En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.Matt 28.16-20
Í dag minnir Þjóðkirkjan sig á skyldu sína til útbreiðslu trúarinnar. Hún rifjar upp fyrir sér kristniboðsskipunina sem er guðspjall dagsins, heyrir dagskipun Drottins síns um að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum. Það boð hefur tvíþætt markmið. Fyrst að gera hverja kynslóð í landinu að lærisveinum. Við skírum börnin í nafni Heilagrar Þrenningar og kennum þeim að halda það sem Drottinn hefur boðið. Og kirkjan fer með fagnaðarerindið til þeirra sem ekki hafa heyrt það, hvort þeir eru nær og fjær. Það er uppörvandi að fara um og sjá hversu mikill kraftur er í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Sjá allan þann skara barna sem koma til starfsstöðva kirkjunnar í viku hverri til þess að fá fræðslu og njóta samfélags í nafni Jesú, besta vinar barnanna. Á sumrin eru sumarbúðir á mörgum stöðum á landinu og á veturna opna kirkjurnar dyr sínar fyrir börnunum og bjóða upp á sunnudagaskóla, samveru í frístundastarfi, ttt-hópa að ógleymdum fermingarhópum og æskulýðsfélögum. Þetta varðar miklu um mótun lands og lýðs, um gerð íslensku þjóðarinnar. Kristniboðssambandið er svo tæki Þjóðkirkjunnar til útbreiðslu trúar meðal þeirra þjóða sem ekki hafa heyrt fagnaðareindið. Það er umhugsunar og þakkarvert að hvarvetna sem kristniboðar þess hafa farið til starfa hefur verið óskað eftir starfi þeirra. Þeir hafa komið umbeðnir af fólkinu sjálfu, og fögnuður hefur verið yfir framgöngu kristninnar þar sem þeir hafa starfað. Árangur verka þeirra og samstarfsaðila, sem einkum er norska Kristniboðssambandið er sá að nú á Þjóðkirkjan dótturkirkjur í Eþíópíu og Keníu. Um þessar mundir eru í mótun ákvæði um samskipti og stuðning við þessar kirkjur. Þær hafa óskað eftir því eindregið. Dæmi um það er að þegar Vilhjálmur biskup í Pokot í Kenía hafði verið vígður að vígslubiskupinum í Skálholti og fleiri íslenskum kirkjumönnum viðstöddum þá bað hann um fund seint um kvöld áður en þeir færu um morguninn. Íslendingarnir viðurkenndu að þeim meir en flaug í hug að erindið væri að biðja um fjárhagsstuðning. Annað kom á daginn. Erindið var að biðja fulltrúa okkar að skila því til Íslands að við gleymdum þeim ekki, heldur kæmum aftur, fylgdumst með og helst af öllu að við bæðum fyrir þeim. Ekki eru allir Eþíópar og Keníamenn kristnir ennþá. Enn eru opnaðar nýjar starfstöðvar meðal þeirra. Tvenn íslensk hjón og einstalkingur eru að störfum í Suður-Eþíópíu á sitt hvorri starfsstöðinni. Þar eru enn víðar og verkmiklar dyr og kirkja í mikilli eflingu. Í Keníu er veitt aðstoð við kirkjuuppbyggingu. Á þessu ári hafa verið skipulagðar styttri og lengri heimsóknir í þessu skyni og eftir áramótin er áformað að ég fari enn á ný þangað til kennslu og ráðgjafarstarfa. Á ýmsum öðrum vettvangi höfum við stutt boðunarstarf ma um útvarpsstöðvar inn í lokuð lönd. Í Kína, fyrsta starfsvæði Kristniboðssambandsins eru vaxandi kirkjur sem hafa notið fyrirbæna og stuðnings okkar og þar er mikill þorsti eftir Guðs Orði. Þá hefur verið leitað færa til vitnisburðar í löndum Islam og Þjóðkirkjan hefur ásamt öðrum kirkjum tekið þátt í trúarbragðasamræðum við Muslima og fleiri, hvorum tveggja til uppbyggingar. Sjálfur hef ég haft mikla gleði af að taka þátt í þessum störfum erlendis. Sú gleði er með sama hljóm og fögnuður hjarta míns yfir öllum þeim skara barna og unglinga sem ég hef mætt í þjónustunni hér heima og hafa opnað hugi sína fyrir fegurð og sannindum kristinnar trúar. En það var mér óvænt gleði að deila með Afríkufólki fögnuði yfir eilífa lífinu, takmarki okkar allra sem þráum þá stund að Jesús verði allt í öllu hjá okkur og ekkert illt verði framar til áhrifa. Þau sem ekkert eiga annað en þessa von meta hana mest. Það hefur hvervetna komið á daginn. * † Jesús segir í Fjallræðunni: Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum. Mt 5:14-16 Sumt fólk er sem þúsund kerta pera og lýsir með