Kæri söfnuður, gleðilegt ár!
Það er gott að vera komin aftur til starfa í Laugarneskirkju eftir dásamlegt fæðingarorlof, okkur hjónunum hlotnaðist sú hamingju að eignast dreng í byrjun aprílmánaðar á síðasta ári, hann hlaut nafnið Jónatan Hugi, Jónatan þýðir Guð gefur og Hugi merkir einfaldlega bara hugur, enda gefur Guð okkur hæfni til hugsunar, jafnvel þó Hann stýri henni ekki, sem er oft á tíðum miður fyrir okkur sjálf og umhverfi okkar.
Það hafa verið gríðarleg forréttindi að vera í fæðingarorlofi á liðnum mánuðum, fyrir margra hluta sakir. Að vísu hófst fæðingarorlofið á mjög tregablandinn hátt, faðir minn lést hálfum mánuði fyrir fæðingu Jónatans og var jarðsettur fjórum dögum áður en drengurinn leit dagsins ljós. Tilfinningalífið var eins og gefur að skilja, fremur óreiðukennt, upplifunin af dauða og fæðingu samtvinnaðist hjartanu og það merkilega var að ég uppgötvaði þá hversu nátengdir atburðirnir tveir eru, þögnin í kringum hinn fyrsta og síðasta andardrátt er sú sama, það er sama þögnin sem er blandin ótta og lotningu, þakklæti og kvíða, en umfram allt guðlegri fegurð, og hvort tveggja er fæðing inn í nýjan veruleika þar sem allt er í óvissu nema Guð.
Í nánd jóla gerði ég tilraun til að setja þessa merkilegu upplifun í orð og þrátt fyrir að prestur megi aldrei vera í sjálfsupplifun í prédikunarstól þá langar mig samt að deila þessu ljóði með ykkur, þið megið eiga það en annað þurfið þið ekki að gera við það og það hljóðar svona:
Ljós slokknar. Ljós kviknar. Við héldum að Guð væri farinn, en þá birtist hann aftur, um nótt. Tvö líf mættust. Snertust. Uns annað sveif upp í stjörnubjartan himinn, en hitt varð eftir með fálmandi hendur, draumkenndan ilm, augu sem treystu. Við bárum hann heim og lögðum á dúnmjúka sæng. Sorgin og gleðin sneru bökum saman, dönsuðu hringdans, í tveimur hjörtum. Framtíð mætti fortíð, faðmaði hana að sér, sagðist aldrei gleyma henni. Það var um nótt, þegar Guð birtist aftur. (HEB)
Ég sagði í upphafi það hafa verið gríðarleg forréttindi að vera í fæðingarorlofi á liðnum mánuðum, þá átti ég að sjálfsögðu við það sem hér er lýst en síðan tók við annað skeið á haustmánuðum sem öll þjóðin þekkir og gegnsýrir alla umræðu og kannski tilfinningalíf flestra, með ólíkum hætti þó en það er bankahrunið og efnahagskreppan. Hjá sumum er hún lúxusvandi hjá öðrum er hún raunveruleg fátækt. Ég dreg ekkert úr alvarleika málsins þó ég ætli mér að lýsa reynslu sem ég vonast fyrst og síðast til að verði þér til huggunar og uppbyggingar. Ég hef líkt og þorri þjóðarinnar ákveðnar skoðanir á ábyrgð og afsökunum en ég ætla ekki að fjalla um þær skoðanir hér í kvöld. Ég var nefnilega svo heppin að vera í fæðingarorlofi þegar öll ósköpin dundu yfir, já ég var svo lánsöm að vera ekki um borð í þjóðfélagslestinni sem þýtur áfram frá morgni til kvölds, ég var stödd á brautapallinum með ungbarn í fanginum og horfði á atburðina frá því sjónarhorni. Veistu hvernig það er að eignast barn? Þekkirðu tilfinningarnar sem hellast yfir á fyrstu dögunum og vikunum? Þekkirðu það að vakna um miðja nótt og leggja fingurinn að vitum barnsins til að kanna hvort það dragi ekki örugglega andann? Ég hugsa að flestar nýbakaðar mæður eigi þá reynslu sameiginlega. Þá reynslu að þakka fyrir hvern morgun sem barnið grætur í rúmi sínu, því þá er enginn vafi á að það lifir, þessi litli viðkvæmi líkami sem fær þig til að gleyma öllum veraldlegum áhyggjum en óttast það eitt að vera tekin frá honum eða hann frá þér. Og þá er ég ekki að lýsa neinni dramatík, nýbökuðum foreldrum líður í raun svona, að einhverju leiti og þess vegna var það þegar kreppan skall á að ég meðtók engan veginn alvarleika málsins heldur spurði í barnslegri einlægni fjölskyldu mína, hvað væri það versta sem gæti gerst og ég upplifði ekki áhyggjur af því sem þau lýstu því ég var svo fegin að vera á lífi og að drengurinn andaði og samt stóð ekkert annað til. En ég segi ykkur þetta í fullri einlægni, því svona leið mér. En nú er ég komin aftur til starfa, stigin upp í lestina og þotin af stað og ástæðan fyrir því að ég varð að koma þessu frá mér og deila því með ykkur er sú að ég er svo hrædd um að gleyma þessari upplifun og senn taki við gluggabréfaóttinn og bömmerinn yfir því að eiga ekki húsnæði og eignast það ekki á næstunni. Ég finn að áhyggjurnar eru að breytast, þær eru að verða veraldlegri og þess vegna er ekki seinna vænna en að koma þessu frá sér í þeirri von að það gleymist ekki. Að vísu er annað í lífi mínu sem hjálpar mér að muna en það er vinur minn sem er að glíma við krabbamein, við hittumst nánast daglega og í hvert sinn sem ég lít í augu hans skammast ég mín fyrir að finnast ég eiga bágt að komast ekki til útlanda næsta sumar, ég er nefnilega bara í góðæriskreppu, ég hef vinnu, heilsu og mig skortir ekkert, nema aðeins meira þakklæti. Og þegar þessi vinur minn segir mér í einlægni að hann sé svo fegin að hafa fengið nógu sterk verkjalyf svo hann fái notið jólanna með fjölskyldunni, þá fæ ég aulahroll yfir sjálfri mér. Og þegar ég sé hann elska hverja stund með konunni sínni og börnunum tveimur þá þakka ég Guði fyrir að þekkja hann og ég dett aftur á brautarpallinn þar sem ég áður stóð með ungbarnið í fanginu.
