Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
“Hvar skal byrja? hvar skal standa? hátt til fjalla? lágt til stranda.
Þannig spyr sr. Matthías Jochumsson í fyrsta erindi sínu í ljóðinu Skagafjörður. Ljóðið er þrettán erindi og um það sagði Jónas frá Hriflu, að það væri voldugasti óður um íslenskt hérað. “Í engu öðru sögu- og hetjulóði er byggðin og sagan ofin jafn listilega í samfelldan glitvef andgiftar, stílfegurðar og mælsku,” að mati Jónasar.
Þegar ljóðið er lesið sér maður Matthías fyrir sér fara um héraðið á margra daga ferðalagi, lesa um sögu þess og setja ljóðstafi á blað á hverjum þeim stað þar sem andinn kom yfir hann.
En um tilurð ljóðsins sagði Gunnar sonur Matthíasar Jónasi eitt sinn “að faðir hans hefði ort kvæðið heima á Akureyri að kvöldlagi í skammdeginu. Það var mikið frost og úti var kafaldshríð. Börnin sátu hjá móður sinni í dagstofunni, en Matthías var í skrifstofu sinni og las eða skrifaði.
Frúin bar á borð kvöldverð, en sá að maður hennar mundi ekki óska eftir að hætta verki fyrr en honum þætti sjálfum tími til kominn. Kvöldverði var lokið. Eftir góða stund kemur skáldið fram til konu og barna, glaður í bragði, heitur og hýr á svip og las ljóðið Skagafjörður fyrir vandamönnum sínum.”
Hvar skal byrja? Spyr skáldið og hann byrjaði héraðslýsinguna hér. Fram í Skagafjarðardölum.
“Lengst í fjarska sindra svalir: sælir, fornu landnámsdalir, Eiríks göfgu goðasalir, gamla, hlýja kostabyggð.”
Þarna er vísað til landnáms Eiríks, - Goðdalir sem náðu yfir Austurdal, Vesturdal og Svartárdal, en landnámsmaður hérna megi Austurdals mun hafa verið Önundur víss er bjó að Ábæ.
Sennilega var kirkja byggð hér skömmu eftir kristnitöku, en hennar er fyrst getið í Auðunarmál-daga árið 1318.
Í þeim sama máldaga er sagt frá kirkju í Málmey á Skagafirði og um þá kirkju segir: “Þar skal brenna ljós í kirkju hverja nótt frá krossmessu að hausti til krossmessu að vori.” Var ljós þetta án efa til leið-beiningar fyrir sjófarendur og var því fyrsti vitinn í Málmey, þótt ófullkominn væri.
Þannig má segja að kristin kirkja hafi varðað leið fólksins allt frá hafi og hingað fram í dali Skaga-fjarðar. Leiðbeint fólki og hjálpað á lífsleiðinni og reynt að bægja frá hvers konar hættum og slysum.
Og kannski má segja að allar kirkjurnar okkar í Skagafirði séu eins og vörður sem verða á leið manns og vísa hinn rétta veg. Varnir gegn villu, rétt eins og kertaljósið í glugga Málmeyjarkirkju forðum eða kertin á altari kirkjunnar hér fram í Austurdal.
Það má segja það sama um Ábæjarkirkju eins og sr. Matthías orti um Hóladómkirkju í áðurnefnu ljóði þar sem segir: “Ekkja stendur aldin kirkja, ein í túni fornra virkja.”
Kirkjan hér er minnisvarði um þá byggð sem hér var forðum í dalnum. Minnir á það samfélag sem hér var, fólk sem kom hér saman í gleði og sorg til að lofa Guð og fela honum þrár sína og drauma og vonir, en einnig áhyggjur og kvíða og það sem miður fór.
Og enn komum við hér saman í þeim sama tilgangi og fólkið gerði sem hér bjó, þó svo að aðstæð-ur okkar séu ólíkar þeim aðstæðum sem þetta fólk bjó hér við á sinni tíð.
Það er eftirtektarvert að víða þar sem byggð hefur eyðst stendur sóknarkirkjan eftir. Fólk sem á rætur í byggðunum vill sýna gömlu kirkjunni sinni þann sóma að halda henni við og vill gjarnan að þar sé messað einu sinni að sumri. Að þá færist líf í kirkju-húsið. Því lifandi kirkja er fólkið sem þangað sækir. Við sem hér erum saman komin. Við erum lifandi steinar sem byggjum andlegt hús.
Hér var Drottni reist altari milli fjallanna í kyrrð dalsins. Líkt og Abram forðum er hann hélt til fjallanna fyrir austan Betel og sló upp tjaldi sínu.
Já, þetta er landið okkar, landið sem okkur var gefið. Okkur og niðjum okkar. Og við eigum að vera stolt af þessu landi og tala vel um það.
Það vakti nokkra athygli um daginn að sam-kvæmt könnun sem gerð var meðal ungs fólks á vegum Háskólans á Akureyri þá kom í ljós að helming-ur þeirra sem þátt tóku vildu flytjast úr landi og búa erlendis.
Sjálfsagt þarf að hafa í huga hina eðlislægu útþrá íslenskra unglinga, en börn og unglingar taka einnig mið af því sem fyrir þeim er haft. Hvernig þeir sem eldri eru tala og skrifa um land og þjóð, um samfélagið og lýðræðislega kjörin stjórnvöld landsins hverju sinni.
Hvernig hluti þjóðarsálarinnar birtist t.d. á Austurvelli til að tjá skoðanir sínar. Jafnvel á 17. júní, safnast þar saman fólk til að vanvirða allt það sem þjóðinni hefur hingað til verið heilagt, eða okkur hefur a.m.k. þótt vænt um, eins og þjóðsönginn okkar og fjallkonuna.
