Kæru vinir. Við erum að lifa undarlegan tíma hér í Laugarneskirkju. Við öll sem eigum sögu með Laugarneskirkju og höfum taugar til þess sem hér gerist og þróast erum hugsi þessa daga.
Að baki er góður vetur í sjálfu starfinu. Kvenfélagið okkar hefur haldið áfram að eflast og endurnýjast, Kórinn er búinn að standa sig frábærlega með Gunnari, við fundum það ekki síst í fermingunum hvað þessi kór flytur allt vel og bara getur það sem hann er að gera. Starf eldri borgaranna hefur siglt fallega í gegnum veturinn með góðri þátttöku undir stjórn Sigurbjörns í samvinnu við Gunnhildi kirkjuvörð og þennan frábæra þjónustuhóp sem alltaf er til staðar. Næsta gigg á þeim bæ verður messan núna á Uppstigningardag. Kyrrðarstundirnar hafa verið vel sóttar í hádegi á fimmtudögum og þar hefur haldið áfram að þróast flott samfélag yfir súpunni hennar Vigdísar. Kvöldsöngurinn með Þorvaldi Halldórs og Tólf spora starfið hefur sjaldan verið eins blómlegt. Núna á þriðjudaginn útskrifuðust 33 Vinir í bata að lokinni vorönn við fallega athöfn í safnaðarheimilinu og það var stemming í loftinu og ósvikin vinátta og tilhlökkun að halda áfram næsta haust. Gönguhópurinn Sólarmegin er flottari en nokkru sinni. Einn miðvikudagsmorguninn þegar ég rakst á hópinn hér fyrir utan kirkjuna voru þau alls ellefu talsins að leggja í hann í góðu veðri og ljúfum félagsskap. Inni á Dalbraut er fjölmennur hópur fólks sem komið hefur saman til helgistunda hálfsmánaðarlega í allan vetur og mun halda striki með mér inn í júnímánuð. Guðrún djákni heldur enn sem fyrr glæsilega utan um allt starfið í Hátúni þar sem eru reglubundnar messur, helgistundir, Gospelkvöld, mikil sálgæsla og súpa í hádegi alla þriðjudaga. Ég kom þar í síðustu viku og taldi fleiri en 40 sálir í salnum á meðan ég stoppaði. Líka þar var vinátta og samstaða í loftinu, eins og í öllu sem fram fer undir merkjum kirkjunnar okkar. Jón djákni er fulltrúi okkar á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Þegar við Gunnar og kórinn komum þar inn í með honum þrisvar á ári er alltaf húsfyllir, opið og gefandi andrúmsloft og þakklæti fyrir þjónustu kirkjunnar. Djáknarnir okkar tveir eru framúrskarandi fólk á sínu sviði.
Þegar talið er saman allt það fólk sem tekur reglubundið þátt í lífi safnaðarins í hinum ýmsu hópum þá fer talan ekki niður fyrir 400 sálir. Og þá á eftir að telja það fólk sem sækir almennar messur og aðrar athafnir. Og börnin og unglingarnir eru ekki heldur inni í þessari tölu. Þau eru aldrei færri en 300 yfir vetrartímann. Stundum miklu fleiri. Venjuleg vika í lífi safnaðarins telur svona ca. þúsund manns á hreifingu og við megum vel vera stolt af því. Við höfum notið þess að hafa hana Erlu Björk sem æskulýðsfulltrúa sl. tvö ár og hún hefur gert hlutina með frábærum hætti. Fyrst skal nefna ung-leiðtogana okkar sem eru ekki færri en átta eða níu talsins í vetur. Erla Björk hefur verið í nærandi tengslum við þau öll og haldið vel utan um Adrenalínhópinn, Kirkjuflakkarana og Harðjaxlana. Kirkjuprakkarastarfið og Óðamálafélagið hefur líka gengið sérlega vel í vetur að ekki sé minnst á fermingarstarfið sem er búið að vera hrein ánægja út í gegn hjá okkur Erlu Björk og öllum sem að því hafa komið. Svo er það náttúrulega staðreynd að Laugarneskirkja á einhverja al bestu sunnudagaskólakennara sem hægt er að hugsa sér. Þar eru þau Snædís, Stella, Keli og líka hann Hákon sem er í fríi en kemur vonandi til okkar aftur. Og ekki skyldum við gleyma honum Gísla á hljómborðinu eða ung-leiðtoganum og píanistanum Garðari. Þetta eru allt snillingar og foreldrar barna hér í hverfinu og víðar meta störf þessa unga fólks mikils.
