Á næsta ári verða liðin 400 ár frá útgáfu Vísnabókar Guðbrands sem var gefin út fyrsta sinni árið 1612. Höfuðskáld þeirrar bókar var séra Einar Sigurðsson í Eydölum (1538-1626). Þekktasta ljóð hans og væntanlega jafnframt þekktasta ljóðið úr Vísnabókinni er jólasálmurinn „Nóttin var sú ágæt ein,“ sem er nr. 72 í Sálmabókinni. Í Vísnabókinni heitir ljóðið „Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði“. Í heild er kvæðið 28 erindi auk viðlags en í Sálmabókinni eru valin 7 vers úr kvæðinu til að mynda sálminn. Kvæðið birtist fyrst í Sálmabók árið 1945 en þá var komið fram lag við kvæðið eftir Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) sem hann hafði samið nokkrum árum áður. Lag Sigvalda kom út í ársbyrjun 1941 svo að á þessu ári eru liðin sjötíu ár frá útgáfu þess en Sigvaldi hafði samið lagið í árslok 1940 eftir að hann hafði rekist á nokkur vers úr kvæðinu í vikublaðinu Vikunni. Hann sendi lagið vini sínum Ragnari Ásgeirssyni, garðyrkjuráðunaut og í bréfinu sem fylgdi laginu til hans (dags. í Grindavík 30. des. 1940) segir Sigvaldi:
Kæri vin. Eg þakka þér fyrir upphringinguna og bréfið; sendi þér nú hérmeð jólalagið, sem eg hefi gert á þessum jólum við yndælan texta, sem eg fann í „Vikunni“, sem eg annars aldrei les; en þegar eg sá þetta kvæði, sem er 400 ára eftir sjera Einar Sigurðsson í Heydölum (eða Eydölum) föður Odds biskups og sá hvað það var fallegt, þá reyndi eg að hnoða við það og sendi þér hér með; vona að ykkur þyki það sæmilegt.
Ragnar Ásgeirsson gekkst fyrir útgáfu á lagi Sigvalda þegar í janúar 1941 og náði lagið fljótt miklum vinsældum. Það er mjög fallegt og á vel við kvæðið sjálft og inntak þess. Tilurð lagsins réð því að sálmurinn var tekinn inn í Sálmabókina 1945 og hefur hann verið í sálmabókum síðan og er mjög vinsæll. Áður en versin úr kvæðinu birtust í Vikunni höfðu hlutar kvæðisins birst í Sýnisbók íslenskra bókmennta sem Sigurður Nordal gaf út (1. útgáfa 1924).
Vöggukvæði Einars Sigurðssonar er sennilega hugsað til leiks kringum jötu eins og sálmur Lúthers: „Af himnum ofan boðskap ber“ (Sálmabók nr. 85). Það er ort undir víkavakahætti þar sem hverju erindi fylgir viðlag þar sem lokaorðið rímar við lokaorð síðustu hendingar versins. Í raun er viðlag hvers vers lokalína viðlagsins sem fer fyrir kvæðinu í Vísnabók og er á þessa leið:
Emmanúel heitir hann herrann minn enn kæri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Versin í Sálmabók eru 2.-5. erindi, 10., 11. og 13. erindi kvæðisins.
