Tapað - fundið

Tapað - fundið

fullname - andlitsmynd Friðrik Hjartar
06. júlí 2014
Flokkar

Flutt í Garðakirkju 6. júlí 2014

Texti: Lk. 15:1-10 Týndur sauður 1Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann 2en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“ 3En Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: 4„Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? 5Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. 6Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. 7Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.

Týnd drakma 8Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? 9Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. 10Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“

Náð sé með ykkur og friður, frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. AMEN.

Því var þannig háttað á dögum Jesú að hópur manna sem nefndir eru farísear og fræðimenn í textanum vildu gera ákveðin skil í samfélaginu. Þeir trúðu á lögmálið og töldu að þeir væru þess megnugir að halda það öðrum betur og fengu í kaupbæti mikla DÓMSÝKI. Á grundvelli hennar skiptu þeir samfélaginu upp í VIÐ OG HINIR. Þar með gátu þeir flokkað HINA sem tollheimtumenn og syndara, sem nánar til tekið voru að þeirra mati óalandi og óferjandi. Farísearnir og fræðimennirnir ömuðust við því að Jesús umgekkst alla menn, þá líka, eins og jafningja. Þeir töldu það sjálfum sér algjörlega ósamboðið að umgangast að þeirra mati þennan sora samfélagsins og fjandsköpuðust við frelsarann yfir því að hann sá eitthvað dýrmætt í sérhverjum einstaklingi og sóttist eftir samfélagi við ALLA MENN. Sjálfsagt er til fólk í dag sem skipar sér í flokka. Stillir upp “við og hinir” módeli ýmist út frá pólitík, þjóðerni, efnahag, þjóðfélagsstöðu, trú eða skoðunum. Þessa dagana virðist mér að best greinanlega skiptingu samfélagsins sé að finna milli þeirra sem horfa á knattspyrnu í sjónvarpinu – og hinna, sem ekki hefur verið gefinn áhugi á þeirri göfugu íþrótt, sem jafnvel minnir á trúarbrögð á köflum og er sumum eins og lögmál. Sjálfur hef ég ekki miklar áhyggjur af þessari skiptingu þar sem báðir hóparnir tilheyra kirkjunni okkar að stórum hluta eins og þjóðin öll. Það fylgir því oft magnþrungin spenna að horfa á leikina á HM, ekki síst þegar um framlengingar og vítakeppnir er að ræða, en einnig er fróðlegt og ánægjulegt að sjá augljós merki kristinnar trúar hjá leikmönnunum sem margir hverjir eru ekkert feimnir við að sýna kristið trúaratferli frammi fyrir heiminum. Á leikvangnum sjálfum verður vissulega mikil “við og þeir” stemmning, en hún markast af fylgispekt við annaðhvort liðið og þá keppni sem þar fer fram, en á ekkert skylt við þá spennu sem dómsýki og gagnrýnislaust sjálfsálit faríseanna endurspeglar. Hinn sanni íþróttaandi og umburðarlyndi fylgjendahópanna ætti að brúa bilið milli þessara hópa, en oft hefur sú spurning vaknað í mínum huga undanfarna daga hvort ekki þurfi sérstaka sálusorgun fyrir þau lið sem láta í minni pokann í heimsmeistarakeppninni og eins, og ekki síður, fyrir æsta aðdáendur sem stundum hættir til að fara offari að fenginni niðurstöðu í leikslok. Fagnaðarlætin yfir fengnum sigri eru eðlilega mikil og taka á sig ýmsar myndir, en frægt er “Garðabæjarfagnið” sem gott er að rifja upp núna á HMtíðinni , en það var fundið upp af hugmyndríkum og skemmtilegum knattspyrnumönnum í Stjörnunni sem fara nú vel af stað í Evrópukeppninni.

