Gangan til Emmaus – Lífsins ganga

Gangan til Emmaus – Lífsins ganga

Guðspjallið minnir okkar á að það að opna augu sín fyrir Jesú, það að hleypa Jesú inn í líf sitt, það opna hjarta sitt fyrir nálægð hans, er hluti af þessari flóknu göngu sem við þurfum öll að takast á hendur í lífinu er við reynum að finna lífi okkar merkingu og tilgang.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
24. mars 2008
Flokkar

Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. Þeir ræddu sín á milli um allt þetta sem gerst hafði. Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. Augu þeirra voru svo blinduð að þeir þekktu hann ekki. Og hann sagði við þá: „Hvað er það sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“ Þeir námu staðar, daprir í bragði, og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem sem veit ekki hvað þar hefur gerst þessa dagana.“ Hann spurði: „Hvað þá?“ Þeir svöruðu: „Þetta um Jesú frá Nasaret sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum mönnum. Æðstu prestar og höfðingjar okkar létu dæma hann til dauða og krossfesta hann. Við vonuðum að hann væri sá er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. Þá hafa og konur nokkrar úr okkar hópi gert okkur forviða. Þær fóru árla til grafarinnar en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust jafnvel hafa séð engla í sýn er sögðu hann lifa. Nokkrir þeirra sem með okkur voru fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt en hann sáu þeir ekki.“ Þá sagði hann við þá: „Skilningslausu menn, svo tregir til að trúa því öllu sem spámennirnir hafa sagt fyrir um! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum. Þeir nálguðust nú þorpið sem þeir ætluðu til en hann lét sem hann vildi halda lengra. Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: „Vertu hjá okkur því að kvölda tekur og degi hallar.“ Og hann fór inn til að vera hjá þeim. Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf þeim sjónum. Og þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þau er með þeim voru saman komin, en þau sögðu: „Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni.“ Hinir sögðu þá frá því sem við hafði borið á veginum og hvernig þeir höfðu þekkt hann þegar hann braut brauðið.

* * * * * *

Gleðilega páska kæri söfnuður.

Megi náð Guðs og friður vera með okkur öllum á þessari stundu. Amen.

„Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda.“ Fagnaðarboðskapur páskanna ómar nú um víðan heim er kristið fólk hvarvetna fagnar og gleðst yfir upprisu Jesú Krists og sigri lífsins á dauðanum.

Guðspjall dagsins er hinn fallega og hugljúfa frásögn um Emmausgönguna. Við fáum innsýn í líf tveggja lærisveina. Þeir eru á ferð til þorpsins Emmaus á upprisudeginum. Þeir eru hugsi og sorgmæddir yfir atburðum liðinna daga enda hafa þeir ekki enn áttað sig á því að Jesú var risinn upp frá dauðum.

Á leið sinni mæta þeir ókunnugum manni sem slæst í för með þeim. Þeir vita ekki að það er Jesús sjálfur sem gengur með þeim. Þeir eru hissa að hann skuli ekkert vita um atburði liðinni daga. Þeir segja manninum hvað gerst hafði í Jerúsalem. Þeir segja honum frá Jesú, krossfestingunni, dauða hans og tómu gröfinni. Yfir orðum þeirra hvílir einhver deyfð og vonleysi, depurð og efasemdir: „Við vonuðum“, segja þeir, „að hann væri sá er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við.“

Þá fór ókunnugi maðurinn að segja lærisveinunum tveimur af hverju þetta hefði allt saman gerst og hann útskýrði viðburði liðinna daga í ljósi þess er um þá stóð í ritningunum.

Lærisveinunum hefur sjálfsagt brugðið við og ekki skilið hvaðan þessum manni kom innsæi sitt og skilningur. Þegar þeir nálguðust þorpið lét maðurinn sem hann vildi halda áfram. En lærisveinarnir lögðu fast að honum og báðu hann að vera lengra „ því að kvölda tekur og degi hallar.“ Hann dvaldi lengur hjá þeim. Um kvöldið borðuðu þeir saman máltíð og tók hann þá brauðið sem hafði verið lagt á borðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Undir eins opnuðust augu lærisveinanna og þeir sáu hver sat fyrir framan þá. Þeir höfðu verið með Jesú allan þennan tíma en augu þeirra opnuðust ekki fyrr en þá.

