Upp er niður

Upp er niður

Leiðin upp í himininn er alltaf niður í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um lendur mennskunnar. Himinhopp trúarinnar verða engin nema með því að fara fetið meðal þurfandi manna.

[audio:http://dl.dropbox.com/u/24603197/Upp%20er%20ni%C3%B0ur%20st%C3%B3lr%C3%A6%C3%B0a%2022%20mai%202011.mp3]

Í gær naut ég þeirra forréttinda að gifta í Hallgrímskirkju. Kirkjuathöfnin var vel undirbúin og til alls var vel vandað. Sálmarnar voru góðir, textarnir inntaksríkir og lögin lyftandi. Svo voru verk Rachmaninov og Duruflé flutt og hrifu. Fjórar brúðarmeyjar glönsuðu og bleikar bóndarósir í vöndum kvennanna og á barmi brúðgumans voru slándi fagrar. Brúðurin hafði sjálf saumað kjólinn sinn og hann var flottur. Brúðhjónin höfðu sent prestinum umsagnir um hvort annað. Samráð var bannað og því vissu þau ekki hvað hitt sendi. Það var gleðilegt og hrífandi að lesa umsagnir þeirra. Virðing, umhyggja, hrifning, kímni og þakklæti fyrir makann blasti við í báðum skeytum. Söfnuðurinn baðaði hjónin umhyggju og hafði sveiflu til að gleðjast og getu til að íhuga vilja þeirra til að ganga fyrir altari Guðs. Jáin voru góð. Það var því auðvelt og ánægjulegt að þjóna þessu fólki og taka þátt í gleði þeirra. Allt var gott og rétt og engin ástæða til annars en gleðjast á þessum degi, sem erlendur grillufangari sagði að væri dagur heimsenda.

Að sjá Guð er að sjá menn En gangan fyrir altari Hallgrímskirkju rifjaði upp fyrir mér eigin upplifun þegar ég gekk i fyrsta sinn fyrir þetta altari á sínum tíma. Kirkjur eru gjarnan svo skipulagðar, að ganga upp að altari veiti upplifun. Miðjan í kirkjum, altarið, staður hins heilaga er jafnan á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar þangað er komið finnur fólk gjarnan, að það er statt á mikilvægum reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað. Svo er hér í Neskirkju, flestum kirkjum og svo er það í Hallgrímskirkju einnig.

Gangan fram kirkjuna er löng, kórinn er stór, lyftingin er talsverð þegar farið er upp og inn í kórinn. Kórgluggarnir veita ljósi greiða leið og kórinn er jafnan upphafinn í birtu. Því er það eins og að halda inn í ljósríkið að ganga að altarinu – og auðvitað enn fremur þegar sól skín. Sjónlínurnar í kirkjunni eru mikilvægar og stýra vitund og upplifun. Söfnuðurinn, sem horfir inn í kórinn sér aðeins himinn, ef ekki bláan, þá leik skýja. Kórinn verður því upphafinn veröld himinhvelfingar.

Þetta rifjaðist allt upp fyrir mér í gær þegar ég gekk fyrir altari. Þar uppi sér maður allt annað en það sem söfnuðurinn sér. Þar leita augu ekki upp í himinn eða horfa á ský og leik ljósa. Augu leita ekki upp heldur þvert á móti niður. Upp við altarið sér maður beint út um lága gluggana í bogahring kórsins og út um þá sjást engir englar eða himinleikur, heldur borgin, húsin, mannlífið og svo fjöllin í fjarska. Þá sýn hefur söfnuðurinn ekki. Það er raunar makalaus og merkileg útsýn og merkilega áminnandi fyrir prest og brúðhjón. Þegar maður er kominn í hið allra heilagasta sér maður mannheim. Fyrir augliti Guðs sér maður menn. Merkilegt skipulag, áhugaverð guðfræði til íhugunar okkur öllum. Og varðar lífsafstöðu og líka hvernig við túlkum Guð, veröld, menn og kirkju. Þetta er boðskapurinn um, að Guð er meðal manna, býr meðal manna. Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opinberar Guð, að við menn erum kölluð til að elska. Ekki aðeins að elska Guð heldur fólk, hvert annað, þjóna hverju öðru. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum að veröldinni sem þarfnast okkar og verka okkar.

Elskið Guðspjall dagsins varðar þetta. Það er ræða Jesú um ástina. “Þetta er mitt boðorð,” segir Jesús “...að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.” Merking þess, að Jesús elskar er að menn eiga að elska líka. Hann opnar okkur sýn í elskustyrk ríkis síns með því að færa hina algeru fórn, að fórna sjálfum sér. Um allar aldir hafa menn vitað, að það er mesta fórnin að fórna lífi sínu til að bjarga öðrum. Stíll þeirra, sem fylgja þessum meistara frá Nasaret er að elska af því að þannig var hann, elskaði alla, fórnaði jafnvel öllu vegna þeirrar elsku. Bænalífið á að vera mettað þessari ást. Og þessi elskuskilgreining veraldarinnar, lífsins, kirkjunnar er sett fram sem boðorð. “Þetta býð ég, að þér elskið hvert annað.

