Textar dagsins falla vel að konudegi. Þeir vísa burt frá öllu því sem þreytir konur en hefja til vegs það sem gefur þeim tilefni til að ljóma. Þeir minna á það sem konur hafa lengi bent á að hefðbundin samskipti manna í veröldinni eru byggð á misskilningi sem æ ofan í æ leiðir til vandræða, og þar er því lýst hvernig hægt er að leiðrétta vandann og eignast hlutdeild í lífinu, unaði þess og nægtum með ánægjulegum hætti.
Jesús er að tala um þetta þegar hann segir: „Hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur.”
Misskilningur okkar birtist í ótal myndum og gegnsýrir samskipti okkar hvort heldur eru samskipti þjóða, stétta, kynþátta, kynja og jafnvel kynslóða. Og þessi sami misskilningur afhjúpast líka í þjáningarfullum tengslum manna við náttúruna. En hversu margar birtingarmyndir sem hinn stóri misskilningur mannkyns á þá er rótin ein; við höldum að við séum hér til þess að safna einhverju. Það er vandinn. Við trúum því statt og stöðugt að helsta verkefni okkar hvers og eins sé að safna, til þess að safna, til þess að safna, til þess að safna, til þess að safna...
Þjóðir safna styrk sínum í samanburði við aðrar þjóðir. Stéttir safna völdum, kynþættir ímynd og afli, kynin safna yfirráðum í formi hefðbundinna samskiptahátta og kynslóðir takast á um hagsmuni sína, - hver þekkir ekki hugtökin freka kynslóðin, 68 kynslóðin og krúttkynslóðin? Og náttúran fer ekki varhluta af söfnunaráráttu tegundarinnar þegar við nálgumst hana með því hugarfari fyrst og síðast að hemja hana og nota fremur en að virða hana, þakka og njóta.
„Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag. Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag.” (5Mós 8.7, 10-11, 17-18)
Hér er Móse gamli að halda kveðjuræðu sína áður en hann hverfur til feðranna og Ísraelsþjóðin leggur af stað inn í fyrirheitna landið. Og hann varar við þeim fúla hugsanahætti sem enn í dag hrjáir samfélag manna þótt liðin séu meira en þrjú þúsund ár: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“
Það er ferlegt að eyða heilli mannsævi í misskilið puð. Enn hræðilegra er að hugsa til þess að kynslóð eftir kynslóð skulum við apa hvert eftir öðru sömu tugguna og sætta okkur við að lifa í raun bara hálfu lífi á þessari dásamlegu jörð sem hefur allt að gefa. Því jafnvel við, þessi fáu heppnu sem ná að tróna efst á neyslupýramýdanum í eyðslu og ofgnótt, líka við erum að fara á mis við hinar raunverulegu nægtir mannlegs lífs. Við, þessir feitu og glansandi vesturlandabúar sem höldum að núna sé kreppa erum að fara á mis við þriðja heiminn og allt það líf og fjölbreytileika sem hann á og er. Við sjáum það líka hér á eyjunni Íslandi hvernig stéttamunur sem einkum felst í ítökum og völdum skemmir og lamar svo að menn verða einhvern vegin óviðkomandi hver öðrum þótt þeir séu nágrannar. Það erfiðasta sem útlendingar á Íslandi þurfa að glíma við er það að flestar raunverulegar ákvarðanir eru teknar í gegnum hulið tengslanet. Og þegar maður er ekki tengdur inn í neitt svona net, þá heldur maður alltaf áfram að vera framandi. Það sama gildir ef þú missir heilsuna. Það hefur sennilega aldrei verið verra að missa heilsuna en á okkar tímum. Það þekkja þau sem búa við fötlun af einhverju tagi. Heilsuleysi merkir ekki síður tengslaleysi. Sá sem missir heilsu einangrast iðulega.
Hvers vegna finnum við okkur knúin til þess að lifa svona? Hvað gerir það að verkum að okkur finnst tryggara að tala alltaf um okkur og hina. Við hér og þriðji heimurinn þarna. Við sem getum og eigum og hin sem hvorki geta né eiga. Við sem erum upprunalegir Íslendingar og svo hin sem koma utan að. Við af þessari kynslóð og svo hin kynslóðin. Við karlmenn og svo konur og börn...
Það er óttinn sem veldur. Óttinn við það að ekki sé nóg handa öllum. Vissan um að þegar upp sé staðið sé það skorturinn sem ríki en ekki nægtirnar.
