Verndandi salt og lífgandi ljós

Verndandi salt og lífgandi ljós

Kristin viðmið verða hvorki sótt né varin með illvirkjum og morðum. Sé þeim beitt er helstefnu fylgt skyldri þeirri sem tendraði ófriðarbál í álfunni og um víða veröld fyrir miðja síðustu öld.

Lexía: Jes 42. 5-7 Pistill: Gal 3. 26-29 Guðspjall: Matt 5.13-16

Vel fer á því að ganga helgigöngu á Þingvöllum á Drottinsdegi að sumri með keltneskan sólkross og koma honum fyrir í grónum jarðvegi hér við Skógarkot, til þess að marka stað til útimessu í Jesú nafni. Hringur krossins er sólar- og sköpunartákn, en krossinn, er skiptir honum í fernt, vísar á frelsarann og hjálpræði hans, sem frá öllum áttum ummyndar og endurleysir heiminn undan eyðingaröflum syndar, illsku og dauða. Hlutverk okkar, sem viljum halda fram sjónarmiðum Jesú Krists, er að miðla lífsstraumi hans, anda og hjálpræði, salti þess og ljósi inn í hverja samtíð og líðandi stund.    Fjölmargir eru á ferð um landið nú sem jafnan um  verslunarmannahelgi, líka hér á Þingvöllum. Útihátíðir seiða til sín ungmenni, sem streyma þangað til að fagna lífinu, hlýða á og taka undir dillandi tónlist, þá nýjustu og einnig sígilda slagara og brekkusöng, dansa og dufla. Mikil umferð er varasöm, ef ógætilega er farið og hættur geta legið í leyni á hátíðunum sjálfum.

Æfingabúðir íþróttafélaga og útihátíðir stjórnmálaflokka, þar sem fylgt er skipulagðri dagskrá og unnið að því að efla samstöðu til gagnlegra verka, hafa fram til þessa haft á sér annan ,,stimpil” en gleðihátíðir, þar sem óvissa ríkir um hvernig til tekst. Hörmungartíðindi af voðaverkum í Noregi hafa óvænt og skyndilega breytt þessari mynd. Við lesum um og sjáum sorgarviðbrögð í sjónvarpi, blómahaf og grátandi fólk. Við finnum fyrir samúðarbylgjunni og tökum undir með Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sem ítrekar þýðingu þess að varðveita lífsgildin, er vegið var að með illvirkinu, um opið og frjálslynt samfélag, þar sem félagslegt réttlæti og jafnrétti eru keppikefli og fjölbreytt og litskrúðugt mannlíf.

Voðaverkin beindust að uppvaxandi kynslóð, verðandi kyndilberum þeirra hugsjóna, sem lýst hafa upp og mótað Noreg og norðurlandaþjóðir og hnýtt þær vináttu- og virðingarböndum. Viðlíka gimmdarverk hafa ekki verið framin á Norðurlöndum frá því í heimsstyrjöldinni síðari, sem hafa verið vígi mannvirðingar og mannhelgi. Með því hafa þau borið vitni um kristna lífsmótun og stefnumið. 

Kristin viðmið verða hvorki sótt né varin með illvirkjum og morðum. Sé þeim beitt er helstefnu fylgt skyldri þeirri sem tendraði ófriðarbál í álfunni og um víða veröld fyrir miðja síðustu öld.  Á merkri ráðstefnu, sem stofnun til minningar um dr. Sigurbjörn Einarsson biskup stóð að á nýlegri Skálholtshátíð í tilefni af aldarártíð hans, var fjallað um helstefnur í fortíð og nútíð. Minnt var á, að Sigurbjörn sýndi fram á það í  bók sinni ,,Kirkja Krists í ríki Hitlers”, sem út kom í byrjun ófriðarins, hve yfirráð Nasista  þjörmuðu að kristinni kirkju og umsnéru fagnaðarerindinu, svo að það þjónaði ofstæki þeirra og ógnum, kynþáttafordómum og gyðingaofsóknum. 

Á málþinginu kom einnig fram, að íslamskir öfgahópar í samtíð, sem stæðu að hermdarverkum, fylgdu alls ekki forskriftum Kóransins, enda þótt létu svo í veðri vaka, heldur öfgafullum rangtúlkunum ákveðinna áhrifaríkra boðenda Íslams. Mikilvægt væri að glæða skilning múslima á þeim sannleika og draga það fram í trúararfi þeirra, sem mælti fyrir um mannhelgi og lífsvirðingu. Það gæti jafnframt leitt til bættra samskipta við vesturlandabúa, sem teldust málsvarar kristni og lýðræðis, ef þeir könnuðust við að sýna oft íbúum annarra heimshluta oflæti og yfirgang.  

