er undarleg veröld.
Þetta eru undarlegir tímar.
Kannski eru þeir undarlegastir fyrir það, að hvaðeina sem fréttnæmt er talið í veröldinni er óðara komið á skjáinn heima í stofu hjá okkur og við höfum ekki við að taka við og trúa, - og gildir þá einu hvort um er að ræða fréttir af innlendum vettvangi eða alþjóðavettvangi.
Stundum gengur svo mikið á að manni detta í hug spádómar Jesú um hina síðustu tíma. Náttúruhamfarir sökum vatnavaxta skella á Evrópu, stór orð eru látin falla í Jóhannesarborg í orðræðu um verndun þessarar plánetur sem okkur hefur sameiginlega verið fengin til afnota með gögnum öllum og gæðum. Þjóðir sem eru að deyja úr ofáti og tryllast af ofneyslu standa í orðaskaki við þjóðir sem ekki geta brauðfætt þegna sína. Spurning dagsins er: Hvernig ætlum við að fara að því að sjá til þess að allir jarðarbúar sitji við sama borð? Vilja velsældarþjóðirnar auka eigin lífslíkur með því að falla frá kröfunni um ofgnótt svo snauðir geti aukið sínar lífslíkur með því að eignast málungi matar.
Inn um hitt eyrað berast fregnir af íslenskum kaupahéðnum sem hagnast um milljarða á hlutabréfasölu, - en um leið er okkur sagt að þessi milljarðagróði hafi í raun verið milljarðatap, vegna þess að unnt hefði verið að græða miklu meira ef tekist hefði að kaupa hlutabréf í stað þess að selja þau. Á sama tíma blasa við augum stórar fyrirsagnir með fréttum af niðurbrotnum mæðrum sem í örvæntingu ganga þung spor til fundar við Mæðrastyrksnefnd svo þær geti séð börnum sínum farborða, - og af bandaríkjaforseta sem reynir að safna liði stórveldanna til að geta hafið styrjöld gegn heimsskelfinum Sadan Hussein, - og af mönnum sem leggja eigið líf í hættu til að geta bjargað einum manni úr lífsháska.
Þetta er undarleg veröld.
Þetta eru undarlegir tímar.
Hvar á ég að skipa mér í flokk?
Eða skiptir ef til vill engu hvar ég stend?
Er veröldin hvort sem er leiksoppur afla sem lúta lögmálum sem vesalingur minn hefur ekkert með að gera.
Guðspjall dagsins er um að taka afstöðu.
Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annað hvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon.
Stöldrum aðeins við orðaskýringar áður en lengra er haldið. Þessar andstæður, að hata og elska, eru í arameisku, sem var tungumál Jesú, ekki jafngildar andstæðunum í okkar tungumáli. Síðara orðaparið skýrir þetta, þ.e. að þýðast og afrækja. Orðið mammon vísar ekki aðeins til fjármuna, heldur einnig til stöðu, valds, áhrifa, - alls þess sem einstaklingurinn á undir sér. Hér er augljós vísun í hið æðsta boðorð í lögmálinu í 5M 6. 4-5: Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; henn einn er Drottinn!
þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.
Þetta er boð um að gefa sig heilshugar Guði á vald og halda trúnað við hann, ... svo að þér vegni vel, eins og segir þar.
Hvar á ég að skipa mér í flokk? Hver er minn Guð? Hverjum og hverju þjóna ég af heilum huga og öllum mætti? Hver er minn mammon? Þjóna ég honum eða læt ég hann þjóna Guði. Hef ég gefið mig og mitt á vald þeim Guði sem segir: Þú skalt ekki aðra Guði hafa?
Hvar á ég að skipa mér í flokk?
Hvaða Guði ber líf mitt vitni?
Þú skalt elska, elska og þjóna.
Flokk þeirra sem slíkt iðka ber mér að fylla.
