Í dag er Gleðigangan og leggur af stað frá BSÍ þar sem svo mörg góð ferðalög einmitt hefjast.
Þessi ganga er kennsla í lífsleikni því hún þjálfar okkur í því að taka lífinu fagnandi og hafa sigrandi afstöðu til hlutanna.
Gay pride er sigurganga samfélagsins þar sem það syngur og dansar og dillari sér frammi fyrir þeim fúlu öflum sem alltaf vilja úthýsa því sem er hinsegin. Gleymum bara ekki að hin fúlu öfl búa í okkur öllum og við þurfum að bera ábyrgð á þeim hvert og eitt og sameiginlega. “Ég er eins og ég er” er í raun yfirskrift þessa dags og lagið er líka flott.
Ef eitthvað er kristilegt þá er það Gleðigangan. Svona hefur fólkinu liðið sem fagnaði Jesú þegar hann kom ríðandi á asnanum. Það hefur skynjað frelsi til þess að vera það sjálft. Og þegar honum var bent á að segja fólkinu að þegja ansaði hann: Ef þessir þegja munu steinarnir hrópa!
Við erum ekki bara að lifa hrun og reiði. Við erum líka að upplifa samfélag sem þorir að fagna lífinu eins og það er. Gleðigangan á Íslandi er eitthvert jákvæðasta menningartáknið í samtímanum. Hún ber með sér von um alvöru þjóðlíf þar sem við gerum ráð fyrir öllu fólki og lærum að lifa saman í sátt hvert við annað og í takti við náttúruna.
Mætum!