Þann 3. janúar síðastliðinn birtist í Fréttablaðinu greinin Jesús var líklega til. Þar staðhæfir stærfræðingurinn Pawel Bartoszek að út frá sagnfræðilegu sjónarhorni sé lítið annað hægt að vita um Jesú frá Nasaret en að hann hafi „líklega" verið til. Ekkert liggur þeirri staðhæfingu til grundvallar annað en frekari staðhæfingar um meintan skort á sögukegum heimildum um persónu og líf Jesú. Engar heimildir séu til um Jesú frá hendi þeirra sem þekktu hann. Ennfremur séu samtímaheimildir utan Nýja testamentisins undarlega hljóðar um Jesú. Þá hafi þær litlu heimildir sem þó eru til misst gildi sitt í meðförum kirkjunnar sem einkum vildi varðveita eigin útgáfu af lífi og dauða Jesú og því haldið sumu til haga en hent öðru.
Í ljósi þeirrar sögulegu efahyggju sem höfundur talar fyrir vekur athygli hversu vel hann treystir sér til að fella sögulega dóma um kristna trú. Hvað sem því líður er algengt að heyra guðleysingja staðhæfa með þessum hætti. Ekki er jafnalgengt að slíkum málflutningi fylgi ígrunduð og haldbær rök og er umrædd grein ekki undantekning.
Í því ljósi er vert að minnast á nokkur atriði sem rétt er að hafa í huga - enda þótt mörgu öðru mætti bæta við.
Tíu heiðnir höfundar minnast á Jesú innan við 150 árum eftir dauða hans. Það er ekki lítið og í raun ríkulegri vitnisburður en aðrar þekktar persónur sögunnar státa af. Engir þessara höfunda voru sérstaklega hliðhollir kristinni trú og ýmsir hverjir beinlínis fjandsamlegir í hennar garð. Á meðal þessara höfunda eru sagnaritaranir Jósefus, Tacítus og Seutóníus, sem uppi voru á fyrstu öld. Hvað sem annað má um þær segja leiða þessar heimildir í ljós sögu sem samsvarar vel þeirri sem birtist í Nýja testamentinu: Á dögum Tíberíusar keisara var uppi gyðingur að nafni Jesús. Hann var kennari sem þótti gera undraverða hluti. Hann var krossfestur á tímum Pontíusar Pílatusar og átti sér fylgjendur eftir dauða sinn. Um þetta er ekki deilt. Eingöngu á grundvelli þessara heimilda vitum við meira um Jesú en flesta aðra frá fornöld.
Þá ber að hafa hugfast að þegar Nýja testamentið var ritað var kirkjan ekki komin til sögunnar sem skipulögð stofnun. Þvert á móti var hún fámennur, ólöglegur, valdalaus og ofsóttur hópur fólks. Það sem við þekkjum sem Nýja testamentið er í raun safn sjálfstæðra heimilda frá fyrstu áratugunum eftir dauða Jesú. Sem ritsafn verður Nýja testamentið endanlega til á 4. öldinni.
Rit Nýja testamentisins eru ennfremur einstök að mörgu leyti. Engin rit fornaldar eru til í jafnmörgum handritum (mörgum þúsundum) eða jafngömlum. Af því vitum við að ritin hafa varðveist svo að segja óbreytt fram á okkar daga. Þá eru rit Nýja testamentisins einstök með tilliti til þess hversu ótrúlega nálægt þau liggja í tíma þeim atburðum sem þau greina frá. Í því samhengi má minna á að Arrían og Plútarch rita ævisögur sínar um Alexander mikla 400 árum eftir dauða Alexanders. Þrátt fyrir það eru þær álitnar áreiðanlegar heimildir. Ólíkt þessu eru elstu varðveittu bréf Páls postula rituð aðeins 15-20 árum eftir dauða Jesú. Hafa ber í huga að Páll byggir á enn eldri heimildum. Það sama á við um guðspjöllin. Þau eru rituð á fyrstu áratugunum eftir dauða Jesú og byggja á heimildum sem liggja mjög nærri atburðunum sjálfum, aðeins örfáum árum að sumra mati. Af þessu má sjá að staðhæfingar um goðsöguleg áhrif eru fræðilega óábyrgar. Klassískir sagnfræðingar (t.d. A.N. Sherwin-White) hafa sýnt fram á að það var einfaldlega ekki nægur tími til að goðsöguleg áhrif skyggðu á kjarna þeirra sögulegu atburða sem guðspjöllin greina frá.
