Í flestum stærri söfnuðum er boðið upp á skipulagt æskulýðsstarf í einhverri mynd. Það vita þeir sem starfa í slíku starfi að það er ómetanlegt og af allri þeirri miklu flóru tómstundastarfs sem er í boði fyrir börn og unglinga hefur kirkjustarfið mikla sérstöðu.
Þar er það ekki keppni eða kröfur um hæfileika á sérstökum sviðum sem skipta máli, ekki útlit eða skoðanir. Heldur fyrst og fremst jafningjasamfélag frammi fyrir Guði, þar sem unglingarnir finna fyrir eigin mikilvægi, finna sig sem þýðingarmikinn hlekk í keðju samfélagsins.
Það hefur trúlega aldrei verið meiri þörf á að kirkjan bjóði upp á sérstakt starf fyrir unglinga. Það þekkjum við að unglingsárin eru umbrotatími, þar sem ástir og átök við tilfinningar eiga sér stað. Þær hjálpa svo ekki kröfur samtímans, þar sem markaðsöflin herja svo mjög á þennan hóp, unga fólkið þarf að eiga allt það flottasta í tækni og tísku.
Það er staðreynd að þær miklu kröfur sem unglingar þurfa að standast í því samhengi hafa mikil áhrif á líðan þeirra í daglegu lífi. Það vitum við sem vinnum með unglingum að þeir þurfa að kljást við mörg vandamál sem ekki má vanmeta.
Miklar kröfur samtímans geta haft alvarleg áhrif á sjálfsmynd unglinga þar sem þeim finnast skoðanir sínar og útlit ekki samræmast þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Það getur haft slæmar afleiðingar, þar sem hugurinn leitar á óæskileg mið og allt er gert til þess að verða samþykktur af hópnum, til að standast kröfurnar. Gildismatið hefur breyst hjá unglinum og þröskuldurinn lækkað. Framkoma tónlistarmanna, kvikmyndastjarna og fleiri aðila hafa mótandi áhrif á bæði börn og unglinga, það sjáum við á klæðaburði sem og í öðru fari þeirra. Unglingar þurfa því enn frekar á góðum og jákvæðum fyrirmyndum að halda, þar sem þau læra hin mikilvægu gildi samfélagsins og hvað er það sem gerir lífið innihaldsríkt.
Í æskulýðsstarfi kirkjunnar er einn meginþátturinn að styðja og styrkja sjálfsmynd ungs fólks, stuðla þannig að jákvæðara viðhorfi til lífsins og trú á Guð. Það er hlutverk okkar og raunar allra sem vinna að málefnum barna og unglinga að vinna að velferð þessa stóra hóps, þannig að þau beri virðingu fyrir sjálfum sér og finni sig mikilvæg í samfélaginu.