Má ég líka spyrja ykkur, - Hafið þið tekið eftir messuþjónunum? Hvern sunnudag skipta þau á sig verkefnum og eru að gegna hinu forna meðhjálparahlutverki af trúmennsku og þokka sem allur söfnuðurinn kann þeim þakkir fyrir. Þetta eru ekki færri en þrjátíu manns. Og í þessu starfi er sóknarnefndarfólk sérlega virkt. Já, sóknarnefndin! Við verðum að átta okkur á því að fólkið sem valist hefur hér í sóknarnefnd og gefur ómælt krafta sína ber með sér mikla þekkingu og getu inn í starfið. Pálmi gjaldkeri tekur t.d. ekki krónu fyrir alla sína vinnu. Ekki heldur Egill formaður sem alltaf er hér á tánum. Vitið þið að ef taldir eru allir sjálfboðaliðarnir sem hér eru að vinna; Messuþjónar, kór, sóknarnefnd, þjónustuhópur eldriborgara, sjálfboðarliðar í Hátúni, forystufólk í kvenfélagi, gönguhópi og tólfsporastarfi og nú síðast konurnar sem sjá um altarið í kyrrðarstundum þá erum við að tala um meira en eitt hundrað sjálfboðaliða í skilgreindum verkefnum! Og þá eru ekki talin þau öll sem eru í sífellu að koma hér og lyfta undir starfið bara eftir hendinni, allt elskulega fólkið sem er virkur hluti af þessu samfélagi.
Við erum rík. Laugarnessöfnuður er langþróaður og hann á djúpar rætur.
Þið sjáið stóru bókina sem stingur svo skemmtilega í stúf liggjanid hér á skírnarfontinum. Þetta er bókin sem kvenfélagskonur báru í hús árið 1945 þegar kirkjan var enn í smíðum og þar er safnað nöfnum allra sóknarmanna um leið og fólki gafst kostur á að styrkja byggingu nýju kirkjunnar með fjárframlögum. Þessi gamla bók ber vitni um ótrúlegan samtakamátt og sterka sjálfsmynd ungs safnaðar. Þá var sr. Garðar Svavarsson sóknarprestur hér og enn er hans minnst með virðingu og þökk í okkar hverfi, ekki síst fyrir æskulýðsstarfið sem hann hafði svo einstakt lag á. Sr. Jón Dalbú var síðan sóknarprestur Laugarneskirkju um áratugaskeið og á þeim árum óx og þóraðist líf safnaðarins glæsilega. Þá var hér t.d. drengjakór og bjöllusveit og sunnudagaskólinn og messan voru samþætt með þeim hætti sem við gerum enn. Safnaðarstarfsmenn og leiðtogar hafa heilsað og kvatt eftir mis langa þjónustu en söfnuðurinn í Laugarnesi hefur þróast og dafnað.
Nú hefur Gunnhildur Einarsdóttir kirkjuvörður lokið sínum störfum fyrir söfnuðinn og við söknum hennar öll því hún var einstakur kirkjuvörður og henni fylgdi svo margt gott inn í safnaðarlífið. Hennar starfslok komu til vegna breyttra forsendna í rekstri safnaðarins. Gunnar Gunnarsson er búinn að þjóna hér í sautján ár og vill núna breyta til. Við eigum eftir að sakna hans hræðilega en hljótum að sýna því skilning að jafn hæfileikaríkur listamaður sitji ekki á sama orgelbekknum starfsævina á enda. Við bara stöndum með Gunnari og þökkum hans þjónustu. Erla Björk Jónsdóttir æskulýðfulltrúi ætlar líka að hreyfa sig á þessu vori og hefði verið löngu búin að kveða upp úr með það ef þessar hræringar allar hefðu ekki komið til. Hún bara kunni ekki við að tala um þetta á meðan allt lék hér á reiðiskjálfi. En líka hún þarf að breyta til í sínu lífi og við stöndum með henni, söknum hennar þegar hún fer og þökkum hennar góða starf.
