Kærleikans sól hefur sigrað

Kærleikans sól hefur sigrað

Nú blasa vandkvæðin við. Og veistu, það er annar og styrkari grundvöllur að standa á en hin pólitíska og efnahagslega spurning um hvernig við komumst í gegnum vandann. Þann grundvöll er að finna í boðskap páskanna: Óttist ekki! Hinn krossfesti Kristur er upprisinn!
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
12. apríl 2009

[audio:http://tru.is/hljod/2009-04-12-kaerleikans-sol-hefur-sigrad.mp3]

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Gleðilega páska!.

Nú máttu´ ekki, María, gráta, meistarinn er ekki hér, þar sem þú grúfir og grætur, gröfin og myrkrið er. Líttu til annarrar áttar, upp frá harmi og gröf: Ljóminn af lífsins sigri leiftrar um jörð og höf. Sjá, já, nú sérðu, María, sjálfur er Jesús hjá þér upprisinn, ætlar að fæða allt til nýs lífs með sér. Syng því í sigurgleði. Syng fyrir hvern sem er: Kærleikans sól hefur sigrað, sjálfur er Kristur hjá þér.

Svo yrkir sænska skáldkonan, Ylva Eggehorn, í sálminum sem sunginn var hér áðan. Sálminn þýddi Sigurbjörn Einarsson biskup skömmu fyrir dauða sinn. Öldungurinn við sólarlag ævi sinnar gaf okkur, kirkjunni sinni, þessa sálmaþýðingu að skilnaði, þessa páskamorgunskveðju til Maríu og hvers og eins, sem eins og hún syrgir og grætur: „Líttu til annarrar áttar, upp frá harmi og gröf: Ljóminn af lífsins sigri leiftrar um jörð og höf...“ Og:„....Kærleikans sól hefur sigrað, sjálfur er Kristur hjá þér.“

Ekki er að undra að þau skyldu gráta, hún María og þau hin, sem horft höfðu upp á ósigurinn á Golgata. Krossfesting Jesú var hrun, ömurleg endalok, algjör ósigur og niðurlæging. Guðspjallið segir að þá hafi orðið myrkur um allt landið. Hvað er verið að segja með því? Jú, að þegar við krossfestum Jesú, reyndum að útrýma visku Guðs, réttlæti Guðs og kærleika, þá er allt merkingarlaust, meiningarlaust með öllu. En í því meiningarlausa myrkri er Guðs sonur og mælir orð fyrirgefningar og sáttargjörðar, og gefur sjálfan sig. Við sólarupprás á þriðja degi rís hann af gröf. Réttlæti Guðs, kærleikur og fyrirgefning rýfur viðjar haturs og hefnda, og veltir frá bjargi syndar og sektar og dauða. Og nú er krossinn, sem áður var tákn ósigurs og niðurlægingar, öflugt vonartákn, tákn sigurs, lífs og vonar! Hvar sem krossinn blasir við þér þá segir hann: „Kærleikans sól hefur sigrað, sjálfur er Kristur hjá þér.“

Við höfum lifað hrun og ósigra á Íslandi. Mörgum er þungt, og finnst við illa svikin. Peningahyggjan lék okkur grátt. Við urðum óþyrmilega fyrir barðinu á tortímandi hroka græðgi, fýsna og valds. Nú erum við löskuð þjóð, pólitískt og efnahagslega. Grundvallartraustið á stofnanir þjóðfélagsins hefur beðið alvarlegan hnekki. Tugþúsundir horfa upp á atvinnu og afkomu, hús sín og heimili og fyrirtæki í voða. Mörg okkar eru sorgmædd, sár og reið.

Eitt sinn orti Hallgrímur Pétursson um sína illu og myrku öld:

„Stund er sú seinasta, ill og óhreinasta, oss ber að vaka. Reiknast sem ókominn réttláti dómarinn reikning að taka. Ókominn, ókominn, að afmá rangindin, en jöfnuð krýna. Umbuna réttindin, reka burt illindin, ríkið sitt léna.“

Hallgrímur er ekki í vafa um það hver sá er, réttláti dómarinn, sem afmá mun rangindin og jöfnuð krýna. Það er Drottinn einn sem það megnar. Von Hallgríms og von okkar er ekki bundin við jarðneska leiðtoga, regluverk, alþjóðastofnarnir, valdhafa, pólitík. Þó við getum ekki án þess verið og þurfum nauðsynlega á að halda, á leiðtogum, valdhöfum, pólitík þar sem forsendurnar eru réttar, hjartað á réttum stað, eins og sagt er, sem dómgreindin, viskan, aflið, styðst við hinar sönnu dyggðir og viðmið, sem rétt eru og sönn.

