Biblíudagurinn er að venju haldinn 2. sunnudag í níuviknaföstu, sem í ár er 12. febrúar. Þá er sérstaklega minnt á Hið íslenska Biblíufélag og leitað eftir fjárstuðningi við starf þess. Hið íslenska Biblíufélag er elsta starfandi félag á landinu, stofnað 10. júlí 1815. Markmið þess er að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar. Félagið er opið öllu kristnu fólki úr öllum kristnum trúfélögum og kirkjum. Nú eru um þúsund skráðir félagsmenn af öllu landinu. Auk þess er fjöldi einstaklinga og félaga sem styður fjáraflanir til einstaka verkefna félagsins sérstaklega við þýðingu og útbreiðslu Biblíunnar í fjarlægum löndum. Það vil ég þakka sérstaklega.
Undirbúningsnefnd hefur verið að störfum til að leggja á ráðin um það hvernig minnast skuli 200 ára afmælis Biblíufélagsins árið 2015 og kallað verður eftir hugmyndum félagsmanna og annarra þeirra sem vilja leggja félaginu lið.
Þegar hefur verið ákveðið að setja á laggirnar sérstakan Afmælissjóð Bibliufélagsins til að standa fyrir atburðum í tilefni tímamótanna. Verður leitað til almennings, safnaða og fyrirtækja um stuðning við þetta verkefni.
Aðalfundur Hins íslenska biblíufélags verður haldinn í Lindakirkju i Kópavogi, sunnudaginn, 12. febrúar n.k. að lokinni guðsþjónustu sem hefst kl. 14.
Guðs orð er ljós sem lýsir í lífsins dimmu hér, og ljúfur leiðarvísir það lífs á vegum er.... (Vald. Briem)