Föstudagsfólk eða sunnudagsfólk

Föstudagsfólk eða sunnudagsfólk

Stuð eða mínus er ekki aðalmál lífsins, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemming eru ekki forsendurnar heldur. Ertu í hópi föstudagsfólks eða sunnudagsfólks? Já, hvað skiptir máli?

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Köllun Steinunn ÞórarinsdóttirNorðvestan við Landakotskirkju, nærri inngangi, er stytta sem heitir Köllun. Vegna sjúkravitjana á Landakotsspítala gekk ég eitt árið daglega í nokkurn tíma, fram hjá styttunni horfði á hana, hreifst af þokka hennar, mjúkum línum, auðmýkt og þeirri lotningu sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá og þessi fagri minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra varð mér jafnan prédikari trúartrausts og óttaleysis. Glerkrossinn á styttunni frá brjósti og baki upp á höfuð varð mér áminning um, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst og megum festa rósemi okkar við Guð og treysta blessun hans.

Einn morguninn þegar áhyggjuþunginn var hvað mestur gekk ég mót sól og að köllunarskúlptúrnum. Þá varð ég fyrir einhverju mesta undri, sem ég hef lifað. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp, glerið magnaði ljómann og hin rústrauða mannsmynd varð sem himnesk vera, vera sem tók í sig himinljósið, brjóstið opnaðist og miðlaði ljósinu áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, vitrun, boðskapur sem ég túlkaði í krafti trúar.

“Skelfist eigi...” segir í páskatextanum. Óttastu ekki.

Styttan heitir Köllun. Við erum kölluð út úr myrkrinu og til ljóss, kölluð til að leyfa ljósinu að fara inn í okkur, í gegnum okkur og til annarra – til að efla líf fólks.

Föstudagsfólk Páskatextarnir greina frá konum í ómögulegum erindagerðum. Þær voru sorgbitnar, fullar vonbrigða. Þær höfðu ekki aðeins misst náin vin í blóma lífsins, heldur líka málstað, sem hafði virst svo gæfulegur en hafði tapað, já með því róttæka móti að leiðtogin var aflífaður. Þessar konur, sem gengu út til garðs og grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf, sem þær gátu alls ekki opnað.

Þessar konur eru fulltrúar fólks, sem verður fyrir áföllum, missir, tapar, verður fyrir sjúkdómum, óttast um ástvini sína, missir vinnu, tapar fé, lendir í ógöngum, verður fyrir skakkaföllum. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag. Þær voru föstudagsfólk.

Í lífi allra manna verða áföll. Við erum því öll föstudagsfólk. En miklu skiptir hvernig úr áföllum er unnið. Og öllu varðar að reyna að læsast ekki inni, láta ekki dyr falla að stöfum. Það sem einkennir föstudagsfólkið er lokun, hefting og bæling. Föstudagsfólkinu er starsýnt á vandkvæði, vesen, sjúkdóma og vond tíðindi. Heimur þeirra hefur tilhneigingu til að fara versnandi og hin góðu mál fara fram hjá þeim. Föstudagsfólkinu er tamt, að sjá bara það sem næst er og túlka með ótta eða neikvæðni í huga. Í stað þess að sjá möguleika, nýjung og opnun í þróun og jafnvel áföllum hættir föstudagsfólkinu til að ræða um erfiðleika, ógnir og fyrirstöður. Í stað þess að hrífast af undrum lífsins, litbrigðum jarðar og þungum nið tíma og geims sér föstudagsfólkið bara lokuð kerfi og afþakkar eða afneitar öllum frekari dýptum og víddum.

Jú, áföllin eiga sinn tíma – allir þarfnast næðis til að ná áttum eftir að lífið hefur krossað þá. Allir verða ringlaðir á löngum föstudögum lífsins. En er náttúran bara ljót, er tilveran bara neikvæð, sjúk, dapurleg og til dauða? Föstudagsfólkið hneigist til þeirrar afstöðu, ef ekki í lífsskoðun þá í praxis.

