Lífsjátning

Lífsjátning

"Lofsyngið þér himnar og fagna þú jörð! Hefjið gleðisöng þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu!" Þannig segir í lexíu dagsins. Skyldu vera til yndislegri orð en þau sem við fáum að heyra í textum þessa dags, 15. Sunnudags eftir þrenningarhátið? Skyldu vera til heilnæmari og sterkari og fegurri áminningar?

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir!

Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. (Matt. 6.24-34)

"Lofsyngið þér himnar og fagna þú jörð! Hefjið gleðisöng þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu!" Þannig segir í lexíu dagsins. Skyldu vera til yndislegri orð en þau sem við fáum að heyra í textum þessa dags, 15. Sunnudags eftir þrenningarhátið? Skyldu vera til heilnæmari og sterkari og fegurri áminningar? Pistillinn er orð Péturs: "Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður." Og svo orð Jesú í Fjallræðunni: "Verið ekki áhyggjufullir. Lítið til fugla himinsins, gefið gaum að liljum vallarins. Segið ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta, hvað eigum vér að drekka, hverju eigum vér að klæðast. Yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa...." Þau eru eins og græðandi smyrsl, þessi orð, sefandi, svalandi, styrkjandi. ? Er ekki undursamlegt að fá þessi orð í veganesti, kæru vígsluþegar, þegar þið standið á þessum miklu og mikilvægu tímamótum lífsins? Og með þessi orð eruð þið send út á akurinn, til safnaða ykkar, umhyggjuorð, hughreystingarorð, líknarorð.

Víst hljóma víða ámóta hvatningar: Vertu hress, ekkert stress. Þetta reddast! Og margt er vissulega í boði til að fá menn til að gleyma áhyggjum og amstri öllu, Það dynur á eyrum daglangt tilboðin um hvaðeina sem falboðið er til að eyða áhyggjum manna og auðvelda lífið.

Áhyggjuöld kallast okkar samtíð, og margur kiknar undan áhyggjum lífsins og streitu. Og ekki vantar ráðin og tilboðin til að lina þá þraut og lækna. Og flest allt ber það víst að sama brunni og birtir sömu lífssýn, sem sé: Lífið er hlutir, peningar, tækni og græjur, neysla og nautnir sem falboðið er í gnægð. Þetta er mammón. Við teljum af og frá að við þjónum honum. En þó erum við að meir eða minna leyti mótuð af þeirri heimsmynd og lífsskoðun sem neyslugræðgin setur fram. Mammóns helsi háð. Og græðgin, fýsnin og valdið spinna sinn lævísa vef.

Auðævaoflætið og tæknioftrúin, allt þetta dót, allar þessar umbúðir, öll þessi afþreying, allt þetta sem vera átti þjónn okkar til frelsis og lífs og gleði er í raun að kæfa okkur, líkama okkar og móður jörð, og það stíar okkur frá hvert öðru, og ógnar okkar ódauðlegu sál. "Slappaðu af! Þetta reddast!" segir mammon. "Hafðu ekki áhyggjur. Fáðu þér eitthvað róandi, lyftu þér upp, gleymdu þessu!" Hvers vegna þurfa svo margir pillur til að geta sofið og pillur til að geta vakað og pillur til að geta litið upp og horfst í augu við lífið og daginn? Hvers vegna þurfa svo margir lyf til að geta lyft sér upp og gert sér glaðan dag? Hvers vegna tómleikinn svo mikill, áfengisflóðið svona óskaplegt, skemmtanaæðið skefjalaust, og lífsflóttinn? Hvers vegna er það svo?

"Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar!" segir Jesús.

Hver finnur ekki löngun til að losna, verða frjáls, eins og fuglar himins og liljur vallarins? Er það ekki einmitt það sem gerir texta guðspjallsins svo áleitinn og yndislegan? Flótti frá raumveruleikanum? Stundum verður trúin einmitt það, flótti frá raunveruleikanum. Nei, það er ekki sú trú sem Kristur kennir. Orð hans eru áleitin vegna þess að þau snerta strenginn innsta og dýpsta í æðum manns. Í þessum orðum talar Guð. Guð sem skapað þig til samfélags við sig, og elskar þig og heiminn sinn, hann vill lækna þennan heim og líf þitt allt, hann vill leiða okkur út úr öngstræti angistar og streitu og opna samfélag fólks, samfélag umhyggju og kærleika, fyrirgefningar og friðar. Og hann vill snúa harmakveini heimsins upp í lofsöng. Orð hans er ætið: Óttist ekki! Skelfist eigi! Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar! Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið! Þetta segir hann ekki vegna þess að ekki sé ástæða til í hrelldum heimi að skelfast og kvíða. Heldur vegna þess að Guð er kærleikur, umhyggja, náð.

