Sálm. 84:2-5, 11:13 Lúk. 18:31-19:10
Jesús er á leið til Jerúsalem. Þar bíða hans þrengingar; höfnun og svik, þjáning og dauði. Allt slíkt er þó víðs fjarri lærisveinunum, þeir skilja ekkert hvað Jesús er að fara þegar hann segir fyrir um atburði næstu daga.
Leiðin liggur gegnum Jeríkó. Þar á Jesús samskipti við tvo ólíka menn, gjörólíka, fulltrúa tveggja hópa sem himinn og haf skildi að.
Sakkeus var virðulegur embættismaður, háttsettur og efnaður. Hann var eiginlega of fínn til að umgangast Jesú en forvitinn og vildi sjá hann. Þá var ágætt ráð að fela sig uppi í tré og fylgjast með úr öruggri fjarlægð. En hversu öruggur var Sakkeus samt innst inni?
Það orð fór af tollheimtumönnum að þeir tækju meira af fólki en tilskilið var og styngju mismuninum í eigin vasa. Yfirlýsing Sakkeusar um ráðstöfun eigna sinna bendir til þess að slík ásökun hafi legið þungt á honum.
„Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni“ sögðu viðstaddir í hneykslunartón þegar Jesús ákvað að heimsækja Sakkeus sem var fordæmdur og mannfjöldinn handviss í sinni sök.
Oft er auðveldast að taka undir með fjöldanum. Stundum er ekki pláss fyrir önnur sjónarmið en eina, viðurkennda, „rétta“ skoðun, pólitískan rétttrúnað. Það sjáum við iðulega í umræðu daganna. Jesús hefði hæglega getað sniðgengið Sakkeus í trénu eða áunnið sér mikla lýðhylli með því að skamma hann, dæma hann og bergmála með því almenna afstöðu. Sá Sakkeus hefði farið einn heim, vonsvikinn og sneyptur, og hugsanlega upp frá því lifað eftir ímynd fólksins af honum sem fégráðugum svikahrappi.
Íbúar Jeríkó sáu í Sakkeusi aurasál og föðurlandssvikara og dæmdu hann samkvæmt því en Jesús sá í honum elskuverðan og elskulegan mann sem gat látið gott af sér leiða. Þannig eigum við einnig að líta á annað fólk, gera ráð fyrir hinu besta.
Það er lærdómsríkt hvernig Jesús talar til Sakkeusar. Hann tekur ekki undir almannaróminn, áfellist ekki þann sem grunaður er um að misnota aðstöðu sína en býður sér heim til hans. Jesús er ekki fordómafullur heldur nálgast óvinsæla tollheimtumanninn af hlýju og nærgætni. Sú nálgun skilar sér, hefur jákvæðar afleiðingar.
„Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum“ er 8. boðorðið. Marteinn Lúther segir um það: „Vér eigum að óttast og elska Guð svo að vér eigi ljúgum ranglega á náunga vorn, svíkjum hann, baktölum eða ófrægjum, heldur afsökum hann, tölum vel um hann og færum allt til betra vegar.“
Þetta ættum við að hugfesta og hafa að leiðarljósi í umræðu daganna. Því miður einkennist hún of oft af upphrópunum og æsingi. Jafnvel er meðvitað kynt undir reiði múgsins og dómstóll götunnar kallaður til.
Geirfinnsmálið er enn á dagskrá. Nýlega var rifjuð upp saga fjórmenninganna sem sátu saklausir í gæsluvarðhaldi vikum saman en voru daglega teknir af lífi, bæði í fjölmiðlum og í samræðum meðal fólks. Svo var þeim sleppt og annar hópur settur í steininn og umræðan umpólaðist í einu vetfangi eins og hjá Ragnari Reykás.
Eftirminnilegt er líka Lúkasarmálið um árið þegar ungur piltur var sakaður um að hafa drepið hundinn Lúkas á hrottafenginn hátt. Pilturinn varð að fara huldu höfði til að forðast reiði dýravina - en svo birtist Lúkas allt í einu aftur, alveg sprelllifandi!
Við getum valið auðveldu leiðina - að berast með straumnum, taka undir með fjöldanum, fylgja þeim sem hæst hafa. Eða valið að hlusta á rödd Guðs og synda á móti straumi, ástunda sannleikann í kærleika með því að taka málefnalega og fordómalausa afstöðu. Þannig stuðlum við að heilbrigðari samskiptum, betri veröld.
Margítrekuð reynsla kennir okkur vonandi að fara hægt í sakirnar og forðast það sem kallað er að skjóta fyrst en spyrja svo.
