Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. Jóh 2.23-25
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen!
Enn eitt árið er að baki með blaðsíður sínar fullskrifaðar og eitt árið til viðbótar stendur okkur fyrir dyrum með sína óútfylltu reiti. Á tímamótum sem þessum leita á hugann ljóðlínur Matthíasar Jochumsonar, sem í spurnarformi orti: “Hvað boðar nýárs blessuð sól? Og hann svaraði sjálfum sér með því að segja: “Hún boðar náttúrunnar jól, hún flytur líf og líknarráð, hún ljómar heit af Drottins náð.” Það er ekki öllum gefið að sjá veröldina í þessu samhengi og það þarf í rauninni sterka trúarsannfæringu til að yrkja svona, að nýárssólin sé heit af Drottins náð – a.m.k. nú á dögum þegar það er ekki allskostar í móð að vera trúaður.
En hví skyldi það ekki vera í móð að vera trúaður? Er hægt að komast hjá því að trúa? Og hvað er trú þegar allt kemur til alls?
Trú hefur oft verið skilgreind þannig að hún merki traust – að einhverju eða einhverri persónu sé treyst.
Þau sem t.d. aðhyllast kristna trú treysta því Guði og Kristi og vitnisburði Biblíunnar þar um, en þurfa um leið að gera sér grein fyrir að öll trú byggir ávallt á túlkun. Þau sem aftur á móti hafa gert vísindahyggju að grundvelli tilvistar sinnar trúa því og treysta að vísindin ein hafi allt það fram að færa sem mannskepnan þarfnist til að öðlast sanna þekkingu og rétta vitneskju og að ekki þurfi að leita í neinar aðrar smiðjur til að leita sannleikans. Þau sem þetta aðhyllast eru því trúuð hvort sem þeim líkar það betur eða ver því þetta viðhorf vísindahyggjunnar til heimsins verður aldrei hægt að sanna þannig að nokkurt hald verði í en byggir eins og öll önnur trú á túlkun og afstöðu.
En felur orðið trú einungis í sér traust? Getur verið að orðið trú feli einnig í sér skírskotun til þess sem við á íslensku köllum þrá? Að trúa verður þá að þrá, sem merkir að hafa sterka löngun til einhvers – og rétt rúmlega það – því það að þrá vísar til þess að sá sem fóstrar þrá í brjósti sínu er eiginlega reiðubúinn til að fórna öllu svo þrá hans megi verða uppfyllt. Þrá er m.ö.o. tilfinning sem er svo sterk, að öllu öðru er fórnandi fyrir uppfyllingu hennar.
Og talandi um þrá: Á árinu sem er (var) að líða villtist ég inn í bókaverslun úti á Granda, þar sem útsala stóð yfir og þaðan kom ég út vopnaður nokkrum ljóðabókum. Þó ekki sé ég neinn sérstakur ljóðaunnandi – a.m.k. ekki miðað við sum sem ég þekki – þá finnst mér oft gaman að glugga í ljóðabækur. Einkum finnst mér gaman að leita að því sem ég kalla trúarstef í ljóðum eða með hvaða hætti skáld tjá dýpstu þrá sína. Ein þeirra bóka sem ég fann þarna á útsölunni var ljóðasafn Sigfúsar Daðasonar, sem lést árið 1996 68 ára að aldri. Sigfús Daðason hefur mér vitanlega ekki verið talinn til trúarskálda, en þó er það svo, að í sumum ljóða hans er að finna slíka þrá að ekki verður önnur ályktun dregin en að í honum hafi verið sterkan trúarstreng að finna, þó hann hafi e.t.v. aldrei látið það eftir sér að gefa sig neinu trúarlegu fullkomlega á vald. Í fyrsta ljóðinu í safninu er að finna fyrsta ljóð hans út kom á prenti og þar hljómar upphafsversið á þessa leið: Mannshöfuð er nokkuð þungt en samt skulum við standa uppréttir og sumarið bætir fyrir flestar syndir okkar.
Það er strax eftirtektarvert við þessa framsetningu skáldsins, að þeir sem í ljóðinu eru hvattir til að standa uppréttir eru hafðir í karlkyni og það er auðvelt að sjá fyrir sér suma femínista nútímans reka hornin í þetta orðalag og dæma það karlrembulegt. Það eru hins vegar 65 ár liðin síðan þetta var ort og tíðarandinn þá því töluvert öðruvísi en hann er í dag. Hér ber því að sýna skáldinu umburðarlyndi. En snúum okkur að mannhöfðinu, sem hér er ort um; af hverju skyldi þetta mannshöfuð, sem svo erfitt virðist að rísa undir, vera svona þungt?
Er skáldið að tala hér um kíló og grömm eða er það að tala um eitthvað annað?
Á hvaða mælikvarða verður eitt mannshöfuð vegið og metið?