Kvæðið hefst á sögulegum inngangi um fæðingu barnsins, „sem best hefur andarsárin grætt“, í Betlehem (2. og 3. erindi). Það voru hirðarnir á Betlehemsvöllum sem fyrstir heyrðu fagnaðartíðindin af fæðingu Guðs sonar. Þeir fóru að boði engilsins til Betlehem og fundu „bæði Guð og mann“ (4. erindi). Fimmta erindið skírskotar til englasöngsins á Betlehemsvöllum og í framhaldinu erum við hvött til þess að fylgja í fótspor hirðanna og fara einnig að boði engilsins til Betlehem (6. erindi). Betlehem er kirkjan, kór kirkjunnar er jatan og Jesús kemur sjálfur í orði sínu:
Betlehem kallast kirkjan svinn, kórinn held eg stallinn þinn, því hef eg mig þangað, herra minn, svo heilræðin að þér læri. Með vísnasöng eg vögguna þína hræri. (7. erindi)
Skáldið hvetur til þess að við tökum Jesú úr stallinum og höldum honum í faðmi okkar. Faðmurinn er trúin og (8.-9. erindi) og í samræmi við það er markmiði jólahaldsins lýst á þennan hátt í 10. erindi:
Þér gjöri eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt eg hitt í té, vil eg mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér minn kæri. Með vísnasöng eg vögguna þína hræri. (10. erindi)
Í þeirri vöggu er trúin koddi og elskan og iðrunin sængin (11.—14. erindi) og við það fær trúuð sála vernd og blessun Jesúbarnsins sem er Immanúel, Guð með oss (15.-17. erindi). Fimmtánda erindið er eins konar „brynjubæn“ þar sem Jesús er beðinn að vera okkur vernd og skjöldur á allar hliðar:
Vertu yfir og undir hér, Emmanúel, fagna eg þér, á bak og fyr og í brjósti mér og báðum hliðunum nærri. Með vísnasöng eg vögguna þína hræri. (15. erindi)
Í framhaldinu er vikið að gjöfum vitringanna, gulli, reykelsi og myrru. Þegar við setjum okkur í spor vitringanna og færum Jesúbarninu gjafir, þá er trúin gull, bænin er reykelsi og þakklætið er myrra (18.-21. erindi). Í vernd Jesú getur trúuð sála verið óttalaus og áhyggjulaus:
Mér er nú ánauð engin sár þó oft eg felli sorgartár; öllu linar þú, Jesús klár, og ert mér sjálfur nærri. Með vísnasöng eg vögguna þína hræri. (22. erindi)
Niðurlag kvæðisins er bæn um sanna ávexti iðrunarinnar (23.—29. erindi). Þar er skírskotað til guðspjalls nýársdagsins, áttadags jóla, um umskurn Krists:
Umsker, herrann, hjartað mitt og hrær það að geyma orðið þitt; yfirhúð synda held eg hitt sem hamlar að eg það læri. Með vísnasöng eg vögguna þína hræri. (23. erindi)
Inntakið í niðurlagserindunum er að Jesús Kristur þekkir neyð og kvöl mannkynsins af því að hann er Guð og maður. Þess vegna getur hann komið til hjálpar þeim sem biðja hann í einlægni. Samkvæmt vöggukvæði séra Einars í Eydölum er inntak hátíðahalds jólanna að Guðs sonur fæðist að nýju í hjarta einstaklingins (10. erindi). Sú áhersla hefur verið algeng í lútherskri guðrækni og prédikun. Í sálmi Lúthers „Af himnum ofan boðskap ber“ segir t.d. í 9. erindi:
Því bú til vöggu í brjósti mér, minn besti Jesús, handa þér. Í hjarta mínu hafðu dvöl, svo haldi ég þér í gleði og kvöl.
Sömu áherslu er líka að finna í aðventusálmi séra Valdimars Briem, „Slá þú hjartans hörpustrengi“ nr. 57 í Sálmabókinni og í jólasálmi séra Matthíasar Jochumssonar, „Ég vil með þér, Jesús, fæðast“, nr. 95 í Sálmabókinni.
Vöggukvæði séra Einars í Eydölum skírskotar til einstaklingsins og persónulegrar trúar hans og er kvæðið allt í eintölu. Samt sem áður er ekki einstaklingshyggja þarna á ferðinni. Það er ekki einstaklingurinn einn og sér sem hvattur er til að leita sér reynslu heldur er í kvæðinu talað til hins skírða, kristna einstaklings, sem er barn kirkjunnar. Skírskotunin í kvæðinu er því kirkjuleg og þar með félagsleg. Fæðing Guðs sonar í hjarta einstaklingins, sem á máli fyrri tíma guðfræði var nefnd leyndarsameining sálarinnar við Guð (unio mystica), gerist heldur ekki milliliðalaust, heldur fyrir meðalgöngu orðs Guðs og sakramenta. Kvæðið kallar okkur þess vegna ekki til að leita reynslu er sé óháð mannlífinu sjálfu. Eins og Jesús fæddist upphaflega á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma mannkynssögunnar svo eiga menn að lifa trúarlífi á sviði hins raunverulega lífs. Í vöggukvæði sínu tjáir séra Einar Sigurðsson vel þá áherslu siðbótar að trúin er ekki sérgreint, einangrað fyrirbæri óháð manninum, lífi hans og amstri, heldur snertir hún manninn í lífinu miðju.
Lofið og dýrð á himnum hátt honum með englum syngjum þrátt; friður á jörðu og fengin sátt, fagni því menn sem bæri. Með vísnasöng eg vögguna þína hræri. (5. erindi)