Hver er áhrifamestur í lífi Íslendinga?

Hver er áhrifamestur í lífi Íslendinga?

Það er einsog búið sé að strika yfir mörg nöfn á lista Mannlífs yfir áhrifamestu Íslendingana frá því í sumar. Listinn er tómlegur eftir bankafallið og Björk líklega efst á honum núna. Afbökun efnishyggjunnar á veruleikanum hefur verið fáránleg svo kristniboðsdagurinn knýr okkur til að boða kristið manngildi alveg upp á nýtt. Göngum fús til fylgdar við Jesú Krist því hann var, er og verður efstur á listanum yfir þá áhrifamestu í veröld mannsins.
fullname - andlitsmynd Kristján Björnsson
09. nóvember 2008
Flokkar

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Matt 28.16-20.

Við afhroð efnahagslífsins halda margir að myndist tóm og það tóm eigi að fylla uppí með öllum tiltækum ráðum. Ég rakst á Mannlífstímarit frá í sumar með lista yfir áhrifamestu Íslendingana. Og þarna voru þeir allir höfðingjar þessa heims í sumar sem leið. Það var ekki laust við að ég saknaði þeirra. Ég fór ósjálfrátt að velta því fyrir mér hver ætti nú að stjórna og hver gæti núna unnið stóra viðskiptasigra og hver gæti hugsanlega orðið til að láta gott af sér leiða fyrst þeir voru allir horfnir úr sviðsljósinu svo snögglega. Við minnumst svo sannarlega allra góðra styrkja og góðverka til góðra mála á góðri tíð en nú eru aðrir tímar. Með því að lesa niður listann rakst ég þó á einn og einn sem enn gæti hugsanlega verið veigur í. Mörgum sætum undir Jónum Ásgeirum var loksins hún Björk í London. Hún mun vera ættuð frá Auðunarstöðum í Víðidal vegna föður síns, Guðmundar hjá Rafiðnaðarsambandinu, en margt merkismanna á ættir sínar að rekja til Auðunarstaða. Ber þar hæsta Elísabetu Englandsdrottningu og annan aðal en bærinn kenndur við landnámsmanninn Auðunn skökul. Það er því engin furða að alþjóðlega drottningin okkar, Björk söngkona, var talin meðal áhrifamestu Íslendinga á sinni tíð í sumar. Staða hennar svona neðarlega á listanum er samt íhugunar verð í ljósi þess að hún er lang þekktasti Íslendingur samtímans og kunn um allan heim ólíkt þjóðfrægð víxlarana sem settir voru ofar henni á listanum. Það er sannarlega íhugnarvert hvað peningar voru metnir hátt umfram ríkidæmi andans í heimi efnishyggjunnar – þegar hún reis hvað hæst í sumar. Ég nefni þetta ekki núna til að hlakka yfir því sem prestur og prédikari í okkar smáa sýnishorni af guðsríki á jörðu hér í Landakirkju. Mér flaug bara í hug að fitla svolítið við þennan lista hér í þessum fátæklegu orðum út frá því að einmitt núna, eftir að bankafallið varð með þessum almennu afleiðingum fyrir alla landsmenn, hafa blaðamenn ekki gefist upp á því að sleikja upp eftir ímynduðum lista áhrifamestu Íslendinganna. Það er í sjálfu sér ljótt að lista menn upp með þessum hætti og setja á þá verðmiða þvert ofan í siðrænt mat á manngildi. Það er næstum sláandi að sjá við hverja blaðamenn vilja núna ræða fyrst milljarðamæringarnir eru fallnir af þessum stalli áhrifamanna. Þeir voru greinilega enn með listann fyrir framan sig og mér fannst ég sjá þá strika þá út sem voru annað hvort horfnir eða blankir. Og svo koma þeir neðar á listann og þar finna þeir Björk Guðmundsdóttur. Hún er núna efst þeirra sem enn eru eftir. Við getum næstum séð þetta fyrir okkur eins og innkaupalista þegar við strikum yfir það sem við erum búin að fá eða það sem ekki fæst í þessari verslun. Það vill til að Björk okkar hefur mikið að segja þótt það hafi ekki fengið að heyrast nógu vel í gegnum suðið í fjármálamarkaðnum eða fengið að sjást í gegnum rykið af stóriðjuframkvæmdum síðustu áratuga.