Þessi frásögn er margræð. Í vissum skilningi brúar hún bilið á milli hins persónulega og hins samfélagslega, þ.e. hvernig trú þessara fyrstu fylgjenda Jesú, hvernig reynsla þeirra af Jesú, frásagnir þeirra af lífi hans og starfi, dauða hans og upprisu, fæddu af sér hið kristna samfélag og hvernig það samfélag túlkaði mikilvægi þeirra atburða sem átt höfðu sér stað.

Ennfremur birtir þessi frásögnin túlkun fyrstu fylgjenda Jesú á því með hvaða hætti Jesús er nálægur í lífi mannsins eftir upprisu sína. Jesús getur sannarlega birst okkur með áþreifanlegum hætti á vegi lífsins í mynd hins ókunna og gengið inn í líf okkar í gegnum það. Jesús er líka að finna í ritningunni og innan helgihaldsins, ekki síst við borð Guðs þar sem fólk kemur saman um hina heilögu kvöldmáltíð og minnist þar dauða Jesú og þiggur kærleika hans og náð inn í sitt eigið líf.

En guðspjallið hefur líka persónulega vídd, djúpa persónulega vídd. Í reynslu lærisveinanna tveggja eru augljóslega faldar spurningar sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Þekkjum við Jesú? Með hvaða augum sjáum við hann? Eru augu þín opin fyrir Jesú Kristi? Ert þú opin fyrir nálægð Guðs í þínu lífi eða lætur þú hann framhjá þér fara sem hvern annan ókunnugan mann? Brennur hjarta þitt af þrá eins og hjarta lærisveinanna brann er hann talaði til þeirra? Það er alveg víst að Jesús er að tala til þín öllum stundum og með margvíslegum hætti. Það er alveg víst að hann hefur gert vart við sig í þínu lífi. En ert þú að hlusta? Eru augu þín opin? Er hjarta þitt móttækilegt?

Í guðspjallinu eru fólgnar mikilvægar spurningar sem við hljótum að taka afstöðu til því þau varða allt lífið. Guðspjallið minnir okkar á að það að opna augu sín fyrir Jesú, það að hleypa honum inn í líf sitt, það opna hjarta sitt fyrir nálægð hans, er hluti af þessari flóknu göngu sem við þurfum öll að takast á hendur er við reynum að finna merkingu og tilgang í lífi okkar; merkingu og tilgang í heimi og lífi sem virðist svo oft ofurselt tilgangsleysi og tómhyggju, depurð, deyfð og efasemdum. Við þurfum öll að finna í hjarta okkar tilgang og merkingu og einmitt þangað beinir Jesús sjónum sínum og orðum: Inn í hjarta mannsins. Við sjáum það svo víða í guðspjöllunum, í gegnum það sem Jesús segir og gerir. Fagnaðarerindið snýst ekki bara um góða breytni og rétt hugarfar. Það snýst um merkingu, tilgang og líf. Lífið þitt og lífið mitt. „Ég er kominn til að þið hafið líf, líf í fullri gnægð.“ Jesús vill leysa lífið úr viðjum þess tilgangsleysis sem við höfum hneppt það í. Hann vill fylla að nýju það tóm sem við höfum leyft að búa um sig í hjarta okkar.