Þið munið líka að ég opnaði á þann möguleika að láta hér af embætti og fara út í borgarpólitíkina hér um árið. Ég hafði gott af því að sleppa takinu af safnaðarlífinu innra með sjálfum mér og ég veit að söfnuðurinn hafði gott af því að vita að sóknarpresturinn liti ekki á sig sem húsgagn. Hugsum um það. Gamla bókin hér á skírnarfontinum sýnir okkur svart á hvítu að það var fólk hér á undan okkur sem byggði þetta hús og þennan söfnuð. Dag einn mun eitthvað allt annað fólk en við sitja hér í þessum bekkjum og fylla þetta hús af tónlist, vináttu og trú. Vonandi verða þar margir afkomendur okkar, en við verðum farin öll með tölu. Lífið stendur aldrei í stað en Orð Guðs varir að eilífu. Við megum taka til okkar lexíu dagsins sem hún Ragnheiður las hér áðan:
„Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með ykkur, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita ykkur vonarríka framtíð. Þegar þið ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra ykkur. Ef þið leitið mín munuð þið finna mig. Þegar þið leitið mín af öllu hjarta læt ég ykkur finna mig, segir Drottinn.” (Jer 29.11-14a ) Er safnaðarlífið ekki einmitt um þetta? Hvað erum við að gera hér annað en að leita Guðs í von um góða framtíð? Hvers vegna leggjum við að unga fólkinu okkar að koma í kirkjuna sína? Vegna þess að við óskum þeim vonarríkrar framtíðar, óskum þess að þau megi vera farsælt fólk sem þekki rödd Guðs í hjarta sínu og eigi frelsarann Jesú að leiðtoga sínum.
Aftan á messuseðlinum eru skráðar niðurstöður stefnumótunar sem fram fór á stórum safnaðarfundi uppi í Vatnskógi fyrir fjórum árum. Þar blasir við sterk sjálfsmynd, skýr meðvitund og einlægur vilji. Heyrum nú Kristinn lesa þennan texta fyrir okkur:
„Hlutverk Laugarneskirkju að vera öruggur og opinn vettvangur þar sem aðstæður og þarfir fólks eru á dagskrá, mannréttindi í heiðri höfð og virðing borin fyrir náttúrunni. Kirkjan skal vera sameiningartákn í samfélagi okkar þar sem haft er að leiðarljósi að auka félagsauð og draga úr hroka.
Hlutverk Laugarneskirkju er að vera andlegur vettvangur þar sem nafn Jesú Krists er lofað í einu og öllu og leitast er við að almenningur finni sig heima í trúariðkuninni. Helgihald safnaðarins miðar að því að byggja upp og styrkja einstaklinga og veita fólki meiri lífsfyllingu um leið og aðstæður manns og heims eru tjáðar í bæn og þökk.
Laugarneskirkja skal vera leiðandi vettvangur þar sem Guðs orð er tengt við daglegt líf og rými veitt til skoðanaskipta. Hver sá sem þiggur þjónustu safnaðarins og finnur sig heima í helgihaldi hans skal mæta boðskap Krists í prédikun og fræðslu og fá hvatningu til að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.“
Vinir! Hér er ekki farið með veggjum eða beðist afsökunar á ónæðinu. Hér talar reyndur söfnuður sem veit að hann á erindi við umhverfi sitt. Ég segi stundum að söfnuður Laugarneskirkju sé málþroska því hér taka svo mörg til máls í daglegu lífi og ólíkar skoðanir eru viðraðar og virtar.
Undanfarnar vikur höfum við þjáðst heilmikið saman. Hvers vegna? Vegna þess að við erum alvöru. Laugarneskirkja er ekta. Hér er ekki ræktuð yfirborðsmennska og ekkert sett á svið. Við erum andleg fjölskylda og þegar breytingar ganga yfir þá finnum við til og tjáum það. Ég held t.d. að ég viti býsna vel hvað fólki finnst í þessu húsi og ég held líka að allir viti minn hug. Ég vona alltént að fólk finni að ég rembist við að meina það sem ég segi og segja það sem ég meina og vera heill - og ég finn að við erum öll að því. Kirkjan er okkur heilög og okkur er ekki sama. Þessi söfnuður er okkur hjartans mál um leið og við eigum ekkert í honum, ekki frekar en fólkið sem einu sinni bar þessa gömlu bók milli húsa í hverfinu en er nú horfið til feðranna.
Biðjum þess að á okkar vakt megi það rætast að nafn Jesú sé heiðrað í Laugarneskirkju eins og það hefur verið heiðrað og tilbeðið frá upphafi. Biðjum þess að þau sem á eftir okkur koma megi hafa ástæðu til þess að þakka það sem við gerðum, að líka þau geti sagt „Við erum rík. Laugarnessöfnuður er langþróaður og á djúpar rætur.“
Amen. Textar dagsins:
Jer 29.11-14a 1Tím 2.1-6a Jóh 16.23b-30