Allt, sem andardrátt hefur, lofi Drottin. Hallelúja. (Sálm.150.6)
Á þessum orðum endar sú bók Heilagrar Ritningar sem gjarna er kölluð bænabók Biblíunnar, og bænabók Jesú Krists, Sálmarnir. Þessi hvatningarorð merkja að allt sem andardrátt hefur getur lofað Drottinn! Lífið kviknar af lífsanda Guðs sem hann blæs í hið and-vana svo það verði lifandi.
Aldrei meir en á þeim dögum þegar ógn eldgoss og öskufalls steðjar að erum við á það minnt að við erum hluti hinnar einu sköpunar Guðs og deilum örlögum með öllu því sem andar, menn og dýr og jurtir, fuglar himins og fiskar sjávar og vatna, skógur, akrar og tún, villt dýr og tamin, húsdýr og allur búsmali. En í öllu þessu er maðurinn kallaður til sérstakrar ábyrgðar sem hann kann engan vegin að axla án þess að ákalla sér til hjálpar skapara himins og jarðar og frelsara sinn Jesú Krist.
Þegar æðandi kraftar eldsins úr iðrum jarðar, þrýsta öskunni til himins breiða hana yfir byggðirnar, byrgja auglit sólar, fela angan jarðar , og fylla vit alls sem andar, áköllum við þig ó, Guð um miskunn.Þú, sem í árdaga bast höfuðskepnurnar og breyttir óskapnaðinum í sköpun við biðjum þig, Kom í mætti þínum og beisla óhemjuna, svo að aftur verði kyrrð og friður á jörðu, ullin verði aftur hvít og jörðin græn og fólkið gangi til iðju sinnar í öruggu trausti, til verndar þinnar og varðveislu í frelsaranum Jesú Kristi. Amen.
Lofaður sé Guð sem leyfir okkur að starfa í krafti þeirra huggunarorða sem við lesum í Jesajabókinni:
Svo segir Drottinn Guð sem skapaði himininn og þandi hann út, sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga: Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti og held í hönd þína. (Jesaja 42. 5-6)
Halt þú Drottinn í hönd þeirra sem paufast áfram í myrkri öskufallsins til að hjálpa mönnum og skepnum og greið þeim leið uns sólin fær aftur brotist gegn um skuggaskýin.