Úr starfsumhverfi æskustöðva minna er til vísukorn um stopula viðveru tveggja starfsmanna á starfsstöðvum sínum: Týndur fannst, en fundinn hvarf, að fundnum týndur leita þarf. Týndist þá, en fundinn fer að finna þann, sem týndur er. (Hjörtur Hjálmarsson) Staka þessi leiðir okkur aftur að guðspjalli dagsins þar sem Jesús segir tvær dæmisögur af hinu týnda. Sögur þessar eru fram settar til að mótmæla sjálfsupphafningu faríseanna og fræðimannanna og fyrirlitningu þeirra á samfélaginu, sem þeir skiptu með reglustriku hins stranga lögmáls í VIÐ OG HINIR. Þeir sögðu ekki: “Það verður fögnuður á himnum yfir sérhverjum syndara sem gerir iðrun” heldur “það verður fögnuður á himnum yfir sérhverjum syndara sem verður útrýmt frammi fyrir Guði”. Afstaða faríseanna var ekki líkleg til að sameina fólkið eða bæta samfélagið. Dómsýkin var þeim fjötur að eðlilegum samskiptum manna í milli, en orðið farísei er talið merkja “Þeir sem skilja sig frá.” Að vera týndur merkir í samhengi texta þessa dags að vera án samfélags við Guð. Týndur sauður hefur ekki lengur samfélag við hirði sinn sem táknað getur Guð í frásögunni. Öll erum við Guðs börn, en stundum gengur fólki illa að átta sig á kostum þess að eiga traust samband við Guð.

“Þér er víst ljóst, að þú ert fágætur, og þér er ætlað nokkuð hér, að þú ert einstæður og ágætur, og enginn maður líkist þér.” var sungið í æskulýðsstarfi kirkjunnar fyrir nokkrum árum. Fjarri fer því að allir menn geri sér grein fyrir því hversu fágætir þeir eru í augum Guðs. Það helgast af því að engir tveir menn eru eins. Það er enginn eins og þú og enginn getur komið í staðinn fyrir þig. Þess vegna eru allir menn dýrmætir. Þess vegna elskar Guð ALLA menn. Þar af leiðir að enginn verður skilinn eftir, en gleðin margfaldast þegar nýir einstaklingar koma auga á að Guð er góður og ekki stöðugt að gægjast ofan í hálsmálið hjá okkur, heldur treystir okkur til að bera ábyrgð á sjálfum okkur. Sögurnar um týnda sauðinn og týndu drökmuna tjá einkar vel hvernig Guð er sífellt að leita að okkur og leitast eftir nánara samfélagi við okkur öll. Hann er í stöðugri leit að manninum, sem er frjáls að því hvernig hann svarar honum eða hvort hann svarar yfirleitt. Það má segja að messuauglýsingin sé n.k. TAPAÐ – FUNDIÐ auglýsing, - kall frá Guði, sem er stöðugt að leita að sauðunum sínum. Hann kallar okkur með ýmsu móti til samfélags við sig. Það gerir hann vegna þess að honum þykir vænt um okkur. Hann elskar sköpun sína, manninn, eins og hann er.

Sú staðreynd að vera týndur vekur mikla skelfingu. Til eru dæmi þess að menn hafi týnst, ýmist í bókstaflegum skilningi, eða óbeinlínis, eins og lýst er í sögunni um týnda soninn, sem fylgir í framhaldi af guðspjalli dagsins. Þeir sem lenda illa í erfiðleikum mannlífsins geta týnt Guði tímabundið. Á krossinum sagði Jesús: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Þessari tilfinningu er lýst í trúarjátningunni með orðunum: Steig niður til heljar. Guði er ekkert ómáttugt, og hann finnur jafnvel þá sem stíga niður til heljar. Eftir þá för er gott að rísa upp til nýs lífs með Jesú Kristi. Hann er hið eina áþreifanlega tákn sem Guð hefur gefið mönnunum um tilvist sína. Hann leiðir hjörðina sína, kirkjuna okkar, til Guðs - með eða án auglýsinga. Hann þráir það mest að sjá alla menn svara kalli sínu. Það er köllun okkar allra að fara þannig með gæði lífsins að þau týnist ekki. Það er verkefni okkar allra og þegar það tekst er tilefni til fagnaðar. AMEN.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. AMEN.