Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum.Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki? Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé? Þeir gátu engu svarað þessu.
Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér.
Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða. Lk. 14.1-11
Bæn.
Heilagi faðir, helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Á minningarhátíð um Brynjólf biskup þegar guðspjallið segir: Set þig ekki í hefðarsæti, er vandasamt að standa í predikunarstól úr kirkju Brynjólfs. Það er harla lítil huggun að vita að hann stóð hér ekki sjálfur, því að hann lifði það ekki að sjá þennan stól. En þetta timbur strauk Jón Vídalín, sem næst kemst því að kallast gullinmunnur meðal íslenskra kennimanna.
Kannski segir það okkur eitthvað um Brynjólf hvernig Jón var, rétt eins og Hallgrímur Pétursson og verk hans segja okkur sitthvað um Brynjólf.
Vígslubiskupinn hér í Skálholti, Sigurður Sigurðarson, sem í dag predikar í Pokothéraði í Afríku en ekki héðan frá þessum stól, (sem innan sviga, er tímanna tákn), hann sagðist myndu hafa nefnt það hér að ekki væri hægt að hugsa sér Hallgrím án Brynjólfs, þegar litið væri til ljóðlistar hans, og góð dæmi væru um í prentaðri dagskrá þessarar messu, og samanburði við það kveðskaparlag sem við sjáum annarsvegar á þeim sálmum sem hér eru sungnir í dag og hinsvegar á því sem við þekkjum frá hendi Hallgríms.
Með vissum hætti má segja hliðstætt um predikarann Jón Vídalín og verk hans.
Kveðskapur Brynjólfs og fræðimennska hans, þekking hans á grískri tungu og útlegging Nýja Testamentisins, lögðu grunn að mótun og kennslu þeirra sem á eftir komu og skilaði miklu til þeirra sem það kunnu að nota sér. Af því öllu megum við enn læra þótt aldir skilji á milli.
Hér verður ekki reynt að endurvekja predikunarstíl Brynjólfs biskups eða samferðamanna hans, heldur reynt að halda sig við hina klassisku predikunarfræði í anda hans, þar sem virðing er borðin fyrir textanum og einkum frumtextanum, og inntak hans borið á borð fyrir þiggendur í hópi kirkjugesta til að hugleiða og taka með heim.
Guðspjallið í dag er í raun tvær sjálfstæðar litlar frásögur, sem Lúkas, guðspjallamaðurinn, fellir saman í eitt vegna hins ytra tilefnis, sem er samtal við veisluborð. Jesús ræðir við fræðimenn og farisea og þarf að verjast þeim. Venja hefur verið á síðari árum að taka einungis aðra frásöguna fyrir í einu, enda gerir það alveg nógu langa predikun. En það var ekki gert á dögum Brynjólfs, enda ætlast til þess að predikunin væri ekki of stutt. Þó ekki mikið yfir eina klukkustund.
Og áður en að það fer meiri hrollur um kirkjugesti en þegar er kominn, er rétt að nefna að þrátt fyrir þá virðingu sem predikarinn ber fyrir Brynjólfi biskupi verður predikun þessa dags einungis tæpur fjórðungur þess sem til var ætlast áður.
Hinsvegar er rétt að ganga ekki fram hjá því að þetta eru tvær frásögur og vísa til þeirra beggja, ekki síst vegna þess að þær eru ólíkar en eiga báðar brýnt erindi.
Það fyrsta sem við rekum augun í er það sem sagt er um Jesú Krist í upphafi guðspjallsins. Hann hafði greinilega ekki minnstu áhyggjur af því að með því að þiggja umrætt matarboð var hann í vissum skilningi að fara í munnlegt próf hjá hinum skriftlærðu.
Þeir höfðu gætur á honum, segir Lúkas. Og þeir stilla upp spurningunni um hvíldardaginn. Þeir gera það mjög bókstaflega, því að þeir hafa líka skaffað til sjúkling sem gengur fram fyrir Jesú og mænir á hann vonaraugum. En það er samt Jesús sem ber upp spurninguna og þeir svara engu.
Hvíldardagsboðið var auðvitað eitt af því sem farisear lögðu mikið upp úr og umfram það sem við höfum lært. Þar sem segir: Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
Eiginlega innan sviga má vel hugsa um það hvað það þýðir á mörgum heimilum, sérstaklega meðal karlmanna: Þú skalt helst ekki gera neitt gagnlegt, þú skalt horfa á fótbolta og drekka bjór, en ef þú nennir máttu grilla.
En við höfum fram undir þetta talið að til þess að halda eitthvað heilagt yrði maður að nema staðar frammi fyrir hinu heilaga, af því að það er fætt af honum sem sjálfur er heilagur, hinn heilagi Guð. Og að þetta andartak fyrir Guðs heilaga augliti væri helgun hvíldardagsins.
Að skilningi fariseanna var sérhvert brot á hvíldardagshelginni brot gegn Guði sjálfum. Að þeirra skilningi var allt sem kalla mátti vinnu, brot á helginni. Þeir mældu t.d. út hversu mörg skref þú máttir ganga án þess að það væri vinna.
Og þeir leggja fyrir Jesú, eins og gildru, spurninguna um það hvort lækna megi á hvíldardegi í mynd hins sjúka manns. Þetta hljómar svolítið einkennilega í nútímanum, og er augljóslega ekki spurning sem kemur úr heilbrigðisgeiranum. Þar er frekar spurt: Má ég lækna í yfirvinnu? Eða þarf ég að fara frá sjúklingnum þegar dagvinnu lýkur? Samanber umræður um laun lækna á landsbyggðinni fyrr á þessu ári. Datt annars nokkrum í hug að það gæti verið skelfilegt vinnuálag á þessu fólki, til dæmis á vinum okkar hér niðri í Laugarási?, fyrst hér er á annað borð farið að tala innan sviga.