mikilli birtu upp talsvert umhverfi, aðrir lýsa eins og 40 eða 60 kerta pera sem er góð til heimilisnota, enn aðrir eins og ofurlítið viðvörunarljós sem aðeins á að sýna að það er straumur á einhverju tæki og einnig það gerir sitt gagn. Það liggur í eðli kristindómsins að þau sem upplifa hann breiði út þá hugsun sem honum er bundin. Sú hugsun er kærleikur og velvild og hún streymir einfaldlega út frá þeim manni sem snortinn er af honum. Hann boðar kristindóminn með breytni sinni, prédikar á stéttunum eins og sagt er. Það hlutverk liggur í því sjálfu að vera kristin maður að bera trú sinni vitni og af því að kristni er líka hugsjón og hugmyndafræði þá þarf að tala um hana, láta hana hafa rödd í þjóðfélagsumræðunni. Kristni hefur reyndar sett mark sitt svo lengi á menningarheim okkar að margar aðrar hugsjónir hafa tekið mið af honum. Ábyrgðin sem okkur er kennt að bera gagnvart því sem okkur er trúað fyrir hefur litað auðhyggjuna, frelsishugsjónin frjálshyggjuna og samábyrgðin félagshyggjuna. En við getum ekki látið það nægja að súrdeig kristnnnar hafi haft þessi áhrif því þau verða svo iðullega afflutt og gerð að tækjum til þess að ná völdum og verða markmið eða lögmál í sjálfu sér en ekki tjáning dýpri afstöðu til lífsins og elsku til höfundar þess. Það er því ævinlega mikilvægt og nauðsynlegt að fjalla um grunngildi og virkni kristindómsins á sjálfs hans grundvelli, kanna hugmyndir hans og þróa í nýjum aðstæðum og á nýjum tímum og boða hugsjónina í sinni tærustu mynd. Já, við segjum frá Jesú sem er í senn höfundur og fullkomnari trúar okkar. Hann lifði í samræmi við kenningu sína og dró aldrei fjöður yfir að svo hlyti að fara að hún félli ekki öllum í geð og gæti kostað menn lífið. Heilindi hans voru staðfest á krossinum með því að hann vék sér ekki undan hinum ítrustu afleiðingum trúar sinnar. Um leið samsamaði hann sig með öllum þeim sem verða fórnarlömb óttans og myrkursins og setti örlög þeirra í ofurskært ljós sem sýnir vonskuna í manninum. Já, ég nefndi óttann sem andstæðu kærleikans, eins og myrkur er andstæða ljóss. Ótti var það sem kom Kristi á kross, ótti við að taka skrefið frá því að treysta á völd og auð til þess að fela sig miskunn Guðs og manna með því að feta veg kærleika og samúðar. * Það er svo örðugt að yfirgefa öryggi þess sem er, jafnvel fyrir bjarta hugsjón um velferð allra; að hætta að hanga í völdunum og finna þess í stað út hvað flestir geta sameinast um. Hann er líka vandfundinn kjarkurinn til þess að láta frá sér auðæfi sín og færa fátækum tækifæri. Enginn er svosem að tala um ábyrgðarleysi og vitleysu í þessu sambandi, en spyrja má hvorir eru vitleysingarnir í dag þeir sem settu traust sitt á auðinn í gæðgi eða þeir sem vilja láta hann vinna öllum með hófsemd. – Það hljóta að finnast á litrófinu þægilegri litir en þeir sem við höfum málað þjóðarheimilið með að undanförnu. Kristni vill vissulega að ábyrgð sé öxluð og frumkvæði og sköpunarmáttur vikjuð og jafnframt að litið sé til með náunganum og hinum minnstu ekki gleymt, heldur leiddir að veisluborði okkar. En hún lætur sig ekki tímanlega velferð manna eina varða. Nei, hún hún minnir á himininn. Við erum ákvörðuð honum, þannig gerð að við getum lifað eilíflega og eigum samastað heima hjá Guði. En við höfum tapað aðgöngumiðanum að himinum og sú mikla hátíð sem þar fer fram verður ekki hlutskipti okkar við svo búið. Flest erum við svo heppinn að hafa fengið nýjan aðgöngumiða í skírninni en hætt er við að hann einnig sé týndur eða fallinn úr gildi. Það er nefnilega svo með hann að hann verður að endurnýja, helst hvern dag, hverja stund. Það gerist fyrir samfélag við Drottin meðan við lifum. Sérhver stund kann að vera úrskurðarstund í þessu efni. Þess vegna talar postulinn um það að við eigum að vinna að sáluhjálp okkar með ugg og ótta. Fil 2:12 Hann segir að það sé í raun eina óttaefnið að sálin í okkur deyji. Matt 10:28 Jesús sjálfur líkir lífi hennar við ljós á