En ég geri ekki lítið úr áhyggjum þjóðarinnar, það er ekki meiningin með þessum orðum, margir eru í angist yfir óvissunni, hafa misst starfið sitt og hafa ekki tekjur til að mæta þeim skuldbindingum sem til er ætlast, kirkjan getur verið bakhjarl fyrir þá sem eru í óvissuangist, hún býr yfir boðskap sem sefar og hún býr yfir mannauð sem getur hjálpað og kirkjan er öllum opin, gleymum því aldrei. Í kirkjunni starfar ekki hyski sem lýgur að fólkinu furðusögum eins og leiðarahöfundur Fréttablaðsins hélt fram um hátíðarnar, nei í kirkjunni starfar ekki hyski með Munchausensyndrom heldur venjulegar manneskjur sem trúa því að kirkjan geti gert gagn, rofið félagslega einangrun, bætt heilsu manna á sál og líkama, eflt menningarlíf í landinu, stutt foreldra í barnauppeldinu og allt þetta sem þó er ekki tæmandi trúir hið svokallaða “hyski” að það geti gert með siðfræði og mannskilning Jesú Krists að vopni eins og hann birtist í sögum Biblíunnar. Kirkjan hefur alltaf hlutverki að gegna hvort sem er í góðæri eða kreppu, hún á að vera samfélaginu bæði siðferðilegt aðhald og sálgætir.
Í guðspjalli dagsins gefur að líta tvenns konar kvíða, annars vegar hinn alþekkta foreldrakvíða yfir afdrifum barna sinna og hins vegar útrásarkvíða lærisveinanna sem töldu sig ráðna til að afkasta sem mestu í mannaveiðum, en gerðu ekki alltaf ráð fyrir að gæði þyrftu að samræmast magni. Jesús Kristur er alltaf á brautarpallinum og í lestinni, honum tekst að vera á báðum stöðum í einu. Þess vegna fer kristin trú aldrei í manngreinarálit, hún getur það ekki þegar uppspretta hennar er allt um kring. Hið velþekkta barnaguðspjall sem er jafnan flutt við hverja skírn, minnir okkur á að Kristur er hið eilífa foreldri án fæðingaorlofs sem leggur fingur að vitum okkar til að finna hvort við lífum, í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Í óeiginlegum skilningi þráir Kristur að við lifum í ódauðlegum gildum sem hvorki græðgi, gjaldmiðill né gengi fær eytt. Þetta hljómar kannski einfalt en raunmynd veruleikans er víst önnur, við ættum að þekkja það Íslendingar sem höfum lifað sýndarveruleika í heilan áratug meðvitað og ómeðvitað á meðan jörðin hefur rotnað. En þær eru fleiri þjóðirnar sem líða og frá Gazasvæðinu berast yfirþyrmandi hörmulegar fréttir og fréttamyndir af saklausum borgurum, já saklausum börnum sem hafa týnt lífi og limum vegna gengdarlausrar heiftar og ótta milli Ísraels og Palestínumanna, kveikja þessa stríðs er ekki mjög flókin en langrækni þess hefur gert það að óleysanlegri flækju og fyrir það munu komandi kynslóðir einnig líða. Börnin okkar, þessi sem hafa fæðst í fang okkar og gert það að verkum að við gleymdum öllu nema þeim, um stund, þau líða fyrst og síðast fyrir friðleysi heimsins, úrræðaleysi og græðgi. Um leið og við stökkvum um borð í lestina, gleymum við börnunum á brautarpallinum. Og svo verða þau fullorðin og temja sér þau deyðandi gildi sem við höfum haldið á lofti og ný börn, nýjar kynslóðir skiljast við okkur sem eigum að bera ábyrgð. Þessu verðum við að breyta. Guð gefi okkur æðruleysi til þess á komandi tímum.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.