Þegar dóttir mín var lítil sagði ég oft við hana „Þú ert best af öllum“ eða „Ég elska þig meira en allt“. Oftar en ekki svaraði hún mér: „Ég veit það“. Henni fannst alveg sjálfsagt að mamma hennar elskaði hana meira en allt annað og að sjálfsögðu var hún best. Enginn hafði sagt henni annað eða látið hana finna annað. Hvenær hættum við að líta á það sem sjálfsagðan hlut að við séum elskuð af öllum fyrir það eitt að við erum til? Hvenær förum við að átta okkur á því að við þurfum að hafa fyrir því að fá kærleik? Gerist það þegar við byrjum í skóla og þurfum að fá einkunnir sem sýna að við séum í lagi? Eða gerist það á unglingsárunum þegar við áttum okkur á því að við þurfum að sýna fram á að við höfum tilverurétt, kannski með því að líta vel út, eiga réttu gallabuxurnar eða sýna að við höfum hæfileika á einhverju sviði sem er álitið mikilvægt. Í það minnsta eru ekki margir fullorðnir einstaklingar sem lifa í þeirri trú að þeir séu frábærir og elskaðir af öllum án þess að þurfa að sanna sig fyrst.
Ég fór að velta þessu fyrir mér þegar ég var að hugsa um fyrsta Páskadaginn fyrir rúmlega tvö þúsund árum síðan. Eftir þann dag breyttist allt. Allt varð nýtt og breytt þegar Jesús Kristur reis upp frá dauðum. Hinn endanlegi sannleikur var ekki lengur dauðinn heldur lífið. Og upprisan er ekki heimspekileg lífssýn, heldur byggir hún á sögulegum atburði sem gerðist á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma og hafði með ákveðna persónu að gera – Jesú Krist.
Hvaða áhrif hefur þessi atburður sem átti sér stað fyrir svo löngu síðan á líf okkar í dag? Kemur okkur þetta eitthvað við? Það að þessi atburður hafi áhrif á okkur hvert og eitt persónulega enn í dag, fjallar um traust á hið ótrúlega – þetta traust er það sem við köllum trú. Jesús Kristur reis ekki aðeins upp frá dauðum fyrir löngu síðan, hann rís upp frá dauðum í lífi okkar og við munum einn dag rísa upp frá dauðum til þess að lifa áfram með honum.
Kristin trú fjallar um það hvernig lífið sigraði dauðann á allan hátt. Upprisan gengur eins og rauður þráður í gegnum allt það sem Jesús Kristur gerir. Ein leið til þess að lýsa hlutverki kristinna einstaklinga, er að ávallt gefa líf, í öllum þeim aðstæðum sem við stöndum í. Þannig getur líf okkar haft í för með sér upprisu.
Upprisuhátíðin er ein stærsta hátíð kirkjunnar og það sem kirkjan og kristin trú byggir á. Í kirkjunni höldum við upp á páskahátíðina hvern sunnudag. Og boðskapur páskanna er að Guð uppfyllti loforð sitt um að senda son sinn inn í heim okkar mannfólksins til þess að lífið myndi sigra dauðann. Þess vegna snýst hver einasta guðsþjónusta í kirkjunni um lífið.
Líkt og öll börn fæddist Jesús inn í okkar heim sem lítið hjálparvana barn sem var upp á kærleika annarra komið. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi átt foreldra sem annað hvort sögðu honum reglulega að hann skipti máli og væri elskaður eða í það minnsta sýndu honum það í verki. Ekkert í sögu hans bendir til annars. En Jesús vissi einnig að Guð elskaði hann. Jesús vissi að Guð elskaði hann. Að senda son sinn, hluta af sér, inn í þennan heim var stærsta gjöf sem Guð gat nokkru sinni gefið okkur mannfólkinu. Að fórna syni sínum til þess að við fengjum eilíft líf, var óendanlega stór gjöf. Og hvað höfðum við gert til þess að eiga þetta skilið? Vorum við á einhvern hátt búin að vinna okkur þetta inn? Nei, það vorum við ekki. Við getum aldrei unnið okkur inn kærleika Guðs. Við getum aldrei orðið svo góðar manneskjur að við vinnum okkur inn ást Guðs. Það eina sem við getum gert er að vera eins almennilegar manneskjur og okkur er unnt, reyna að úbreiða líf í öllum aðstæðum og sýna kærleika þeim sem við mætum á lífsleiðinni. Þetta er líklega nokkuð sem er auðveldara fyrir mörg ung börn að skilja en fyrir fullorðna. Ung börn sem lifa við ást og atlæti og líta á það sem sjálfsagðan hlut að vera elskuð. Bara að við misstum ekki þennan hæfileika.
Ég segi ennþá dóttur minni reglulega að hún sé best. Svar hennar er ekki eins oft og áður “Ég veit það” og þegar hún svarar því er það ekki eins sannfærandi og það var þegar hún var barn. Ég held að Guð myndi vilja að við svöruðum hans kærleik oftar á þennan hátt. Að við gætum séð það sem sjálfsagðan hlut að við erum elskuð og mikilvæg, bara fyrir það eitt að vera til. Þá ættum við kannski aðeins auðveldar með að sýna náunga okkar skilning og kærleika. Þá ættum við kannski auðveldar með að sjá Jesú Krist í öllu því fólki sem við mætum á lífsleiðinni og þá væri kannski aðeins auðveldara að boða líf.
Guð gefi ykkur gleðilega páska!