olíulampa. Við ættum kannski að tala um vasaljós í dag. Rafhlaðan má ekki tæmast. Hana verður að endurhlaða stöðugt. Það gerum við með því að tengja hana við straum heimilisins eða landsnetið. Þið sem heyrið þessi orð núna eruð í endurhleðslu. Þau sem fara til kirkju gera það til þess að endurhlaða rafhlöðuna í sér. Það gerir einnig sá sem spennir greipar í bæn og sömuleiðis sá sem opnar helga bók og nærir sig á orði Guðs. Trú er ekki afstaða heldur samfélag, eins og ástin er ekki afstaða heldur lifandi þrá. Trú er að treysta Guði og leggja líf sitt í hendur hans. * Trúin mótar manninn allan, alla hugsun hans og athöfn, lífsýn og framgöngu, heimssýn og framtíðarsýn sem beinist fram um daga lífsins inn í eilífðina. Gleði eilífðarinnar er stundum eina gleðin í lífinu, ef það er svo ómögulegt að ekkert gott sýnist geta gerst þar, en sá sem á hana finnst hann eiga það sem skiptir máli. Í himninum endurheimtist allt sem glataðist og brast. Í himninum nást þau markmið sem aðeins færast lengra undan í daglega lífinu. Þessa gleði hef ég oft séð í augum fólks en ég ítreka það að í Afríku hef ég orðið hvað snortnastur af henni í öðru fólki. Það átti ekkert nema áhyggjur sínar hvert yfir öðru þegar kristni kom til þeirra fyrir svo fáum árum. Núna eiga þau himininn og það kveða við hróp eins og á fótboltavelli þegar mark er skorað ef prédíkarinn minnist á sigur eilífa lífsins, sigur Krists í upprisunni og himnanna dýrð. Þau dansa og hrópa gleðióp, syngja og fagna. Það lætur mann ekki ósnortinn framar að hafa séð svo fölskvalausa gleði yfir endurlausninni í Kristi, frelsuninni til eilífa lífsins. Þess vegna er það svo að við bara verðum að fara með fagnaðarerindið til þeirra sem ekki hafa heyrt, gleðifréttirnar um Jesúm frá Nasaret sem er Guð með okkur. Ég skil vel að kristniboðar skuli hafa hætt svo miklu til þess að koma þessari gleði í fólkið. Og hún verður því afl framfara. * Rétt eins og árdagsgeislar komandi dags færa birtu inn í nóttina veitir dýrð himinsins birtu sinni inn í líf mannanna og gerir verkbjart. Þá birtu nota menn ávallt og alstaðar til hins sama, að vinna verk Guðs að því að gera það vanheila heilt, þoka því ófullkoma í átt til fullkomunar, bæta sinn heim. Kristn trú reynist kjörinn grundvöllur framfara. Hún leysir fólk frá ótta og gefur kjark til þess að leggja út á nýjar brautir, reyna að taka sér fram og bæta lífsaðstæður samfélags síns. Þannig verður fólkið móttækilegt fyrir menntun og heilbrigðisháttum og lækningum, og þannig kemst skriður á framfarirnar. Af þessum ástæðum hefur menntun, þróunarhjálp og heilsugæsla ávallt fylgt kristniboðinu. Markimiðið hefur sannarlega verið stórtækt, að vinna himininn og jörðina líka til handa fólkinu. Er það ekki svo að mein okkar í dag er að við höfum snúið huga okkar frá himninum og eilífðinni að hinu efnislega og stundlega, að því að eiga í stað þess að gefa, frá gildum eins og vináttu samúð og heilbrigðu samfélagi fjölskyldunnar að auði og völdum, höfum við gert þá vitleysu að leita fremur heiðurs okkar hjá mönnum en Guði. Við eigum fyrst og fremst að minna sjálf okkur á nauðsyn þess að rækja eigin trú og hlú að sálinni; gefast heilshugar í sambandið við hinn sigrandi Drottin. Við eigum að bera trú okkar vitni eftir köllun okkar, lýsa þeim sem eru okkur næst og öllum þeim sem birta okkar mögulega getur náð til. Við styðjum kirkju okkar og söfnuð með ráðum og dáð og við eflum kristniboðsstarfið með fjárframlögum og fyrirbænum. Það er eins og vikið hefur verið að óaðskiljanlegur þáttur trúar og í samræmi við eindregnar hvatningar Drottins Jesú að við breiðum út ljósið sem var í honum og við höfum tendrast af. Það á enginn að vera skilinn eftir í myrkrinu. Ljósið þarf að berast til allra manna. Það á erindi við hvert mannsbarn og það eru ekki aðrir ljósleiðarar en við sjálf, ljóssins fólk í okkar samtíð og veröld. Ekki gera ekki neitt. Það munar um þig og einhver bíður eftir þér og þínu ljósi.