Í rauninni liggur ekki alveg ljóst fyrir - og það þó ljóðið sé lesið allt til enda - hvað skáldið ætlar sér með þetta mannshöfuð, sem það gerir að umtalsefni. Það er hins vegar hægt að leika sér að því að túlka það á þann veg, að það sem geri eitt mannhöfuð svo yfirmáta þungt að ekki sé auðvelt að rísa undir því, er að oft getur höfuð verið svo yfirfullt af hroka, stærilæti og sjálfbirgingshætti að allt sem heitir skilningur á aðstæðum annarra, ástúð, samúð, mildi og miskunnsemi sligast þar undan öllu farginu.
Mannshöfuð getur líka verið svo yfirfullt af allskyns hugsjónum og hugmyndakerfum, kennisetningum, og gildismati – jafnvel yfirfullt af tísku og tíðaranda – að það er vart á nokkurs manns færi að standa uppréttur undir því öllu saman.
Það sem ég er hér að reyna að vísa til, er að afstaða okkar til lífsins; tíska og tíðarandi, hugmyndafræði og hugsjónir geta oftar en ekki bugað okkur og sligað á þann hátt að okkur verður varla sjálfrátt, þannig að við hættum að skynja með eðlilegum hætti hvað það er sem til okkar friðar heyrir, ef ég má leyfa mér að taka þannig til orða. Og þegar okkur hættir að vera sjálfrátt þá stöndum við ekki lengur undir sjálfum okkur og eitthvað okkur algjörlega óeiginlegt fer í reynd að stjórna því sem við tökum okkur fyrir hendur og aðhöfumst; já stjórna hjartalagi okkar; hvernig við komum fram hvert við annað og hvernig við stillum vogarskálar réttlætisins. Og þegar þetta hendir þá gerist það oftar en ekki, að mennskunni er fórnað á altari þeirrar hugmyndafræðimaskínu og þess kerfis, sem hafa skal í hávegum hverju sinni. Við skulum hins vegar hafa það hugfast, að þegar mennskunni er fórnað þá hverfur einnig allt sem heitir virðing og umburðarlyndi, ást og kærleikur.
Á öllum tímum eru og hafa verið til kerfi – bæði af pólitískum toga og þekkingarfræðilegum - sem stjórnast af mannshuganum, og sem hafa hreykt sér upp og sagt: Svona eiga hlutirnir að vera; okkar afstaða og okkar aðferð er rétt.
Gott dæmi um þetta, hvernig mennskan er oftar en ekki fótum troðin þegar að því kemur að vinna að framgangi mis-burðugra hugsjóna og hugmyndakerfa er söguleg skáldsaga, sem kom út núna fyrir jólin en hefur hvorki hlotið mikla auglýsingu né sérstaka athygli fjölmiðla. Þessi skáldsaga er þó ein þeirra, sem tilnefnd er til Bókmenntaverðlaunanna 2012 og er að mínum dómi bæði býsna vel skrifuð og afar athyglisverð.
Þetta er skáldsagan “Endimörk heimsins” eftir Sigurjón Magnússon. Umfjöllunarefnið er keisarafjölskyldan rússneska, sem tekin var af lífi með grimmilegum hætti sumarið 1918 af bolsjevikum í borginni Sverdlovsk austan Úralfjalla. Í fyrstu mætti ímynda sér að saga sem fjallar um svona löngu liðna atburði og sem gerist á svona fjarlægum stað eigi lítið erindi til okkar Íslendinga, en þegar nánar er að gáð kemur í ljós að hún fjallar í rauninni um sístætt efni og veltir upp sígildum spurningum, því viðfangsefni hennar er í rauninni það, þegar allt sem heitir réttlæti og umburðarlyndi, ást og kærleikur er látið víkja fyrir heift, hatri og hefnd.
Og hvernig stendur á því, að þau systkin heift, hatur og hefnd fá allt þetta svigrúm? - Jú, það er af því að í krafti nýrra hugsjóna, nýrrar hugmyndafræði og í skjóli nýrrar valdastéttar, sem í raun krefst alræðis yfir þegnum sínum, eru persónur bókarinnar eins og komnar að endimörkum heimsins þar sem allt siðferði er farið veg veraldar því allt þarf að lúta kerfinu sem komið skal á fót.
Sá heimur eða Kosmos, sem áður var við lýði skal því verða ofurseldur eyðingunni eða Kaos og nýtt hugmyndakerfi, sem hefur hag af því að skapa ringulreið á meðan það er að koma sér fyrir, skal hefja innreið sína, og sú innreið er aldrei án átaka, því eins og segir í upphafi bókarinnar, þar sem vitnað er í albanska ljóðskáldið Ismael Kadares, sem stundum hefur verið orðað við bókmenntaverðlaun Nóbels, þá verða þeir sem sameinast um völdin að gera fleira en að skipta með sér ábreiðum og gullskrauti – það gerist seinna – því fyrst og fremst verða þeir að sameinast um glæpaverkin. Endimörk heimsins er sem sé þar að finna, þar sem siðferðinu hefur verið varpað fyrir róða og valdhafarnir sameinast um glæpaverkin.