Fjármálakreppan er ögurstund fyrir heimsbyggðina alla, ögurstund, sem gefur möguleika á nýju upphafi, umbreyting og endurreisn. Við komumst ekki hjá því að horfa í eigin barm, sem einstaklingar og sem samfélag, og endurskoða þær forsendur hagvaxtarins sem hafa ekki síst verið á kostnað hinna fátæku þessa heims og lífríkis jarðar. Þörf er á viðhorfsbreytingu sem beinist að sjálfbærni og varfærni í umgengni um náttúruna, á sjálfsaga, hagsýni og hófsemd. Það hlýtur að verða grundvöllur heimsmyndar og samfélagssýnar Íslendinga. Við höfum reyndar ákjósanlegar forsendur til að verða fyrirmyndarþjóðfélag í þeim efnum! Við getum sigrast á vandanum og unnið okkur út úr hruninu. Hvað þarf til þess? Umfram allt það sem þjóðskáldið Matthías Jochumsson segir:

„En mest er vert að sigra vel sig sjálfan með sannri visku, félagsskap og dyggð.“

Peningar koma við sögu í píslarsögunni. Makalaust hve þeir koma meir og minna alls staðar við sögu! Í píslarsögunni sjáum við hvernig Jesús er öðrum þræði fórnarlamb ofbeldis auðs og markaðsaflanna. Júdas seldi Jesú í hendur yfirvalda fyrir þrjátíu silfurpeninga. Og er hann hafði svikið meistara sinn með kossi, og varð ljós skelfileg afleiðing gjörða sinna, fór hann og kastaði sjóðnum inn í musterið í örvænting sinni. Allt í einu voru þeir einskis virði, silfursjóðurinn var ekki eyrisvirði framar! Peningar koma líka við sögu í páskaguðspjallinu. Jú, þar er sagt frá því að eftir upprisu Jesú reyndu æðstuprestar og öldungar lýðsins að bera fé á varðmennina við gröfina og sögðu við þá: „Segið þetta: Lærisveinar hans komu að næturþeli meðan við sváfum og stálu honum. Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna skulum við sefa hann svo að þið getið verið áhyggjulausir.“ Það er ekki í fyrsta né heldur síðasta sinn sem peningar eru verkfæri lyga, ofbeldis og ranglætis. Þegar sannleikurinn verður markaðsvara, já, sjálf manneskjan metin til verðs.

Samt getum við ekki án peninganna verið. Guðspjöllin segir frá því að vinir Jesú, þeir Nikódemus og Jósef frá Arimaþeu keyptu rándýr smyrsl til að búa Jesú til grafar. Og hvað segir um konurnar í páskaguðspjallinu? Án þess að hafa hugmynd um þetta örlæti hinna auðugu vina, fara þær þegar er hvíldardagurinn er líðinn til að kaupa ilmsmyrsl og jurtir til að smyrja lík Jesú. Hvort tveggja gefur innsýn í örlæti og fórnfýsi, annars vegar hinna ríku og voldugu, hins vegar fátækra kvenna. Og þar koma peningar við sögu, peningar eru látnir í té fyrir vöru og verðmæti, og þarna eru þeir verkfæri góðvildar og umhyggju.

Og svona er heimurinn okkar samsettur. Ekkert samfélag þrífst án markaða, verslunar og viðskipta. Það getur þó aldrei orðið grundvöllur samfélagsins né heldur má trúin verða markaðsvara. Það gerist iðulega, en þá snýst hún gegn markmiðum sínum. Samfélagið þarfnast markaðarins, en ef samfélagið verður markaður, eins og varð um íslenskt samfélag, þar sem allt, nánast allt var falt, þá hrynur það. Samskipti Guðs við börn sín eru byggð á gjöf, ókeypis, af örlátum kærleika, náð! Landið er gjöf Guðs, lífið er gjöf Guðs. Og það sem dýrmætast er alls verður aldrei metið til verðs.

Nú blasa vandkvæðin við. Og veistu, það er annar og styrkari grundvöllur að standa á en hin pólitíska og efnahagslega spurning um hvernig við komumst í gegnum vandann. Þann grundvöll er að finna í boðskap páskanna: Óttist ekki! Hinn krossfesti Kristur er upprisinn!

„Sjá, já, nú sérðu, María, sjálfur er Jesús hjá þér upprisinn.....“
- segir í sálminum.

„Efi minn leyfir mér ekki að trúa á upprisuna, en trú mín leyfir mér ekki að efast.“ sagði skáldið og ritstjórinn, Matthías Jóhannesen einhvern tíma. Okkur hefur verið kennt að efast í nafni þekkingar, skynsemi og vísinda okkar tíma um flest það sem lýtur að vitnisburði guðspjalla og kristni. Bara að við hefðum verið efagjarnari andspænis ýmsum þeim kreddum sem haldið var að okkur í efnahags og fjármálum undanfarinna ára! Nei, þar var gagnrýnislaus trúgirnin og sefjunin knúin áfram af afli og glysi auglýsinganna.

