Biðjum saman í Jesú nafni: “Í lífsins tæru lindum þú laugar mig af syndum og nærir sál og sinni með sælli návist þinni.
Lát orð þitt veg mér visa og vilja mínum lýsa, tak dagsins verk og vanda á vald þíns góða anda. Amen.
“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.” Þessi bænarorð dr. Sigurbjarnar Einarssonar, biskups söng Gospelkór Kópavogskirkju meðal annars hér á áðan. Sungið er hér og leikið á hljóðfæri af innlifun, gleði, krafti, einlægni, kærleika og öllu góðu. Sálmarnir og eða lofgjörðarlögin eru ýmist á íslensku eða ensku. Gospeltónlist er ein tegund trúartónlistar og höfðar sterkt til sumra en minna til annarra. Það er eins og fleira í lífinu, sumt höfðar til okkar og annað síður. Við komum úr ýmsum áttum, höfum ólíkar skoðanir, kjósum mismunandi strauma og stefnur en öll erum við manneskjur. Kristin trú boðar að Guð elski okkur hvert og eitt, að fyrir honum séum við öll jöfn. Hann vilji snerta og hann snerti hjörtu okkar með eilífum umfaðmandi kærleika. “Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.” segir í pistli dagsins úr fyrra Jóhannesarbréfi og þar segir einnig: “Fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvort annað.”
Eitt sinn ruddist tólf ára drengur fram fyrir mann nokkurn og ung börn hans í biðröð í hoppukastala á skólahátíð hér í hverfinu. Biðröðin var löng og börnin höfðu beðið þolinmóð og full eftirvæntingar eftir því að komast í kastalann. Þegar sá tólf ára fór fram fyrir þau í biðröðinni skildu þau ekki út af hverju þau þurftu að bíða lengi í biðröð en aðrir gætu farið fram fyrir þau án þess að nokkuð væri sagt. Faðir barnanna sagði þá við þann, sem ruddist fram fyrir: “Erum við að virða og elska hvort annað þegar við förum fram fyrir aðra í biðröð?” Það kom á þann tólfa ára og hann sagði kankvís eftir stutta umhugsun: “Ég þarf sko greinilega að læra þetta betur.” En ekki fylgdi hugur máli því “ryðjandinn” hreyfði sig ekki úr röðinni. Bauð svo nokkrum jafnöldrum sínum að koma til sín og ryðjast einnig fram fyrir aðra.
Um hvað snýst þetta atvik? Frekju, leti, hugsunarleysi? “Ég um mig frá mér til mín”, afstöðu? Um að setja sér og öðrum mörk? Hefur það með kærleika að gera að setja sér og öðrum mörk? Til hvers eru lög og reglur? Þurfum við að virða hvort annað? ____________________ Sá eða sú, sem fer um götur og vegi þarf að treysta því að umferðarlög og reglur gildi. Skilti og merkingar minna á boð og bönn til að greiða fyrir umferð og afstýra árekstrum og slysum. Hversu margar, sem umferðarreglur eru, þá er víst að allar eru þær bornar uppi af einni frumreglu. Reglu, sem öllum er ætluð hvert svo sem farartækið er og ferðamátinn. Reglan er: “Sýnið tillitssemi” Aðgát til aðstæðna og annarra vegfarenda. Það sama á við um siðgæði mannlegra samskipta yfirleitt. ____________________ Það er yndislegt að koma í morgunnbirtunni hér inn Kópavogskirkju í morgunn og sjá á veggjum og lofti ótal birtingarmyndir steindra glugga listakonunnar Gerðar Helgadóttur, verk Barböru Árnason, altaristölfu Steinunnar Þórarinsdóttur, Kristsmynd Benedikts Gunnarssonar og nokkur verk nemenda í öðrum bekk Kársnesskóla. Nemendurnir unnu myndirnar eftir að hafa lært um list Gerðar fyrr í skólanum í vetur . Verkin þeirra eru svo sannarlega unnin af hjartans lyst. Lífleg, skemmtileg og gefandi. ____________________ Já lífið hefur ótal birtingarmyndir. Hvað þá mannleg hegðun og framkoma.
