Nýtt boðorð gef
ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér
einnig elska hver annan. (Jóh. 13.34)
Mér
er í fersku minni þegar tvær litlar stúlkur komu hlaupandi á móti mér á
sólríkum og fallegum degi í Búðardal stuttu fyrir páska. Langar leiðir mátti
sjá gleði og eftirvæntingu skína úr andlitum þeirra, og þegar þær nálguðust mig
heyrði ég þær hrópa: Veistu að svanirnir koma í dag! Þrátt fyrir að þessar
upplýsingar væru mér algjörlega ókunnar, var ómögulegt annað en að hrífast með,
því skilaboðin voru skýr; það voru tímamót í vændum og þeim fylgdi ferskur
andblær vonar og gleði.
Það
er ekki ofsögum sagt að veturinn hafi verið okkur landsmönnum harður. Hver
lægðin af annarri gengið yfir landið með óveðri, ofsaveðri og ófærð, stundum í
öllum landshlutum, dag eftir dag. Við sem erum búsett í Dölum fáum ekki síst að
finna fyrir því þegar Brekkan lokast. Það er okkar farartálmi á veturna. Margir
voru að vonum orðnir langþreyttir eftir tveggja mánaða veðurofsa og fannst
löngu tímabært að þessu færi nú að linna. En þá gerðist hið óvænta og annars
konar, óþekkt óveðursský hrönnuðust upp. Á örfáum dögum blasti við ný og óþekkt
heimsmynd sem setti allt daglegt líf manna á annan endann, sem og óttinn og
óvissan yfir því hvað tæki við. Það er auðvelt að finna til vanmáttar í slíkum
aðstæðum og við upplifum smæð okkar þegar við áttum okkur á því að við fáum
ekki við allt ráðið. Þá er okkur mikilvægt að eiga með okkur þá trú að yfir
okkur sé vakað og von um að það birti til um síðir.
Einn daginn bárust svo þau gleðitíðindi að vorið væri handan við hornið. Það var því sannkallaður tímamótadagur, dagurinn þegar ofsalognið mætti í Dalina með sól og heiðríkju og ég trítlaði niður á bryggjusporðinn til þess að líta yfir fegurð Hvammsfjarðar. Nú var hann baðaður geislum sólar og iðaði af fuglalífi og viti menn, svanirnir voru mættir. Svanurinn er sennilega með tígulegri fuglum í íslenskri fuglaflóru. Hann minnir mig á ævintýrið um hana Dimmalimm, söguna af svaninum sem felldi haminn þegar prinsessan góða, hún Dimmalimm, leysti hann undan álögum sínum með umhyggju og takmarkalausri ást. Þetta er í raun falleg ástarsaga sem ber með sér sterka táknmynd um þjónustuna sem lífi okkar er ætlað að vera. Með sama hætti opinberast ástarsaga náttúrunnar okkur í gjöfulleika hennar. Gleðinni sem hún ber inn í tilveru okkar þegar lífið kviknar að nýju, við sauðburðinn hér á vorin, þegar fuglasöngurinn berst um móana og ilmur af nýslegnu grasi fyllir loftið. Þá er eins og draumar okkar og þrár fái vængi.
Það
helltist yfir mig sterk upplifun vonar og gleði við að sjá eftirvæntinguna
skína úr andlitum stúlknanna og mér varð hugsað til atburða páskavikunnar sem
framundan var. Um vonina sem vaknað hafði hjá fólkinu sem vænti komu þess sem
breytt gæti lífi manna og heims, Jesú Krists. Fæstir höfðu hins vegar séð
atburðarásina fyrir og vonir og væntingar þessa sama fólks breyttust fljótlega
í ótta og skelfingu við atburðina sem á eftir fylgdu. En ekki leið á löngu þar
til nýr veruleiki blasti við sem veitti heiminum von að nýju. Þar hefur Jesús
gripið um hjarta okkar og gefið okkur einfalda uppskrift til að fara eftir:
Elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Hin sanna þjónusta við lífið
felst í því að við tökum hvert annað að okkur í kærleikanum og spörum ekkert
til. Frásögnin af Maríu í Betaníu sem tók aðeins örfáum dögum fyrir páska
ilmsmyrsl og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu talar með sterkum hætti
inn í þá mynd. Það var falleg, fábrotin og táknræn athöfn þegar konan smurði
Jesú. Einhverjir hneyksluðust á gjörðum hennar en Jesús svaraði þeim og sagði:
Gott verk gjörði hún mér. Konan þjónaði, gaf af sér og gerði það sem hún taldi
best. Hennar verður minnst fyrir góðverk sitt um aldur og ævi. Og kærleiksverk
konunnar hefur borist eins og ilmur um heim allan. Ilmur af góðvild og
umhyggju. Við höfum séð táknmyndina blasa við okkur í öllu því góða fólki sem
léð hefur Guði hendur sínar til þjónustu við þá sem veikst hafa af
covid-19-veirunni. Okkur hafa borist fréttir af því að í þeim löndum, þar sem
ástandið hefur verið hvað verst, hafi heilbrigðisstarfsfólk fórnað eigin lífi í
þeirri þjónustu. Þeirra verður minnst fyrir góðverk sitt.
Eftir
vetur kemur vor og þó að náttúran geti reynst okkur oft býsna hörð, þá er hún
að sama skapi gjöful. Guð gleymir okkur ekki. Söngur svananna úti á firðinum
minnir okkur á að fuglarnir sem forðuðu sér undan vetri mæta aftur til að
gleðja okkur með söng sínum og litríkri tilveru. Við getum öll glaðst yfir þeim
tímamótum.