Kvika

Kvika

Við erum mótuð af þeim boðskap sem hér hefur verið ræddur. Þarna varð til sú ólgandi kvika sem átti eftir að brjótast upp á yfirborðið þegar undirokaðir hópar leituðu réttlætis. Þá sóttu þeir í þessa texta og gátu jafnvel með friðsamlegum hætti, samspili réttlætis, miskunnsemi og heiðarleikann opnað augu samfélagsins fyrir því sem aflaga fór.

Möttullinn er okkur hugstæður þessa dagana. Þá er ég að tala um möttul jarðar.


Hvað leynist í undirdjúpum?

 

Það er eitthvað magnað við það að glóandi hraunið sem vellur upp úr spurningar við Litla-Hrút skuli eiga upptök sín í þessum dularfulla massa undir fótum okkar. Okkur hefur lengi dreymt um að geta kannað hann og að ljúka upp leyndarómum hans.

 

Dýpsta hola í heimi liggur í gegnum jarðskorpuna í átt að möttlinum. Hún nær niður á tólf kílómetra dýpi en það dugir hvergi til. Lengra þarf að bora til að ná að möttlinum og þangað höfum við ekki komist. Það er svolítið merkilegt því tólf kílómetrar eru í flestu samhengi, alls ekki löng vegalend. Þannig hafa manngerð farartæki náð 23 milljarða kílómetra út í himingeiminn en staðreyndin er sú að við vitum meira um yfirborð fjarlægra pláneta en þessa innviði jarðarinnar.

 

Og hann vellur þarna upp úr sprungunum á Reykjanesinu okkur ýmist til hrifningar eða ama. Það er með þessar hræringar allar að sjaldan leiðum við hugann að því sem bærist í undirheimum þessar plánetu, nema auðvitað þegar jörðin fer að nötra og glóheitt efnið rennur upp á yfirborðið.

 

Svo er háttað um svo margt annað í lífinu. Hugmyndir geta komið fram og leyst í undirdjúpum siðferðis og menningar. Í raun getum við sagt að í Biblíunni birtist hugmyndir sem séu eins og undirstraumur sem geti legið í dvala kynslóðum saman uns þeir vakna til lífsins og koma miklum breytingum til leiðar.


Að uppfylla lögmálið

 

Þessir texta sem við hlýddum á hér áðan eru einmitt lýsandi fyrir slík mótunaröfl. Fyrir það fyrsta þá eru þeir ekki settir fram meðal þeirra þjóða sem mest áhrif höfðu á þeim tíma. Því fer fjarri. Þeir koma fram á jaðrinum, eiga rætur að rekja til fátæks fólks sem hafði lítil sem engin völd í samanburðinum við keisara, embættismenn og auðmenn þess tíma.

 

Já, það er merkilegt að huga að félagslegri stöðu Jesú sem sagði þessi orð: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla.“

 

Ótrúlegt hlýtur það að hafa verið að leggja eyrun við þessum fátæka manni sem tók sér svo stór orð í munn. Hvaða vald bjó þar að baki? Og hvað merkir það að uppfylla fremur en að afnema?

 

Þetta lögmál ber oft á góma í textum okkar. Í sinni ströngustu mynd innihélt það nákvæma forskrift að því hvernig átti að lifa og hrærast frá degi til dags. Matvæli voru rækilega flokkuð og þótti það vera hin versta óhæfa að leggja sér sumt það til munns sem við í dag borðum með bestu lyst. Mögulega eru rætur þess upphaflega tengd heilsu og velferð fólks en smám saman fengu þessar reglur trúarlegan sess.

 

Annað kann að tengjast hreinlega einhvers konar dýravelferð ef svo má segja. Þannig má ekki „sjóða kálfinn í mjólk móður sinnar“ og við hljótum að geta samsinnt þeim hugmyndum sem þar birtast. Strangtrúaðir gyðingar blanda því ekki saman mjólkurvörum og kjöti. Ostborgarar eiga ekki upp á pallborðið hjá þeim.

 

En í grunninn var þetta lögmál það sem segir í orðum Jesaja – eins konar sáttmáli. Ef þið standið við ykkar þá skal ég varðveita ykkur – segir Guð. Þær reglur vour fyrst og fremst siðferðilegar. Starf þeirra sem fylgdu Jesú að máli varð svo að flétta þessi ákvæði inn í það sem kristnir menn kalla fagnaðarerindi. Reglurnar áttu ekki að vera úrslitaatriði um stöðu manneskjunnar frammi fyrir Guði. Því skyldi vera öfugt farið. Hegðun fólks átti fremur að endurspegla sannfæringu hvers og eins og trú.


Réttlæti, umhyggja og heiðarleiki

 

Eftir stóð krafan um réttlæti, umhyggju og heiðarleika. Þetta er það sem Jesús sagðist vilja uppfylla í orðum sínum og þetta staðfesti hann í athöfnum sínum og samskiptum. Réttlætið og miskunnsemi haldast í hendur þar sem umhyggjan fyrir manneskjunni er að endingu það sem skiptir máli. Þetta er því ekki blint réttlæti heldur helst það í hendur við hið næma auga kærleikans sem leitar mildi og leitast við að efla velferð þeirra sem standa höllum fæti. Þetta er uppfyllingin – ekki bókstafstrú og hugsunarlaus fylgispekt heldur raunveruleg umhyggja fyrir okkar minnstu stystkinum.

