Inntak lífsins er ást

Inntak lífsins er ást

Já, hvað er það sem raunverulega getur linað mannlegar þjáningar? Ég spyr þig, vegna þess að ég veit að þú veist svarið jafn vel og ég. Hvað er til sem dregur úr kvíða, bætir sorg, mildar reiði, hjálpar í vanmætti... Það er mannleg snerting. Snerting og nærvera. Ást. Það er það eina sem dugir.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
09. nóvember 2008
Flokkar

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“

Matt. 9. 35-38

I

Guðspjallið segir okkur frá því að Jesús kenndi í brjósti um mannfjöldann. Hvað er það? Í fyrravetur fékk Matthildur dóttir mín þá hugmynd að fara í fjögurra mánaða heimsreisu um Asíu og Ástralíu á þessum vetri. Ég fann að sú tilhugsun olli mér strax kvíða að horfa á eftir henni tvítugri í slíka ferð. Hún var hins vegar mjög staðföst í þessu og hefur lagt samviskusamlega fyrir megnið af launum sínum og nú í upphafi mánaðarins lagði hún af stað ásamt nokkrum vinkonum. Fyrsti áfangastaður var Delí á Indlandi. Ég upplifði það nóttina sem hún fór að mig verkjaði fyrir brjóstinu þegar við kvöddumst. Ég kenndi til í brjóstinu, fann sárlega til vegna þess að á milli okkar ríkir ást og sú staðreynd að hún væri að leggja í slíka langferð kallaði fram líkamlegan sársauka. Þó hafði ég undirbúið mig vikum saman m.a. með því að eiga hér bænasamfélag með góðu fólki þar sem við reglulega felum hana og mörg önnur málefni góðum Guði. Guðspjallið segir frá því að Jesús hafði verk fyrir brjóstinu, hann fann til hérna er hann sá mannfjöldan, hann fann til í hjartanu. Við verðum að gæta þess að rugla ekki saman ást og meðaumkvun. Sú kennd, að kenna í brjósti um einhvern, á ekkert skylt við meðaumkvun. Ástin býr í brjósti manns, meðaumkvunin er einhversstaðar annarsstaðar. Enginn vill láta aumkva sig en öll þráum við að vera elskuð og að elska. II

Það er kristniboðsdagurinn í dag og þá er þetta guðspjall lesið í mörgum kirkjum og rifjað upp hvernig Jesús kenndi til þegar hann sá fólk, einkum fólk sem hafði margar óuppfylltar þarfir. Hann sá mannfjöldann og skildi og fann að þau voru hrjáð og umkomulaus eins og sauðir sem engan hirði hafa.

Það er margt fólk á Íslandi sem upplifir sig hrjáð og umkomulaust í dag. Það er mikill kvíði og þungar áhyggjur í brjósti margra. Ekki síst þeirra sem hafa fyrir börnum að sjá en eru að missa lífsviðurværi sitt. Það skiljum við.

Jesús Kristur horfir á íslenska þjóð og kennir til, kennir í brjósti um þau sem illa eru leikin og illa verða leikin. Hann aumkar engan, gerir ekki lítið úr neinum, en samlíður finnur til með fólki. Og svo segir hann við okkur: “Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.” III

Höfum við ekki flest fundið fyrir því að það er líkt og gleðin sé horfin af mörgum andlitum sem við mætum. Það er áhyggjusvipur á fólki, kvíði í augnaráði og líka reiði. Við þessar aðstæður segir Jesús: “Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.”

Verkamenn Jesú Krists eru þau öll sem eiga hjarta sem finnur til með öðrum. Þau sem eiga augu til að sjá óuppfylltar þarfir meðbræðra sinna og löngun til þess að bæta úr, styðja, gleðja, vera samferða. Sá sem horfir á meðbróður sinn með meðaumkvun ætlar ekki að vera samferða, hann er bara að horfa. Meðaumkvun er engin gæska. Meðaumkvun hjálpar engum en það gerir ástin. Ítrekað er um það fjallað í guðspjöllunum að Jesús horfið á fólk með ástúð. Við segjum stundum og ég þori ekki að sverja fyrir að hafa ekki einhverntíman orðað það þannig sjálf(ur) að Jesús hafi verið kærleiksríkur og góður maður. En það er villandi að tala þannig því Jesús var meira en kærleiksríkur. Kærleikur er ekki nóg. Guð sendi ekki son sinn í heiminn vegna þess að hann hefði kærleiksríka afstöðu til veraldarinnar. “Svo ELSKAÐI Guð heiminn” segir Biblían. “Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn.” (Jóh. 3.16) Mér er ekki nóg að vita það að maki minn hafi kærleiksríka afstöðu til mín. Mér dugir ekki að finna að börnin mín hugsi til mín með kærleika. Það nægir mér ekki. Ekkert dugir hamingjunni minna en ástin. Ástin veldur nefnilega efnahvörfum. Hún er eins og eldur, hún lætur okkur kenna til í brjóstinu svo við brennum. Um leið og ég nefni við ykkur hana Matthildi dóttur mína þá finn ég til í hjartanu, vegna þess að ég elska hana, ég elska barnið mitt, og einmitt núna get ég ekki varist áhyggjum hennar vegna.

