Viðskiptavit í safnaðarheimilinu

Viðskiptavit í safnaðarheimilinu

„Þú færð eitt á hundrað krónur, en fimm fyrir tvö hundruð,“ sagði ungi maðurinn sem var kominn í Laugarneskirkju til að selja myndasögublöð um Ofurmennið og Köngulóarmanninn. Blöðin eru á íslensku og vel með farin en hann var búinn að lesa þau og vildi gjarnan að einhver annar fengi að njóta.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
21. nóvember 2014
Meðhöfundar:

Ofurhetjublöðin

„Þú færð eitt á hundrað krónur, en fimm fyrir tvö hundruð,“ sagði ungi maðurinn sem var kominn í Laugarneskirkju til að selja myndasögublöð um Ofurmennið og Köngulóarmanninn. Blöðin eru á íslensku og vel með farin en hann var búinn að lesa þau og vildi gjarnan að einhver annar fengi að njóta. Árni keypti af honum þrjú blöð sem munu án efa gleðja áhugamann um ofurhetjur á heimilinu.

Peningarnir runnu þó ekki í vasa sölumannsins unga. Þeir fóru í sameiginlega Dótadagssjóð sem krakkarnir í Laugarnesskóla nota til að styrkja ungan indverskan pilt sem heitir Garimela og gengur í skóla indversku kirkjunnar.

Dótadagurinn er samstarfsverkefni Laugarneskirkju og foreldrafélgs Laugarnesskóla til nokkurra ára og það er mikið fjör í kirkjunni þennan eftirmiðdag. Á annað hundrað krakka í 1-4 bekk tóku þátt, mættu með dót sem þau eru hætt að leika sér með og seldu öðrum, keyptu kannski eitthvað sjálf. Þarna mátti sjá myndasögublöð og Barbí, bækur, legókalla og sitthvað fleira. Allt leikföng sem höfðu glatt á sínum tíma og fá nú nýtt líf til að gleðja aðra.

Krakkarnir tróðu líka upp í hæfileikakeppni og fögnuðu mjög þegar sölubjallan glumdi og nýjustu tölur í söfnuninni voru lesnar upp. Þau gæddu sér á girnilegum ávöxtum í boði kirkjunnar. Foreldrar fylgdust spenntir með og voru glöð með daginn eins og krakkarnir. Alls söfnuðust yfir 33 þúsund krónur sem renna til þess að styrkja skólagöngu og uppihald Garimela.

Dótadagurinn í Laugarneskirkju er góð hefð og gott dæmi um hvernig kirkja og foreldrafélag geta haft með sér samstarf. Krakkarnir skemmta sér og læra hvernig þau geta látið gott af sér leiða. Þau læra líka að prútta og selja og þroska með sér gott viðskiptavit sem verður að mat og drykk og fötum fyrir félaga þeirra á Indlandi.

Þá er líka til einhvers að vinna.