Miðaldakirkjan og tómið eftir fall Rómar

Ekki veit ég af hverju ég er farinn að lesa meira um kirkjusögu miðalda einmitt núna þessi síðustu misseri. Ef til vill hefur endurvakinn áhugi í Vestmannaeyjum á tímabilinu við upphafi nútímans – umhugsun út frá árinu 1627 – orðið til að smita mig og fá mig til að leita út og suður á upphafi 17. aldar og það síðan leitt mig aftar til miðaldanna. Ég nefni þetta núna af því að það gerist alltaf svo gríðarlega mikið í sögunni við fall þess er hefur ríkt. Sjáið til dæmis hvernig kirkjan breyttist og tók yfir margvísleg veraldleg gildi við fall Rómarveldis. Úr því varð kirkjuríki Evrópu sem náði eiginlega ítrekuðum hápunktum með hinu veraldlega ríki kirkjunnar í samfélagi og lífi fólksins. Og þessari stöðu kirkjunnar var ekki hnekkt fyrr en við siðbótina, að kirkjan fór að leggja áherslu á hvar Kristur reisti í raun sitt ríki á jörðu, þ.e.a.s. í hjörtum þess fólks sem trúði á hann sem frelsara. Það er engin furða að enn þann dag í dag hefur vakandi siðbót okkar kirkju auga með því hvernig kirkjan uppi á Íslandi nútímans fer með boðun sína ekki síður en hverja hina minnstu jarðarspilldu eða húskofa í eigu sinni. Siðbótin er einnig vakandi yfir því hvert hlutverk kirkjunnar ætti núna að vera þegar annað er horfið sem menn settu traust sitt á – alveg þangað til í sumar. Að vísu kemur á móti sú eðlilega varkárni og sá fyrirvari sem lýsir sér í þeim varnaðarorðum að kirkjan eigi nú ekki að fara að blanda sér í þjóðmálin eða taka of mikinn þátt í umræðunni um samfélagsmál né hugsanlega um hvaðeina það sem stjórnmálamennirnir ættu einir að vera að fást við. Vissulega er það vandi en við erum samt í dag minnt á það sem kirkjunni stendur á öllum öldum næst. Við erum minnt á boðun kristinnar trúar í þessum heimi. Við þurfum ekki að boða trú þeim er koma til kirkju að hlýða á Guðs orð. Við styrkjum hvort annað í trúnni með því að koma saman og iðka hana, en við þurfum ekki að prédika yfir kórnum eða öðrum sem eru hvað oftast í kirkju á helgum og hátíðum. Við þurfum hins vegar að boða siðræna og vitræna uppstokkun á því gildismati sem ríkt hefur í heiminum.

Lengi hefur efnishyggjan fengið að ríkja

Það hefur lengi verið varað við efnishyggjunni enda hefur því verið haldið fram að hún hafi aldrei verið meiri hér á landi en einmitt á þessu síðasta þennsluskeiði athafnalífsins. Ekki vegna þess að það hafi litið út fyrir að einhver væri að græða eða gera það gott. Það er gott ef satt var. Heldur vegna þess að því einu var hampað sem var annað hvort ríkt eða frægt af því að vera ríkt. Og þá var sannarlega horft framhjá því sem felst í ríkidæmi hjartans og ríkidæmi trúarinnar. Bækur hafa verið gefnar út með kynningu á upplýsingum um sölu og árangur bókanna – allt eftir mælikvarða markaðsins. Það er eins og þeir sem um það véla hafi litið framhjá því hversu viðsjálvert það er og ámælisvert að fjalla aðallega um listsköpun og menningu út frá peningalegu sjónarmiði. Það hefur lengi liðist að fjalla um framleiðslukostnað og risatekjur nýrra kvikmynda án þess að minnst sé á innihaldið eða sögu eða boðskap eða gildismat. Efnishyggjan hefur meira að segja afbakað veruleika glæpa og fíkniefnaheims. Grömmin af eiturefnum eru umreiknuð í milljónir króna ímyndaðs virðis á strætum borganna. Samt eru eiturefnin bara skítur sem skafinn hefur verið upp af gólfinu hjá þeim sem troða manngildið undir fótum alla daga í hreysum og í hallarsölum í hinum siðlausa parti mannlífsins.