Auðvelt er að kenna aðstreymi utanaðkomandi fólks og fjölhyggju um siðferðilega upplausn í vestrænum samfélögum. En sökudólgurinn mun þó fremur vera sú taumlausa neyslu- og sérhyggja, er ráðið hefur för og fylgjandi kaldlyndi og ábyrgðarleysi um sameiginlega velferð og hag. Væri markvisst hlúð að velferð allra í vestrænum samfélögum og eins á heimsvísu, myndi margt breytast á betri veg. Það er sem samúðarbylgjan, sem berst nú um Noreg og þaðan til annarra landa, vitni um það. Hún andmælir illskunni og hvetur til góðra verka.

Sársauka og nístandi harmi foreldra, systkina, vandamanna og vina ungmennanna látnu, verður þó ekki lýst.  Fréttir af hryðjuverkum og mannfalli í Pakistan, Írak og Afganistan lýsa líka harmi og sárum. Og hungursneyðin og hörmungarnar í Sómalíu eru yfirþyrmandi og kalla á virka samkennd og viðbrögð til bjargar.  Ófremdarástandið vekur þá áleitnu spurn, hvort neyðarhjálpin dugi og ekki sé mun róttækara viðbragða þörf við vanda fátækra þjóða í Afríku.

Því er ekki að leyna, að innrás og arðrán erlendra stórfyrirtækja og miskunnarlausrar auðhyggju hafa sogað til sín verðmætin úr ríkulegum auðlindum álfunnar, sem hafa því ekki nýst innfæddum til framþróunar. Grunsemdir vakna um það, að beinlínis sé alið á glundroða og ósamlyndi innfæddra til að viðhalda óbreyttu ástandi og yfirráðum. Slíka helstefnu verður að afhjúpa og vinna gegn henni, líka í nafni kristinnar trúar, og knýja á um ábyrg samskipti og lífvænlega viðskiptahætti. Væri af knýjandi þörf gætt að velferð mannkyns, óháð ytri ásynd og einkennum, fengi vitundin um skaparann glæðst, sem vísað er til í lexíu dagsins ,,og andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim, sem á jörðunni ganga.”

Útvalinn þjóð, sem þegið hafði sáttmálann um lífsreglur hans í logum og reykjarmekki á Síníafjalli, var kölluð til að vera lýðum ljós og opna augu blindra, leysa helsi og fjötra, frelsa úr myrkri og vera þannig sáttmáli og vitnisburður um veru og virkni lifanda Guðs. Útvalning hans var ekki og er aldrei til forréttinda og sjálfsupphafningar. Hún er ávallt til virkrar lífsþjónustu, gagns og gleði, sem aðrir njóti. Við getum litið svo á, að kristin kirkja sem trúarsamfélag okkar, er trúum á Guð í Jesú nafni, hafi tekið við útvalningunni með sömu hvatningu og kvöðum, en líka byr og blessun andans helga, er eflir trúarkjark og virka og fórnandi elsku.

Máttug orð postulans í Gallatabréfinu, sem eru pistill dagsins, gefa stefnuna um myndun samfélags á grunni svo róttæks og umbreytandi mannskilnings, að enn vantar mikið á, að hann sé orðinn að sýnilegum veruleika. Vegna lífstengslanna við Jesú Krist, sem skírnin gefur, höfum við íklæðst honum. Ef trúin í hans nafni er gerð að sívirkum veruleika sem verndandi salt og lífgandi ljós, kemur einingarbandið í Kristi fram og birtist, svo að það fær betur og fremur auðkennt samskipti og sett gleggra mark á þau en nokkur aðgreining milli einstaklinga, kynþátta og þjóða, kyns og stöðu. Einingin í Kristi dregur það fram sem mestu varðar, að við erum öll Guðs börn fyrir hann. Ennþá er þessi stórkostlegi sannleikur og ögrandi og umbreytandi veruleiki ekki virkjaður og nýttur sem skyldi og setur því minna mark á heim og sögu en verið gæti.

Til þeirra, sem hlýða á og taka við boðskap hans nú sem fyrr, mælir Jesús þessum mögnuðu orðum í Fjallræðu sinni ,,Þér eruð salt jarðar...Þér eruð ljós heimsins.” Það er lítill hópur í fyrstu, en hann vex af fórnandi elsku hans, upprisuundri og úthellingu andans af hæðum.  Sú hjörð hefur víðtæk áhrif á sögu og samtíð þrátt fyrir andstöðu og andvararleysi, sem er öðru verra.  Við erum kölluð til þess stórfenglega hlutverks að vera salt af verndarmætti Jesú Krists og ljós af lífgandi ljósi hans, sem lýsir upp tilvist alla í alheimi.