Hin kristna trú er ekki lífsflótti heldur lífsjátning. Að játast lifanda Guði og lífinu í honum. Að þiggja gjöf Guðs og treysta honum. Hann ber umhyggju fyrir þér. Hann þekkir áhyggjur þínar og aðstæður allar. Adams niðjar og Evudætur verða að vinna og spinna í sveita síns andlitis, það veit Jesús. Hann veit að fuglinn hrekst undan hauststorminum og blómin fölna á einni hélunótt og allt er hverfult í heimi hér. Syndin og dauðinn vinna hervirki sín, og sorgin gleymir engum. En Jesús bendir okkur á þann mátt sem lífið á og gefur, og veit og þekkir og tekur þátt í kjörum okkar og engu sínu minnsta barni gleymir. Jesús segir að jafnvel falli enginn spörfugl til jarðar án þess að faðirinn á himnum finni til með, og ekkert hjarta, engin sál andvarpar og grætur án þess að hann heyri og finni til. Áhyggja þín mætir umhyggju Guðs og eilífum örmum náðar hans.

"Verið ekki áhyggjufullir!" Hver er ekki áhyggjufullur á slíkum krossgötum sem þið standið á, kæru vígsluþegar? Við sem hér vottum og staðfestum heilög vígsluheit ykkar og leggjum yfir ykkur hendur að hætti postulanna nú, getum öll litið um öxl til vígsludags okkar. Víst vorum við áhyggjufull þá, eftirvæntingarfull vorum við vissulega, vongóð og hamingjusöm, en áhyggjufull vorum við, jú, það er alveg áreiðanlegt. Þannig er það nú jafnan á vegamótum, þá takast gleðin og kvíðinn á. Hvað þá þeim vegamótum sem vígslan er? Köllunin er svo háleit, markið er svo hátt, verkahringurinn svo víður, kröfurnar svo miklar. Hver er ég að ég standi undir því?

Þið, kæru vígsluþegar, kirkjan fagnar ykkur, og gleðst með ykkur og gleðst yfir ykkur. Þið sem vinnið heilög heit og þiggið heilaga vígslu að hætti postulanna með þessu er kirkja Krists að senda ykkur. Þið eruð ekki send með einn plásturinn enn, eitt ráðið enn, eina hvatninguna enn, þið eruð ekki send með billeg svör og innantóm slagorð: "Ekkert stress, vertu hress og í stuði með Guði!!" Nei! Þið erum send til að miðla því orði og þeirri návist sem umfaðmar allt elsku sinni og náð og aldrei bregst þeim á hann treystir. Þið eruð send með orð umhyggjunnar og með heimboðið inn í raunveruleikann sem er innst og dýpst í heimi og lífi: Lifandi Guð og lífsins orð. Í heiminum okkar með sínum skuggalendum angistar og örvæntingar er skortur á fólki sem þekkir hjarta Guðs og föðurfaðminn hlýja, hjarta sem ber umhyggju fyrir, fyrirgefur, læknar og leysir og faðminn sem lýkst upp fyrir hverjum þeim sem biður og vonar og elskar.

Já, við með áhyggjur okkar og oft á tíðum hálfvolga og veika trú, við erum send með þetta orð og heimboð í umboði heilagrar almennrar kirkju. Óverðug erum við og ófullkomin er sú kirkja sem stofnun og félagslegur veruleiki. En á bak við þetta er Guð og faðir Drottins Jesú Krists, sem helgar ófullkomleika syndugs manns og gerir að farvegum návistar sinnar og náðar. Í því umboði eruð þið. Og í því umboði leggjum við hendur yfir ykkur og biðjum fyrir ykkur og saman horfum við fram í trú og von í frelsarans Jesú nafni. "Varpið allri áhyggju yðar á hann því að hann ber umhyggju fyrir yður." Amen.

Karl Sigurbjörnsson (biskup@kirkjan.is) er biskup Íslands. Þessi prédikun var flutt við prestsvígslu í Dómkirkjunni, 8. September 2002. Þá voru Fjölnir Ásbjörnsson, Helga Helena Sturlaugsdóttir og Þorvaldur Víðisson vígð til prests.