Í pistli sem birtist í Mbl. 7. des. s.l. ásakar Árni Matthíasson þjóðkirkjuna og raunar einnig einn heitasta andstæðing hennar nú um stundir, samtökin Vantrú, um að ástunda „pilsfaldamannréttindi“. Með því á hann við að þjóðkirkjan sé bara sátt við þau mannréttindaákvæði sem hún þarf ekki að gangast undir sjálf enda vísar orðnotkunin til pilsfaldakapítalismans alþekkta.
Eiga trúarbrögð og umburlarlyndi samleið? Árni Matthíasson gengur út frá því sem grundvallarforsendu að trúarbörgð og umburðarlyndi eigi sjaldnast samleið enda segir hann „það eðli þeirra sem höndlað hafa sannleikann að líta hornauga þá sem ekki sjá heiminn sömu augum...“ Þetta er einhliða lýsing á trúarbrögðum. Í þeim felst ekki óhjákvæmilega sannfæring um að sá eða sú sem þau aðhyllist hafi höndlað allan sannleikann þó sumir trúmenn líti vissulega svo á. Trú og trúarbrögð geta allt eins falist í heiðarlegri leit, opnum huga, áleitnum grun eða tilfinningu fyrir að til sé veruleiki sem sé dýpri og breiðari en við getum mælt eða vegið, skilið eða skynjað, einfaldlega virðing fyrir lífinu og leyndardómum þess. Margt einlægt trúfólk er sér meðvitað um að sannleikurinn verði ekki höndlaður eða tjáður til nokkurra hlítar af mannshuganum. Slík trúarafstaða felur í sér auðmýkt og virðingu fyrir allri heiðarlegri sannleiksleit. Kristin trú á uppruna sinn í slíkri afstöðu. Kristur setti boðskap sinn ekki fram í óhrekjanlegum kennisetningum heldur dæmisögum og líkingum m.a. um liljur vallarins og fugla himinsins. Árni Matthíasson getur ekki afskrifað þessa vídd trúarbragðanna sem er enn til staðar þrátt fyrir að breyskir menn hafi stundum tekið þau í gíslingu og telji sig hafa höndlað allan sannleikann. Sjálfur bendir hann enda réttilega á að þessi algilda sannleikskrafa sé ekkert séreinkenni á trúfólki heldur geti hún allt eins einkennt andstæðinga þess. — Þröngsýni og dómharka er líklega í sjálfu sér ekkert algengari á vettvangi trúarbragða en t.d. í pólitík. Ætli ekki sé um sammannlegan veikleika að ræða?
Syndajátning Hér skal ekki gerð tilraun til að hvítþvo kristna kirkju af gyðingahatri, kvenfyrirlitningu og fordómum gegn samkynhneigðum en Árni Matthíasson telur trúna uppsprettu alls þessa. Sem kirkjunnar maður er ég tilbúinn að játa að trúarhefð mín hefur illu heilli bæði fyrr og síðar gert sig seka um villu af þessu tagi. Frammi fyrir þeirri staðreynd er að aðeins hægt að biðja: Drottinn miskunna þú oss! Það er þó sögufölsun að að skrifa „hroðalegt hámark“ gyðingahaturs „um miðja síðustu öld“, sem sé sjálfa Helförina, á kostnað kirkju eða kristni eins og lesa má út úr pistli Árna. Nasisminn var ekki kristin trúarvakning heldur fráfall frá kristni þótt hluti þýsku kirkjunnar, Deutsche Christen, dansaði vissulega með. Kirkjan í Þýskalandi klofnaði á nasistatímanum og Játningakirkjan svonefnda sem tók afstöðu gegn helstefnunni naut viðurkenningar alls meginstraums kirkjunnar í Evrópu sem betur fer. — Þó má vissulega því miður víða finna kirkjumenn sem voru hliðhollir nasismanum rétt eins og hægrisinnaðir stjórnmálamenn víða um lönd m.a. hér. Sé vikið að málefnum samkynhneigðra má geta þess að íslenska þjóðkirkjan var með fyrstu trúfélögum heims til að viðurkenna rétt þeirra til kirkjulegrar hjónavígslu. Fyrir það á hún hugsanlega engan sérstakan heiður skilinn en má þó njóta sannmælis. Því miður á þjóðkirkjan langt í land með að ná jafnréttismarkmiðum sínum. Það er sérstakt umhugsunarefni á komandi ári þegar tvennar biskupskosningar munu fara fram. Vissulega gætir kynjahyggju og gagnkynhneigðarhyggju í þjóðkirkjunni en hvort hún sé sterkari þar en í þjóðfélaginu almennt, t.d. í baklandi Mbl., skal ósagt látið. Það gerir hlut okkar í þjóðkirkjunni síst skárri. Okkur ber að vera í fararbroddi í baráttunni fyrir jöfnuði.
