Dómkirkjan leggur ríka áherslu á barnastarfið í söfnuðinum. Með því að börnin fái að kynnast Jesú bróður besta á ungum aldri eignast þau lifandi trú sem verður þeim til halds og trausts ævina alla. Þegar eldri kynslóðir Íslendinga rifja upp bernsku- og unlingsárin er gjarnan minnst góðra stunda með séra Friðriki og trúrækni á heimilunum. Þeir sem kynnast trúnni og trúrækni á ungum aldri sjá ekki eftir því. Öðru nær. Heimili, skóli og kirkja skulu vinna saman að trúaruppeldi og tryggja sem best að það sé og verði eðlilegur þáttur í heilbrigðu uppeldi og leiðsögn til þroska.
Í samtíma okkar er afstæðishyggja áberandi. Til þess er gjarnan vísað að á tímum fjölmenningar sé ekki hægt að halda einu fram umfram annað. Öllum skoðunum, öllum möguleikum, skuli gert jafnhátt undir höfði. Þetta viðhorf byggist á misskilningi. Enda þótt við sýnum umburðarlyndi og skilning öðrum trúarbrögðum og menningarheimum þá hljótum við að rækta og rækja trú og menningu okkar áfram. Gild rök hníga einnig að því að það sé ennþá mikilvægara á tímum aukinnar hnattvæðingar. Út er komin bók til heiðurs Páli Skúlasyni háskólarektor sextugum, “Hugsað með Páli.”
Það er frábært verk þar sem margir heimspekingar og hugsuðir leggja af mörkum með ritgerðum um margvísleg málefni samtímans. Eitt það sem Páll hefur bent á er það að samtíminn sé yfirborðslegur. Rökin komi ekki fram, forsendurnar fyrir stefnu og ákvörðunum séu ekki ræddar og rökræddar. Því miður er þetta allt of satt. Hver hefur eftir öðrum, tekur undir, samsinnir hugsunarlítið án þess að taka afstöðu og án þes að tefla fram gildismati.
Salvör Nordal hugsar með Páli um kristnifræðikennslu og trúaruppeldi. Í ritgerð sinni telur Salvör veigamikil rök hníga að því að auka beri kristnifræðikennslu. Foreldrarnir og einnig skólarnir hafi þar afar þýðingarmiklu hlutverki að gegna sem ekki megi vanrækja.
Með því að vilja láta börnin ákveða sjálf hvort þau trúa þegar þau séu uppkomin þá sé í raun búið að svipta þau möguleikanum á að trúa. Trúin verði ekki lifandi fyrir öðrum en þeim sem hafi kynnst henni, lifað hana. Ef við látum börn og unglinga afskiptalausa í þessum efnum á þroskaárum, þá séum við að taka frá þeim möguleikann að velja eða hafna trúnni sjálf þegar þau fullorðnast.
Salvör vitnar í bandaríska heimspekinginn William James og segir:
“Val milli trúar eða óvissu, eins og James orðar það, er mikilvægt val hverjum manni. Það krefur einstaklinginn um að takast á við nokkrar mikilvægustu spurningar mannlegrar tilveru, um tilgang lífsins, um stöðu manneskjunnar í veröldinni og um grundvöll siðaskoðana. Er ástæða til þess að forða ungu fólki frá þessum viðfangsefnum?Þessar spurningar eru mjög tímabærar og byggja á gildum rökum. Afskiptaleysi og tómleiki gagnvart svo stórum þætti í menningu, sögu og samtíð okkar, sem kristin trú er, felur í sér ábyrgðarleysi bæði gagnvart börnunum og komandi kynslóðum Íslendinga.Við getum velt því fyrir okkur hvers vegna við eigum að takmarka valkosti barna í þessum efnum. Treystum við þeim ekki til að takast á við þessar spurningar? Óttumst við að þau samþykki trúna hugsunarlaust? Óttumst við að velji þau trú verði þau ofstæki að bráð? Hvernig sem við svörum þessum spurningum virðist mér að í umræðunni megi sjá forræðishyggjunni bregða fyrir og ef hún stjórnar gerðum okkar þá erum við að sýna börnum okkar óþarfa lítilsvirðingu. Við treystum því ekki að þegar þetta unga fólk vex úr grasi geti það tekist á við þessi efni sjálft og á sínum forsendum.”