Biblían spyr: Út af hverju við sjáum flísina í auga náunga okkar en ekki bjálkann í okkar eigin auga? Er sumum tamara að benda á galla annarra frekar en sína eigin? Hvað þarf að gera til að breyta því? Þarf maður að byrja á því að horfa í sinn eigin barm? Hverfa inn á við, að eigin sálarhirslum? Tengja sig betur við sínar eigin tilfinningar og vera sjálfur sér samkvæmur eða samkvæm? Það getur verið löng og ströng leið, sem krefst hugrekkis og úthalds og spurningar eru margar. Þurfum við að elska okkur sjálf til þess að geta elskað aðra? Þurfum við á öðrum að halda í þessu lífi? Hvernig getum við hjálpað okkur sjálfum og öðrum? Hvernig getum við miðlað trú, von og kærleika til annarra? Í “Innsævi” nýútkominni ljóðabók Ferdinands Jónssonar, ljóðskálds og geðlæknis segir í einu ljóðanna: “utan vega hulin þoku lengst inn á heiðinni í grænum mosa við vatnaskil allra átta vakir í tæru vatni tilfinning um þig.” Ljóðið heitir: Innlönd. Í því er skyggnist skáldið inn á við. Í innri lendur, sem eru utan vega, lengst inn á heiði, við vatnaskil og þar vakir í tæru vatni tilfinning um aðra manneskju.
Ljóðskáldið starfar, sem geðlæknir á heilsugæslustöð á götunni Brink Lane í fjölmenningarherfinu Tower Hamlets í Lundúnum, sem stundum er lýst sem suðupotti fjölmenningar. Ferdinand leiðir þar teymi, sem annast heimilislaust fólk með alvarlega langvinna geðsjúkdóma. Hann sagði í sjónvarpsviðtali í síðustu viku upplifa stórkostlega hluti þegar sjúklingar ná tökum á því að komast út í lífið aftur, ná bata. Og hann leggur áherslu á að margir komi að því að hjálpa og segir hann meðal annars: að ekkert geðheilbrigðiskerfi komist með tærnar þar, sem góðir aðstandendur eru með hælanna. Þeir séu stórkostlegt fók, sem miklar byrgðar séu lagðar á. Bjartsýni og von séu mikilvæg og segist skáldið sækja styrk og efnivið í ljóðin sín úr íslenskri fegurð og því góða fólki, sem sé hér á landi. ____________________ Við skiptum máli. Saman hjálpum við, styrkjum og styðjum hvort annað með þeim náðargjöfum, sem Guð hefur gefið okkur. Verum óhrædd vegna þess að Guð er með okkur, þó að á tímum blási sterkt og mikið í lífinu og allt virðist sundum bara urð og grjót og upp í mót. Og maður spyrji dag og nótt: “Af hverju?” ___________________ Jóhannes talar um í guðspjalli sínu um mikilvægi elskunar, kærleikans og vináttunnar. Vináttan er eitt birtingarform kærleikans. Í návist vinar líður okkur vel vegna þess að vinur getur laðað fram allt það besta í okkur. Í návist vinar getum við verið frjáls og sannur vinur gefur manni kjark til að vera maður sjálfur. Kristin trú boðar að Jesús Kristur sé vinurinn, sem hvetur okkur til að þroskast og dafna þannig að við vöxum upp í að verða þau sem Guð skapaði okkur til að vera. Vekur og glæðir það sem fólgið er í sálum okkar, kallar okkur til ábyrgðar á okkur sjálfum. Við erum vinir og samstarfsfólk Jesú og hvers annars. Hann kallar okkur ekki til bara „einhvers“ verks heldur felur hann okkur verk þar sem náðargáfur okkar, þeir hæfileikar sem hann hefur gefið okkur, nýtast. Leyfum Guði, föður, himnum hærri að vera hjarta okkar nærri, með ljósi sínu á lífsins vegi og líkn sinni á nótt sem degi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Takið postulegri blessun: “Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.”