Kirkjan og skólinn Er þá komið að einna ágengasta þættinum í gagnrýni Árna Matthíassonar á „pilsfaldamannréttindum“ kirkjunnar, þ.e. kröfu hennar um aðgengi að leik- og grunnskólum. Um það máli ritaði ég hér á Pressunni s.l. sumar (Skólinn og lífsskoðanirnar I–III) og skal efni þeirra pistla ekki endurtekið hér. Í því sambandi er aðeins mikilvægt að gæta þess að nokkrar ófrávíkjanlegar markalínur gilda í samskiptum kirkju og skóla. Hlutverk skólans er að fræða um kristna trú sem hluta af menningu okkar eigin þjóðar sem og Vesturlanda almennt. Í þeirri fræðslu ætti að fjalla um mögulegt framlag kristninnar til lífstúlkunar og sjálfstjáningar í upphafi 21. aldar. Það er hins vegar ekki hlutverk skólans að fræða ungmennin til kristinnar trúar, innræta þeim kristna trú eða ástunda trúariðkun. Þá ber skólanum að gæta þess að rétturinn til að ákveða af hvaða trú, lífsskoðun eða gildismati börn eiga að mótast er í höndum foreldra. Helst ættu skólayfirvöld á hverjum stað að marka stefnu í þessu efni í samvinnu við heimilin án pólitískra afskipta enda er almenn reglusetning ekki best til þess fallin að skapa friðsamlega sambúð í nærumhverfi barna. Hér skiptir og máli að öll börn sitji við sama borð óháð trúarafstöðu foreldranna. Með þessum orðum er viðurkennt að í skyldunámsskólum er full ástæða til að fara varlega og virða frelsi minnihlutans til að vera laus undan trúaráreitum sem hann óskar ekki eftir án þess að börn sem þaðan koma verði „öðru vísi“ í skólanum. Það er á hinn bóginn hlutverk kirkjunnar í samvinnu við foreldra og heimila að leiða skírð börn til lífrænnar þátttöku í kirkjunni, lífi hennar og starfi. Þetta hlutverk er utan verkahrings skólakerfisins. Ekki er hins vegar augljóst hvers vegna ekki megi kynna tómstundastarf á vegum trú- og lífsskoðunarfélaga í skólum til jafns við annað slíkt starf sem stendur börnum til boða. Virði kirkjan ekki þessa hlutverkaskiptingu má vissulega ásaka hana um „pilsfaldamannréttindi“. Það ætti þó að vera neðan við virðingu hennar að ástunda slík vinnubrögð. Hún hefur sterkari stöðu en svo að hún þurfi á því að halda. Gamalli forræðis- og valdastofnun fer illa að skilgreina sig inn í hlutverk þolandans en það er oftast skýringin á „pilsfaldamannréttindum“.
Sérstaða þjóðkirkjunnar Undir lok greinar sinnar virðist Árni Matthíasson einnig líta svo á að sérstað evangelísk-lúthersku kirkjunnar sem þjóðkirkju sé hluti af „pilsfaldamannréttindum“ hennar. Þar vísar hann til þess forskots „ sem þjóðkirkjan hefur fram yfir önnur trúfélög og kalla má óeðlilegt í nútímasamfélagi, í það minnsta í augum þeirra sem sem telja mannréttindi algild en ekki afstæð“. Hér virðist Árni líta svo á að þjóðkirkjuskipanin sem slík brjóti í bága við algild mannréttindi. Það gæti einkum verið af tvennum ástæðum: Að þjóðkirkjuskipan brjóti í bága við trúfrelsi og/eða að hún hafi í för með sér ómálefnalega mismunun. Nú er þess að gæta að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nýlega fengið tilefni til að dæma um hvort kirkjuskipan Svíþjóðar og Danmerkur sem eru náskyldar okkar skipan, ekki síst sú danska, brjóti gegn trúfrelsi. Niðurstaðan varð að svo væri ekki. Það er líka almennt niðurstaða sérfræðinga sem um málið hafa fjallað. Þá dæmdi Hæstiréttur okkar svo árið 2007 að þjóðkirkjuskipanin leiddi ekki til ólögmætrar mismununar trúfélaga. Hér skal viðurkennt að það skiptir sköpum hvernig þjóðkirkjuskipanin er framkvæmd. Mikilvægt er að viðurkennt sé 1) að hún getur leitt til ómálefnalegrar mismununar trúfélaga og jafnvel einstaklinga ef ekki er verið á verði, 2) í henni felst ekki skylda til mismununar og 3) mismununin ætti að vera sem minnst þannig að öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög nytu sem líkastrar stöðu og þjóðkirkjan nýtur nú. Mismunandi stærð trúfélaga, ósambærilegur fjöldi starfsstöðva, ólík samfélagsleg hlutverk þeirra og ólík afstaða til ríkisafskipta af starfi þeirra getur síðan leitt til þess að staða þeirra verði seint nákvæmlega sú sama. Það stafar þó fremur af praktískum aðstæðum en afslætti af mannréttindum. Áfellisdómur Árna Matthíassonar í þessu efni þarfnast því fyllri rökstuðnings en fram kemur í pistli hans.
Niðurstaða Það skal viðurkennt að pistill Árna Matthíassonar vekur til umhugsunar. Framsetningin er hins vegar full einhliða og sannast sagna einstrengingsleg fyrir minn smekk!