Hvað er ég að tala um? Ég er að tala um heiminn eins og hann er í dag, um líf mannsins eins og það er í dag. Fyrirsagnir dagblaðanna í gær voru ekki „Kristur er upprisinn.“ Stríð og ofbeldi, glæpir og hatur, kúgun og ranglæti, fátækt og ójöfnuður, fylltu þar sitt vanalega pláss. Ég er að tala um veraldarhyggjuna, efnishyggjuna og afstæðishyggjuna sem líf mannsins, hjarta hans og hugsun, virðist uppfullt af. Ég er að tala um það hvernig maðurinn ýtir Guði sífellt lengra frá sér til að skapa sjálfum sér og sjónarmiðum sínum sífellt meira pláss. Ég er að tala um það hvernig maðurinn lætur Guð liggja á milli hluta í dag og teflir sjálfum sér fram sér æðsta mælikvarða alls sem er. Ég er að tala um það hvernig maðurinn hefur misst sjónar af sannleikanum, tilgangnum og mælikvarða lífsins. Þegar gert er út af við Guð, þegar nærveru hans er ekki óskað, þegar við neitum að opna augun fyrir honum og ýtum honum burt, þá er alveg víst að eitthvað annað kemur í staðin. Ég er að tala um það.

Heimurinn eins og hann er í dag er okkar Emmaus-ganga. Spurningin er bara sú hvenær eða hvort við opnum augu okkar og sjáum hversu langt við erum leidd af veg. Það var Voltaire sem sagði að allar hörmungar mannsins endurspegluðu mikilfengleika mannsins sjálfs, þ.e.a.s. það hvernig maðurinn sér sjálfan sig, metur sjálfan sig og hugsar um sjálfan sig.

Eitt er víst að allt fólk leitar að skiljanleika í lífi sínu. Við leitum öll að einhverju samhengi, einhverri samsvörun, einhverju sem segir okkur hver við erum og af hverju heimurinn er eins og hann er.

Ef við mundum safna saman öllum þeim spurningum sem við spyrjum í lífinu þá held ég að við stæðum eftir með fjórar meginspurningar. Spurningu um uppruna, tilgang, siðferði og örlög: Hvaðan? – Af hverju? – Hvernig? – Hvert? Með öðrum orðum: Hvaðan komum við? Af hverju erum við? Hvernig eigum við að breyta? Hvert förum við?

Þau svör sem við gefum okkur við þessum spurningum fela í sér þá heimsskoðun sem við lifum eftir og sker úr um viðhorf okkar til lífsins, skilning okkar á því og þar með skilning okkar á sjálfum okkur og náunga okkar; rammann sem við setjum utan um líf okkar. Við setjum öll líf okkar inn í tiltekinn ramma, spurningin er aðeins hvernig ramma. Eins og C.S. Lewis sagði: Allir hafa einhverja lífsspeki, spurningin er bara hvort hún sé góð eða vond.

Þegar Jesús segir: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“, þá er hann að segja við okkur að hann hafi svörin við þessum spurningum, að hann hafi svarið við öllum þínum spurningum. Það er ekki nóg að svara bara einni spurningu. Það þarf að svara þeim öllum. Hvert svar um sig þarf líka að svara til einhvers sem er satt og saman þurfa þau að svara hvert til annars, vera í samhengi hvert við annað. Það er ekki nóg að gefa gáfulegt svar við tilgangi lífsins ef það svarar t.d. ekki til heimspeki viðkomandi um uppruna eða örlög. Það er ekki hægt að halda því fram í eina röndina að alheimurinn, og þar með talinn maðurinn, eigi uppruna sinn í einhverri stórri tilviljun sem á endanum fellur um sjálfa sig, og segja svo í aðra röndina að lífið hafi eiginlegan tilgang. Aldous Huxley sagði eitt sinn: „Ég vil ekki að þessi heimur hafi tilgang því það gefur mér frelsi til að ganga á eftir því sem ég sjálfur kýs.“ Ef efnið er allt sem er, ef ekkert er æðra manninum, þá gerum við út um eiginlegan tilgang í lífinu – þú ákveður hann sjálfur – og við fórnum siðferðinu á altari hins óháða og sjálfráða vilja mannsins sem ákveður sjálfur hvað er rétt og rangt, hvað sé sannleikur og hvað ekki – þú mótar það einfaldlega eftir þínum sjónarmiðum og skoðunum, löngunum og hagsmunum.