Kristniboðsdagur – endurnýjað gildi mannsins Á kristniboðshátíð í dag skulum við leggja allt í sölurnar til að fylla lífið nýjum tilgangi. Það skal vera endurnýjaður kraftur sem byggist á heilögu manngildi kristinnar trúar. Þá verður aldrei tóm í sálu mannsins. Fyllum lífið erindinu sem Jesús Kristur á við manninn á götu hans hér og nú. Það er boðskapur friðar og eindrægni í mannlegum samskiptum. Það er boðskapur kærleikans og boðskapur vonar. Það er fagnaðarerindi hverjum þeim sem hafnar dauðum gildum efnishyggjunnar. Það er endurheimt lífsins hjá þeim er viðurkennir að hann lifir í föllnum heimi og lifir áfram í veikleika sínum þrátt fyrir það að heimurinn ef fallinn og hann sjálfur líka sem hluti af hinu fallna mannkyni. Hann lifir ekki af í þessum fallna heimi vegna veikleika síns. Hann lifir hins vegar fyrir að hafa játast þeim Guði sem ekki hefur fallið á prófum í dómi sögunnar og aldrei fellur af stalli, því hann er styrkur og í honum lifum við og í honum þreyjum við hvað sem á dynur og stöndum sterk í fæturnar hvernig sem vindar blása.

Að lifa í Guði og heyra hann kalla

Svo er það annað mál hvernig okkur tekst að samsama okkur þessum boðskap um að lifa í Guði og lifa í Kristi en lifa þó hér enn í þessum veraldlega heimi sem manninum er búinn. Hvernig tekst okkur að seilast í átt til þeirrar handar Guðs er hann réttir til að reisa upp hvern þann sem beygður er, hvern sokkinn og álútan; að hann finni hvernig upprisa Jesú Krists styður við brákaðan reyrinn og tendrar skært ljós á döprum hörkveik. Við getum leitað skilnings á því hvernig þetta fer saman í tilveru eins manns. Hvernig tekst honum það er vill lifa í trú, von og kærleika í miðju mannhafi samfélagsins og í þessum undarlega margbrotna heimi sköpunarverksins.

Til að botna eitthvað í því þurfum við að vera skáldleg eða ljóðræn. Það gæti verið svona í ætt við það sem við höfum fengið að heyra og sjá núna á þessari helgi safnadaga í Vestmannaeyjum í söng og ljóðum og upplestri skáldanna og myndum listamannanna. Í ætt við það ættum við að geta sagt í hálfum hljóðum, en meint það frá innstu rótum hjartans, hvað það merkir að vera í Kristi og eiga samfylgd hans vísa eins og nærvera hans sé lögmál, en gripið til náttúrulýsinga eða sígildrar íslenskrar samræðu um veður og gróðurfar. Um samfléttuna í nærveru manns og Guðs í einni órofa tilveru líðandi stundar sagði skáld eitt í líkingum eitthvað á þessa leið:

Í skóginum liðast áin niður á milli trjánna sem sveipa nánasta umhverfi hennar greinum sínum. Þéttofið net rótanna teigir sig um rakan árbakkann og djúpt í frjóa jörð. Lauf trjánna fylla loftið yfir ánni við hæstu krónur. Áin fyllir skóginn niði sínum.

Nærvera Guðs er lögmál í lífi okkar og þráin eftir honum seitlar um líkama okkar og sál eins og lækjarkvíslir að vori. Þannig er lífgefandi trú á upprisinn frelsara allra manna og við megum til með að láta hana berast sem víðast svo gróandi mannlíf fái þrifist og sett það æðst sem Jesús Kristur lagði alla áherlsu á með fagnaðarerindi sínu. Megi fögnuður hans fylla líf okkar niði sínum.

Göngum fúslega fram til fylgdar við Frelsarann Jesú Krist – þann sem mestu og bestu áhrif hefur haft í lífi mannkyns fyrr og síðar og enn þann dag í dag. Hann var, er og verður efstur á listanum yfir þá áhrifamestu í veröld mannsins. Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Amen.