Yfirleitt lítum við mennirnir þannig á, að hugmyndir og hugsjónir feli í sér eitthvað jákvætt og eftirsóknarvert, en sú er aldeilis ekki alltaf raunin eins og mannkynssagan sýnir okkur glögglega. Það búa nefnilega ekki allar hugsjónir eða hugmyndakerfi að því – sama hversu háleit þau annars gefa sig út fyrir að vera - að “flytja líf og líknarráð” eða “ljóma heit af Drottins náð,” svo vísað sé til ljóðlínanna í sálmi Matthíasar sem ég vitnaði til hér í upphafi. Hugsjónirnar og hugmyndakerfin sýnast þó oft gera það - og þá einkum í fyrstu þegar þau reyna að vinna fólk til fylgilags við sig - en þegar á reynir kemur jafnan í ljós að fyrir þeim vakir það eitt að viðhalda sjálfum sér og tryggja sjálfum sér völdin. Að sama skapi skortir þau svo oftar en ekki samúð og samhug, umhyggju og kærleika, sem sérhvert samfélag þarf í raun að grundvallast á eigi það yfir höfuð að standast.
Í ljósi þessa, sem hér hefur verið rakið um kerfin og þær hættur sem þau geta falið í sér, þá kom það mér skemmtilega á óvart núna rétt fyrir áramótin að rekast á fréttatilkynningu frá Almannavörnum ríkisins sem hljóðaði á þess leið:
„Mikilvægasti hlekkurinn í almannavarnakerfinu eru íbúar þessa lands. Nú þegar ljóst er að rafmagnslaust verður sumsstaðar á landinu fram eftir degi á morgun benda Almannavarnir ríkisins á að almannavarnarkerfið á Íslandi hefur frá upphafi verið byggt upp á náungakærleik, og kalla því á að vinir og nágrannar aðstoði hverja aðra á meðan óveðrið geisar. Nú þegar margir sitja í myrkrinu og líður hugsanlega ekki vel þá eru góðir nágrannar og vinir verðmætir. Einnig eru margir sem ekki geta fylgst með fréttum eða nálgast upplýsingar. Gott er að kanna hvernig þeir hafa það og sjá hvort stutt símtal eða önnur samskipti geti ekki létt lundina. Á slíkum náungakærleik hefur almannavarnakerfið á Íslandi verið byggt upp.“
Það skemmtilega við þessa fréttatilkynningu frá almannavarnarkerfinu, er að í henni er fullkomlega viðurkennt, að kerfið stendur og fellur með afstöðu fólksins og innræti. Það má því eiginlega segja, að þetta kerfi sé eins ófullkomið og hugsast getur en um leið eins fullkomið og framast má verða, því það treystir ekki alfarið á vélræn viðbrögð en byggir þess í stað á því, sem að kristnum skilningi allt er grundvallað á, en það er kærleikurinn, því eins og segir í einu Jóhannesarbréfanna þá er Guð kærleikur. Hjá Almannavörnum er því um að ræða kerfi sem byggir að miklu leyti á frelsi og frumkvæði fólksins, og þannig má kannski segja að það bjóði líf og líknarráð og ljómi heitt af Drottins náð því það felur í sér svigrúm manninum til handa, að láta gott af sér leiða.
Í þessu sambandi má svo líka hugleiða hlutverk kirkjunnar og trúarinnar, því þegar trúin lítur svo á, að hugmyndafræði hennar sé fullkomin og kerfið í kringum hana líka, þá er betra að hafa varann á, því þá er hætt við að þrengt verði að mennskunni og að allt sem heiti friður, frelsi og kærleikur eigi á hættu að verða kerfinu því að bráð. Því þarf kirkjan ávallt að gæta sín á því að verða ekki of einstrengingsleg í boðun sinni og framsetningu, en virða ávallt það frelsi og það svigrúm sem sérhver manneskja þarf að búa við, til að þrá hennar eftir hinu góða, fagra og fullkomna fái blómstrað og verða að veruleika.
Ég vitnaði hér áðan í fyrsta ljóðið í Ljóðasafni Sigfúsar Daðasonar, þar sem segir í upphafsversinu: Mannshöfuð er nokkuð þungt en samt skulum við standa uppréttir og sumarið bætir fyrir flestar syndir okkar.
Og það er einmitt það sem við skulum gera á nýja árinu; standa upprétt.
Og það gerum við best með því að láta ekki misgáfuleg hugmynda- og hugsjónakerfi, ellegar þá tísku og tíðaranda, heltaka okkur eða sliga mannshöfuð okkar þannig að við hættum að rísa undir okkur sjálfum heldur gerum við það með því að láta hina sönnu þrá hjartans, eftir hinu góða, fagra og fullkomna, ráð för okkar.
Verum minnug þess, sem fram kemur í guðspjalli dagsins, að Kristur þekkir hvað í hjarta okkar býr og veit því hvers við erum megnug - og tilfellið er, að oftast megnum við miklu meira en við gerum okkur grein fyrir. Verum því óhrædd við að láta kærleiksboðskap Krists, mildi hans og miskunnsemi móta okkur á nýárinu sem hafið er, þannig að það verði okkur bæði sem líf og líknarráð og ljómi heitt af Drottins náð. Guð gefi okkur öllum gleðilegt nýár. Amen!