Með þeirri aðferðafræði hefði Sakkeus aldrei fengið tækifæri til að lýsa því yfir hvaða lífi hann vildi lifa og hvernig hann ætlaði að verja auði sínum í þágu annarra og þjónustu við Guð.
Jesús afhjúpaði hann í trénu. Þá kom í ljós að þessi háttsetti og vellauðugi embættismaður vildi láta gott af sér leiða, nota auðinn öðrum til blessunar.
Blindi betlarinn var á hinum enda mannvirðingastigans í samfélagi sem áleit sjúkdóma og fötlun réttláta refsingu fyrir eigin syndir eða feðranna. Þess vegna naut hann takmarkaðrar samúðar samtíðar sinnar. Í örvæntingu hrópaði hann á hjálp og neyðaróp hans náði eyrum Jesú.
Bænin er úrræði þeirra úrræðalausu. Það úrræði nýtti blindi maðurinn sér og hrópaði til Jesú um hjálp, þeim mun hærra sem fólkið í kring sussaði meira á hann.
Þessi vesalings maður lifði í myrkri blindunnar en ekki síður í myrkri niðurlægingar, jafnvel fyrirlitningar, vegna hugmyndanna um tengsl sjúkdóma og fötlunar við synd.
Oft er svartasta myrkrið af mannavöldum. Slæm framkoma gerir illt verra, myrkvar tilveru annarra. Sá blindi þráði sjónina - ekki eingöngu til að geta séð, ekki síður til að losna við fordómana, verða verðug manneskja, ekki úrhrak.
Jesús sagðist vera ljós heimsins. Hann kom í heiminn til að lýsa upp tilveru mannkyns, vera með okkur og gefa okkur von, einnig blinda betlaranum.
Jesús kom til að leita að hinu týnda og frelsa það. Týnd erum við sannarlega í löstum og ósigrum lífsins en ekkert síður í almennri sjálflægni, sinnuleysi um hag náungans og feluleik við Guð.
Adam og Eva földu sig í aldingarðinum. Þau vildu ekki að Guð sæi til þeirra eða skipti sér af þeim. Oft er ástæðan sama eðlis þegar fólk á öllum tímum reynir að forðast Guð, losna við að mæta honum.
En þá þyrftum við að geta flúið okkur sjálf því í brjóstum okkar allra býr rödd Guðs, samviskan. Hún segir til um rétt og rangt. Hún ónáðar okkur með því að minna á að rangt er ekki það eitt sem við gerum gegn betri vitund heldur eins það sem við látum ógert.
Tollheimtumenn, sem höfðu fé af almenningi í eigin þágu, urðu að deyfa samviskuna, réttlæta óheiðarleikann fyrir sjálfum sér.
Sama hlýtur að gilda um viðskiptamenn nú til dags sem með úthugsuðum og flóknum fléttum villa um fyrir stjórnvöldum og almenningi. Víða er eftirlit líka ófullnægjandi, það er vanrækt.
Vanræksla á ýmsum sviðum er meginþemað í neikvæðum innlendum fréttum í vetur, ekki síst vanræksla embættismanna sem áttu að fylgjast með og sjá til þess að hlutirnir væru í lagi. Í sumum tilvikum var um að ræða löngu liðna atburði.
Sú umræða er þó gagnslítil ef hún einskorðast við fordæmingu og hneykslun á því sem liðið er og verður ekki aftur tekið. Það er svo mikilvægt að læra af sögunni. Best væri auðvitað að komast hjá því að endurtaka mistök fortíðar.
Í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar var gyðingum ítrekað vísað héðan úr landi þótt það stofnaði lífi þeirra í hættu. Það er sárt að horfast í augu við það en mikilvægt að læra af reynslunni og gera betur núna. Til þess höfum við einstakt tækifæri.
Hingað streyma flóttamenn og hælisleitendur af ýmsu tagi og fæstum er veitt hæli. Vissulega er um að ræða marglita hjörð og örugglega eitthvað til í því að þar sé misjafn sauður í mörgu fé. Í hópi þeirra, sem koma langt að og sækjast eftir skjóli hjá okkur, eru samt ekki hlutfallslega fleiri vafagemlingar en voru hér fyrir.
Hins vegar er vitað að meðal þeirra, sem ekki fá hæli hér, eru einstaklingar sem búið er að dæma til dauða heimafyrir og eiga yfir höfði sér að verða teknir af lífi ef þeir þurfa að snúa aftur þangað. Enn fleiri eru þó þau sem munu þurfa að þola félagslega útskúfun og harðræði vegna kynþáttar, trúar eða kynhneigðar.
