Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: Fylg þú mér! Og hann stóð upp og fylgdi honum. Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum. Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara. Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki? Jesús svaraði þeim: Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi. Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi. Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi? Hann svaraði þeim: Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum. Og hann sagði við þá: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.
Þrjú orð mynda yfirskrift guðspjalls dagsins. „Fylg þú mér.“ Jesús sagði þessi fleygu orð er hann gekk fram hjá tollbúðinni, sem á nútímamáli myndi kallast skattstofan. Og ég vil taka það fram að ég er alls ekki að vísa til skattstofunnar í Reykjavík, þótt ég noti þetta orð. En Jesús beindi þessum orðum sínum til Levís Alfeussonar, starfsmanns skattstofunnar í borginni Kapernaum, sem höndlaði með peninga alla daga. Hann var í góðu og öruggu starfi. Hann hafði afar góðar tekjur, en var í starfi sem almenningur hafði illar bifur á. Hann var því ekki vinsæll af fólkinu, frekar en aðrir sem gegndu slíku starfi.
Þegar fólk fór til að borga skattana sína á þeim tíma, vissi það aldrei fyrirfram hversu há upphæðin yrði sem það þyrfti að borga. Ástæðan var sú að skattheimtumennirnir hugsuðu mest um eigin hag og stungu undan háum fjárhæðum. Þeir voru nær undantekningarlaust bæði óheiðarlegir og ófyrirleitnir og féflettu því fólkð án þess að blikna.
Leví Alfeusson var semsagt einn af þessum kónum. Og Jesús segir við þennan mann: „Fylg þú mér“ Einhver myndi nú segja í þessu sambandi: „Ekki var nú Jesús vandur að virðingu sinni,“ að bjóða svona manni í lærisveinahópinn. Í huga fólksins var hann síðasta sort og var ekkert skárri en mestu úrhrök samfélagsins.
„Komdu og vertu lærisveinn minn.“ Og Leví Alfeusson stóð upp, yfirgaf skattstofuna og fylgdi Jesú – varð einn af lærisveinunum tólf. Hann hefur annað nafn og þekktara í Nýja testamentinu – Matteus, sem samnefnt guðspjall er kennt við.
Leví Alfeusson hefur örugglega vitað hver Jesús var. Hann hefur sjálfsagt hlustað á hann prédika við vatnið. En það hafði Jesús oft gert enda hafði honum verið úthýst úr samkunduhúsi gyðinga. Helgidómurinn hans var því úti undir berum himni og einhver hæðin eða fiskibáturinn var prédikunarstóllinn hans. Fólkið var margt sem hlustaði á hann á þeim slóðum, og það hefur örugglega fengið sér sæti í brekkunum við Galíleuvatnið. Og eins og fyrr sagði hefur Leví Alfeusson verið meðal þess, einhvers staðar í útjaðri hópsins. Og orð Jesú voru sterk og kröftug. Hann talaði ávallt beint inn í aðstæður hvers og eins og enginn varð ósnortinn. Og vegna orða meistarans var Leví Alfeusson reiðubúinn að gefa allt sitt – gott starf sem gaf vel í aðra hönd og stöðu í samfélaginu. Að lokinni þessari ákvörðun gat hann ekki snúið til baka. Aftur á móti gátu hinir lærisveinarnir, eins og Pétur og Andrés snúið sér að fiskveiðum. Þeir gátu aftur orðið fiskimenn hvenær sem var. Þetta var mikil og stór ákvörðun fyrir Leví Alfeusson. En hann fékk líka mikið í staðinn. Upp frá þeirri stundu gat hann litið framan í heiminn og sagt: „Ég hef snúið frá villu míns vegar – nú eru hendur mínar hreinar og ég hef eignast sálarró.” Þessu fylgdi annars konar lífsmáti – erfiðari og án allra þæginda. En hann eignaðist líka eitthvað meira og stærra en hann hafði áður átt og hlutverk hans varð þýðingarmikið í sögu kristninnar.