Orðræða Jesú í Fjallræðunni er víða býsna ydduð og afdráttarlaus. Ég hef áður rætt það af þessum prédikunarstól að menn hafa nálgast Fjallræðuna frá ólíkum sjónarhornum. Sjálfur kýs ég sjónarhorn þeirra sem álíta að Fjallræðan sé ekki lögmál heldur fagnaðarerindi. Það er að segja henni er beint til þeirra sem hafa bæði heyrt og meðtekið fagnaðarerindið um fyrirgefandi náð Guðs og elsku til barna sinna, - til þeirra sem hafa heyrt og skilið hvað í þessum einföldu orðum felst, sem jafnvel börnin geta skilið: Guð elskar þig. - Eða eins og postulinn sagði: Vér elskum af því að hann elskaði oss að fyrra bragði. Kveikja elskunnar er í hjarta Guðs, sú elska þarf að ylja upp kalt hjarta mitt og kveikja þar elsku sem spyr: Hvernig get ég borið þessari elsku hans vitni.
Að elska og þjóna. Það er orðapar sem víða kemur fyrir. Elska og þjóna. Mér sýnist Biblían ekki gera mikið með tilfinningar nema þær birtist í verkum. Að elska er að gefa sig á vald, þjóna.
Orðræðan sem fer á eftir versinu um að þjóna Guði fremur en mammon, er um að hafa ekki áhyggjur og er í raun undirstrikun á því sem er orðað síðast í guðspjalli dagsins: En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. - Eða eins og postulinn orðar það: Varpið allri áhygju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.
Það er athyglisvert, hvernig framhaldið er á boðorðinu mikla í 5. Mósebók og umhugsunarefni fyrir okkur nú, þegar barnastarf kirkjunnar er að hefjast að nýju af af fullum krafti: Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú ferð á fætur. Þú skalt binda þau til merkis um hönd þér og hafa þau sem minningarbönd milli augna þinna og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín.
Þetta er mögnuð uppeldisáætlun. Þetta er magnað lífsprógramm. Allt umhverfi hvunndagsins skal vera gegnsýrt orði Guðs og fyrirmælum. Samfélagið allt skal endurspegla Guðs góða vilja.
Í hverju spegla börnin okkar sig. Hvað endurspeglar heimilislíf okkar? Hvað endurspeglar íslenskt samfélag?
- Af því læra börnin sem fyrir þeim er haft? Hvað er haft fyrir börnunum okkar, heima, á götum úti, í fjölmiðlum, í skólum, í viðskiptalífinu, í stjórnmálunum?
Lifum við í þjóðfélagi hinnar taumlausu kröfu sem engu eirir, hinni miskunnarlausu kröfu sem neitar að taka þig gildan nema þú sannir þig. Kröfunni sem nærir sjálfhverfan hugsunarhátt einstaklingsins og knýr hann til að ydda olnbogana til að geta troðist lengra, hærra. Kröfunni sem byrgir sýn til náungans sem ekki stenst öðrum snúning í dansinum í kringum gullkálfinn. Hve margir á meðal okkar kikna undan þessari kröfu mammonsdýrkunarinnar?
Kirkjan er send með önnur boð, aðra speglun.
Yfirmarkmið barna- og unglingastarfs Hallgrímskirkju, orðuð af æskulýðsleiðtoganum okkar, eru einföld: Guð elskar þig. Þú skiptir máli. Í þessum skilaboðum viljum við að börnin og unglingarnir spegli sig í þessu húsi, þetta viljum við að þau lesi úr hverju andliti sem þau mæta hér og því sem þau heyra hér. Það er kirkjan, söfnuður Guðs, sem send er með þessi boð, þessa speglun.
Áminningunni um að ekki sé hægt að þjóna tveimur herrum og boðinu um að elska Guð er fylgt eftir með þeim skilaboðum sem lesin voru áðan úr spádómsbók Jesaja: Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Sjá ég hef rist þig í lófa mína. -
Vér elskum af því að hann elskaði oss að fyrra bragði.
Kirkjan er send með boð. Hún þarf að brýna raustina til að þau boð heyrist. Þeim boðum er ætlað að kalla mammonsdýrkendur til að lúta Guði og kærleika hans. Henni er ætlað að koma þeim boðum til hinna áhyggjufullu og vonlitlu: Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér ekki. Sjá ég hef rist þig í lófa mína.
Enginn getur þjónað tveimur herrum.
Hvar hef ég skipað mér í flokk?
Hvaða skilaboð ber ég með mér þar sem ég ferðast í hvunndeginum?
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, amen.
Sigurður Pálsson (sigpal@hallgrimskirkja.is) er sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Þessi prédikun var flutt þar á 15. sunnudegi eftir Þrenningarhátíð, 8. september 2002.