Mörgum hér á landi virðist óskiljanlegt að það sé lífshættulegt að skipta um trú, tilheyra öðrum þjóðflokki eða laðast að eigin kyni. Þannig er það nú samt víða um heim og við megum ekki láta eins og það komi okkur ekki við. Þessi aldagamli hugsunarháttur breytist ekki á svipstundu og þá kemur til kasta okkar að veita þeim skjól og vernd sem að dómi eigin samfélags eru réttdræp. Það er alveg ófært að skýla sér á bak við Dýflinnarreglugerðina þegar um líf og dauða systkina okkar er að tefla.
Hvernig mun framtíðin dæma okkur, okkar tíma, yfirstandandi ár? Hver verður dómur sögunnar yfir þeim stjórnmálamönnum og embættismönnum sem endursenda fólk héðan - jafnvel út í opinn dauðann?
Í sögu Jesú um miskunnsama Samverjann kemur skýrt fram að aðgerðaleysi er ekki afsakað. Sá einn breytti rétt sem hjálpaði særða manninum, ekki hinir tveir sem gengu framhjá og gerðu ekki neitt. Þeir höfðu ekki gert særða manninum neitt, ekki ráðist á hann og rænt hann. Þeir töldu það ekki sitt mál þótt hann lægi þarna. Þetta er alltof algeng hugsun því Jesús leggur áherslu á að röng breytni felist einnig í því sem látið er ógert.
Það skulum við hafa í huga þegar um líf einstaklinga er að tefla, hvort sem það eru hælisleitendur eða hungruð börn í stríðshrjáðum löndum og á þurrkasvæðunum í Austur-Afríku.
Blindi betlarinn þurfti að berjast við fordóma samfélagsins og skeytingarleysi fjöldans. Hann er fulltrúi þeirra sem ákalla Drottin um hjálp en umhverfið segir þeim að hætta því, það sé ekki til neins, ekkert muni breytast.
Sem betur fer heyrir Drottinn slíka bæn þótt hún sé bara veikt hvísl miðað við þöggunartilburði fólksins. Jesús brást við, hjálpaði, læknaði, endurreisti þann sem bað og gaf lífi hans nýja merkingu.
Sakkeus hrópaði ekki á hjálp, ekki þannig að neinn heyrði. Vera má að frá brjósti hans hafi stigið andvarp, ósk um velþóknun Guðs því vanþóknun annarra var svo æpandi. Eða ekki; vel getur verið að hann hafi ekkert leitt hugann að Guði, jafnvel forðast að íhuga hvað skaparanum þætti um líf hans eða hvort Guð vildi honum eitthvað.
Jesús fann Sakkeus berskjaldaðan uppi í tré. Það varð til þess að Sakkeus fann sjálfan sig, áttaði sig á því hvernig hann vildi lifa og verja eigum sínum, tók heillaríka ákvörðun sem varð öðrum til blessunar og frelsaði hann frá því að vera þræll efnislegra gæða.
Frá Jeríkó heldur Jesús áfram til Jerúsalem. Þar tekst óvinum hans ætlunarverk sitt. Jesús er auðmýktur, píndur og deyddur. Þá leið fer hann aleinn. Aðdáendur snúa við honum bakinu. Vinirnir fara í felur. Sjálfur Guð yfirgefur son sinn.
Jesús tekur á sig útskúfun mannkyns. Hann er bæði í sporum blinda betlarans og Sakkeusar. Hann þekkir þetta allt, veit hvernig er að vera álitinn ömurlegt úrhrak eins og sá blindi, veit hvernig er að vera talinn siðlaus svikahrappur eins og Sakkeus. Jesús veit líka hvernig er að vera þú og ég. Hann setur sig í spor okkar, mætir okkur á forsendum okkar. Hann bæði hlustar á veikróma neyðaróp vesalinganna og finnur þau borubröttu sem í sjálfsmyndarkreppu snúa sér undan, fela sig og þykjast ekkert vilja vita af Guði.
Jesús er ekki bara píslarvottur og fórnarlamb réttarmorðs heldur upprisinn frelsari, lifandi og nálægur. Þess vegna þýðir að ákalla hann og þess vegna leitar hann enn hinna týndu. Í því felst áhætta að biðja hann um hjálp eða bjóða honum heim: Hann er vís með að breyta hugarfari okkar, endurskoða gildismatið, stokka upp forgangsröðina. Hann er vís með að auðga líf okkar, gefa því dýpri tilgang og stuðla að því að við tökum meiri þátt í kjörum annarra.
Ert þú reiðubúin(n) til þess? Þiggurðu samfylgd Jesú Krists?