Þess vegna er ég svo feginn þessum textum á konudegi sem jafnframt ber upp á fyrsta sunnudag í níuvikna föstu. Þeir fjalla um leiðina burt frá þeim fúla misskilningi sem um allan heim leiðir m.a. til kúgunar kvenna.
Við lifum í veröld sem fer á mis við konur.
Ég var 12 ára þegar kvennafrídagurinn var haldinn 24. október 1975. Í dag veit maður að þá voru mörkuð þáttaskil í samvitund fólks í landinu. Ég man ekki hvort ég var á Lækjartorgi eða ekki, en minningin um þennan dag er svo sterk að mér finnst eins og ég hafi verið þar. Ég man líka að ég leit móður mína og Þórnýju kennarann minn öðrum augum í ljósi þess sem vara að gerast. Það voru sterkir frelsisstraumar sem fóru um þjóðfélagið á þeim tíma og höfðu áhrif í lífi allra. Síðan þá hafa konur gert sig margfalt meira gildandi úti á vinnumarkaðnum, sótt fram í æðri menntastofnunum, gerst opinberir embættismenn o.m.fl. sem lýtur að ytra formi samfélagsins. En veruleiki konunnar er ekki ósvipaður veruleika útlendingsins. Allar megin brautir þjóðfélagsins standa kurteislega opnar að uppfylltum sanngjörnum skilyrðum, en dulda tengslanetið er ekki í boði. Maður þekkir mann, nema hann sé kona eða útlendingur. Þess vegna kemur bara ekki það sama upp úr launaumslagi kvenna og karla. Þess vegna berja margir karlar konur í nánum samböndum og komast upp með það. Þess vegna mega líka konur og börn óttast það mun fremur að vera nauðgað og vera skilin ein eftir með skömmina. Ofbeldi á sér alltaf stað í samhengi ójafnra valda. Nýlega voru birtar niðurstöður könnunar sem leiddi í ljós að um 2000 konur á Íslandi verða fyrir ofbeldi af hendi karlmanna í nánum samböndum á ári hverju. Ísland í dag...!
Misskilningurinn stóri sem m.a. birtist í ranglæti sem við karlmenn viðhöldum í garð kvenna kemur ekki til af illsku heldur ótta. „Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.” Safnarinn lifir og hrærist á þessu fúla tíðnisviði. Að því leyti sem við erum bara að safna í stað þess að lifa erum við eins og illi þjónninn í dæmusögu dagsins. Húsbóndinn hafði fengið honum talentu til varðveislu, rétt eins og hinum. Munurinn lá í því að hinir tóku við sínum talentum sem tákni um traust, en þessi eini sá bara talentuna sjálfa. Hann átti ekki augu til að sjá táknið, trúnaðinn sem honum var sýndur, tækifærið sem honum var lánað til að lifa. „Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.”
Já, gjafari lífsins er harður húsbóndi. Hann krefst þess að við lifum og tökum þátt. Hann þrábiður okkur um að taka við því að á bak við hverja gjöf sem lífið færir okkur býr ástarhugur. Það góða sem lífið færir þér er ekki annað dauft sýnishorn af þeim nægtum sem að þér snúa, því ríkidæmi sem er þitt, þeirri auðlegð sem þú átt og ert. Hversu heimskulegt er þá að góna á gjafir lífsins? Hversu glatað er að lifa til þess eins að safna því litla sem reka kann á fjörur þínar þegar öll auðæfi hafsins eru þín? Það er engu að safna. Þú átt allt!
Þarna liggur lausnin á misskilningnum stóra sem leiðir til endalausrar undirokunar í samskiptum manna. Að því leyti sem við sjáum hið sanna og tökum við því að það er óhætt að hætta að safna, þá þurfum við ekki lengur á því að halda að tala um okkur og hina. Við þurfum þá ekki að fjarlægja okkur frá fátækari þjóðum heldur sjáum við gæðin sem í því eru fólgin að deila kjörum. Stéttamunur verður óþarfur, fjölbreytileiki ólíkra kynþátta verður fagnaðarefni, kynjamunur tekur að snúast um þau gæði sem körlum og konum eru gefin hvert í öðru, kynslóðir sjá samhengi sitt og taka að virða það og mannkyn sér að það á samleið með náttúrunni og öllu sem lifir.
Hún Lára María var borin til skírnar hér áðan að okkur öllum viðstöddum. Það merkir það að við höfum heitið henni því að gera allt sem í okkar valdi stendur svo að hún skuli fá að lifa frjáls og örugg sem sú kona sem hún er á leiðinni að verða.
Amen.
Textar dagsins: 5Mós 8.7, 10-11, 17-18 1Kor 3.10-15 Matt 25.14-30