Ég var í fjölskylduboði um daginn og …
Ég var á fundi á vegum Advania, hann fjallaði um netið og – það voru bollur …
Ég las vísun á Facebooksíðu vinar míns hann ætlar að slökkva …
Ég fékk tölvupóst um daginn um mann sem …
Afsakið. Þið haldið kannski að presturinn sé ruglaður. Mig langaði bara að byrja prédikuna á athyglisbresti. Svona net-athyglis-bresti. Svipuðum eins og þeim sem kemur yfir okkur þegar við sitjum við tölvuna og hoppum úr einu í annað. Með ótal flipa opna í vafranum. Þegar við erum á staðnum en ekki nærri. Skimum en stöldrum ekki við. Förum grunnt en ekki á dýptina.
Við skulum byrja aftur.
Ég var staddur í fjölskylduboði um daginn og eitt umræðuefnið voru snjalltækin og máltíðir fjölskyldunnar. Nokkur barnanna á heimilinu eru flutt að heiman, önnur í menntaskóla. Þau koma öll saman á heimilinu tvisvar í viku og borða saman. Áður en máltíðin hefst eru allir símar stilltir á „silent“ og svo er karfa látin ganga og í hana fara snjallsímarnir. Svo borða þau og spjalla saman og eiga góðan tíma. Um það leyti sem eftirmaturinn er borinn á borð þá eru reyndar allir orðnir viðþolslausir og grípa símana og máltíðin er ekki lengur andlit mót andliti heldur enni mót enni.
Ég sótti morgunverðarfund á vegum Advania fyrr í mánuðinum. Það var boðið upp á bollur, en það var ekki aðalmálið. Umfjöllunarefnið var netið og unglingar og snjalltækin. Þrír fyrirlesarar fluttu stutt erindi og sögðu frá því hversu mikilvægt væri að foreldrar og unglingar ræddu saman, settu sér mörk, gættu þess hvernig tækin og öppin og vefirnir eru notuð. Hugsuðu um það sem þau senda frá sér. Þetta var gagnlegur fundur og víst er að efnið er mikilvægt.
Svo las ég semsagt facebookfærslu hjá vini mínum sem vísaði á vef þar sem hann sagði frá því að nú væri að hefjast næstum því árlegt veffrí hans. Í því felst að hann notar ekki Facebook eða aðra samfélagsmiðla, uppfærir ekki vefinn sinn, les ekki vefmiðlana, notar ekki tölvuna. Hann hefur gert þetta nokkrum sinnum áður og haft af því gagn. Þess vegna gerir hann þetta aftur og aftur.
Svo var það tölvupósturinn sem ég fékk. Hann vísaði á frétt um mann sem starfar í kirkju hér á landi. Hann er organisti og það var tekið við hann viðtal af því að hann ætlar að fasta á föstunni. Fasta á kjöt. Í alvöru. Það þótti sæta tíðindum og þess vegna var tekið við hann fréttaviðtal á Ríkisútvarpinu. Magnað.
* * *
Organistinn var fréttaefni af því að hann ætlar að fasta á kjöt. Samt er fólk alltaf að fasta á mat í samtímanum. Sum eru á fimm:tvö kúrnum, borða í fimm daga og fasta í tvo. Enn aðrir eru á mataræði sem kallar á að fasta í tiltekinn tíma, borði ákveðinn fjölda máltíða, sleppi sumu. Þetta er svosem líka fréttaefni, en kannski meira á lífsstílssíðum blaða og vefmiðla.
Fastan er á dagskrá í samtímanum. Það er hægt að fasta á miklu fleira en mat. Til dæmis mætti hugsa sér að fasta á snjalltækin og samfélagsmiðlana. Fara í tækjaföstu í fjörutíu daga. Snjallföstu.
Hvernig gæti slíkt gengið fyrir sig?
- Ein leið væri að sleppa því alveg að nota ákveðna miðla, ekki nota Facebook, twitter, snapchat. Nota frekar tímann í eitthvað annað.
- Önnur leið væri að leggja snjallsímum og spjaldtölvum við ákveðnar aðstæður. Svipað og fjölskyldan sem tók þau úr umferð við matarborðið. Það gæti reyndar verið ágætis regla svona almennt talað!
- Þriðja leiðin væri sú að fasta alveg á þessi tæki og þessa miðla einn dag í viku. Taka sér eins konar snjallhvíldardag.
Til hvers?
Til að nálgast Guð? Til að verða betri? Til að vera sáttari við okkur sjálf? Já, kannski. En það á þó aldrei að vera takmark föstunnar, a.m.k. ekki ef marka má spámenn Gamla testamentisins:
Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þetta skrifar spámaðurinn Jesaja sem gagnrýnir föstu sem beinist inn á við og miðar jafnvel að því að upphefja sjálfan sig. Hann vill þess í stað horfa á alla hina. Að fasta er að þjóna náunganum. Að fasta er í þágu náungans.
Frans páfi sagði nýlega að öll fasta ætti að beinast að öðrum. Ekki fasta í eigin þágu. Og á hvað hvatti hann kristið fólk að fasta? Á skeytingarleysið. Á sinnuleysið. Á það að vera sama um aðra.
Þannig getum við líka lagt út orð spámannsins um að leysa fjötra rangsleitninnar.
Í snjallföstu mætti til dæmis útfæra þetta þannig að við notuðum tækin og tæknina til góðs og létum þau ekki koma í veg fyrir uppbyggileg samskipti. Við gætum fastað á það að vera fjarverandi þótt við séum nálæg í holdi. Við gætum fastað á neikvæðni á netinu. Fastað á komment sem brjóta niður, en skilið þess í stað eftir okkur spor, myndir, orð sem byggja upp.
Hvernig væri að prófa hvort tveggja næstu fjörutíu daga?
Að fasta með minni notkun. Að fasta með fallegri notkun.
Ekki fyrir þig. Heldur fyrir náungann.
Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur til að við fengjum öll að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.