Páskalíf Og þá er mál páskamorguns. Yfirvöld höfðu sett verði við gröfina til að varna grafarráni og hindra að líki Jesú yrði stolið. En einhvers konar ljósvitrun urðu verðirnir fyrir og þeir flýðu. Þegar harmþrungnar föstudagskonurnar komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists horfið. Konurnar urðu fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum í frumsöfnuðinum, sögð margsinnis og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Konurnar urðu að bregðast við nýjum aðstæðum og nýrri túlkun. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá við krosspyntingarnar. En svo breyttist allt með boðskap páskadags.

Innri maður Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið? Ég heyrði um konu, sem alla ævi bjó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún átti sér orðtæki og sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var - þrátt fyrir áföllin - hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi komin var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni, verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, er sem geisli sólar sem fer í gegnum bak, brjóst og höfuð, umbreytir okkur með afgerandi móti. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

Þegar við heyrum páskaboðskapinn megum við leyfa honum að umbylta lífi okkar. Hann breytir veröldinni. Hún er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla, um tilveru til dauða, heldur er hún opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki, nái ekki, megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði.

Mannfólk Steinunnar Steinunn Þórarinsdóttir gerði hina þokkafullu köllunarstyttu í Landakoti. En hún hefur líka gert fjölda annarra stytta í borginni. Margar þeirra eru hnípnar, með lokuð augu eða án augna. Þær eru ekki einstakar manneskjur, heldur nánast hugmyndir um fólk. Andlitin eru lokuð og sálarlaus, tilveran einhvern vegin frosin. Þetta eru sláandi verk og mér hefur fundist Steinunn túlka föstudagsfólkið með áhrifaríkum hætti. En svo hefur hún líka búið til þessa styttu, sem ekki aðeins minnir okkur á ljósið heldur undrið sem verður í lífinu þegar við ljósinu er tekið. Þá verður til páskafólk.

Ég tel Köllun Steinunnar eitt af bestu listaverkum íslenskra listamanna á tuttugustu öld. Styttan leynir á sér. Enginn getur gengið að undrinu að vild, þegar fólk er í stuði og ætlast til að hún lifni. Hún skín og geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Þannig er það með páskaboðskapinn. Það er margreynt að þegar fólk ætlar að bjarga heiminum með einhverjum föstudagsaðgerðum fer illa. Guð hefur kraftmeiri og öflugri leiðir en þröngsýnir menn. “Skelfist ekki..” sagði engillinn “Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.”

Uppskrift guðsríkisins er róttæk. Dauðinn dó og lífið lifir. Leyfum þeirri meginpólun alls lífs, alls heims, allrar tilverunnar að hafa áhrif til góðs. Tilveran er ekki til dauða heldur til lífs. Við megum vera sunnudagsfólk og páskabörn. Við erum páskamegin við upprisuna. Það er aldrei of seint að lifa, ekkert er svo slæmt að lífið sé búið, allt sé í volli og veseni. Þú mátt byrja upp á nýtt, þú mátt lifa vel. Og sólarkrossinn lifnar í brjósti og huga fólks Já,

Kristur er upprisinn.

Kristur er sannarlega upprisinn.

Amen.

Páskamessa í Neskirkju, 23. mars 2008.

Lexía: Sl 118.14-24 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, hann varð mér til hjálpræðis. Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra: „Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk, hægri hönd Drottins er upphafin, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“ Ég mun eigi deyja heldur lifa og kunngjöra dáðir Drottins. Drottinn hefur hirt mig harðlega en eigi ofurselt mig dauðanum. Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin. Þetta er hlið Drottins, réttlátir ganga þar inn. Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig og komst mér til hjálpar. Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutan Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum. Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum.

Pistill: 1Kor 5.7-8 Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans. Guðspjall Mk 16.1-7 Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“