I Save!

I Save!

Dómur er fallinn yfir Íslenskri þjóð, dómur með sekt og þungum skilmálum. Við erum dofin yfir öllum þessum ósköpum og furðum okkur á að við skyldum lenda í þessum brotsjó. Og enginn kannast við að vera sekur! Hvar eru þeir sem bera ábyrgð á klúðrinu?
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
25. ágúst 2009
Flokkar

Ég var úti á göngu um daginn, nánar tiltekið vestast á Seltjarnarnesi. Þá blasti við mér óvenjuleg sjón. Í suddanum við sjóndeildarhringinn birtist stórt seglskip, fullreiðaskip, en svo nefnast stór skip með fjórum möstrum. Eitt andartak fannst mér ég vera kominn aftur í aldir og hugsaði með mér: Hvernig leið landsmönnum þegar slíkt ferlíki sigldi inn flóann forðum? Er komið erlent herskip til að taka hér yfir? Er Jörundur mættur? Eru Tyrkir á ferð? Eða er þetta kóngsins magt, mætt til að hirta þjóðina? Er komið að skuldadögum, uppgjöri? Er dómur fallinn? Gamaldags hugsun? Já, ég skal viðurkenna það. En margt sem við köllum gamaldags á fullt erindi við okkur. Gömul gildi, gamlar líkingar, fornar dyggðir, eilíf gildi.

Dómur er fallinn yfir Íslenskri þjóð, dómur með sekt og þungum skilmálum. Við erum dofin yfir öllum þessum ósköpum og furðum okkur á að við skyldum lenda í þessum brotsjó. Og enginn kannast við að vera sekur! Hvar eru þeir sem bera ábyrgð á klúðrinu?

Kristur talaði oft um ráðsmenn og á einum stað sagði hann: „Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“ Ráðmaður heitir á grísku oikonomos en náskylt því er hugtakið ökonomi sem við köllum hagfræði á íslensku. Nú eru hagfræðingar einskonar æðstu prestar samfélagsins. Þeir túlka það og skilgreina. Þeir eru líklega sérfræðingar í ráðsmennsku. Ráðsmaður er sá sem sér haganleg um hluti, ræður yfir eigum annarra, fer með hlut annars aðila og á að skila honum jöfnum ef ekki í betra ásigkomulagi en þegar hann tók við hlutnum. Ráðherra er annað íslenskt orð sem hefur í raun sömu merkingu. Ráðherra er sá sem ræður yfir hlut annarra, fer með umboð, gætir hagsmuna, geymir það sem aðrir eiga, vakir yfir því og verndar.

Hér á landi hefur sótt á gróðureyðing í aldingarði gildanna. Þess sjást víða merki. Við höfum rekið okkur harkalega á í ráðsmennskunni. Komið er að skuldadögum. Hvaða lærdóm munum við draga af þessari reynslu? Munum við viðurkenna að okkur hefur borið af leið? Munum við skilja að agaleysi mun alltaf leiða til ófarnaðar? Munum við átta okkur á að taumleysi á hvaða sviði sem er verður alltaf gandreið til glötunar?

Skip sást við sjóndeildarhring. Margskonar skip fara um heimsins höf í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Icesave-skipið er komið að ströndum landsins og mikils er krafist. En til er annað skip. Til er „I-Save-skipið“, skipið hans sem segir: Ég frelsa! I Save! Kirkjunni er oft líkt við skip, gott skip og öruggt, friðarfley. Kirkjusalurinn er gjarnan kallaður kirkjuskip. Kirkjan siglir um heimshöfin og kallar fólk um borð, um að vinna eftir reglum og lífsgildum. Í þeim efnum gildir það sama og í öllum íþróttum. Í kappleikjum eru gjarnan reglur og markalínur og í sumum tilfellum línuverðir og meira að segja dómari til að leikurinn fari rétt fram. Á nýliðnum árum létu sumir sem línurnar væru ekki lengur til staðar, héldu að dómarinn væri farinn, búinn að kasta flautunni og farinn í sturtu. Því miður. Og þjóðin þagði að mestu. Aðeins örfáir vöruðu við þessu feigðarflani.

Kirkjan boðar í senn fagnaðarerindi og lögmál, elsku og aga, kærleika og kerfi, lífsgleði og lífsreglur, frelsi og ábyrgð. Allt líf þarfnast aðhalds. Gömul gildi og sígild.Nú er tími afturhvarfs, tími til að snúa við og hverfa aftur til hinna fornu og góðu gilda. Með þau að leiðarljósi mun okkur takast að komast út úr kreppunni og ekki síst sálarkreppunni sem þjóðin er í og er miklu skæðari en efnahagslægðin sem við erum í um þessar mundir.

I-Save-skipið er sjóklárt fyrir veturinn!

---

Pistillinn birtist í Vesturbæjarblaðinu í ágúst 2009.