Þetta má líka merkja á þeirri staðreynd að rit Nýja testamentisins greina frá persónum og stöðum sem eiga sér raunverulega sögulega stoð, eins og sjá má af heimildum utan Nýja testamentisins og fornleifarannsóknum. Lúkasarguðspjall er gott dæmi. Sú frásögn er afrakstur beinnar sögulegrar rannsóknar guðspjallamannsins á lífi og starfi Jesú, sem fól m.a. í sér samtöl við sjónarvotta og þá sem þekktu til ævi og sögu Jesú (sbr. Lúk 1.1-4). Frásögn Lúkasarguðspjalls skarast jafnframt mjög við veraldlega sögu síns tíma. Rannsóknir hafa sýnt að þegar svo ber við er Lúkasarguðspjall mjög áreiðanlegt í sögulegu tilliti.
Raunin er sú að ef sögulegt gildi guðspjallanna og annarra rita Nýja testamentisins er véfengt verður að véfengja alla þekkingu okkar á sögu hins grísk-rómverska heims.
Þrátt fyrir þetta minna ýmsir á að Nýja testamentið var ritað af kristnu fólki sem vart hafi verið hlutlaust. Gildi þess sé því lítið. Jú, vissulega voru ritin skrifuð af kristnu fólki. Mikilvægari spurning er þó hvers vegna það snérist til kristinnar trúar. Burtséð frá því þarf að hafa í huga að öll rit eru skrifuð af ástæðu. Rit Nýja testamentisins eru ekki undantekning frekar en aðrar sögulegar heimildir. En það gerir þau ekki sjálfkrafa að staðleysum. Vitanlega voru höfundar Nýja testamentisins ekki hlutlausir, ekkert frekar en þeir guðleysingjar sem gagnrýna þá allt fram á þennan dag. En fólk getur haldið staðreyndum til haga þó það sé ekki hlutlaust með tilliti til þeirra. Vitnisburður þeirra sem upplifðu helförina er sannarlega ekki hlutlaus. Þeir sem reyndu hana á eigin skinni voru ekki hlutlausir áhorfendur. En það rýrir ekki vitnisburð þeirra. Þvert á móti.
Í raun má segja að kristið fólk átti öðru fremur mikið undir því að staðreyndum um líf og starf Jesú væri haldið réttilega til haga. Og hvers vegna hefðu höfundarnir átt að ljúga? Engin ábyrgur sagnfræðingur telur að Nýja testamentisins sé helber lygasaga eða samsæriskenning. Þó má spyrja af hverju þetta alþýðufólk hefði spunnið upp lygasögu frammi fyrir fjandsamlegum valdhöfum gyðinga og rómverja? Af hverju hefðu fylgjendur Jesú yfirgefið öryggi eigin trúar og hefðar? Fyrir upphefð, áhrif og völd? Nei, þeir uppskáru hið gagnstæða - misskilning, höfnun, ofsóknir, harðræði og dauða. Eitthvað alveg sérstakt hefur þurft til.
Því neita þó margir og benda á kraftaverkin. Þau geta ekki hafa átt sér stað. En slík staðhæfing er ekki söguleg í eðli sínu heldur heimspekileg. Jafnvel efafyllstu sagnfræðingar og fræðimenn hafna því ekki að hinn sögulegi Jesús hafi gert kraftaverk, þ.e. hafi gert það sem í hans augum og annarra var af yfirnáttúrulegum toga. Öðru verður aðeins haldið fram á grundvelli náttúruhyggju, þ.e. guðlausrar heimsskoðunar. En slíkt viðhorf þarfnast réttlætingar við. Kraftverk verða ekki útilokuð nema með því að útiloka tilvist Guðs. Í ljósi þeirra skynsamlegu raka sem liggja tilvist Guðs til grundvallar er óréttlætanlegt að útiloka möguleika kraftaverka Jesú og því fyllsta ástæða til að hafa opinn huga gagnvart þeim.
Í ljósi þess hversu vel vitnisburður sögunnar styður kristna trú liggur sú sannfæring sem þarf til að fylla í eyðurnar innan mjög svo skynsamlegra marka.
* * * *
Pistilinn er einnig að finna á bloggsíðu höfundar.