Ást veldur efnahvörfum en kærleikur veldur bara skipulagsbreytingum. IV

Hlustaðu á þetta: “Þegar Jesús sá mannfjöldan gat hann ekki varist áhyggjum af stjónmálaástandinu.” Gæti þetta staðið í Biblíunni? “Þegar Jesús sá mannfjöldann varð hann þungt hugsi yfir hernámi Rómverja á Gyðingum og þeirri þróun sem það hafði hrundið af stað.” Nei, svona væri ekki hægt að lýsa Jesú. Jesús kenndi til. Hann horfði á fólkið og brann innra með sér, hann kenndi í brjósti um fólkið vegna aðstæðna þess.

Þessari köldu veröld dugir ekki bætt skipulag og aukinn kærleikur manna í millum. Kærleikur er ekki nóg. M.a.s. réttlæti er ekki nóg. Þessi kalda veröld þarfnast þess að vera elskuð. Hvert og eitt okkar þarfnast ástar. Við þurfum og þráum umhyggju sem sprettur af ást. Hvað er það sem linar þjáningar? Já, hvað er það sem raunverulega getur linað mannlegar þjáningar? Ég spyr þig, vegna þess að ég veit að þú veist svarið jafn vel og ég. Hvað er til sem dregur úr kvíða, bætir sorg, mildar reiði, hjálpar í vanmætti... Það er mannleg snerting. Snerting og nærvera. Ást. Það er það eina sem dugir. Ég heyrði um hversdagslegt atvik sem átti sér stað í húsi einu í borginni. Fimm ára stúlka vaknaði upp í rúmi sínu um miðja nótt því hana hafði dreymt illa. Hún hljóp berfætt inn í svefnherbergi foreldra sinna og vakt föður sinn grátandi. Pabbinn tók barnið í fangið bar hana aftur yfir í herbergið, lagði hana í rúmið, breiddi yfir barnið og strauk henni yfir hárið og sagði: “Nú skaltu sofna aftur og ekki vera hrædd, Guð og englarnir gæta þín.” - “Guð og englarnir er ekki nóg” svaraði þá telpan kjökrandi “Ég þarf einhvern sem hefur skinn.” Fagnaðarerindi trúarinnar er einmitt það að Guð hefur skinn. Við trúum á Guð sem gerðist maður, tók á sig hold. Guð er með skinn til þess að við getum skilið inntak lífsins og þjónað lífinu. Inntak lífsins er ást. “Nýtt boðorð gef ég ykkur” sagði Jesús við lærisveina sína. “Nýtt boðorð gef ég ykkur, að þið elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað ykkur skuluð þið einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þið eruð mínir lærisveinar, ef þið berið elsku hvert til annars.” (Jóh. 13. 34-35) Skynjarðu hve róttæk orð Jesú eru? Hann fyrirskipar ást milli lærisveina sinna. Einkenni kirkju hans á að vera elskan í samskiptum manna. Hvers vegna? Vegna þess að það dugir ekkert minna. V

Nú eru erfiðleikatímar hjá Íslenskri þjóð. Tími kvíða og reiði. Í gær varð sá átakanlegi atburður að Alþingishúsið var grýtt af reiðum mannfjölda. Alþingi er vettvangur lýðræðisins, samtalsins sem þjóðin á innbyrðis. Við skiljum öll þær tilfinningar sem búa að baki þessu verki en réttmæti þess verðum við að meta. Dýpst skoðað liggur ástæða bankahrunsins og allra þeirra atburða sem við erum nú að lifa í stjórnlausri græðgi, taumleysi. Við munum ekki bæta vandann með meira stjórnleysi. Öllu heldur verðum við að tala saman, virkja lýðræðið og iðka það. Samtímamenn Jesú bjuggust við uppþotum og byltingu hvar sem hann kom, því að hann hafnaði hverskyns órétti og gerði engan mannamun. Lærisveinar Jesú ólu þá von í brjósti að hann myndi fá þjóðina til að rísa upp gegn hernámi Rómverja en aðferð Jesú var alltaf hin sama, hann iðkaði samtal. M.a.s. óvinirnir þurftu að þola ástríki hans og virðingu. Lýðræði var göngulag hans í öllum samskiptum. Nú eru örlagatímar sem krefjast róttækra aðgerða. Stjórnleysi er ekki róttæk aðferð því rót vandans sem við er að etja er einmitt stjórnleysi. Núna er þörf á róttækri elsku, elsku sem gerir engan mannamun og engar málamiðlanir um sannleikann heldur leitar hans uns hún finnur hann. Nú verðum við að elska, finna til hvert með öðru, verkja undan aðstæðum náungans, svo að sú samvitund megi skapast að við “eigum hvert annað og hönd í hönd stöndum við sterk saman.” Amen.