Að gera Síðustu daga hafa nokkrir fjölmiðlar sagt frá heimsendaspádómi. Þetta er einn af fjölda ótímabærra og spillandi spádóma sem spretta af vondum trúarskilninig. En það er áhugaverð samvirkni að það skuli byrja að gjósa í Grímsvötnum. Og svo hélt helsti Grímsvatnagosafræðingur veraldar fimmtugsafmæli sitt hér í safnaðarheimili Neskirkju í gærkvöldi og sagt var að hann hefði fengið gosið í afmælisgjöf.

Þó gos sé mikið alvörumal og meintur heimsendir vondur hefur mér verið annað ofar í huga. Það er samband hins andlega og efnislega, hins eilífa og tímans, huga og handar, sálar og líkama. Heimur Jesú var ekki upphafinn dans á skýjum. Trúarlíf kristninnar var og á ekki að vera för glópanna upp í einhverja alsælu ofar tímans straumi. Trú varðar fólk og heim.

Til er fallegt orð á grískunni sem er fallegt á blaði og fallegt að inntaki. Það er poiesis, ποίησις. Bókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía.” Orðið, sem notað er um ljóðmál á mörgum tungumálum er komið af gríska orðinu poiesis. Það táknar ekki aðeins það, að stafla orðum í ljóð – að iðka póesíuna, heldur líka að gera, vinna, búa til með höndum, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er ekki aðeins það að svífa inn í margræða heima ljóðanna heldur að gera, skapa.

Meðal fornþjóða var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, líkama, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus iðja, heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt og varðar venjulegt líf. Handverk við tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa, getur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í raunveruleikanum, samfélagsmálum og heimilismálum.

Hinn starfandi Guð Biblían er jarðsækið, raunveruleikatengt ritasafn. Í öllum bókum hennar er dregin upp sjokkerandi mynd af Guði, tjáð að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei þrátt fyrir bresti. Já, Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er búið, týnt og brotið. Fagnaðarerindið er, að lífið er góður gerningur Guðs, handverk elskunnar, póesía ástarinnar. Þegar lífi lýkur birtist þessi iðjandi ljóðmögur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Niður er leiðin upp! Leiðin upp í himininn er alltaf niður í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um lendur mennskunnar. Himinhopp trúarinnar verða engin nema með því að fara fetið meðal þurfandi manna. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum en tengir fram hjá fólki í vandræðum, er guðlaus og þar með trúleysa.

Ofbeldi - Nei Guð elskar og því eiga menn að elska menn. Það er lögmál og jafnframt undur Jesúbyltingarinnar. Og það er við hæfi á þessum degi elskunnar, að Heimsráð kirkna hefur beðið allar kirkjur heimsins að biðja fyrir að ofbeldi linni í heiminum, hvers kyns ofbeldi, á heimilum, vinnstöðum, samfélögum og í samskiptum þjóða og menningarhópa. Heimsendir byrjar og jafvel fullkomnast í lífi fólks þegar það er beitt ofbeldi, líf þess hamið og jafnvel eyðilagt. Ofbeldi er dauðans alvara. Elskið - og sú ást varðar að stemma stigu við illskunni hvernig sem hún birtist. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk.

Gluggar heimsins Ástarbríminn í kirkjunni í gær var dásamlegur. Þegar brúðhjónin við altarið sögðu já blöstu við þeim myndir í kórgluggunum hinum megin við altarið. Ekki helgimyndir af dýrlingum, ekki myndir af Jesú, heldur borgin, mannlífið, veröldin. Jáin þeirra voru um að elska í raunverulegum heimi daglegs lífs, elska hvert annað á morgun líka, á þriðjudögum lífsins einnig, á ljósum dögum þegar allt gengur eftir, en líka á myrkum dögum veikinda, á rigningardögum og þegar allt gengur á afturfótum. Elska okkar varðar svoleiðis heim. Við erum kölluð til að elska jafnvel það, sem hugnast okkur ekki vel. Þegar komið er upp í himininn sér maður heiminn. Þegar maður leitar eftir og finnur Guð fær maður að sjá heiminn með augum ástarinnar. Þannig boðskap skaltu fara með heim í dag. Að elska er að verða augu, afstaða, hendur og faðmur Guðs í heimi. Elskið – ekkert auðvelt, yfirborðslegt eða klisjukennt – heldur róttækt. Farðu og hittu Guð og þá færðu samband við heiminn.

Amen.

Prédikun í Neskirkju 22. maí, 2011.

Textaröð: B Lexía: 5Mós 1.29-33 Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.

Pistill: 1Jóh 4.10-16 Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Guðspjall: Jóh 15.12-17 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.