Að kvöldi þessa sama dags bauð Leví Alfeusson vinnufélögum sínum á skattstofunni og mörgu vafasömu fólki til kvöldverðar, svo það gæti hitt Jesú og lærisveinana. Þegar fræðimennirnir og farísearnir sáu hann matast með þessu fólki, sögðu þeir við lærisveinana: „Hvernig í ósköpunum getur hann fengið af sér að borða með þvílíkum ruslaralýð?“ Þegar Jesús heyrði þetta sagði hann þessa frægu setningu: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru.“
Og þetta er kjarni máls. Jesús fór aldrei í manngreinarálit. Hann gerði sér aldrei neinn mannamun. Snobb, hégómi og einhver sérstök virðing fyrir einhverjum eða einhverju sem heimurinn taldi virðingarvert var ekki til í hugsun hans og lífsafstöðu. Svona lagað skipti hann engu máli. Það var hin trúarlega afstaða hvers og eins sem hafði allt að segja. Þeir gátu verið jafnt háir sem lágir sem voru sjúkir eða heilbrigðir. Hann var ekki kominn til þess að kalla réttláta, heldur syndara – þá sem sjúkir voru. Og Leví Alfeusson var einn þeirra. Hann sneri frá villu síns vegar. Sama hafa fjölmargir aðrir gert. Sagan geymir frásagnir af slíku fólki. Páll postuli er gott dæmi um það. Umsnúningur hans var mikill – hann sem áður ofsótti kristna menn og úthellti blóði Stefáns píslavotts – frelsaðist og varð einn mesti boðberi kristinnar trúar. Sama má segja um Konstantínus mikla, keisara Rómarveldis,sem ofsótti kristna menn en komst til trúar og umbreyttist og veitti kristnum mönnum frelsi til trúariðkana. Svona mætti nefna mörg dæmi úr sögunni.
Viðsnúningur í lífinu getur verið margs konar. Hjá einum getur það verið algjör umbreyting í lífsstíl – að breyta úr óhollu mataræði yfir í hollt – þegar viðkomndi losar sig við aukakílóin og kemst í kjörþyngd með hreyfingu og svokölluðu fráhaldi. Hann eða hún heldur sig frá sælgæti, gosdyrkkjum – kökum og eftirréttum – dregur úr neyslu á sykri, fitu og salti. Hjá öðrum getur það verið að hætta að drekka eða reykja. Fólk upplifir nýtt frelsi í lífinu – frelsi frá fíkninni, hver svo sem hún nú er, enda getur hún verið margs konar. Þetta er gott að hafa í huga í dag, sem er alþjóðlegi hjartadagurinn. Þessir þættir er ég nefndi hér að framan hafa allir mikið að seigja um hjartaheilsu okkar. Við höfum bara eitt hjarta og við þurfum að hugsa vel um það og reyna að sjá til þess að því líði sem best, þessi stórkostlegi vöfði sem puðar fyrir okkur daga og nætur. Þetta er í samræmi við boðskap Biblíunnar er kennir að líkami okkar sé gjöf frá Guði, sem okkur beri að fara vel með vegna þess að hann er „musteri heilags anda,“ sbr. Orð Páls postula:
„Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Guði. Og ekki eruð þér yðar eigin. Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.“
Viðsnúningur í andlegum efnum er algengur allt í kringum okkur. Ef við lítum okkur nær, getum við sagt sögur af fólki hér á landi sem hafa upplifað trúarlegan viðsnúning í lífi sínu. Allt það fólk hefur orðið við kalli Krists er hann segir: „Fylg þú mér.“
Nýlega frétti ég af stórum hópi fólks hér í borginni sem snúist hefur til lifandi trúar á Jesú Krist. Margir í þessum hópi eiga það sameiginlegt að hafa verið tengdur afbrotum, fíkniefnaneyslu og vændi. Þetta fólk hittist reglulega til þess að lofa Guð og láta uppbyggjast í orði hans. Það er stórkostlegt þegar fólk tekur á móti Jesú Kristi inn í sitt líf og leyfir honum að vinna góða verkið, eða eins og segir í Rómverjabréfinu:
Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þem sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs.
Þessi hópur er að upplifa stóra hluti í trúnni á Jesú og mikil undur eru að gerast. En þannig vinnur Guð.
Það eina sem við þurfum að gera er að leyfa Kristi að vinna sitt verk – leyfa honum að blessa okkur í eftirfylgdinni. Hann mun gera það ríkulega, ef við viljum leyfa honum það. Öllu máli skiptir að við séum einlæg í afstöðu okkar til hans - og umfram allt eigum gott samfélag við Drottin Jesú og elskum náunga okkar.
Guð gefi að við mættum öll sem eitt eignast okkar daglega afturhvarf í trú okkar og lífsafstöðu. Látum Leví Alfeusson vera fyrirmynd okkar að þessu leyti, enda var hann heill og sannur í eftirfylgd sinni við Jesú Krist, eða eins og segir í þekktum barnasálmi:
Fús ég, Jesús, fylgi þér Fyrst að kall þitt hljómar mér. Ég vil glaður elska þig. Þú átt að leiða mig.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.