Saltið er ekki sykursætt og hylur ekki misbresti og skemmdir á lífinu heldur dregur þær fram til að stöðva þær og hindra. Oft svíður sárlega undan saltinu, er það berst í meinsemdir og sár. En þannig ver það gegn eyðileggingu og spillingu. Einurð, festu og kjark þarf til að vera salt og selta, afhjúpa órétt, rangindi og falsanir, sviksemi og siðleysi, ófriðarhvata og ofbeldi í einka- og fjölskyldulífi, á opinberum vettvangi, í kirkju og stjórnsýslu, í viðskiptum innanlands og þjóða á milli. Ekki dugar að geyma saltið í saltgeymslum, loka það inni í kirkjum og trúarsamkomum, í þröngum samfélögum og sérhópum, sem eigna sér það til sáluhjálpar en hika svo og skirrast við að leggja út með saltið og lífsljósið á vettvang iðandi og ögrandi mannlífs, gleði þess og þrauta. 

Ljós himinsólar lýsir upp jörð og heim og þjónar æðra ljósi logandi kærleika Guðs. Jesús er í fyllsta skilningi ljós heimsins, því að hann er birting Guðs sjálfs, Orð Guðs, logos og ljós, skynsemi og elska.  Allt, sem lýsir og lífgar og hefur áhrif til heilla, tengist veru hans og virkni, hvar sem það er að finna, líka í öðrum trúarbrögðum en kristni. Hjálpræðissögu Jesú þarf þó hvarvetna að segja, því að hún fullnar myndina af föðurnum himneska og þjónar markmiðum hans að fullkomna sköpun sína.

Trúarhugsun Kelta á fyrri tíð bar þá vitund með sér. Þeir litu svo á, að trúin á Guð í Jesú nafni ryddi ekki í burtu því góða, sem fyrir var í trú og menningu þeirra, heldur umbreytti og fullkomnaði það. Þeir vissu að guðleg áhrif væru að verki í lífríki öllu og játuðu það svo í kristni sinni, að þau birtust í fyllingu í þríeiningarmynd Guðdómsins, er opinberaðist sem Guð; faðir, sonur og andi helgur.

Í trúfræðslu, sem kennd er við heilagan Ninian, er stofnaði klaustrið ,,Candida Casa”, ,,Gljáandi húsið”, í Galloway í Skotlandi á 5. öld, er þennan markverða spurningalista og svör að finna: ,,Hvað er best hér í heimi.? Svar: Að gera vilja skaparans. Hver er vilji hans?  Svar: Að lifa eftir lögmálum sköpunar hans. Hvernig má þekkja þau?  Með rannsókn ritninganna og trúrækni.  Hvaða tæki veitir skaparinn til þess? Skynsemina, sem getur rýnt í allt. Og hvað hlýst svo af þessari ástundun? Svar: Að fá greint eilíft Orð Guðs, sem birtist í plöntum og skordýrum, fuglum og dýrum og öllum körlum og konum.”

Enn er dýrmætt að læra þessa lexíu og fá skynjað samhengi allrar sköpunar í lífsins Orði Guðs. Það reynum við hér á helgum Þingvöllum, þar sem saga og samtíð tengjast með einstæðum hætti  í vitundarlífi okkar Íslendinga. Við nemum hér tengslin við náttúru og lífríki, og við Guð, Orð hans og Anda, er bera sér vitni í angan gróandans og fegurð umhverfisins og í hjartslætti hverjum.

Í trúnni á Guð í Jesú nafni, fáum við héðan horft til umferðar og útihátíða Verslunarmannahelgar og beðið þess, að allt megi þar fara vel fram og illska og eyðileggingaröfl haldast fjarri. Við getum líka hugsað til syrgjandi frændþjóðar og beðið um græðandi líkn og miskunn í sorgarferlinu. Við ættum einnig að horfa lengra og til allra átta yfir heiminn, svo sem keltneski krossinn fagri minnir á, líta í bæn til líðandi fólks í Sómalíu og víðar og biðja þess af hjarta, að salt Guðs og ljós berist þangað inn í neyð og raunir og stuðli að farsælum samfélagsbreytingum.

Við megum ekki gleyma því að biðja fyrir okkur sjálfum, fjölskyldum okkar og ástvinum, þjóð okkar og kirkju. Það gerum við til þess að salt trúarinnar og ljós heimsins sýni sig þar og sanni, og við sjálf berum þess vott að vera í skapandi kjarki og kærleika, lífsins salt og ljós heimsins, bundinn Guði í Jesú nafni, einingarbandi hans, kirkju og komanda ríki.  Guð gefi að við reynum það í hjartans þökk, fögnuði og friði.

Flutt í útimessu í Skógarkoti á Þingvöllum 6. s.d.e.tr. 31. júlí 2011