Í kjölfar prýðilegrar heimildarmyndar hefur orðið nokkur umræða um baráttu Helga Hóseassonar fyrir því að fá ógildingu skírnar sinnar viðurkennda. Verður af því tilefni fjallað svolítið nánar um málefnið.
Skírnin er í eðli sínu fyrirbæn. Viðkomandi er helgaður Guði og samfélagi hinna trúuðu. Einnig má líta á skírnina sem samning tveggja aðila. Samkvæmt Biblíunni gerðu Ísraelsmenn sáttmála við Guð á Sínaífjalli. Ef Ísraelsmenn héldu ákvæði sáttmálans þá ætlaði Drottinn að vera þeirra Guð. Í rás tímans gerðist það stundum að Ísraelsmenn rufu sáttmálann með því að elta aðra guði. Þessu er í raun líkt farið með skírnarsáttmálann. Þegar einstaklingur ákveður með sjálfum sér eða opinberlega að afneita Guði þá hefur viðkomandi sagt upp skírnarsáttmálanum einhliða.
Á seinni tímum hefur enginn einstaklingur afneitað kristni og kirkju með jafn skírum og opinberum hætti og Helgi Hóseasson hefur gert. Hann hefur vakið athygli á afstöðu sinni með gjörningum eins og þeim að skvetta skyri á Alþingismenn og fleiri stertimenni. Seinna tjargaði hann stjórnarráðið. Í raun er vandséð hvernig stjórnvöld gætu tekið öðru vísi á þessu máli en með umburðarlyndi og þolinmæði gagnvart þeim manni, sem kýs að binda reiðing sinn með öðrum hnútum en gengur og gerist. Eða ættu yfirvöld ef til vill að svara með þeim gjörningi að senda Helga karlinum blóm og konfektkassa ásamt bréfi þar sem skrifað stæði eftirfarandi: „Okkur er fyrir löngu ljóst að þú hefur rift skírnarsáttmálanum og vilt ekkert hafa saman við kirkjuna að sælda“?
Er til eitthvað sem heitir að afskíra? Er til eitthvað sem heitir að afheilsa ef þú vilt taka til baka „góðan daginn ávarpið“ frá því í gær? Er hægt að afkyssa ef maður vill stroka út alla gömlu kossana, sem gömlu kærusturnar fengu? Hvað gerir fólk þegar það vill skilja? Jú, það fer til sýslumannsins og undirritar skilnaðarpappíra. Engum dettur í hug að biðja sýslumanninn um að endurtaka hjónavígsluna svo að í þetta sinnið geti þau tekið ofan hringana og bæði sagt: „Nei, ég vil sko ekki eiga hana/hann!“ Og hvernig er það annars með þann, sem barn að aldri steig á stokk og hét því á templarafundi að snerta aldrei áfengi, hvað gerir sá þegar hann seinna á ævinni vill blóta Bakkus? Ekki fer hann aftur í gömlu stúkuna og óskar þar eftir afbindiseringu? Nei, fjarri fer því, þessi ágæti maður tekur hreinlega tappann úr sinni rauðvínsflösku, hellir í glas og segir svo skál og þar með er hans bindindi fyrir bí. Þessu er ekkert öðru vísi farið með úrsögn úr kirkju og ógildingu skírnarsáttmálans. Einstaklingar geta sagt þeim samningi upp og eiga það aðeins við samvisku sína hvernig þeir kjósa að skrá trúfélagsaðild sína í þjóðskrá.
Um það að kirkjuyfirvöld ógildi skírnarsáttmála skal þetta sagt: Skírnin veitir aðgang að samfélagi hinna trúuðu og er annað af sakramentum hinnar evangelísku lútersku þjóðkirkju. Á miðöldum gripu kirkjuyfirvöld stundum til þess ráðs að ógilda skírnarsáttmála einstaklinga tímabundið. Var þetta kallað að setja menn út af sakramentinu eða setja þá í bann og var hluti af agameðulum kirkjunnar og beitt einkum gegn þeim, sem opinberlega risu gegn valdi kirkjunnar. Sem betur fer hafa hinir betri kirkjuhöfðingjar á seinni öldum aflagt þennan plagsið að setja sálir út af sakramentinu, enda er umburðarlyndi og þolinmæði gagnvart þeim, sem skera sig úr fjöldanum, meir í ætt við framkomu Jesú Krists sjálfs, sem skrifaði í sandinn þegar lýðurinn vildi grýta hórseku konuna og mælti þá þessi orð: „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steininum.“ Þá ágætu sögu má lesa í 8. kafla Jóhannesarguðspjalls.