Nú er hin árlega, alþjóðlega bænavika fyrir einingu kristninnar framundan og hefst með samkirkjulegri útvarpsguðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 18. janúar kl. 11. Yfirskrift bænavikunnar að þessu sinni er að þeir verði einn stafur í hendi Guðs (Esekíel 37.17-19) og kemur frá kirkjunum í hinni sundruðu Kóreu.
Kórea var eitt ríki til ársins 1948 (reyndar hernumið af Japönum frá byrjun 20. aldar), að því var skipt í Suður-Kóreu (Lýðveldið Kóreu, áhrifasvæði Bandaríkjanna) og Norður-Kóreu (Alþýðulýðveldið Kóreu, áhrifasvæði Sovétvíkjanna þá). Út frá þessari reynslu spretta bænir og annað efni sem kirkjufólk í Kóreu hefur sameinast um að senda frá sér í ár.
Einn stafur í hendi Guðs
Spámaðurinn Esekíel bjó einnig við þá sorg sem sundrung þjóðar er og þráði ekkert heitar en sameiningu þjóðar sinnar. Efni Kóreukirknanna byggir á 37. kaflanum, versi 15-28. Yfirskrift bænavikunnar er sterk myndlíking spámannsins, sem sér fyrir sér tvo tréstafi, tákn hinna tveggja konungdæma, Ísrael og Júda.
Þessa tvo stafi skyldi tengja saman að þeir verði einn stafur í hendi Guðs, ein þjóð, einn lýður undir einum hirði. Sú bæn er ofarlega í huga kristinna manna á Kóreuskaganum, bæði fyrir þeirra eigin þjóð og einnig fyrir kristninni í heiminum.
Ein þjóð í einu landi?
Við sem búum hér á Íslandi eigum ef til vill erfitt með að skilja þær aðstæður sem íbúar Kóreuskagans hafa mátt glíma við síðasta mannsaldur. Hér býr ein þjóð í einu landi, sameinuð bæði vegna landfræðilegra aðstæðna eylandsins, en einnig sameiginlegrar tungu, trúararfleifðar og menningar.
Arfleifðin ein dugar þó ekki til. Sagan sýnir að bæði utanaðkomandi aðstæður sem og innri óróleiki hafa sundrað þjóðum, jafnvel á eyjum eins og okkar. Við þurfum að halda vöku okkar og efla grunngildi kristinnar trúar þar sem fara saman hönd í hönd kærleikur og réttlæti. Hvorugt getur án hins verið, umhyggjan og sannleikurinn, þegar efla skal sátt og samlyndi milli fólks. Og það er Guð sem gefur sáttmálann, okkur til heilla, þegar við felum okkur handleiðslu hans í iðrun, trausti og þakklæti.
Eining kristninnar
Bænavika fyrir einingu kristninnar hefur verið haldin áratugum saman um miðjan janúar á Íslandi, einstaka sinnum nær vorinu. Á norðurhveli jarðar eru hinar opinberu dagsetningar hennar frá 18. – 25. janúar en um hvítasunnu á suðurhveli jarðar.
Bænavikan kallar saman fjölmarga söfnuði og kirkjur um allan heim og stuðlar þannig að einingu hinnar kristnu alþjóðafjölskyldu. Það er Alkirkjuráðið, Heimsráð kirkna, sem ásamt Kaþólsku kirkjunni hefur frá árinu 1968 hefur haft umsjón með gerð efnis fyrir helgihald og bænastundir samkirkjulegrar bænaviku, en hún á sér yfir 100 ára sögu.
Bænarefni fyrir hvern dag bænavikunnar, frá sunnudegi til sunnudags, verða birt á www.kirkjan.is til notkunar í söfnuðum og heimahúsum. Notum tækifærið, komum saman og finnum í sameiningarmætti bænarinnar kraftinn til að vera ein þjóð í einu landi undir einum hirði.
Við biðjum fyrir þjóðfélögum sem búa við sundrungu og innri átök. Drottinn, sérstaklega viljum við minna á fólkið í Kóreu, suður og norður, að þrátt fyrir deilur og klofning megi leit þeirra að einingu bera ávöxt og vera tákn vonar fyrir alla sem leita sáttargjörðar.Við biðjum einnig í dag fyrir íslensku þjóðinni, einkum þeim sem glíma við afleiðingar efnahagskreppunnar á einn eða annan veg. Varðveittu, Guð, einingu heimilanna í landinu og vaktu yfir börnum og ungmennum.
Úr almennri kirkjubæn fyrir 18. janúar, samantekt MÁ