 

Og heiðarleikinn snýst um djörfung til að segja sannleikann sem getur verið sár. Stundum sagt að þroski snúist um ákveðið jafnvægi nærgæti og hreinskilni. Ef við erum of nærgætin, kemst sannfæring okkar ekki til skila. Of hreinskilin, getum við sært og meitt fólk þegar við tjáum skoðanir okkar. Að uppfylla lögmálið í þessu samhengi fjallar um það að láta siðvit okkar og umhyggju stjórna því hvernig við komum fram.

 

Hversu margir skyldu hafa heyrt þessi orð? sjálfsagt hafa þau verið fá. Og hversu auðveldlega hafa þau farið framhjá þeim sem völdin höfðu á þeim tíma?

 

Hið sama má segja um orð Páls til Galatamanna: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“

 

Þessu má í samhengi inngangins líkja við heljarinnar kvikuhólf undir sakleysislegu landsvæði. Hver skrifar og hver tekur á móti? Aftur erum við á jaðrinum. Fátækur minnihlutahópur í þessu hellenska umhverfi og farandpredikari sem átti eftir að sitja í fangelsi fyrir sannfæringu sína.


Þrælahald

 

Þessum orðum er beint að þeirri tilhneigingu að raða fólki eftir metorðum. Þeim er beint gegn óréttlæti og kúgun. Þau vega að þrælahaldi og arðráni, nokkuð sem var hluti af efnahagskerfi hins gamla heims og enn í dag horfum við full blygðunar upp á sambærilega stöðu mála. Mansal mun vera í óhuggulegum vexti í veröldinni og netsíður birta svívirðilega glæpi gegn varnarlausum, jafnvel börnum.

 

Mikilvægustu textar Biblíunnar eru ritaðir til ánauðugra hópa. Móse leiddi þræla til fyrirheitna landsins og spámennirnir fluttu sinn boðskap mitt í herleiðingunni. Þetta er bakgrunnurinn þegar Jesús talar um helgi hverrar manneskju. Og Páll túlkar þau orð á þennan ódauðlega hátt.

 

Páll þekkti líka frásagnirnar af því þegar Jesús lagði sig fram um að eiga samfélag við jaðarhópana, samverjana sem þóttu vera óhreinir, konurnar sem þóttu vera óæðri, börnin sem höfðu ekki þroska og vit, líkþráa sem reknir voru út fyrir borgarmúrana, bersynduga sem hneyksluðu.

 

Já, Biblíunni talar til fólks í ánauð, ánauð sem birtist með svo margvíslegum og ólíkum hætti. Gegn þessu berst kristið fólk og ein virtustu mannréttindasamtök heimsins, Lútherska heimsambandið hefur gert baráttuna gegn þrælahaldi að sínu brýnasta verkefni.

 

En svo, þegar talað er um þessa hluti er ég vissulega að predika yfir kórnum er það ekki? Hver hérna inni væri svo sem talsmaður þrælahalds? Vonandi enginn! En lítum okkur nær. Þessir textar voru fluttir í samfélagi þar sem slík meðferð á fólki þótti sjálfsögð. Frjálsbornir auðmenn höfðu fullan rétt yfir lífi og líkömum undirsáta sinna.

 

Upp úr þeim aðstæðum spretta formælingar kristinna manna um ýmsa kynhegðun. Þeir andmæltu því hvernig valdsins menn misnotuðu það fólk sem var þeim undirgefið. Og enn í dag er slíkt ástundað. Í skugga fátæktar og örbyrgðar er komið eins fram við varnarlaust fólk. Myndum af því athæfi er svo streymt til fólks þar sem býr velferð og öryggi vestrænna samfélaga.

 

Stundum heyrist sú gagnrýni að þrælahald sé aldrei formlega gagnrýnt í Biblíunni. Þar býr þó meira undir.

 

Þegar Jesús sjálfur var festur á krossinn þá þoldi hann þann dauða sem þrælum var ætlaður. Á myndum er hann með mittisskýlu en í fræðmenn benda á að fórnarlömbin voru nakin. Þessi aftaka var klám þessa tíma, niðurlæging varnarlausrar manneskju. Þegar við setjum upp krossa í kirkjum og jafnvel á okkur sjálf þá minnum við okkur á það að hinn æðsti tók sér stöðu með þeim sem stóðu allra neðst í grimmum og miskunnarlausum heimi. Og upp frá þeirri stöðu reis hann svo upp og boðaði nýja tíma og nýja hugsun.


Upp úr undirdjúpunum

 

Já, ég predika auðvitað yfir kórnum þegar ég fordæmi þrælahald. En ástæðan fyrir því kann einmitt að vera sú að orðin sem flutt voru á sínum tíma áttu eftir að lifa í undirdjúpum menningar og siðferðis, kynslóð fram af kynslóð.

 

Við erum mótuð af þeim boðskap sem hér hefur verið ræddur. Þarna varð til sú ólgandi kvika sem átti eftir að brjótast upp á yfirborðið þegar undirokaðir hópar leituðu réttlætis. Þá sóttu þeir í þessa texta og gátu jafnvel með friðsamlegum hætti, samspili réttlætis, miskunnsemi og heiðarleikann opnað augu samfélagsins fyrir því sem aflaga fór.

 

Sú viðleitni er sístæð og á ekki síst erindi á okkar dögum. Hún er hluti af þeim möttli sem Biblían er, undirstaða alls þess sem síðar rís upp, endurmótar og endurskapar.