Mér þykir vænt um Bandaríki Norður Ameríku. Ég naut bandarískra styrkja og þeirrar gæfu að nema við bandarískan háskóla. Ég kynntist mörgum og flest eru þau og voru úrvalsfólk. Ég komst að því margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum.
Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna fagna ég. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. Svo blakta þeir saman í vindinum, samlitir fánar litla og stóra. Um allan heim blaktir tákn Bandaríkjanna á þessum degi. Frelsisbarátta þjóða litar jafnan hátíðisdaga hennar. 4 júlí er þjóðhátíðardagur vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsing hinna þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.
Það á svo sannarlega erindi við fólk, sem hefur áhuga á gildum samfélaga, stjórnun, réttlæti, já og lífinu. Það er athyglisvert að lesa hina löngu röð ávirðinga og ákæra á hendur breskum stjórnvöldum, sem rituð eru í sjálfstæðisyfirlýsingunni. Ef aðeins helmingur var sannur hefði það verið nóg til að réttlæta viðbrögð af hálfu nýlendumanna í Ameríku.
Bandarísk áhrif eru gríðarleg um allan heim. En mér hefur sýnst, að bandarísk pólitík hafi versnað á Bush-tíma síðustu ára. Mér eins og mörgum Bandaríkjavinum hefur sárnað hve utanríkispólitík þjóðarinnar hefur verið skeytingarlaus um tilfinningar og stefnu annarra þjóða og hópa. Bandaríkjamenn fóru offari í Íraksstríðinu að mínu viti eins og næstum allar kirkjudeildir Bandaríkjamanna hafa bent á. Kannski hefur Bush og stjórn hans fallið í þá gryfju að taka upp nokkra stjórnhætti Georg III? Sjálfstæðiyfirlýsingin er til að efla heimsbyggðina og Bandaríkjamenn eiga í sögu sinni stöðuga áminningu.
Sjálfstæðiyfirlýsing Bandaríkjanna fjallar um frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Rétt eins og Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson væri við pennann segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið þessara grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Þegar þau bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa stjórnvöldum. Hér er grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda því sett á blað. Fólk á rétt á lífi og lífsgæðum. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja þau gæði. Mannvirðing er leiðarstjarna yfirlýsingarinnar og er endurómur kristinna grunngilda. Góð og ábyrg stjórn Bandaríkjanna er gæfa allrar heimsbyggðarinnar en vond stjórn er ólán allra manna. Kannski á heimsbyggðin siðferðalega kröfu til að öðlast neitunarrétt varðandi val forseta þessa stórveldis!
Allir ættu að staldra við og lesa Sjálfstæðisyfirlýsinguna og velta vöngum yfir tenglum hennar við kristinn boðskap. Sú tvenna veitir ljómandi blöndu af efni fyrir gott mannlíf! Til hamingju heimsbyggð, að Bandaríkjamenn skuli eiga bæði góða sjálfstæðisyfirlýsingu og stjórnarskrá. Í því eigum við vonarglætu þegar við líðum fyrir vonda pólitík að vestan og líka vörn fyrir ást okkar á Bandaríkjum Norður Ameríku.
Gleðilega hátíð!