Málið snýr hins vegar allt öðruvísi ef við göngumst við þeirri skynsamlegu ályktun að það hlýtur að vera orsök á bak við þá afleiðingu sem allt lífið allt er, ef við gerum ráð fyrir því að það sé vit og hugsun á bak við heiminn, að framgangi hans og viðgangi sé ekki stýrt af blindri þróun heldur af vilja sem er utan við og ofan við vilja mannsins. Með því ljáum við lífinu eiginlegum tilgang og sannleika sem við getum staðið föstum fótum á í lífinu og miðað breytni okkar við, og horft til handan þessa lífs.

Hvað þarf að vera til staðar svo að þú getir sagt við sjálfan þig: „Líf mitt hefur tilgang! Líf mitt hefur merkingu!“ Hvað gefur lífinu merkingu? Lífið leggur margt fyrir okkur frá vöggu til grafar, mörg hlutverk, margvíslega ábyrgð, gleði og sigra, sorgir og erfiðleika. Þegar við lítum á vegferð mannsins frá barnæsku til unglingsára, frá fullorðinsárum til gamalsaldurs, þegar við söfnum saman reynslu okkar og vegum og metum lífið í ljósi hennar, þá sjáum við að vissa hluti þarf til á hverju skeiði svo að lífið hafi merkingu. Hér er ekki tími til að kafa djúpt í svo ég ætla einfaldega að nefna þessa hluti sem tengjast hverju skeiði lífsins og biðja ykkur að íhuga þá.

Í bernsku er gildi lífsins fólgið í undrun og lotningu frammi fyrir hinu óþekkta er maður uppgötvar sífellt nýja hluti í lífinu og hrífst af þeim og með þeim. Á unglingsárum lætur undrunin undan fyrir þörf okkar á sannleika, einhverju haldbæru og raunverulegu til að tengja við reynslu okkar af lífinu svo hún verði skiljanleg. Á fullorðinsárum bætist inn í þessa mynd þörfin fyrir kærleika, innihaldsrík tengsl, tilfinningin fyrir því að vera eitthvað og einhvers; og á gamalsaldri er það þörfin fyrir öryggi og skjól er við búumst til að kveðja þetta líf.

Undrun, sannleikur, kærleikur og öryggi. Hvernig tengist þetta kristinni trú og guðspjalli dagsins? Jú, þekkingin á Guði, samfélagið við Guð, veitir þetta allt. Á öllum stigum lífsins veitir trúin á Guð undrun og sannleika inn í líf okkar, kærleika og öryggi. Trúin á Guð veitir það sem þarf til að lífið hafi tilgang. Án Guðs er lífið hreinlega fjarstæðukennt. Ef við lifum til þess eins að deyja þá hefur lífið, þegar allt kemur til alls, enga merkingu, engan tilgang og ekkert mikilvægi.

Ef við göngum með Jesú í lífinu, ef við leyfum honum að vera með í för, ef við opnum augu okkar fyrir honum, ef við opnum hjarta okkar fyrir nálægð hans og áhrifum, þá liggur fyrir okkur vegur sannleikans og lífsins. Sá vegur liggur frá tómri gröf, vegur sem liggur úr úr tómhyggjunni og sjálfshyggjunni, vegur sem leiðir okkur til lífsins, hins sanna lífs, hins eilífa lífs. Páskarnir segja að þú getur reynt að loka sannleikann inni í gröf en gröfin mun ekki halda honum.

Ég bið ykkur að nota þessa páskahátíð til þess að líta inn á við, líta inn í huga ykkar og hjarta, og kanna hvort það sé ekki meira rými þar fyrir Guð. Lofaðu honum að slást í förina með þér á þeim vegi sem þú gengur. Í honum er sannleika að finna og líf. Án hans finnur þú hvorugt. Líf án hans endar í vegleysu.