Ég varð að sleppa altarisgöngunni í messunni. Slíkt hefur aldrei hent mig áður á minni lífslögnu ævi en ástæðan var mikill fjöldi kirkjugesta. Það var bókstaflega ekki hægt að ganga um kirkjuna sem var svo troðfull að setið var í gangveginum, á svæðinu milli bekkja og altaris og jafnvel undir altarinu og á hverjum lófastórum bletti í kirkjunni. Presturinn hafði lítinn blett til að athafna sig á fyrir framan altarið rétt nógu stóran fyrir fæturna og varð að gæta þess við hverja hreyfingu að stíga ekki á þá kirkjugesti sem næstir honum sátu á gólfinu. Um 140 manns voru í kirkjurýminu sem var upphaflega byggt sem bráðabirgðakennslustofa. Frammi í litla safnaðarsalnum voru auk þess um 40 manns í sunnudagaskólanum.
Þessi fjöldi kirkjugesta er e.t.v. ekki svo mikill þegar horft er til stóru safnaðanna á Reykjavíkursvæðinu en hann er allt of mikill miðað við húsnæði Ástjarnarsafnaðar á Völlunum í Hafnarfirði.
Presturinn var auðvitað himinlifandi að fá svona marga til kirkju enda messan frábær í alla staði og gleðin við völd. Kirkjukórinn söng m.a. U2 lög við undirleik félaga úr hljómsveit Hjartar Howser og kirkjugestir hlustuðu vel á prédikun prestsins þótt margir þeirra sætu í óþægilegum stellingum á gólfinu. En nokkrir raunsæismenn spurðu hvað myndi gerast ef hættuástand skapaðist við aðstæður sem þessar í kirkjunni. Tveir eða þrír kirkjugestir sögðust þreyttir á að sækja kirkju þar sem ítrekað væru svona mikil þrengsli og höfðu á orði að nær væri að sækja aðra kirkju. Örfáir sneru við í andyrinu og fóru heim. En flestir voru mjög ánægðir með messuna.
Fyrr í vetur komum við 180 manns fyrir inni í kirkjunni og 30 manns stóð í andyrinu. Þá sneru margir við og fóru heim. Þetta er í a.m.k. fimmta sinn sem kirkjan hefur yfirfyllst á þennan hátt í vetur. Tónlistarstjórinn sagði nýlega að það væri ekki hægt að láta barnakór kirkjunnar syngja í messu því að þá yfirfylltist kirkjan svona enda er stefnt á að halda barnahátíð í Haukaheimilinu 11. mars. Hvað eigum við að gera á æskulýðsdaginn?
Ástjarnarsöfnuður átti 10 ára afmæli síðast liðið haust. Fyrstu árin fór starfsemi hans fram í Haukaheimilinu í Hafnarfirði. Síðar eignaðist hann það bráðabirgðahúsnæði sem hann nýtir nú sem var upphaflega tvær færanlegar kennslustofur sem voru orðnar svo gamlar að söfnuðurinn fékk þær gefins! Þær voru gerðar upp með ærnum tilkostnaði. Í sókninni búa um sjö þúsund manns og vel á fimmta þúsund þeirra eru í Þjóðkirkjunni. Þarna eru mikil sóknarfæri en húsnæðið setur starfinu miklar skorður.
Vandamál af þessu tagi er ekki einkamál Ástjarnarsafnaðar heldur Þjóðkirkjunnar í heild. Þarna býr fólk sem kirkjan þarf að ná til með sinn lífgefandi boðskap og flestir íbúanna eru barnafjölskyldur. Þess vegna þarf að setja það í forgang við útdeilingu fjár úr sjóðum kirkjunnar til kirkjubygginga að gera Ástjarnarsöfnuði kleift að reisa a.m.k. fyrsta áfanga nýs kirkjuhúsnæðis sem getur hýst fólk sómasamlega í guðsþjónustum. Hægt er að nota bráðabirgðahúsnæðið áfram um sinn fyrir skrifstofur og minni fundi.