Það andrúmsloft og viðhorf efahyggju í trúmálum sem mótað hefur Vestræna menningu um langt skeið, og hefur að sögn gert það nánast óviðurkvæmilegt upplýstum nútímamanni að trúa á upprisu Jesú, var aldrei og er ekki enn hlutlaus afstaða, trúarlega, félagslega eða pólitískt. Heldur fordómur. Fordómur, að trúin sé fáfræði og skynsemisskortur. Hún María við gröfina og eins aðrir vinir Jesú voru ekki auðtrúa og grunnhyggnar manneskjur. Þau þekktu vel afl dauðans, hve allt er óafturkræft sem hann hrifsar til sín. Þess vegna var grátur þeirra og vonbrigði raunveruleg og sönn viðbrögð við missi, eins ótti þeirra, já og líka undrun þeirra og gleði. Og tökum eftir því, að þessi fordómur skynsemistefnunnar sem hlaut að afneita upprisu Jesú, small eins og hönd í hanska við aðrar meginstaðhæfingar þeirrar stefnu, að nú væri ekkert pláss fyrir Guð í heimsmynd mannsins, og því væri maðurinn frjáls að ráða málefnum manns og heims án æðri viðmiða, dóms og laga. Alræðisveldi tuttugustu aldar og hvers kyns alræðishyggja stjórnmála, fjármála og félagsfræða samtímans eru afsprengi þessarar guðlausu hugsunar, að ekkert sé manninum æðra. Hverjir geta ekki hugsað sér að dauðir rísi ekki upp? Það eru umfram allt valdhafarnir, hverslags félagslegir og hugmyndafræðilegir harðstjórar. Það eru keisararnir, Heródesar og Pílatusar allra alda, sem stendur ógn af því valdi, þeim Drottni, sem sigraði ítrasta vopn harðstjórans, dauðann sjálfan. Það eru æðstuprestarnir, farísearnir og fræðimennirnir, sem skelfast Guðs son, holdi klæddan og vilja öllu til kosta að þagga niður orðróminn um hann, vald hans og návist. Af því að hann ógnar valdi þeirra. Og í þessu ljósi er það sem trúin á upprisu Jesú, sem á krossinum dó, verður ekki lengur upprifjun furðulegra staðhæfinga um atburði á 1. öld, heldur uppgötvun vonarinnar, endurheimt þolgæðis, hugrekkis og vonar á 21. öld, nú í dag, fyrir mig og fyrir þig og allan heim. Upprisa hins krossfesta lýkur upp nýrri sýn á líf og heim, þar sem hatrið og dauðinn er að velli lagður, ný lífssýn, heimsmynd og framtíð þar sem hatrið og heiftin lýtur í lægra haldi, þar sem hin auðugu og valdamiklu og ófyrirleitnu þessa heims hafa ekki síðasta orðið. Það er lífssýn vonarinnar í birtu upprisusigurs hins krossfesta.

Ég nefndi hinn aldna biskup hér í upphafi máls míns. Síðustu orðin sem hann reit veikum mætti á blað fyrir andlát sitt voru þessi:„Jesús er hér á krossinum að skapa nýja páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.“ Þetta vildi hann segja við okkur að skilnaði. Í hverjum voða, vanda og þraut einstaklinga og samfélags er Drottinn, krossinn hans, og sú vörn, sú von og sá páskasigur, sem hann veitir.

Annar ástsæll Íslendingur, leikarinn, Gunnar Eyjólfsson, vitnar um krossinn í blaðaviðtali í vetur. Hann sagði: ,,Ég signi mig daglega af því að ég trúi á krossinn en það er vegna áhrifa frá ömmu minni sem sagði: ,,Gunnar minn, það fer ekkert illt í gegnum krossinn. Og mundu það!““

Þetta vissi íslensk alþýða um aldir, og mæðurnar sem enn í dag fylgja þeirri gömlu, góðu venju að signa börnin sín, þær eru að tjá þá vissu sem gamla konan átti: Það fer ekkert illt gegnum krossinn. Og mundu það!

Já, munum það! Það er kross frelsarans sem við erum signd. Það er kross frelsarans, sem bar synd heimsins og sekt, og sigraði allt illt, jafnvel sjálfan dauðann í upprisu sinni, og skapar nýja páska, upprisu, von. Og þess vegna getum við horft fram vonar augum, óttlaus og æðrulaus í birtu þess sigurs. Drottinn sigrar. Dauðinn tapar. Dagur brýst í gegnum nótt. Guð gefi þér það að reyna og sjá.

„Syng því í sigurgleði Syng fyrir hvern sem er: Kærleikans sól hefur sigrað, sjálfur er Kristur hjá þér.“