Jesús getur ekki sagt nei við þessari spurningu, vegna þess að það er í andstöðu við erindi hans og starf hans meðal sjúkra og þurfandi, og hann getur ekki heldur sagt já, því að það er brot gegn lögnmálinu.
Hann sagði því ekki neitt. Þeir sem hann spurði gerða það ekki heldur. En hann læknaði manninn. Hann gerði það eiginlega á grundvelli einskonar neyðarréttar.
Og það má vera alveg víst að bændafólkið sem hér hlustaði á Herra Brynjólf á sínum tíma hefur skilið það vel, þegar hann hefur talað um það hvernig maður bregst við þegar maður missir skepnu ofaní. Þá er auðvitað engin leið að velta fyrir sér hvaða dagur er. Þetta er eitthvað sem maður verður að bjarga. Kannski er þetta sjálf lífsafkoman ,eina kýrin á bænum, eða eitthvað þessháttar.
Og reyndar voru á þessum tíma Brynjólfs þau lög í landi að ekki mætti veiða á sunnudegi til dæmis, og vertíð mátti ekki byrja á sunnudegi. Ef vertíðarbyrjun sem er 4.febrúar, bar uppá sunnudag þá færðist vertíðarbyrjun til. En ef það fór nú samt svo að menn fóru á sjó, af því að það var svo gríðarlega gott í sjóinn, þá átti skipshöfnin að leggja til þurfandi manna af aflanum. Betur að svo væri enn!
Þetta var sem sagt ekki alveg óþekkt.
Nú er allt annar vandi í samfélaginu. Nefnilega sú hætta að týna hvíldardeginum alveg. Og leggja einmitt ekki niður vinnu á hvíldardeginum, og hafa kannski engan. Nágranni minn sem vinnur í Nóatúni segir: Hvenær á ég að vera með fólkinu mínu ef engin helgi er eftir og allt eru vinnudagar. Hvar eru eiginlega hátíðistdagarnir?
Svar Krists við spurningu um hvíldardaginn snýr að þeirri hræsni sem felst í því að neita að lækna sjúkan mann vegna þess að það er hvíldardagur, en vera tilbúin til brjóta hvíldardagshelgina til að bjarga eigin verðmætum.
Í einföldustu mynd er þetta spurning um eignir eða ástvini.
Meðan ég beið á nýju ljósunum við enda Snorrabrautar og horfði á mennina sem voru að vinna rifjaðist upp setning frá Þýskalandi:
Við fluttum inn vinnuafl, en fengum fólk.Erum við íslendingar að hugsa eitthvað sérstakt í þeim efnum?
Síðari frásagan er mörgum vel kunn - eða efni hennar. Og sjálfsagt hefur hún stundum verið notuð til þess að reyna að hafa hemil á framagirni þeirra sem trana sér fram umfram eigin getu eða styrk í mannlegum samskiptum. En í nútímanum gildir þetta nú eiginlega ekki lengur.
Þegar þessi messa hófst var kjörstöðum lokað í Þýskalandi, og nú er væntanlega búið að kynna það hvaða fólk hafi unnið kosningarnar.
Kosningabarátta, hvers kyns sem hún er, tekur ekki mið af guðspjallinu. Þar er mottóið miklu frekar: Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.
Þú skalt einmitt alls ekki bíða eftir því að einhver segi við þig: Vinur flyt þig hærra upp, heldur skaltu sannfæra kjósendur um að einmitt þú eigir að vera efst.
Kæri söfnuður, það er alveg víst að guðspjallið fjallar ekki um kosningabaráttu og hefur enga skoðun á því hvort Angela Merkel á að verða kanslari eða ekki, það snýst ekki einu sinni um Gísla Martein eða Vilhjálm Þ. Og það snýst ekki heldur um aðferð við framgang í Háskólasamfélaginu.
Það snýst um mannleg samskipti og það snýst um sameiginleg boð.
Vandinn er sá þegar við í okkar mannlegu samskiptum hegðum okkur ekki í samræmi við hógværð guðspjallsins, heldur í samræmi við kosningabaráttu hinna framagjörnu, og teljum að við eigum einnig þar í veislum gestgjafanna, eða jafnvel á eigin heimili að koma okkur á framfæri, í fullvissu þess að húsráðendur eða ættingjar munu í kurteisi sinni ekki vísa okkur neðar þegar við erum sest við háborðið, þó að það sé eingöngu á grundvelli frekju og yfirgangs.
Það getur vel verið að Herra Brynjólfur hafi hér vísað til þess að Kristur hafi séð háborðið í himnesku ljósi og að hér væri rætt um hina himnesku kvöldmáltíð. Það er ágæt leið, og algeng, ekki síst vegna þess að hún á sér endurspeglun hér á jörðu, sem við getum nú þegar notað og gripið til í eigin lífi.
Því að í beinu framhaldi þar af er okkur hollt að hugsa um okkur sjálf í samhengi við það líf sem við lifum og það fólk sem við elskum.
Við þurfum að læra hvenær við stígum fram fyrir annan honum eða henni til varnar, og hvenær við stöndum fyrir aftan, til hvatningar og til stuðnings.
Það er eiginlega besta leiðin til þess að vera ekki að upphefja sjálfan sig hvorki í orðum né gjörðum. Guð forði því að við lendum í því.
Það er svo gríðarlega leiðinlegt fólk sem lætur þannig.
Og, það er ekki sæmandi þeim sem vilja eiga heima í félagsskap Jesú sjálfs. Bíddu bara. Ef líf þitt er í innra samhljómi kemur að að því að við þig verður sagt: Flyt þig hærra upp!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.