Ég hef svolítið verið að hugsa það í hinni árlegu upplífgandi og þroskuðu umræðu um hvort fermingarbörn fermist ekki bara út af gjöfunum, hvort það sé ekki að vissu leyti bara ágætt. Nú kippast eflaust einhverjir við hér á bekkjunum, en veltum þessu aðeins fyrir okkur gott fólk. Væri það ekki bara á vissan hátt áhyggjuefni ef 14 ára unglingur gengi hér upp að altarinu í óslökkvandi trúarþorsta alls ómeðvitaður um þann veraldlega gróða sem biði hans í umslögum og sellófóni heima í stofu. Myndi það ekki í raun segja okkur að viðkomandi unglingur væri orðinn lífsreyndari en þörf er á, á stuttri ævi. Nú megið þið krakkar ekki taka orðum mínum sem svo að það sé í lagi að líta á ferminguna sem gróðafyrirtæki og fræðsluna í vetur sem dulbúna inneignarnótu í BT því það var svo sannarlega ekki tilgangurinn, er ekki samt í lagi að velta fyrir sér eðli unglingsáranna og viðurkenna þau eins og þau eru, er ekki bara allt í lagi að vera pínulítið sjálfhverfur þegar maður er fjórtán og hafa áhyggjur af útliti og vinsældum, lifa sig inn í Gossip girl þættina og láta sig dreyma um Justin Bieber, er það ekki einmitt það sem við vonum að séu stærstu áhyggjuefni 14 ára unglings? Ekki viljum við að þau gangi þjökuð af áhyggjum um götur bæjarins yfir ríkisstjórnarsamstarfi, neikvæðum loftslagsbreytingum og bráðnun jökla, við viljum heldur ekki gera þau að ráðgjöfum í okkar hjónabandi eða gera fjárhagsáhyggjur okkar að þeirra, við viljum ekki að þau séu blórabögglar í vondum samskiptum ákveðinna fjölskyldumeðlima og þaðan af síður að þau beri alla ábyrgð á yngri systkinum. Það er nefnilega þannig að þegar maður er 14 ára þá á maður bara að vera 14 ára, einfaldlega af því að maður er það bara einu sinni og maður verður það aldrei aftur, og það getur verið svo ótrúlega skemmtilegt, þ.e.a.s ef fullorðna fólkið rænir því ekki frá manni. Þess vegna er líka allt í lagi að vera ekki eins og páfinn þegar maður gengur hér upp að altarinu, reiðubúinn að fórna öllu fyrir samfygldina við Krist, ef 14 ára unglingi líður nákvæmlega þannig þá eru allar líkur á að hann beri of mikla ábyrgð í lífinu og sé orðin fullorðinn fyrir aldur fram.
Ég er sjálf alin upp af presti en þegar ég fermdist gat ég vart beðið eftir að komast heim og rífa upp allt skartið sem ég var búin að óska mér og bjútíboxið sem var heitasta gjöfin þarna rétt fyrir siðbreytingu, þegar ég var á aldur við ykkur. Eina sem ég man úr athöfninni var að pabbi varð eitthvað viðkvæmur og felldi tár þegar kom að mér að fermast og mér fannst það pínulítið vandræðalegt, nú skil ég það svo vel að ég get farið að gráta við tilhugsunina eina, hann var sko kominn á sextugsaldur að ferma yngsta barnið sitt og auðvitað var hann bara brjálæðislega þakklátur fyrir að fá yfirhöfuð að lifa það, svo liðu ekki nema 6 ár og þá var heilsan endanlega tekin frá honum. Og nú veit ég að allir foreldrarnir hér inni skilja mig en þið eigið ekkert endilega að þurfa skilja þessa tilfinningu krakkar af því að þið eruð bara fjórtán og þið eigið að njóta þess. En af hverju er þá verið að ferma ykkur núna af hverju ekki þegar þið eruð orðin eldri og búin að uppgötva að útlit og vinsældir eru algjörlega ofmetið fyrirbæri og lífið er flóknara en í Gossip girl? Jú vegna þess að þegar maður er orðinn fullorðin og fer að hafa ýmsar áhyggjur og lífið fer að verða flóknara en alls ekki leiðinlegra, þá leitar maður aftur í það sem manni var gefið í æsku og það stendur með manni eins og þykkur hafragrautur og volgt lýsi . Það er fjársjóðurinn sem Jesús var tala um í guðspjallinu sem ég las hér áðan, það er fjársjóður himinsins og himininn getur verið hjarta ykkar, sem hvorki mölur, ryð, aldur, áhyggjur, skortur á peningum né veikindi geta rænt ykkur. Það að þið hafið kynnst Jesú í vetur þýðir að þið þekkið hann alla tíð og það er tilgangurinn vetrarins og þessarar athafnar, þannig að einhvern tímann þegar þið eruð orðinn eldri og uppgötvið að lífið er margslungið og flókið þá vitið þið hvert þið getið leitað eftir ráðum, dáðum og óþrjótandi elsku, af því að Jesús elskar ykkur alltaf eins og þið eruð. Í dag horfir Jesús á ykkur líkt og ástvinir ykkar sem sitja hér í kirkjunni og honum er alveg sama þó að þið séuð pínulítið með hugann við veisluna, af því að hann gerir ekki meiri kröfur til ykkar nú en þær að þið séuð góð við allt fólk og farið vel með líkama ykkar og sál og hann horfir á ykkur, bara þakklátur fyrir að þið skulið vera hér á lífi og að þið skulið vera að eignast þennan fjársjóð sem lifir allar gjafirnar sem þið annars fáið í dag. Þetta er ekkert flókið krakkar þið eruð fjórtán og við fullorðna fólkið elskum ykkur eins og þið eruð. Amen