Þessi neikvæða umræða hefur verið ríkjandi meðal þjóðarinnar síðastliðin ár og því ætti okkur kannski ekki að koma það svo mjög á óvart að unga fólkið vilji flytja burt frá þessu landi.
En þrátt fyrir þetta umtal allt, kemur það í ljós aftur og aftur að á Íslandi eru meiri almenn lífsgæði en víðast hvar annars staðar í heiminum. Vissulega er margt sem betur má fara hjá okkur, en það lagast ekki með umtalinu einu saman.
- Það er hægt að bölva myrkrinu, en það er betra og árangursríkara að kveikja ljósið. -
Með okkur hér í dag eru Vestur-Íslendingar, sem eiga ættir sínar að rekja hingað í framanverðan Skagafjörðinn. Fyrir nokkrum árum fór ég ásamt kirkjukórnum úr mínu prestakalli til Kanada og ferðuðumst um heimkynni Vestur-Íslendinga.
Mér er það minnisstætt hvernig þetta fólk talaði um gamla landið. Með ást, umhyggju og stolti. Þannig hafði maður ekki heyrt talað lengi og það var notalegt og gott að heyra það.
Og ég held að það sé hverjum manni holt að heyra slíkt umtal, ekki síst unga fólkinu okkar, sem hefur kannski ekki heyrt neitt annað en það, að allt hér sé ómögulegt.
Ég held að vinna þurfi að þjóðarátaki gegn hinni neikvæðu umræðu. Hér er ég ekki að tala um að setja eðlilegri og hvetjandi gagnrýni einhverjar skorður, heldur það að hætta að tala allt niður.
Fyrir stuttu var frá því greint að hollenskur mannfræðingur sem hér var við rannsóknir undraðist það hvað biturð og reiði væri mikil í þjóðfélaginu sem rakið er til hrunsins 2008.
- En hvað ætlum við að kenna því lengi um?
Í sorgarferli er tími reiðinnar eðlilegur þáttur og gott fyrir fólk að vita að ekkert er óeðlilegt eða slæmt við það. En ef maður festist í þeim þætti og nær ekki að feta sig frá reiðinni, þá verður það ástand ekki lengur eðlilegt. Reiðin fer þá að hamla batanum, brjóta mann niður og varpa skugga á lífið og skemma það.
Og þjóðkirkjan hefur einnig fengið sinn skerf af þessari neikvæðri umræðu. Því er ekki að neita. En sumum er líka erfitt að gera til hæfis.
Samkvæmt orðum Jesú í guðspjallinu sem hér var lesið virðist það ekkert nýtt. “Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á. Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja.”
Og þeir frændur, Jesús og Jóhannes voru atyrtir af sínu samtíðarfóki, annar fyrir að neyta víns og hinn fyrir að gera það ekki. Þetta er spaugileg lýsing á því hvernig fólk talar jafnan hvert um annað og hefur sennilega alltaf gert í einhverju mæli.
Við sem komum hér saman í dag við þennan helgidóm og í umgjörð Austurdals getum ekki annað en lyft hugum okkar og við skulum láta anda Guðs móta hugann, hleypa birtunni og ljósinu að og sjá lífið með jákvæðu og björtu hugarfari. Með hugarfari kær-leikans sem býr í okkur öllum.
Ég hef tekið eftir því að þegar getið er um stórafmæli fólks í Morgunblaðinu, þá lætur það gjarnan fylgja með mynd af sér einhvers staðar úti í náttúrunni, þar sem það er að ganga á fjöll eða um eyðifirði eða dali fjarri alfaraleið.
Myndir sem teknar eru á góðum stundum í því umhverfi sem viðkomandi líður vel í og á góðar minningar frá. Og ekki sakar að vera að gera eitthvað heilsusamlegt og eitthvað sem reynir á.
Ég hef einnig tekið eftir því í Bændablaðinu, þar sem viðtal er tekið við fólk undir heitinu Bærinn okkar, að þá er fjölskyldumyndin oft tekin í sóknar-kirkjunni, gjarnan eftir athöfn eins og skírn eða fermingu í fjölskyldunni.
Það eru einnig myndir frá góðum stundum, þar sem fólki líður vel og á góðar minningar frá. - Hér höfum við bæði. Ósnortna náttúruna, kyrrð fjallanna, nið árinnar og helgi kirkjunnar.
Þjóðkirkjan er ekki bara trúfélag. Hún er lím í samfélaginu. Hún er þráður í þeim vef sem myndar líf okkar og samfélag. Stundum er sá þráður okkur augljós, en stundum er hann ekki eins sýnilegur. En við vitum af honum og við viljum ekki án hans vera. Finnum hann undir skinninnu.
Kirkjan, varðan á heiðum og vitinn við sjóinn. Út til stranda og inn til dala.
Jafnvel þó að gamla sóknarkirkjan standi ein eftir, og sóknin eydd, þá vitnar hún samt um þann Guð sem kallar okkur til fylgdar við sig og er okkur ávallt og alls staðar nálægur. - Ávallt með í för.
Sr. Matthías ferðaðist forðum um Skagafjörð í huganum og skapaði þannig hið stórbrotna ljóð um þetta fagra og söguríka hérað. Hér skal endað og tekið undir lokakveðju skáldsins til Skagafjarðar:
Farðu vel um alla daga; blessuð sé þín byggð og saga, bæir, kot og höfuðból.
Guð blessi Ísland. Í Jesú nafni. Amen.